Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Um góðu verkin hans Lúthers I: Forsenda góðra verka

Í bæklingnum sínum "Um góðu verkin" sem gefinn var út árið 1520 þá talar Lúther um hvernig má þekkja "góðu verkin" út frá boðorðunum tíu. "Góðu verkin" eru reyndar oft ótengd því sem við köllum góðverk í dag heldur athafnir sem koma að trúrækni, svo sem bænum, föstum, skírlífi og svo framvegis.

Lúther telur að boðorðin tíu séu í röð eftir því hve mikilvæg þau eru, fyrsta boðorðið sem beinlínis varðar trú er því mikilvægast.

"Því að verkin eru ekki þóknanleg sjálfra sín vegna, heldur vegna trúarinnar," (11)
Þetta er aðalatriðið í ritinu, góðu verkin eru innantóm ef trúin fylgir ekki. Reyndar hamrar Lúther svo mikið á þessu atriði að manni finnst nóg um, þetta er endurtekið í sífellu allan fyrsta kaflann og þar að auki kemur þetta margoft fram í seinni köflunum. Þegar Íslendingar eru að eltast við hefðir trúarinnar (góðu verkin) án þess að trúin sé til staðar þá gera þeir það augljóslega í andstöðu við Lúther.

Á orðum Lúthers er alveg ljóst að hinum vantrúuðu er algjörlega ómögulegt að vinna góð verk, jafnvel þau sem snúast ekki beint um trú:


"því öll þessi verk eru dauð án trúarinnar, þótt glæsileg séu og beri hin fegurstu nöfn." (68)


Það er sama hvað hinn vantrúaði gerir, það er einskis virði í augum Guðs. Þetta er "réttlæti" Guðs, eða öllu heldur Lúthers:

"Guð er ekki óvinveittur syndurunum, heldur aðeins hinum vantrúuðu" (37)

Það skiptir ekki máli þó þú sért morðingi, ef þú iðrast þá mun Guð miskunna sig yfir þig, ef þú vogar þér að efast um tilveru Guðs þá ferðu á svarta listann. Ef þú ert vantrúaður þá mun Guð ekki dæma þig eftir því hvort þú varst góður eða vondur, hann mun dæma þig eftir því hve trúaður þú varst á meðan þú gekkst um Jörðina. Það skiptir Guð ekki máli hvort hinir vantrúuðu séu morðingjar eða góðmenni (reyndar geta þeir ekki verið góðmenni vegna þess að þeir trúa ekki).

Lúther er sannfærður um að góðu verkin fylgi trúnni:

"Hefðu allir hana (trúna), þyrftum vér engin lögmál framar, heldur væri hver einn alltaf að gjöra góð verk af sjálfsdáðum" (17)
"En það gjörir hann af frjálsum vilja, því hann er viss um, að Guð hafi velþóknun á því," (18)

Þetta er það sem gerir trúað fólk svo hættulegt, það heldur að það hafi sérstakt samband við Guð og því séu öll þeirra verk réttmæt. Í gegnum tíðina hafa aftur og aftur verið framin andstyggileg illvirki af fólki sem telur að það sé réttlátt af því það hefur umboð frá Guði. Lúther er gott dæmi um svona illmenni, hann hvatti til þess að gyðingar yrðu drepnir og samkunduhús þeirra brennd, hann vissi að þetta var gott verk af því þetta var skilningur hans á Biblíunni.

Það ætti að vera augljóst að siðfræði Lúthers er einskis virði, í hans augum er trú góð og vantrú vond, þetta er einfalt og grimmilegt. Ef Guð Lúthers er til þá er hann siðlaus á okkar mælikvarða, hann metur ekki mannanna verk heldur dæmir þá eftir því hve mikil trú þeirra er. Mikið erum við heppin að þessi Guð hans Lúthers er jafn ímyndaður og allir aðrir guðir.

Um góðu verkin var þýdd af Magnúsi Runólfssyni og gefin út árið 1974 af Kristilega Stúdentafélaginu.

Óli Gneisti Sóleyjarson 08.03.2004
Flokkað undir: ( Lúther , Siðferði og trú )

Viðbrögð

Sýnið viðbrögð, en vinsamlegast sleppið öllum ærumeiðingum. Einnig krefjumst við þess að fólk noti gild tölvupóstföng, líka þegar notast er við dulnefni. Ef það sem þið ætlið að segja tengist ekki þessari grein beint þá bendum við á spjallborðið. Þeir sem ekki fylgja þessum reglum eiga á hættu að athugasemdir þeirra verði færðar á spjallborðið.

Hægt er að nota HTML kóða í ummælum. Tög sem virka eru: a href, b, i, u, br, p, strong, em, ul, li og blockquote. Einnig er hægt að notast við Markdown rithátt í athugasemdum. Notið skoða takkann til að fara yfir athugasemdina áður en þið sendið hana inn.










Muna þig?