Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Trúboð í skólum

Á Íslandi er stundað trúboð í skólum, á því er enginn vafi. Það er fátt ómerkilegra en að markaðssetja vöru fyrir börn sem ekki hafa þann þroska til að taka markaðsetningunni á gagnrýnin hátt. Þetta gerir Þjóðkirkjan með fulltingi ríkisvaldsins. Hápunkti þessa markaðsátaks er náð þegar börnunum er mútað til að gerast fullgildir meðlimir í Ríkiskirkjunni.

Kristinfræðikennsla á Íslandi hefur það markmið að efla kristna trú, Ríkið reynir með öllum sínum mætti að halda kristinni trú á floti, án þessa bakhjarls þá myndi Þjóðkirkjan visna. Yfirborðskennd uppfærsla var gerð á kristinfræðinni árið 1999 þegar ný námsskrá kom út. Nýja námsgreinin heitir Kristin fræði, siðfræði og trúarbragðafræði en lítum á orðalagið í aðalnámsskrá: "Þá er náminu ætlað að hafa mótandi áhrif á skólastarfið, sem á að einkennast af lýðræðislegu samstarfi, kristilegu siðgæði og umburðarlyndi". Lesendur þessa vefs vita vel hvaða þversögn felst í orðunum "kristilegu siðgæði og umburðarlyndi", þetta er þá líklega umburðarlyndi Páls Postula eða hvað?

Á námsskránni er einnig hægt að finna þessa línu:"Kristin trú á sér rætur í sögulegum atburðum, allt frá tímum Gamla testamentisins, sem ná hámarki í lífi og starfi, dauða og upprisu Jesú Krists." Hér er ekki vafi á því hvaða trúarbrögð eru rétt! Líf, starf, dauði og upprisa Jesú er söguleg staðreynd samkvæmt aðalnámskrá! Ekki er pláss fyrir mitt viðhorf að hér sé um að ræða þjóðsögu frá Palestínu enda leyfir kristilegt umburðarlyndi ekki slíka vitleysu.

Ég reyndi að finna klausu um trúleysi í þessu riti en ekkert var þar að finna enda er ekkert pláss fyrir trúleysingja þrátt fyrir hið goðsagnakennda kristna umburðarlyndi (þetta orð "goðsagnakennt" þýðir hér "upplogna"). Það er ekki heldur minnst á að kenna eigi siðfræðina á heimspekilegum grunni og því virðist vera ljóst að hin svokallaða siðfræði er "kristin siðfræði" sem verðskuldar gæsalappirnar fyrir þá innbyggðu þversögn sem í henni liggur.

Samkvæmt námsskránni eiga börn í fyrsta bekk meðal annars að fara í kirkju. Það er engin tilviljun að aðalfræðslan um "önnur trúarbrögð" fer fram í níunda bekk, árið eftir að prestarnir hafa fengið tækifæri til að sökkva klónum í barnið. Loksins þegar heilaþvottarathöfnin sjálf hefur farið fram þá má byrja að fara yfir önnur trúarbrögð af alvöru.
Það er ekkert pláss fyrir trúboð í grunnskólum landsins þó það sé (illa) dulbúið sem heiðarleg námsgrein. Það er eitthvað mjög rotið í skólakerfinu og við þurfum að laga það án tafar. Þetta er svívirða! Trúfrelsi er fótum troðið, grundvallarmannréttindi eru höfð að engu af miskunnarlausum kerfisköllum Krists.

Óli Gneisti Sóleyjarson 19.10.2003
Flokkað undir: ( Skólinn , Stjórnmál og trú )

Viðbrögð


Siggi - 20/10/03 22:41 #

Já - kristinfræðin hafði allaveganna ekki mikil áhrifa á mig í grunnskóla, bara leiðinlegt fag sem maður þurfti að taka. Hafði trú þegar ég sótti tímana, en seinn í lífinu missti ég hana. Ekki mikil áhrif þarna. En mér finnst samt asnalegt að kristinfræði (eða hvað þetta heitir núna) skuli vera skylda í grunnskólanámi. Kannski finnst mér það bara vegna þess að ég er ekki trúaður, en það er kannski annað mál.


Margrét Erla - 23/10/03 14:31 #

Ég held að kristinfræðikennslan sé fyrst og fremst í bókmenntalegum tilgangi. Stór hluti af listaverkum byggist á sögum Biblíunnar. Og þú þarft ekki að trúa öllu sem þú lest.

Og ég lærði trúarbragðafræði í 7. og 8. bekk. HAHAHA!


Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 23/10/03 15:48 #

Svo ég taki "rök" þín fyrir eitt af öðru:

"Ég held að kristinfræðikennslan sé fyrst og fremst í bókmenntalegum tilgangi. Stór hluti af listaverkum byggist á sögum Biblíunnar." Þó að það sé á vissan hátt rökrétt að kenna um Biblíuna í bókmenntafræðilegum tilgangi þá er óþarfi að hafa kristinfræðikennslu í tíu ár til þess. Einn áfangi í 8-10 bekk ætti að duga til þess. Er kristinfræðikennsla almennt á meningarlegu og bókmenntafræðilegu nótunum?

Ef aðalmarkmiðið er að skilja tilvísanir þá gætum við alveg kennt Star Wars því það eru óendanlega margar tilvísanir í þær kvikmyndir í dægurmenningunni.

"Og þú þarft ekki að trúa öllu sem þú lest." Hér hefurðu alveg misst af grunninum að greininni sem er að kristinfræðin er kennd börnum sem eru alltof ung til að gera upp hug sinn í trúmálum.

"Og ég lærði trúarbragðafræði í 7. og 8. bekk. HAHAHA!" Ég veit ekki alveg hvernig ég að túlka þetta, heldurðu að ég hafi á einhvern hátt rangt fyrir mér þó einhverjir skólar fari ekki eftir Aðalnámskránni? Svo er augljóslega ekki.


Líf - 13/04/04 16:44 #

það er helst ein ástæða fyrir því að það eigi ekki að kenna hana. Hún er sú að kennarar þeir sem kenna þetta fag eru yfirleitt ekki undir það búnir og vita lítið um þessi mál nema þá á yfirborðslegan hátt, því miður og þar með missa þessi fræði/viska mátt sinn.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.