Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Vertu öðruvísi!

Ég var aldrei með neinum í bekk sem var ekki í Þjóðkirkjunni (sjálfur var ég skráður í hana, skírður og fermdur). Ég man hins vegar eftir sögum af krökkum sem voru ekki í Þjóðkirkjunni frá því ég var í grunnskóla. Man sérstaklega eftir því að hafa verið sagt frá einum Votti Jehóva sem "fór fram og lærði stærðfræði" þegar kristinfræðitímar voru. Svona sögum fylgdi háðstónn skilningslausra barna.

Stundum hef ég heyrt fullorðið fólk tala um börn sem "fá ekki að vera með í kristinfræðitímum" og þá hafa fylgt með einhver orð um hvað sé leiðinlegt að foreldrarnir skuli gera börnunum þetta. Eru foreldrarnir grimmir? Ættu þeir ekki bara að leyfa skólakerfinu að kenna börnunum ríkistrúna? Ég er viss um að hið týpíska íslenska foreldri myndi leyfa barninu sínu að læra um Íslam ef dæminu yrði snúið við.... NOT einsog við sögðum um það bil sem ég var að fermast (þetta NOT þýðir að setningin á undan var ósönn ef einhver var í vafa). Hið týpíska íslenska foreldri yrði hneykslað, sárhneykslað á hverri tilraun til að stunda svona trúboð á varnarlausum börnum, þá væru foreldrarnir loksins að sjá þetta í réttu ljósi.

Sama hvað mér (og kannski þér) finnst Vottar Jehóvar vera heimskulegur hópur þá réttlætir það ekki að börn þeirra séu einangruð í grunnskóla vegna þeirra trúarbragða sem þau eru alin upp við. Vottar eru ekki einir um að vera niðurlægðir, þetta á líka við um trúlausa, Múslíma, meðlimi Hvítasunnusafnaða og Kaþólikka. Allt skal lúta vilja Þjóðkirkjunnar og Þjóðkirkjunni er alveg sama um sársauka þessara barna, markmið hennar er að reyna að fá þessi börn til að hætta að vera öðruvísi og fylgja hjörðinni.

Það er ekki auðvelt að vera öðruvísi í grunnskóla frekar enn í lífinu sjálfu, reyndar mun erfiðara en í lífinu sjálfu. Það hjálpar ekki að meirihlutinn (þó það sé hugsanlega ekki einu sinni meirihlutinn í þessu tilfelli) taki sig til og kúgi minnihlutann með þessum hætti. Þetta gerist í skólum okkar, þetta gerist með blessun ríkisins og án efa með blessun biskups.

Þetta er algjört siðleysi og þetta verður að stöðva, sterkasta vopnið í baráttunni gegn þessari svívirðu er að skrá sig utan trúfélaga. Ekki vera hluti af nenn'ekki hópnum! Fjöldinn er sterkasta vopn Þjóðkirkjunnar. Taktu afstöðu með trúfrelsi með því að skrá þig úr því félagi sem berst mest á móti því, það skiptir máli.

Óli Gneisti Sóleyjarson 22.10.2003
Flokkað undir: ( Siðferði og trú , Skólinn )