Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Biskup og lygin

Þeir eru aumkunarverðir sem ekki geta agiterað fyrir sannfæringu sinni öðru vísi en að ljúga um staðreyndir. Staðreyndin er þó sú að ótrúlegasta fólk á það til að grípa til slíkra ráða þegar það finnur að það er að missa tiltrú manna á því sem það hefur fram að færa.

Við höfum rúmlega ársgamalt dæmi um þetta í málflutningi biskups Íslands og setur það ljótan blett á þjóðkirkjuna. Ræðan sem hann flutti á nýjársdag 2003 bar yfirskriftina "Trúleysi ógnar mannlegu samfélagi".

Þegar Karl Sigurbjörnsson heldur því fram í hátíðarræðu frammi fyrir hjörð sinni að trúleysi sé ógn við samfélagið er hann einfaldlega að ljúga. Staðreyndin er nefnilega sú að það er bókstaflega ekkert við trúleysið sem gerir það þannig úr garði að samfélaginu standi einhver ógn af því, öðru nær.

Þegar Karl gerir þetta setur hann sig niður á sama plan og eldprestar hinna frjálsu safnaða bókstafstrúarfólks sem víla ekki fyrir sér að ljúga hverju sem þeim hentar, tefla fram barnalegum fígúrum á borð við djöfulinn og illa anda, til að sannfæra söfnuðinn um að hin eina rétta leið sé að aðhyllast og ástunda stefnu viðkomandi kirkju.

Eða hvaða rök hefur Karl annars fyrir þessari staðhæfingu? Ekki nokkur, en hann bregður á það ráð gera trúleysinu upp allt annað innihald en það hefur (straw man rökvilla) og ráðast síðan á það innihald. Þannig tókst honum í ræðu sinni á ótrúlegan hátt að fá það út að trúleysið innifeli siðleysi, ástleysi og vantraust á náunganum.

Við getum öll verið sammála um að slíkir lestir séu ekki æskilegir í fari fólks. En við sem trúlaus teljumst vitum sem er að ekkert af þessu hefur nokkuð með trúleysi að gera. Því ber að draga þá ályktun að biskup mæli þessi orð annað hvort í fáfræði sinni eða hreinlega ljúgi þessu vísvitandi - hræði hjörðina til frekara fylgilags með því að djöfulgera þá sem komið hafa sér upp annarri og raunsannari heimsmynd en kirkja hans boðar.

Það er ekki mjög trúlegt að æðsti maður íslensku þjóðkirkjunnar sé svo illa að sér að hann viti ekki hvað felst í vantrú á hugmyndakerfi af þeim toga sem hann boðar. Slíkt væri líka illt afspurnar og áfellisdómur yfir þeirri akademíu sem veitti honum prófskírteinið. Því er vart annað hægt en líta svo á að um vísvitandi blekkingar sé að ræða.

Og fyrir þetta frumhlaup sitt ber honum að biðjast afsökunar.

Birgir Baldursson 25.01.2004
Flokkað undir: ( Klassík , Siðferði og trú )

Viðbrögð


Gabbler - 25/01/04 15:12 #

Ahhhh.... Kalt mjólkurglas, pönnukökur og skemmtileg grein á ventru.net gera annars ágætann Danskann sunnudag enn betri.

Gabbler


Björgvin - 25/01/04 15:52 #

Er handrit af þessari ræðu biskups til á prenti, eða jafnvel vefnum?


Sigurður Hólm Gunnarsson - 25/01/04 17:02 #

Hægt er að finna ofangreinda ræðu biskups hér: http://www.skodun.is/archives/2003/03/01/truleysiognarmannlegu_samfelagi.php


Gunnar - 26/01/04 13:56 #

Fáfræði Birgir, hrein fáfræði og blinda trúboðans. Þú þarft ekki að vera mjög rökvís né réttsýnn til að útskrifast úr HÍ, hvorki guðfræði né öðrum deildum.

Sorglegt að lesa suma hluta þessarar ræðu, sérstaklega þar sem á köflum skín í gegn að hann meinar vel, vill að fólk sé gott við hvort annað. En í blindni sinni sér hann ekki þann möguleika að fólk geti verið gott án þess að vera trúað.

Ég er alveg sammála því að hann skuldi þeim sem telja sig til trúlausra afsökunarbeiðni.


Skúli - 28/01/04 10:04 #

Mér sýnist biskup nota trúleysi í þessari predikun í sömu merkingu og kæruleysi. Trúin skv. því er þá meðvituð afstaða, sannfæring í innstu tilvistarmálum. Kæruleysið er andstæða þess, rétt eins og það er andstæða kærleikans.

Jú, ég veit að menn hér vilja ekki kannast við annað en að þeir séu trúlausir en spurningin er hvort biskup er hér sömu skoðunar. Á hann ekki við þetta skeytingarleysi sem einkennir svo mjög samtímann?

Ég er h.v. hjartanlega sammála honum í meginefnum predikunarinnar. Hann bendir á ljóta bletti á okkar tímum og minnir á að hver ber ábyrgð á sér og sínum í þessum efnum:

"Trúariðkun, trúrækni, iðkun helgidómanna og bæn á heimilum og í einrúmi veitir sálinni viðnám og innri mótstöðu gegn óttanum og ógninni."

Auðvitað er hér vísað til kristinnar trúar, annað væri það nú, en hæglega má þó yfirfæra þetta á annars konar lífsafstöðu - ekki satt?

Yfirlýstur trúleysingi (í ykkar merkingu) gæti með sama hætti lagt rækt við eigin helgidóma (kærleikann, umhverfið, lífið..?) og spurt sig í sífellu með hvaða hætti hann getur gert sig að betri manneskju og varnað því að lágkúran drekki sér og sínum.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 28/01/04 15:00 #

Af hverju gat hann þá ekki bara kallað þetta sínu rétta nafni og sagt "kæruleysi ógnar mannlegu samfélagi" í stað þess að draga okkur trúlaus inn í málið að ósekju?


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 28/01/04 18:37 #

Ef þetta er rétt útlistun á skoðunum biskups ætti hann að hafa ríkulega velþóknun á þessum vef og okkur sem á hann skrifa, því við erum svo langt frá því að vera skeytingarlausir í trúmálum. Hver ný grein hérna inni ætti því að ylja honum um hjartarætur, ekki satt ;)

Spurning hvort hann sé til í að verja einhverju af þessum hundruðum milljóna sem biskupsstofa hlýtur úr ríkiskassanum á hverju ári til að halda þessum vef uppi (ein prestslaun mér til handa t.d.) og stuðla þannig að öflugri málefnalegri umræðu um hinstu rök tilverunnar. Hvað segir þú, Skúli, ertu til í að gauka þeirri hugmynd að honum?


Skúli - 28/01/04 23:53 #

Já, þetta var ágætur puntkur Birgir ;>)

Ég á það nú til að hæla ykkur fyrir eljuna, drengir mínir, enda verðið þið seint sakaðir um skeytingarleysi í trúmálum - sem er út af fyrir sig hið besta mál. Ég skil þessa predikun einmitt sem átölu gegn endemis sinnuleysinu sem tröllríður samtímanum (ef svo má að orði komast).

Efnislega held ég að við biskup séum nokkurn veginn jafn ósammála skoðunum ykkar en fáir aðrir Þjóðkirkjuútsendarar en ég virðast fá ánægju af ítrekuðum samskiptum við ykkur.

Ég held því að einhver bið verði því á að Þjóðkirkjan fari að spandéra prestslaunum á ykkur. ;>)

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.