Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Verða krakkar að trúa á jólasveina?

kátur amerískur jólasveinn

Mér þykir merkilegt hversu mörgum er heitt í hamsi útaf þessu jólasveinamáli í Idol. Fyrir þá sem ekki vita, þá sagði einn keppandinn, Anna Katrín, frá því þegar hún hætti að trúa á jólasveininn eftir að hún stóð ömmu sína að því að gefa sér í skóinn. Margir horfa á þetta með börnunum sínum og eru reiðir út í Stöð 2 fyrir að setja þetta í loftið, en viðtalið var ekki í beinni og því hefði verið hægt að klippa þetta atriði út. Einhverjir foreldrar lentu því í þeirri erfiðu stöðu að krakkarnir fóru að efast fyrir framan sjónvarpið.

Ég er að spá, ef krakkar eru nógu gamlir til að missa trúna á jólasveininn útaf viðtali eins og þessu, er þá ekki bara kominn tími til að þau hætti að trúa á sveinana?

Ég viðheld þessari trú á mínu heimili en þegar mín börn fara að efast ætla ég ekki halda áfram að blekkja þau. Efi er dýrmætur hæfileiki og það er slæmt þegar foreldrar bæla hann niður á sama tíma og krakkar eru að læra að beita honum Það versta sem ég hef heyrt er þegar foreldrar hætta að gefa krökkum í skóinn þegar krakkarnir hætta að trúa. Hvaða geðbilun er það?

Mörgum finnst mikilvægt að viðhalda ævintýrinu, halda því fram að lífið sé skemmtilegra og merkilegra ef við höldum í lygina. Þetta minnir mig á röksemdarfærsluna fyrir Gvuðstrú í sögunni af Pí.

Ég er ekki að segja að krakkar megi ekki trúa á jólasveininn, þau mega það alveg og þau mega líka trúa á önnur hindurvitni eins og t.d. Jesú. En þegar þau fara að efast finnst mér að við eigum að segja þeim sannleikann, því staðreyndin er sú að sannleikurinn er alveg nógu merkilegur í huga barnsins.

Mér finnst einnig slæmt að hugsa til þess að krakkar á grunnskólaaldri séu jafnvel að rífast við skólafélaga sína um tilvist jólasveina, koma svo heim og segja "Jói sagði að jólasveinninn væri ekki til" en foreldrarnir bregðast við með því að staðhæfa að Jói hafi rangt fyrir sér og jólasveinninn sé víst til. Hverjum er greiði gerður með því.

Jólasveinasagan er reyndar ekki öll mjög falleg. Grýla og Leppalúði eru þarna líka, tilbúin að éta óþekka krakka og jólakötturinn mætir á svæðið og étur þæga krakka sem eru svo illa stödd að fá ekki nýja flík. Jólakötturinn er væntanlega í boði barnafataverslana. Þegar mín börn spyrja um drauga og aðrar ófreskjur segi ég þeim að þær séu bara til í ævintýrum, það sama gildir um Grýlu, Leppalúða og jólaköttinn en jólasveinarnir fá að lifa enn um sinn enda í þeirra huga góðir karlar. En það kemur að því að þeir flytja líka yfir í ævintýraheiminn þar sem þeir eiga heima.

Matthías Ásgeirsson 23.12.2003
Flokkað undir: ( Jólin , Nýöld )

Viðbrögð


Sigurður Hólm Gunnarsson - 25/12/03 15:53 #

Ég man ennþá eftir því þegar frændur mínir (1-2 árum eldir en ég) sögðu mér frá því að jólasveinninn væri ekki til. Ég varð alveg brjálaður, leitaði huggunar til mömmu sem fullvissaði mig um það að víst væri jóli til. Frændur mínir gáfust hins vegar ekki upp og héldu áfram að fullyrða að jólasveinninn væri ekki til. Ég man að ég grét af reiði. Síðar grét ég af sorg yfir því að hafa verið plataður öll þessu ár. Ég man hvað ég var ótrúlega sár yfir því að hafa verið blekktur svona lengi.

Auðvitað eiga foreldrar að segja börnum sínum strax og þau gruna það að jólasveinninn sé ekki til nema í hugarheimum okkar.


Helgi Hrafn Gunnarsson - 25/12/03 16:39 #

Hér birtist aftur almenn móðursýki foreldra. Sú trú þeirra að ekkert sé til í heiminum nema börnin þeirra, og að ekkert annað skipti máli. Fullkomlega heilbrigt viðhorf, en það segir ekki að það réttlæti hvaða fíflaskap sem er.

Hvort er meira vandamál? Að einhver börn hætti að trúa á jólasveininn, eða sú skerðing málfrelsis í sjónvarpi, að maður megi ekki segja neitt sem stangast á við hvíta lygi sem börnum er kennd? Börnum er kenndur allur fjárinn. Mér finnst það ekkert sérstaklega heillandi díll. Mér þykir svona grundvallarMANNRÉTTINDI eins og málfrelsi skipta meira máli heldur en það að börn telji jólasveininn vera til, sem við skulum aldrei gleyma, að sama hversu falleg hugsjón er, er óvéfengjanlega röng.

Venjulega þegar ég tala við svona heiladauða foreldra, þá hreyti ég úr mér fúkyrðum í handahófskenndri röð við barn þeirra, sé það nálægt, og bendi svo á að barnið sé ennþá nákvæmlega jafn heilt og fyrir. Það væri nærri lagi að hafa fúkyrða og STAÐREYNDAkennslu í grunnskólum, frekar en markvissa lygi og feluleik sannleikans.


eva - 17/01/04 22:07 #

Hvernig er það, eiga smábörn ekki að vera komin í bælið á þeim tíma sem idol-þættirnir eru sýndir? Eða er fólk virkilega að reyna að viðhalda trú á jólasveina hjá krökkum sem eru orðnir nógu stálpaðir til að hafa áhuga á slíku sjónvarpsefni?


álfrún - 28/02/04 18:48 #

ég trúi ekki á jólasveina því að einu sini sá ég lakrís í skápnum henar mömmu og um nótina sá ég mömmu gefa mér han í skóin


jón - 29/03/04 21:20 #

ég var löngu hættur að trúa á jólasveina þegar ég sá mömmu gefa mér í skóinn þegar ég var 4 ára en ég fékk samnt í skóinn alla leiða að 15 ára aldri en mömmu grunaði aldrei neitt því ég sagði aldrei neitt.Mér finst eins og það æti að seiga krökkum þetta á 12 ára aldri ef þaug eru ekki búin að fata þetta.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.