Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Og orðið var Mu!

Í tilefni þess að guð átti stórafmæli um daginn og meira hefur farið fyrir þjónum hans og þeirra veraldlega vafstri í fjölmiðlum síðustu misserin en honum, langar mig til að bæta þar örlítið úr og birta lesendum nýjustu fréttir af föður vorum og skapara úr landinu helga. Lesandinn kann að undrast, því ekki hefur sést né heyrst til guðs í tvö þúsund ár svo öruggt geti talist, enda duld himnaföður staðreynd sem umboðsmenn hans hér á landi liðna þúsöld hafa lítið getað bætt úr.

Það vill hins vegar svo til að fleiri en prestar og trúmenn hafa áhuga á afmælisbarninu vegna sérstöðu þess á Vesturlöndum síðustu tuttugu aldirnar. Þar á meðal eru sagnfræðingar og fornleifafræðingar sem sérhæfa sig í sögu og fornminjum Palestínu. Hingað til hefur eftirtekjan þó verið rýr þegar kemur að því að finna minjar sem styðja beinlínis sögur biblíunnar eða tilvist guðs. Svo virðist þó sem almættið hafi ákveðið að gera sér dagamun á þúsaldamótum og ákveðið hætta feluleiknum en birtast okkur börnum sínum aftur í allri sinni dýrð. Þó ekki með því að koma þrumandi í eldlegum vagni af himnum til að kunngera heimsendi heldur, á sinn hógværa og lítilláta hátt að venju, læðir hann sér óséður mitt á meðal vor og finnst grútskítugur á mynd, vel grafinn ásamt öðrum fornleifum í gömlum ruslahaug og kom ekki almennilega í ljós fyrr en að loknum rækilegum sápuþvotti.

Mynd þessi sýnir Yahweh, þ.e. guð almáttugan, frú guð og son þeirra auk ávarpsorða í texta, eins og prestur í Palestínu lýsir þeim árið 850-900 fyrir Krist. Hún er á leirbroti sem fannst við uppgröft árið 1976 í suður Ísrael. Gerði endurkoma drottins stormandi lukku meðal fræðimanna á sínum tíma en olli um leið nokkurri furðu. Einkum þó áherslan á hreðjaumfang hans hátignar svo og þríhyrndur hausinn, sem er af uxa eða hrút að hætti Fornegypta.

Aukinheldur var tilvist hinnar himnesku frúar hans og sonar á þessum tíma meintrar eingyðistrúar fornjúða undrunarefni og nýnæmi í vestrænni guðfræði þó annar og yngri sonur herrans sé íbúum vesturlanda allkunnur í seinni tíð. Að sonur guðs væri einnig svona vel kýldur hefur þó verið leyndur dómur um aldir ásamt því að hann er á svæðinu allt of snemma ef miða á við frásagnir opinberra talsmanna hans. Fatasmekkur feðganna kom og á óvart. Sú hugmynd að frú guð væri bókhneigð, eins og sést á myndinni, hefur mönnum þó verið ljós, þó lítið færi fyrir, samanber evrópskar myndir af boðun Maríu frá tólftu öld e.k. þar sem hún er stundum sýnd við bóklestur þá er andi Yahweh fer á hana. Hitt er sérkennilegra að himnadrottningar skuli getið á þessum tíma (í texta leirbrotsins) 850-900 f.Kr. í gyðingalandi en heitir þar Asherah og virðist eina fullmennska veran á myndinni.

Asherah mun vera hebreskt heiti hinnar heiðnu egypsk-súmersku frjósemis- og ástargyðju Isis eða Ishtar sem kölluð var meyjan meðal tilbiðjenda sinna og var meðal sumra heilög önd. Hún var einnig táknuð með dúfu og fórnað slíkum en talin lagskona kanverska goðsins Baal hvers nafn má útleggja böllur eða völsi á íslensku.

Nýlunda er að hún sé tilbeðin samhliða Yahweh í landi Hebrea á þessum tíma og færðar ástar og þakkarfórnir við hlið maka síns og ókunns sonar.

Hennar er hins vegar getið löngu síðar í fyrri hluta opinberrar ríkisæfisögu eiginmanns síns og einkasonar, en sögð þar viðurstyggð, úrhrak, réttdræp hóra og falsguð sem slíta beri upp með rótum hvar sem í næst, höggva í spón og eyða í eldi.

Annað er uppá teningnum á þessari samtímamynd og sýnist, samkvæmt henni, allt leika í þríeinu lyndi hjá þeim hjónum og syni auk þess sem áhugasvið kynjanna á þessum tíma í sögu mannsandans koma skýrt fram. Þau tjá annað og nútímalegra viðhorf til holdsins praktuglegu lystisemda og bókiðju en formyrkvaður tepruskapur og náttúruleysi skólastíkur lútherdóms og katólskra.

Mest kemur á óvart að myndverk skuli yfirhöfuð hafa verið gerð af drottni allsherjar á þessum stað og tíma, þar sem Mósebækur leggja blátt bann við slíku, sbr. boðorð no.2 og ef eitthvað er að marka biblíuna um sögu þessa heimshluta. Gamla testamentið er talið skrifað um 5-600 fyrir Krist en fjallar að mestu um hluti sem eiga að hafa gerst löngu áður líkt og sögur íslendinga. Leirbrotið er hinsvegar 300 árum eldra, fannst í jörðu nálægt Kadesh Barnea í sjálfu Ísrael og er þ.a.l. mun tryggari heimild en helgitextar sem hafa þurft að þola pólitíska ritskoðun og cut/paste hagsmunaguðfræði fornaldarklerka við eftirritanir gegnum aldirnar.

Umrætt leirverk sýnir, svo ekki er um villst, að menn gerðu myndir af Yahweh um þetta leyti í gyðingalandi hinu forna honum til dýrðar. En einnig af frú Yahweh og syni þeirra, sem er reyndar í samræmi við þrenningarlærdóma og fjölskylduímynd guðdóms heiðinna trúarbragða fornaldar.

Þetta vekur upp spurningar um heiðarleik og vinnubrögð höfunda biblíunnar og ennfremur tilgang með þögninni um þessa fyrrum frú guð og þennan týnda bróður mannkyns af fyrra hjónabandi föður vors. Hvað þá spurningar um raunverulegt upphaf og eðli eingyðistrúar og þ.a.l. kristindóms og vestrænnar menningar. Einnig vekur þessi mynd upp ýmsar spurningar hvað varðar þjóðkirkju Íslands og kenningar hennar um þennan sama guð.

Hvernig líst prestum landsins á gripinn? Þetta er fyrsta skipti sem ég stend augliti til auglits við guð minn almáttugan eins og hann birtist samtímamönnum Elía spámanns. Og held þó lífi. Er ekki kominn tími til að kirkjan kynni fyrir eigin kvikfé þessa týndu kjörgripi goðmagns kristinna manna? Því óneitanlega er þessi stóri hálfbróðir jesú forvitnilegur, en tæpast getur þetta verið frelsarinn sjálfur þó gimbill sé nema gyðingar hafi trúað a lausnara vorn þúsund árum fyrir Krist sem er fremur ólíklegt miðað við opinberan fæðingardag hans.

Ennfremur sýnist undirrituðum að fjárhirðar kirkjunnar hér á landi skuldi bústofni sínum og tekjulind skýringar á þessari dýrlegu þrenningu guðs útvöldu þjóðar með sína lúthersku einþrennu til hliðsjónar. Og þá allra vinsamlegast upp ljúka um leið fyrir þjóðinni, okberum kirkju hins smurða hér á landi í þúsund ár, forsendum þeim er liggja að baki stökkbreytingu þessari á himneskum konungi vorum og lýsa nánar ferli uppgufunarsamruna helgrar andar í þá feðga. Einnig útlista kynskiptiaðgerð hennar ítarlega og afhjúpa sem fyrst þessa vægast sagt torkennilegu umhverfingu goðhluta kristindómsins á sögulegum tíma úr blönduðu dýratríó í karladúett með dúfu.

Hvað skyldi biskupi Íslands finnast um þetta ófagnaðarerindi úr landinu helga og þá staðreynd að hann virðist samkvæmt því tilbiðja og þjóna einhverskonar heiðnum goðsagnaúruxa eða undaneldishrútmenni fornaldar? Vísast ættuðum úr hinu bölvaða Egyptalandi faraós eða blóðsirkus Rómverja ef marka á svipmótið.

Ef guð kristinna manna er hálft naut og hálfur maður, hver er munurinn á honum Mínótárusi Grikkjanna?

Nema umræddur Yahweh sé einfaldlega gyðingleg útgáfa af honum og er þá komin nærtæk skýring á skepnuskap embættismanna kirkju hans í gegnum aldirnar gagnvart mannkyni.

En reynist svo vera, sem rannsóknir vísindamanna benda eindregið til, býð ég ekki í þjóðkirkjurolluna og kenningasull forystusauða hennar á komandi öld en spái því að þessi hugstola fénaður finnist sjálfdauður úr trúriðu í eigin þversagnaflór innan tíðar.

(Maí 2001)

Heimildir; Shanks, Hershel., The mystery and meaning of the Dead Sea Scrolls,
Vintage, 1998.
Laughlin, John C.H., Archaeology and the Bible, Routledge, 2000.

Einar Þorn 25.10.2003
Flokkað undir: ( Klassík , Messurýni )

Viðbrögð


Hjörtur - 12/05/04 07:07 #

Ég er með plan. upp á að við munum öll hvorteðer lenda í helvíti fyrir að velja ekki rétta guðinn gerðu þá eftirfarandi.

1) auglýstu í DV að þú viljir kaupa sálir af fólki 2) Keyptu þær en mundu að láta liðið skrifa uppá samning, nú getur tvennt gerst 1) fólkið fær bakþanka og viull kaupa sálina aftur á uppsprengdu verði (gróði,sem er mjög gott) 2) þegar þú deyrð mun guð sjá að þú ert ekki einn og þú getur kúgað hann til að mæta inn í himnaríki með því að gefa honum 2-3 sálir sem hann getur sent til helvítis eða hleypt inn og gert að þræl sem tilbiður hann-þar með ert þú kominn inn. svo geturu notað sálirnar se gjaldmiðil í himnaríki. clever ekki satt?

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.