Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Upphafning sinnuleysis

Eitt af því sem fylgir því að vera ákafur efahyggjumaður er hneykslun annarra. "Hvernig nennir þú þessu?" "Hvaða máli skiptir þetta?" "Ég er líka trúlaus, en mér er sama hverju aðrir trúa" Eitthvað þessu líkt heyrum við reglulega og þurfum ansi oft að útskýra hvað veldur því að við skiptum okkur af trúarbrögðum og öðrum hindurvitnum.

Reyndar held ég að flest eigum við erfitt með að setja okkur í spor annarra þegar kemur að því sem skiptir fólk máli. Okkur finnst skrítið að einhver hafi áhuga á því sem okkur finnst engu skipta. Þeir sem hafa ekki nokkurn áhuga á fótbolta skilja ekki ákafa stuðningsmenn Liverpool, þeir sem ekki spá mikið í tölvum skilja ekki Linux nördana og þeir sem ekki forrita skilja ekki Perl forritara (reyndar skilja margir forritarar þá ekki heldur en það er önnur saga). Ég efast samt um að Linux aðdáendur lendi oft í því að upp að þeim gangi fólk og segi, "ég hef svosem áhuga á tölvum, en hvernig dettur þér í hug að skipta þér af því hvaða stýrikerfi annað fólk notar? Þetta eru ekkert nema trúarbrögð hjá þér" Samt er þetta, þegar öllu er á botninn hvolft, ekki ósvipað því sem við efahyggjumennirnir fáum reglulega að heyra.

Sinnuleysi, það að hafa engan áhuga og skipta sér ekki af trúmálum, virðist vera normið á Íslandi í dag. Flestir trúa litlu en hafa þó sína barnatrú, trúa einnig á miðla og annað álíka kjánalegt. Íslendingar trúa þó, sem betur fer, ekki á álfa og huldufólk þó lygasögur um annað séu stundum sagðar útlendingum.

En það er þetta með sinnuleysið? Ég hef tekið eftir því að ákveðinn hópur lætur okkur vantrúarpenna fara í taugarnar á sér og skilur ekkert í þessu umstangi okkar. Þetta fólk er jafnvel trúlaust að eigin mati, en hefur þann kost fram yfir okkur að því er alveg sama. Í nafni umburðarlyndis passar það sig á því að hafa enga sérstaka skoðun á hindurvitnum, stuða ekki trúmenn og leyfa öllum að eiga sínar trúarskoðanir í friði. Þetta sama fólk hikar svo oft ekki við að gagnrýna annars konar skoðanir harkalega, ýmsir sem halda fram pólitískum skoðunum sem þessu fólki er ekki að skapi mega eiga vona á persónulegum árásum og skítkasti sem gengur jafnvel lengra en það sem hægt er að finna á vantrú þó vel sé leitað. Það nefnilega tjá sig um flest annað en trúmál án þess að það sé talið sérstaklega dónalegt og jafnvel ómálefnalegt ipso facto.

Það er furðulegt en við vantrúarseggir eigum okkur ansi ólíklegan bandamann í þessu máli. Séra Sigurður Pálsson sagði innan um trúarbull og kjaftæði í nýárspredikun nokkuð sem vert er að taka undir.

Umburðarlyndishugtakinu er gjarnan misbeitt og það látið tákna einhvers konar „mér er alveg sama afstöðu,“ eða „ég ætla ekkert að vera að halda minni sannfæringu á lofti.“ það er ekki umburðarlyndi heldur afstöðuleysi. Um leið og umburðarlyndið gerir þá kröfu til mín að ég virði rétt annarra til sannfæringar og til að fylgja henni eftir, veitir það einnig mér rétt til þess að hafa sannfæringu og fylgja henni eftir. Að vera umburðarlyndur jafngildir ekki því að vera skoðanalaus eða þegja um sannfæringu sína. Sömuleiðis er vert að minna á að umburðarlyndinu eru takmörk sett. Eitt skýrasta dæmið um slíkar takmarkanir er mannréttayfirlýsing Sameinuðu þjóðanna. Brot á þeim rétti sem hún á að tryggja verða ekki umborin, heldur flokkast þau undir glæpi.

Við á vantrú tökum afstöðu, við teljum hindurvitni, hver sem þau eru, kristni eða annað kukl, vera neikvætt afl sem vinnur gegn framförum og bættu samfélagi. Við erum þeirrar skoðunar að gríðarlegri orku og endalausu fé sé eytt í að boða kjánalegar og jafnvel hættulegar skoðanir. Barátta okkar er ekki nema dropi hafið við hlið þess endalausa áróðurs sem flæðir yfir landann. Fjölmiðlar flytja endalausar gagnrýnislausar fréttir af bulli án þess að nokkur efi komi fram, skottulæknar vaða frammi í fjölmiðlum, miðlar komast upp með að saka saklausa menn um morð og lýsa því yfir að sekir menn séu saklausir, þjóðkirkjan treður boðskap sínum hvert sem hún kemst, prestum sínum í öll skúmaskot í þjóðfélaginu og sendir erindreka út um heim til að boða barnaskapinn, slökkva á gagnrýninni hugsun. Þetta gengur jafnvel svo langt að Þjóðkirkjuprestar fara reglulega í leikskóla til að troða þvælunni ofan í gríslingana meðan þau eru móttækileg. Í námsefni grunnskóla í Kristinfræði er mikið gert úr trú á kostnað náttúruvísinda1. Talað er um sögur Biblíunnar eins og um sögulegar staðreyndir2 sé að ræða og iðulega gefið í skyn að trú sé eina forsenda góðs siðferðis3.

Og flestum stendur á sama, sinnuleysið er algjört.

Við á Vantrú höfum rökstudda sannfæringu og við fylgjum henni eftir. Það er hið besta mál að fólk sé ekki sammála þessari sannfæringu, öllum er velkomið að setja inn athugasemdir og tjá skoðanir sínar. En í Gvuðanna bænum, ekki verja sinnuleysið. Það er löstur að láta sér standa á sama - það sjá allir ef þeir líta í eigin barm og velta fyrir sér hvort það sé ekki eitthvað sem þeim finnst mikilvægt en öðrum ekki.

1) sjá t.d. Kristin fræði, ljós heimsins eftir Iðunni Steinsdóttur og Sigurð Pálsson, bls. 9
2)T.d. sama bók, bls. 20 "Eins og þið kannist við gaf Guð Ísraelsþjóðinni forðum tíð lífsreglur sem nefndust boðorðin tíu." og ótal fleiri dæmi
3)Sama bók, út um allt.

Matthías Ásgeirsson 02.02.2004
Flokkað undir: ( Klassík , Siðferði og trú )

Viðbrögð


Daníel - 01/02/04 23:37 #

Af einhverjum ástæðum tek ég þessa grein nærri mér þó svo ég sé algerlega sammála henni! Kannski af því að ég er með netfang sem endar á visir.is (sjá annars staðar á þessum vef). Ég lét líka einhvern tíman frá mér fara þá athugasemd að ég skildi ekki alveg af hverju þið væruð alltaf svona reiðir. Reyndar skil ég það aðeins betur núna því sjálfur verð ég ákaflega reiður (svona inni í mér) þegar ég hugsa um Kristinfræðikennslu í grunnskólum og kirkjuheimsóknir bæði í grunn- og leikskólum. Það er þetta trúboð sem mér finnst svo siðlaust. Ég bloggaði líka um daginn að mér finnst bankamenn vera jafnvel verri þjóðfélagsplága en dópsalar. Það á líka við um presta og þar með er ég líklega búinn að vera ákaflega ókurteis og dónalegur. Gangi ykkur annars vel!


Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 01/02/04 23:54 #

Engar áhyggjur Daníel, okkur finnst þú afar indæll.


Matti Á. (meðlimur í Vantrú) - 02/02/04 00:04 #

Tek undir orð Óla, ég hafði þig (Daníel) ekki í huga þegar ég skrifaði þessa grein ;-)

Ég las pistilinn þinn um bankana um daginn og fannst hann góður. Ef þig langar að skrifa grein í sama tón um Þjóðkirkjuna og presta hennar, hafðu þá endilega samband og birtu hana hér á Vantrú :-)


Skúli - 02/02/04 09:40 #

"Það er löstur að láta sér standa á sama - það sjá allir ef þeir líta í eigin barm og velta fyrir sér hvort það sé ekki eitthvað sem þeim finnst mikilvægt en öðrum ekki."

Jájá, þetta er svosem alveg gott og blessað. Trúin skiptir okkur máli og meðan svo er höldum við áfram að rökræða hana. Hún er líka dásamlega frjótt umræðuefni sem hefur á sér fjölmargar hliðar enda samofin tilveru fólks.

En að líkja prestum við dópsala... endemis rugl.


Matti Á. (meðlimur í Vantrú) - 02/02/04 10:43 #

Jájá, þetta er svosem alveg gott og blessað

Djöfulsins kjaftæði, þetta er snilld ;-) Þessu er að sjálfsögðu ekki beint til þín enda hef ég aldrei orðið var við gagnrýni úr þessari átt frá þér - eða hvað, fór hún framhjá mér?

En að líkja prestum við dópsala... endemis rugl.

Skúli minn, þú verður að lesa þetta í ljósi krists :-P


Skúli - 02/02/04 11:41 #

"Djöfulsins kjaftæði, þetta er snilld ;-) "

Óþarfa hógværð er þetta...

"ég aldrei orðið var við gagnrýni úr þessari átt frá þér - eða hvað, fór hún framhjá mér?"

Hvers vegna í ósköpunum ætti ég nú að gagnrýna umræðu um trúmál..? :O (geisp)

"Skúli minn, þú verður að lesa þetta í ljósi krists :-P"

Skal lesa þetta sem hvert annað vantrúarrugl og þ.m. pirra ég mig ekki meira á því að sinni.


Matti Á. (meðlimur í Vantrú) - 02/02/04 11:45 #

Skal lesa þetta sem hvert annað vantrúarrugl

Hmmm, það er að mínu mati frekar ósanngjarnt að gera ekki greinarmun á vantrúarpennum og þeim sem setja inn athugasemdir. Þú getur í besta falli sakað mig (okkur) um að hafa leyft athugasemdinni að standa, en á móti kemur að ég var búinn að lesa bankagreinina hans Daníels og las athugasemdina í því ljósi.


Skúli - 02/02/04 11:57 #

"Þú getur í besta falli sakað mig (okkur) um að hafa leyft athugasemdinni að standa, en á móti kemur að ég var búinn að lesa bankagreinina hans Daníels og las athugasemdina í því ljósi."

Ég ætti nú ekki annað eftir en að fara að fetta fingur út í orðalag hér á þessum bæ ;) en tímabundinn pirringur stafaði af þessu svari þínu til Daníels:

"Ef þig langar að skrifa grein í sama tón um Þjóðkirkjuna og presta hennar, hafðu þá endilega samband og birtu hana hér á Vantrú :-)"

Jæja, ég vil ekki koma þessum samræðum okkar út í eitthvert skítkast - a.m.k. ekki fyrir mína parta. Maður hittir ekki víða fyrir svona blússandi áhugamenn um trúmál eins og ykkur.

En herra minn góður: prestar og dópsalar - viðbjóðsleg samlíking.


Daníel - 02/02/04 13:27 #

Hér hefur mikið verið rætt um ummæli mín svo það er líklega best að ég skýri þau út. Prestar (líkt og dópsalar) sinna því hlutverki í samfélaginu að uppfylla ákveðna þörf. Ólíkt læknum, bændum, sjómönnum o.s.frv. þurfa prestar hins vegar að búa til þessa þörf sjálfir,t.d. með skólaheimsóknum, kristinfræðikennslu (sem er til komin vegna áhrifa kirkjunnar) o.s.frv. Líkt og hjá dópsölunum er líka fyrsta skotið ókeypis svona til að húkka neytandann. Þegar fram líða stundir og fólk þarf að fermast, giftast, láta skýra, jarða ættingja. Þá þarf að borga fyrir. Líka eins og hjá dópsölunum er varningurinn (Guð) notaður til að bjóða lausn á öllum vandamálum. Þetta er nú grundvöllur samlíkingarinnar. Munurinn er svo líklega sá að prestarnir gera þetta í góðri trú en dópsalinn að öllum líkindum ekki. Þá er bara hægt að vitna í skynsaman mann sem sagði eitt sinn: "Fyrirgefið þeim því þeir vita eigi hvað þeir gjöra."


Jón Óskar - 02/02/04 13:56 #

Prestar eru ekki eins og dópsalar og kenningar biblíunar eru ekki ekert ósanaðari en þróunar kenningn og margt annað kent í skólum í dag


Skúli - 02/02/04 14:25 #

"Munurinn er svo líklega sá að prestarnir gera þetta í góðri trú en dópsalinn að öllum líkindum ekki."

Já, er hann ekki annar?

Þú ert sumsé á því að allt það fólk sem leitar prestsþjónustu (er "húkkað" eftir að hafa fengið "fyrsta skotið ókeypis") sé í sömu sporum, líkamlega, félagslega og andlega, og eiturfíklar!

Ef svo er ekki, þá held ég að þú ættir að hugsa þetta aðeins betur.


Matti Á. (meðlimur í Vantrú) - 02/02/04 14:31 #

Þessi umræða er farin að nálgast efni greinarinnar Elsta gerviþörfin töluvert en tengist pistlinum hér að ofan lítið.


Matti Á. (meðlimur í Vantrú) - 02/02/04 14:39 #

Fyrirgefðu Jón Óskar, ég er ekki vanur að gera þetta en ég hef sjaldan séð annað eins!

Prestar eru ekki eins og dópsalar og kenningar biblíunarBiblíunnar eru hafa ekki ekert ekkert ósanaðari síður verið sannaðar en þróunar kenningn Þróunarkenningin og margt annað sem kent kennt er í skólum í dag

Hvaða kenningar Biblíunnar hefur þú í huga og á hvaða hátt hefur hún verið sönnuð að sama marki og Þróunarkenningin?


Davíð - 02/02/04 17:31 #

Er mjög svo trúaður en er hjartanlega sammál ykkur með sinnuleisið, menn eiga að vera menn orða sinna og taka afstöðu "Ég þekki verkin þín, að þú ert hvorki kaldur né heitur. Betur að þú værir kaldur eða heitur. 16En af því að þú ert hálfvolgur og hvorki heitur né kaldur, mun ég skyrpa þér út af munni mínum." (opinberunnarbókin 3. 15-16) Það er líka gott að vita hvar maður hefur fólk Guð blessi ykkur! kveðja Davíð


Daníel - 02/02/04 17:45 #

Ég tók það skýrt fram í viðbrögðum mínum hverjar ég taldi vera samlíkingarnar með starfi dópsala og presta. Mér finnst óþarfi að ítreka það. Ég sagði aldrei að fólk sem er húkkað á trúarbrögðum "sé í sömu sporum, líkamlega, félagslega og andlega, og eiturfíklar!" og mér finnst leiðinlegt þegar mér eru lögð orð í munn. Hins vegar tel ég að sumir menn geti verið jafn miklir trúarbragðafíklar og aðrir eiturlyfjafíklar, svo það brenglar raunveruleikaskyn þeirra. Svo er annað mál að af tvennu illu er nú annað skárra!


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 02/02/04 18:59 #

Ég hef Skúla grunaðan um rauðsíldarvarp með þessum dópsalaupphrópunum, svo fókus manna fari af innihaldi greinarinnar yfir á gersamlega óskylt mál. Spurning hvort sú rökræðutækni sé kennd í guðfræðinni ;)


Skúli - 03/02/04 06:31 #

"Ég sagði aldrei að fólk sem er húkkað á trúarbrögðum "sé í sömu sporum, líkamlega, félagslega og andlega, og eiturfíklar!" og mér finnst leiðinlegt þegar mér eru lögð orð í munn"

Æ, lagði ég þér orð í munn, Daníel? Það var nú leiðinlegt. Ef þú h.v. vilt forðast slík leiðindi í framtíðinni skaltu gæta betur orða þinna og vanda betur valið á þeim samlíkingum sem þú setur fram.

Helsti munurinn á þessum tveimur starfsgreinum skv. orðum þínum var sá að prestarnir væru "í góðri trú". Þ.m. var nú ekki von á öðru en að lesandinn hafi ályktað sem svo að þú héldir því fram að innihaldið væri það sama.

Fyrir vikið er ekki óeðlilegt að einhver skyldi hafa beðið þig um að hugsa málið nánar - en það var nú einmitt erindi mitt, eins og sjá má ef aths. mín er lesin.


Skúli - 03/02/04 06:40 #

"Ég hef Skúla grunaðan um rauðsíldarvarp með þessum dópsalaupphrópunum, svo fókus manna fari af innihaldi greinarinnar yfir á gersamlega óskylt mál. Spurning hvort sú rökræðutækni sé kennd í guðfræðinni ;)"

Namm, rauðsíld. ;)

Ef álit mitt á síldarmatsmanninum Birgi á ekki að hverfa algerlega út í sortann bið ég hann að svara þessum spurningum:

  1. Hef ég ekki þegar tjáð mig efnislega um pistilinn hans Matta (sbr. ats. mína #1)
  2. Kemur ekki fram í fyrstu aths. mínum um kenningar Daníels að ég hef ekki áhuga á því að pirra mig á þessu til lengdar?
  3. Fylgi ég ekki ráðum Matta og ræði þetta málefni undir þeim lið sem það á við?
  4. Hef ég ekki stundað gagnrýna umræðu um trúmál hingað til?
  5. Er þ.m. nokkur fótur fyrir því að ég sé að forðast að ræða þá skoðun sem fram kemur í greininni hans að trúmál sé efni sem fólk eigi að ræða um á gagnrýninn hátt?
  6. Er þetta ekki jafn lélegt rauðsíldarmat eins og þetta?

Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 03/02/04 17:52 #

Ég var nú bara að skjóta á þig í græskulausu gríni, Skúli minn, og ekki síst að gera grín að sjálfum mér í leiðinni (einmitt í tengslum við síðasta síldarfrumhlaup). Þessum gaur hér --> ;) var ætlað að upplýsa um hvatirnar sem þarna lágu að baki.


skúli - 04/02/04 08:39 #

Æ,æ,æ, komst upp um húmorsleysi mitt (beld að Daníel hafi næstum gengið að kímnigáfunni dauðri).

Fyrirgefðu þetta elsku kallinn ;)


maggabest - 06/02/04 15:05 #

þið eruð nú meiri krúttin...


Matti Á. (meðlimur í Vantrú) - 06/02/04 15:12 #

Krútt - krútt - krútt Hvað áttu eiginlega við? :-)

Annars máttu alveg taka þennan pistil sérstaklega til þín þó hann hafi verið skrifaður á undan þinni grein. Þér tekst að setja fram flest það sem ég er að reyna að gagnrýna.


Oskar - 17/04/04 19:58 #

Týpískt fyrir fólk.... þið (margir sem hafið ritað hér að ofan), eyðið allri ykkar orku í að munnhöggvast um orðalag og útúrsnúning... í stað þess að SKILJA samlíkinguna sem notuð var (dópsalar/prestar), án þess að taka það bókstaflega ;) f*fl

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.