Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Heppilegt fyrir mig

Guð er alveg eins og ég, heppilegt fyrir mig. Guð hefur nákvæmlega sama skilning á veröldinni og ég, heppilegt fyrir mig. Ég hef sérstaka tilfinningu fyrir Guði sem aðrir geta ekki skilið, heppilegt fyrir mig.

Eins kjánaleg og þessi klausa að ofan hljómar þá heyrist hún oft þó fólk noti kannski annað orðalag. Ég hef aldrei hitt neinn sem trúir á Guð sem hefur aðrar skoðanir á veröldinni en það sjálft, svoleiðis guðir eru löngu komnir úr tísku. Heppilegt fyrir okkur.

Er það bara ég eða finnst einhverjum öðrum frjálslynt fólk hér á landi vera með eindæmum heppið að lifa á þeim tíma og stað þar sem við vitum að Guð er frjálslyndur? Þetta er stórkostleg heppni því við vissum ekki að Guð væri svona frjálslyndur fyrr en nýlega, það var bara á síðustu öld sem allir héldu að Guð hataði homma en á þessari öld vita allir að Guð er politically correct og elskar homma. Heppilegt fyrir homma.

Við vitum að þeir sem skrifuðu Biblíuna voru nú ekki alveg með það á hreinu hvaða skoðanir Guð hafði á hlutunum, þeir héldu að Guð væri hefnigjarn og refsiglaður. Þetta fólk var svo óheppið að rugla eigin skoðunum saman við skoðanir Guðs, það er gott að þetta gerist ekki lengur, það þarf reyndar ekki að gerast lengur því Guð er einmitt sammála öllum þeim sem trúa á hann núna. Heppilegt fyrir þá.

Guð er sammála íslömskum hryðjuverkamönnum sem ræna flugvél og fljúga henni á háhýsi. Guð er reyndar líka sammála þeim múslímum sem vita að það er rangt að drepa fólk í nafni trúarinnar. Guð er sammála Síonistum um að þeir hafi guðdómlegan rétt til að taka landið frá Palestínumönnum (enda gaf hann þeim þann rétt). Guð er sammála Kaþólikkum um að getnaðarvarnir séu vondar og á sama tíma er hann sammála frjálslyndum kristnum Íslendingum um að smokkar séu bara af hinu góða. Heppilegt fyrir allt þetta trúaða fólk.

Finnst ykkur Guð ekki frekar óákveðinn? Mér finnst líka skrýtið hvað Guð breytir um skoðanir eftir því sem tíminn líður því ég hefði haldið að tíminn skipti Guð engu máli. Ætli Guð ætti jafn marga fylgismenn ef hann væri ekki svona einbeittur í að vera sammála þeim öllum? Kannski getur hann haft allar þessar skoðanir af því hann er almáttugur. Heppilegt fyrir hann.

Ég er svo óheppinn að vita ekki skoðanir Guðs, ég þarf að hugsa sjálfur og ég þarf að bera ábyrgð á eigin gjörðum. Það er vissulega erfitt að hafa ekki neinn sérstakan skilning á veröldinni, að vera ekki einn af þeim sem Guð hefur sérstaklega valið til að öðlast skilning á sér. Það er erfitt að þurfa að treysta á sjálfan sig og samvisku sína en einhvern veginn bjargar maður sér.

Ég er svo óheppinn að hafa ekki símalínu til Guðs en ég get huggað mig við það að ef ég gæti hringt í hann þá myndi hann benda mér á að gera það sem samviskan bíður mér. Heppilegt fyrir mig.

Óli Gneisti Sóleyjarson 06.11.2003
Flokkað undir: ( Klassík , Rökin gegn guði )

Viðbrögð


Aiwaz (meðlimur í Vantrú) - 06/11/03 09:12 #

Góður pistill Óli.

Ég hef einmitt bent trúmönnum á það hve grunsamlegt (mildilega orðað!) það er að guð skuli einmitt hafa sömu lífssýn, siði, óvini og náttúruþekkingu og sá hirðingjaþjóðflokkur sem finnur hann upp í það og það skiptið. Í þessu samhengi hef ég bent á það hve auðvelt hefði verið fyrir alvitran og almáttugan guð að gera Biblíuna trúverðugri með því að skýra þar t.d. frá samsetningu atómsins í stað þess að koma með leiðbeiningar um að karlmenn megi ekki snyrta á sér bartana o.s.frv.

Það er eins og guð leggi sig í líma um að koma í veg fyrir að skynsamt og hugsandi fólk trúi á hann. :o)

Aiwaz 93


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 06/11/03 09:27 #

Já, greinin er mjög flott skrifuð, svona óratorísk í hrynjandinni. Hefurðu eitthvað verið að stúdera stílfræði?


Geiri3D - 06/11/03 13:33 #

Skemmtileg grein :o)


Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 06/11/03 14:24 #

Þess má geta að ég er betri í að monta mig en að taka hrósi, þökk fyrir.


Skorrdal - 06/11/03 16:32 #

Ég verð að segja það, sem trúaður maður, að þessi grein er alveg milljón! Málið við öll þessi ólíku sjónarmið og ólíku viðhorft til trúarinnar má auðvitað rekja til manna, ekki Guðs. Guð er aðeins eitt; Guð er kærleikur. Manna á milli er Guð sá kærleikur sem við berum hvort til annars, óháð því hvað við köllum "kallinn". Í kærleika kemur umburðarlindi, sem svo aftur kemur með virðingu og vinsemd milli allra. Þetta er í raun það sem Guð setti inn í Biblíuna, en "misvitrir" menn breyttu og bættu til að stjórna lýðnum. Í gegnum Biblíuna er verið að tala um fullkomleika Drottins og það hve hann er óskeikull, en samt sem áður eru það mennirnir sem eru að bæta við og breyta þeim einföldu reglum sem Hann setti á Síon og færði Móse. Móse fannst Guð greinilega ekki nægilega fullkominn í lagasetningu sinni, sem sjá má á þeim lagabálkum sem hann, eða menn í hans nafni, skrifuðu og fylltu upphaf þessarar bókar. Síðan kom Kristur, bætti við þremur einföldum reglum til viðbótar, sem svo postularnir skoppuðu með inn í mannkynssöguna og endurbættu og breyttu.

Guð er ekki kall í skýjunum, né heldur er djöfullinn fyrir neðan jarðarskorpuna, heldur eru þessi öfl innra með okkur öllum, bæði gott og illt, en það er okkar að velja hvaða leið við förum. Er ekki málið bara að við viljum kalla vonina og óskhyggjuna öðru og jákvæðari nafni, þessvegna köllum við það Guð?


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 07/11/03 14:35 #

Ef Guð er kærleikur, af hverju þarf þá að kalla hann Guð og fylla höfuð barna af ranghugmyndum um þessa tilfinningu hið innra? Er ekki bara nóg að kalla þetta kærleik og hvetja alla til að ástunda hann? Þarf kirkju, sögur af krossdauða og öðrum viðbjóði og hótanir um útskúfun eftir dauðann til að fólk ástundi kærleik? Er ekki eitthvað bogið við þá mynd?


Skúli - 08/11/03 23:22 #

Trúin breytist í tímans rás. Ný þekkingarsvið og nýjar hugmyndir hafa áhrif á hina trúuðu sem og aðra. Slíkar breytingar geta bæði verið til hins verra og til batnaðar, trúin getur bæði útþynnst og hún getur dýpkað.

Kristnir menn þekkja Guð aðeins sem í skuggsjá og ber skilningur þeirra á Guði þess merki.

Annars beitir höfundur þeirri rökvillu að nota sama hugtakið ("Guð") yfir ólík fyrirbæri (Guð kristinna manna og Allah). Það er auðvitað engin mótsögn fólgin í því þótt frjálslyndir kristnir menn skuli hugsa með öðrum hætti um Guð en öfgasinnaðir múslímar (og auðvitað vice verca).

Skrýtið að enginn af skyldi hafa bent honum á þetta í viðbrögðunum hér að ofan. Þarf guðfræðing til að benda á slíka hnökra hér á þessum helgireit skynseminnar?


Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 08/11/03 23:43 #

Ég fatta ekki í hverju rökvilla mín á að vera fólgin þar sem ég er að tala um persónulegar hugmyndir fólks um guð og þá skiptir nafnið ekki máli. Tilgangur greininnar er ekki að fara í einhvers konar samanburðarguðfræði.

Mér finnst öfgasinnaðir múslímar og öfgasinnaðir kristnir menn hafa mjög svipaðar skoðanir, einnig finnst mér frjálslyndir kristnir menn og frjálslyndir múslímar hafa mjög svipaðar skoðanir. Það skiptir ekki máli hvaða nafn guðinn hefur heldur hvaða skoðanir einstaklingurinn (eða samfélagið) hefur.

Það skiptir nær engu máli hvað kemur fram í trúarritunm enda ná trúaðir ávallt að hunsa það sem passar þeim ekki. Það er bent á að ákveðnir kaflar séu merkilegri en aðrir og sumt eigi ekki að taka bókstaflega.

Guð er nefnilega ekkert nema samviska okkar og það gefa henni guðdóm er óþarfi, jafnvel hættulegt.

Vona að þú skiljir þetta betur núna. Ertu annars einhvern tíman ósammála guði þínum?


Skúli - 09/11/03 17:35 #

"Tilgangur greininnar er ekki að fara í einhvers konar samanburðarguðfræði."

Nei, tilgangur greinarinnar var að setja fram þá staðhæfingu að guðsmynd trúmanna sé af mjög ólíkum toga andstætt því sem eðlilegt væri, þ.e. að sami "Guð" hljóti að hafa sömu eiginleika.

Óhjákvæmilega hlýtur þú að bera "raunveruleikann" saman við það ídeal (þar sem samræmi ríkir á milli guðsmynda) og kemst að því að þetta passar illa saman. Ef þú gefur þér það ekki þá er greinin þín algerlega merklaus. Röksemdir þínar hljóta því að vera á sviði samanburðarguðfræði.

Síðan allt í einu hopparðu út fyrir þann ramma og tekur að bera saman guðsmyndir manna af ólíkum trúarbrögðum, þar sem einn guðinn er kallaður "Guð" en hinn heitir "Allah". Ólíkar trúarbækur búa þar að baki og ósamræmið því fullt eðlilegt - svo langt sem dæmi þín ná.

Rökvilla þín felst í því að þú bendir á ósamræmi milli guðshugmynda ólíkra trúarhópa þar sem slíkt ósamræmi væri fullkomlega eðlilegt.

Hliðstæð rökvilla væri að halda því fram að þetta væri mótsögn þar sem þessir óskyldu menn segja frá föður sínum:

Óli: "Pabbi er fæddur 1939" Siggi: "Pabbi er fæddur 1929"

"Pabbi" í þessu tilviki er ekki sami maðurinn og þess vegna er það ekki ámælisvert þótt ósamræmi sé á milli þessara staðhæfinga.

Þarf ég að fara fleiri orðum um jafn sjálfsagðan hlut?

Síðan smá staðreyndavilla:

"Það skiptir nær engu máli hvað kemur fram í trúarritunm enda ná trúaðir ávallt að hunsa það sem passar þeim ekki. Það er bent á að ákveðnir kaflar séu merkilegri en aðrir og sumt eigi ekki að taka bókstaflega."

Ef þú kannar menningarsvæðin sérðu fljótlega að á þeim er afgerandi munur sem má að mjög stórum hluta til skýra m.t.t. trúarbragðanna. Þótt menn túlki trúarbrögðin og þ.m. gefi ákveðnum stöðum meira vægi en öðrum þýðir ekki um leið að allt sé túlkað að hentisemi og textinn þar með ómerkur. Allur lestur og allt nám felst í túlkun. Öll skynjun okkar gerir það líka, ef því er að skipta.


Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 09/11/03 18:18 #

"Nei, tilgangur greinarinnar var að setja fram þá staðhæfingu að guðsmynd trúmanna sé af mjög ólíkum toga andstætt því sem eðlilegt væri, þ.e. að sami "Guð" hljóti að hafa sömu eiginleika."

Þetta er misskilningur hjá þér, það er ekki tilgangur greinarinnar (þó að vissulega sé hægt að túlka hana þannig líka). Tilgangur greinarinnar er að sýna að mennirnir skapa guð í sinni eigin mynd.

Samlíking þín um pabbana á ekki við. Hún myndi passa ef tveir strákar væru að rífast um hvor pabbinn væri sterkari, báðir strákarnir vilja að pabbi sinn sé sterkari og nota öll "rök" til að styðja þá skoðun sína. Pabbinn er gerður að fullkomnustu veru sem hægt er að ímynda sér og þá skiptir sannleikurinn litlu máli. Strákarnir vilja að pabbinn sé sterkastur einsog trúað fólk vill að guð sé sammála sér. Það er ákaflega heppilegt fyrir strákana að pabbi þeirra er einmitt sterkastur í heimi.

"Ef þú kannar menningarsvæðin sérðu fljótlega að á þeim er afgerandi munur sem má að mjög stórum hluta til skýra m.t.t. trúarbragðanna."

Þetta er ekki staðreyndavilla enda var ég ekki að tala um samfélög í þessu sambandi heldur einstaklinga, þessi klausa þín kemur greininni ekkert við. Það er hins vegar rangt hjá þér að gefa í skyn að trúarbrögðin móti menninguna því það er einmitt öfugt, menningin mótar trúarbrögðin.

En ég þarf að lokum að endurtaka spurninguna:Ertu oft ósammála guði þínum?


Skúli - 09/11/03 18:28 #

"Ertu oft ósammála guði þínum?" -nei en það kemur fyrir!


Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 09/11/03 18:57 #

Hvernig lýsir það sér? Er það í svona siðferðislegum álitamálum?


Skúli - 09/11/03 20:30 #

Sá Guð sem ég trúi á er Guð kærleikans, fyrirgefningarinnar og miskunnseminnar.

Eins og aðrir trúmenn á ég erfitt með að sætta mig við óréttlætið og illskuna í heiminum: þ.e. þegar Guð "hylur andlit sitt". Þar brestur mig skilning.

Trú mín byggir á því að, rétt eins og kanverska konan, sýni ég skapara mínum auðmýkt og treysti því að hann leiði allt til farsældar um síðir.


Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 09/11/03 21:03 #

Þú ert einmitt sáttur við guð eins langt og vald þitt yfir honum nær. Þú getur ákveðið að guð þinn sé jafnréttissinni alveg einsog þú og þú getur ákveðið að guð sé sáttur við homma alveg einsog þú en þú getur ekki stjórnað gjörðum hans.


Skúli - 09/11/03 21:32 #

Ég lýsti þessum eiginleikum Guðs eins og Kristur birtir mér hann í Ritningunni. Skv. þeim er Guð umburðuarlyndur og lætur sig sérstaklega mál þeirra varða sem eru á einhvern hátt undir í samfélaginu, þ.m.t. hommar, konur, fátækir etc.

Þessi afstaða hefur f.o.f. mótað mig sjálfan og hvatt mig til þess að forðast í lengstu lög fordóma gagnvart meðbræðrum mínum.


Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 09/11/03 21:36 #

Varstu semsagt á móti fátækum, hommum og konum áður en þú last Nýja Testamentið?


Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 09/11/03 22:28 #

Varstu semsagt á móti fátækum, hommum og konum áður en þú last Nýja Testamentið?


nopoint - 09/11/03 22:31 #

Sko... er þetta ekki bara fjölgyðistrú. Hver hefur sinn guð sem þóknast þeim sem trúir og það að kalla hann sama nafni og hinir breytir engu um það að þetta er ekki sami guðinn.

Þannig trúa hommar á guð sem fyrirgefur samkynhneigð, konur á guð sem vill jafnrétti kynjanna, sértrúarsöfnuðir trúa á guð sem fílar að gjalda keisaranum ekki það sem hans er og ég trúi á guð sem vill að ég setji 50 kall í söfnunarbauk í Kringlunni áður en ég labba út með gjafir fyrir tugþúsundir til þess að fagna afmæli manns sem sagði mér að gefa mitt til fátækra og að hugsa lítt um veraldleg gæði.

Ég held að menn finni yfirleitt einhverja hræsni í þeim sem kalla sig trúaða, en sem betur fer fyrirgefur guð þeim bara því hann er alltaf sammála þeim.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 09/11/03 23:55 #

"Eins og aðrir trúmenn á ég erfitt með að sætta mig við óréttlætið og illskuna í heiminum: þ.e. þegar Guð "hylur andlit sitt". Þar brestur mig skilning."

Hjá okkur sem tamið hafa sér gagnrýna hugsun brestur grundvöllur trúarinnar þarna og skynsemin verður yfirsterkari. Við skiljum hvað þarna liggur að baki - tilvistarleysi Guðs.

Hið glæsta komment Helga Hós um Krosslaf sem hlær i skeggið gerir Helga að siðferðilega stærri veru en nokkurntíma þann guð sem þú segir eiga sér tilvist og svínbeygir þig viljugur undir.

"Trú mín byggir á því að, rétt eins og kanverska konan, sýni ég skapara mínum auðmýkt og treysti því að hann leiði allt til farsældar um síðir."

Ég spyr: Hvað ertu að púkka upp á þetta siðlausa fífl sem þessi guð þinn er? Þessa skoðun þína tel ég stórathugaverða og jafnvel ámælisverða.

En ég er nú líka bara svo mikil skynsemisvera ;)


Skúli - 10/11/03 09:30 #

"Ég spyr: Hvað ertu að púkka upp á þetta siðlausa fífl sem þessi guð þinn er? Þessa skoðun þína tel ég stórathugaverða og jafnvel ámælisverða."

Ég hélt við hefðum rætt þátt þjáningarinnar í kristinni trú, Birgir? Mér sýnist líka sem Helgi Hós. ætti að gefa sér smá næði til þess að skoða það fermingarkver sem hann hefur varið lunga æfinnar til þess að afturkalla. Er það ekki annars það sem barátta hans snýst um? Eða fyrir hverju er hann annars að berjast?

Ein þungamiðja kristinnar trúar er dauði Krists á krossinum og þjáningar hans. Þjáningar mannsins eru síður en svo burtskýrðar á þeim bænum.


Skúli - 10/11/03 09:37 #

Æ, þessi sófismi sem hér tröllríður umræðunni er alveg milljón. Ég segi það að trú mín á Guð og það að ég aðhyllist kristna siðfræði lætur mig berjast gegn ákveðnum fordómum í mínu fari og þá spyrja skynsemisverurnar sem hér svífa um:

"Varstu semsagt á móti fátækum, hommum og konum áður en þú last Nýja Testamentið?"

:P

Svarið er nei, en sem manneskja er alltaf stutt í það að ég skilgreini mig út frá þeim hópi sem ég tilheyri og vilji veg hans sem mestan m.t.t. annarra hópa. Kristin trú ögrar þessari hugsun og minnir mig á jafna stöðu allra manna frammi fyrir skapara sínum. Jajamen.


Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 10/11/03 09:40 #

Ég held að það sé vandfundinn maður sem er jafn vel að sér í Biblíunni og Helgi Hóseasson, hann bara les hana ekki með jákvæðnisgleraugunum sem fólki hefur almennt verið kennt að láta upp.


Skúli - 10/11/03 09:52 #

"Sá (Helgi Hóseasson) hefur í áratugi barist fyrir að fá staðfest að hann hafi rift samningi þeim sem gerður var við almættið fyrir hönd hans þegar hann var kornabarn. Samning þennan var hann látinn staðfesta áður en hann komst til vits og ára. Helgi hefur barist fyrir trúfrelsi sínu og margsinnis sótt mál sín bæði til ríkisvalds og kirkju án árangurs."

Um þetta snýst málið skv. bréfi ykkar til þingseta. Ég verð að játa að ég skil ekki með hvaða hætti hefur verið brotið á trúfrelsi hans.

Hann er ekki skráður í trúfélag (geri ég ráð fyrir) og trúir ekki á það sem skírnin gengur út á. Hafa menn reynt að þvinga hann til annars?

Hvað vill hann nákvæmlega?

Hvernig myndi kirkjan staðfesta það að hann er ekki lengur partur af samningnum? Vill hann fá útgefið afskírnarvottorð? Hverju myndi slíkt breyta? Samningar og sáttmálar missa sjálfkrafa gildi sitt þegar annar aðilinn segir sig undan þeim.

Flóknara er það ekki í mínum augum en af einhverju hlýt ég að vera að missa hér í þessu sambandi.


Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 10/11/03 10:03 #

Hvers vegna hefur kristin kirkja þá aldrei verið í forystu þeirra sem berjast fyrir til dæmis jafnrétti kynjanna eða réttindum samkynhneigðra? Af hverju er kristin kirkja nær alltaf afturhöldssöm í svona málum?

Á öðrum þræði hér á Vantrú minntistu á að þegar við værum að vitna í Biblíuna þá ættum við að hafa í huga hverjir skrifuðu hana og á hvernig samfélag þeirra var, þetta staðfestir algjörlega það sem ég er að segja í þessari grein. Þeir sem skrifuðu Nýja Testamentið í frumkristni höfðu engan áhuga á réttindum kvenna eða samkynhneigðra en Þeir hefðu einmitt átt að hafa slíkan áhuga ef það væri rétt sem þú segir að þessi gildi komi frá trúnni. Þeirra trú ögraði þeim ekki til að taka afstöðu með samkynhneigðum og konum enda höfðu þeir engan áhuga á að láta trúnna ögra sér á þann hátt. Reyndar tóku þeir einmitt þveröfuga afstöðu og voru einmitt vissir um að það væri það sem Kristur vildi, hvernig ert þú ólíkur þeim?

Hefðu þessir frumkristnu menn í raun ekki átt að vita betur en þú hvað Kristur var að meina því þeir þekktu hann eða allavega samtímamenn hans? Er það ekki töluverður hroki í þér að segjast skilja betur hvað Kristur var meina heldur en frumkristnir menn sem höfðu aðgang að mun betri heimildum en þú?

Þú færð ekkert útúr trúnni sem þú lætur ekki í hana sjálfur, þú hleður hana þeim gildum sem þér finnst mikilvæg, þau gildi hefurðu fengið frá samfélaginu eða fjölskyldu þinni.


Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 10/11/03 10:09 #

Ég er meira en til í að fræða þig um Helga Hóseasson og mannréttindi en ég bið þig um að virða þá grundvallarreglu að ræða efni hverrar greinar fyrir sig á því umræðusvæði sem til þess er ætlað.


Skúli - 10/11/03 10:48 #

"Hvers vegna hefur kristin kirkja þá aldrei verið í forystu þeirra sem berjast fyrir til dæmis jafnrétti kynjanna eða réttindum samkynhneigðra? Af hverju er kristin kirkja nær alltaf afturhöldssöm í svona málum?"

[vefslóð] "Þeir sem skrifuðu Nýja Testamentið í frumkristni höfðu engan áhuga á réttindum kvenna eða samkynhneigðra en Þeir hefðu einmitt átt að hafa slíkan áhuga ef það væri rétt sem þú segir að þessi gildi komi frá trúnni."

Reynum að hafa þetta eins einfalt og mögulegt er:

Sé litið til samskipta Krists við konur og minnihlutahópa þá boðar hann algera byltingu í þeim efnum. Skoðanir hans á þeim eru algerlega öndverðar því sem gildi í þá tíð. Þeir sem rituðu Nt. greina frá þessum viðburðum. Jafnvel á okkar mælikvarða eru hugmyndir hans byltingarkenndar.

"Þú færð ekkert útúr trúnni sem þú lætur ekki í hana sjálfur, þú hleður hana þeim gildum sem þér finnst mikilvæg, þau gildi hefurðu fengið frá samfélaginu eða fjölskyldu þinni."

Um ritskýringu mína: http://www.annall.is/skuli/2003-10-17/00.04.41

"Ég er meira en til í að fræða þig um Helga Hóseasson og mannréttindi en ég bið þig um að virða þá grundvallarreglu að ræða efni hverrar greinar fyrir sig á því umræðusvæði sem til þess er ætlað."

Það var nú ekki ég sem kom Helga inn í þessa umræðu heldur Birgir:

"Hið glæsta komment Helga Hós um Krosslaf sem hlær i skeggið gerir Helga að siðferðilega stærri veru en nokkurntíma þann guð sem þú segir eiga sér tilvist og svínbeygir þig viljugur að undir."

Þú mátt gjarnan svara þessari spurningu minni um samninginn og sáttmálann - líklega ætti þér þó að nægja að benda mér á hlekk þar sem þetta er nákvæmlega útlistað og skýrt í hverju mannréttindabrot ríkis og kirkju á hendur þessum manni felst.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 10/11/03 12:16 #

"Það var nú ekki ég sem kom Helga inn í þessa umræðu heldur Birgir"

Heyrðu góði, vertu nú ekkert að klína þessu á mig :) Það ert þú sem togar umræðuna inn á brautir baráttu Helga Hós, ég vitnaði aðeins til hans til að sýna fram á að guðinn sem þú aðhyllist sé síðri siðferðisvera en sumir þeir menn sem ganga á jörðinni. Minntist ekkert á baráttu Helga.

En essensinn í baráttu hans má skilja við það að lesa kommentin á eftir greininni Mótmælandi Íslands. Gott innlegg er t.d. þetta hér:

"Værir þú sáttur við það að það stæði í Þjóðskránni að þú hafir samið við Satan, Kalí eða Shíva?"


Skúli - 10/11/03 12:21 #

Ok, ég skal ekki dreifa umræðunni! Sendi komment á réttan stað :=)


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 10/11/03 13:07 #

"Ég hélt við hefðum rætt þátt þjáningarinnar í kristinni trú, Birgir?"

Já, og hún virðist ganga út á það að fá mannskapinn til að sætta sig við þjáningar sínar í staðinn fyrir að vinna á þeim bug, því Jesús kom og tók þær á sig til að öðlast skilning á þeim (eða eitthvað svipað endemis rugl). Hver var aftur hin augljósa lógík í þessu hugmyndakerfi?


Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 10/11/03 13:47 #

Skúli, þú segist vilja koma með einföld svör en þessu einföldu svör svara ekki spurningum mínum, ég skal þess vegna draga þetta saman í nokkrar einfaldar spuringar.

Hvers vegna er þín túlkun á verkum Krists rétt?

Hvers vegna hefur kristin kirkja þá ekki túlkað verk Krists á þennan hátt í gegnum tíðina?

Hvernig geturðu þú haldið því fram að þeir sem fundu einungis kvenfyrirlitninu og hommahatur í Biblíunni hafi einungis gert það vegna tíðarandans án þess að átta þig á að þínar eigin ályktanir eru jafn litaðar?

Finnst þér ekki ótrúlega heppilegt að boðskapur Jesú passi akúrat við skoðanir þínar?


Skúli - 10/11/03 14:32 #

Spurning: "Hvers vegna er þín túlkun á verkum Krists rétt?"

Svar: http://www.annall.is/skuli/2003-10-17/00.04.41

Spurning: "Hvers vegna hefur kristin kirkja þá ekki túlkað verk Krists á þennan hátt í gegnum tíðina?"

Svar: "Trúin breytist í tímans rás. Ný þekkingarsvið og nýjar hugmyndir hafa áhrif á hina trúuðu sem og aðra. Slíkar breytingar geta bæði verið til hins verra og til batnaðar, trúin getur bæði útþynnst og hún getur dýpkað.

Kristnir menn þekkja Guð aðeins sem í skuggsjá og ber skilningur þeirra á Guði þess merki."

Spurning: "Hvernig geturðu þú haldið því fram að þeir sem fundu einungis kvenfyrirlitninu og hommahatur í Biblíunni hafi einungis gert það vegna tíðarandans án þess að átta þig á að þínar eigin ályktanir eru jafn litaðar?"

Svar: http://www.annall.is/skuli/2003-10-17/00.04.41 + Ég þekki ekki aðrar og betri heimildir um Guð en Biblíuna en er meðvitaður um takmörk mín við að skilja Guð til fullnustu.

Spurning: "Finnst þér ekki ótrúlega heppilegt að boðskapur Jesú passi akúrat við skoðanir þínar?"

Svar: "Ég lýsti þessum eiginleikum Guðs eins og Kristur birtir mér hann í Ritningunni. Skv. þeim er Guð umburðuarlyndur og lætur sig sérstaklega mál þeirra varða sem eru á einhvern hátt undir í samfélaginu, þ.m.t. hommar, konur, fátækir etc.

Þessi afstaða hefur f.o.f. mótað mig sjálfan og hvatt mig til þess að forðast í lengstu lög fordóma gagnvart meðbræðrum mínum."

Er það bara ég - eða erum við farnir að endurtaka okkur hér?


Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 10/11/03 14:45 #

Mér finnst þú passa svo fullkomlega við fólkið sem ég er að lýsa í greininni hér að ofan, þú sérð bara það sem þú vilt sjá í trúnni.


Skúli - 10/11/03 14:59 #

Heppilegt fyrir þig!


Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 10/11/03 15:05 #

Jamm, heppilegt fyrir mig að þú hefur ekki komið fram með nokkuð sem sýnir að trúað fólk túlki trúnna á annan hátt en ég held fram.


Skúli - 11/11/03 13:53 #

Þótt ég sýni fram á notkun ritskýringarrita, bendi á hefðina sem sé að baki túlkun Biblíunnar, vísi á síðu þar sem fletta má í 71 þúsund tilvísunum í róttækar kristnar kirkjur sem berjast gegn óréttlæti (og kenna sig við frelsunarguðfræði), bendi á samhengi ritningarinnar vs. sundurlausan lestur þann sem hér er ástundaður og ýmislegt fleira....

"Jamm, heppilegt fyrir mig að þú hefur ekki komið fram með nokkuð sem sýnir að trúað fólk túlki trúnna á annan hátt en ég held fram."

Jamm, heppilegt fyrir þig..!


Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 11/11/03 14:48 #

Ef þú heldur áfram að segja hvað þetta er ægilega heppilegt fyrir mig þá fer ég að halda að þú öfundir mig.


Úlfurinn - 01/03/04 14:54 #

Ef guð er kærleikur,hvað er þá að gerast í Írak?

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.