Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Forlagatrúarbölið

Mjög margir Íslendingar segjast vera forlagatrúar, að örlög þeirra séu þegar ákveðin af guði eða æðri máttarvöldum. Stundum má sjá þessa hryllilegu setningu þegar ungt fólk deyr á sorglegan og ótímabæran hátt "að þeir deyja ungir sem guðirnir elska". Síðan er stór hópur sem þakkar guði fyrir að hafa ekki farið á hinn og þennan stað, þar sem margir hafa slasast eða látist. Þetta sama fólk segir að það hafi ekki átt að deyja þennan umrædda dag. Satt best að segja er þessi boðskapur slæmur og segir sína sögu hræðslu og óvissu í lífi trúaðra. Ég get allavega ekki séð nokkra huggun í slíkum málflutningi nema síður sé. Augljósar ástæður liggja fyrir dauða hvers manns, hversu sorglegt sem fráfallið er, hefur það allt sínar ástæður.

Í flestum tilvikum er forlagatrú þannig ekki ígrunduð og heimskuleg. Enda fátt um svör þegar þau sem trúa á slíkt eru krafin útskýringa á framkvæmd þessa forlagakerfis, sem hlýtur að vera mjög flókið í framkvæmd. Hins vegar er augljóst að forlagatrúin með guð almáttugan að verki gengur ekki upp í nútíma samfélagi. Því til dæmis augljósar aðgerðir yfirvalda til að auka öryggisbeltanotkun eða þjálfa sjómenn í slysvarnaskóla koma í veg fyrir ótímabær dauðsföll og slys. Sama gildir um nútíma lækningar sem koma í veg fyrir dauða og alvarlega sjúkdóma. Með þessu er forlagaguðinn gerður atvinnulaus og settur á hliðarlínuna, því augljós tölfræði sem sannar fækkun dauðsfalla vegna ráðstafana okkar getur ekkert annað en afsannað þetta.

Það er hollt að líta til baka þegar kirkjan barðist hart gegn bólusetningu og ráðstöfunum til að auka lífslíkur almennings. Sérstaklega var Kaþólska kirkjan alræmd í þessum efnum og mörg þúsund manns létust af illvígum sjúkdómum vegna þess að prestar hvöttu fólk til að storka ekki forlögunum með bólusetningu. Kristin trú hefur því miður haldið við þessum fáránleika sem ennþá lifir með þjóðinni fram til dagsins í dag. Því oft má heyra opinberlega menntaða guðfræðinga nota sér forlagatrúna þegar vel gengur og þakka guði eitthvað jákvætt sem gerst hefur, til dæmis minna tjón i jarðskjálftum eða slysum. Þegar í raun ætti að þakka betri jarðskjálftavörnum eða hugvitsamlegum slysavörnum.

Í raun eru prestar og trúmenn sem kynda undir forlagatrúnni hættulegir hverju samfélagi. Slíkur áróður slakar á byrgð hvers einstaklings á eigin örlögum með því að hvetja til kæruleysis, því allt sé ákveðið með vilja guðs. Það er löngu kominn tími til að þetta forlagatrúarböl verði gert brottrækt úr íslensku samfélagi öllum til heilla.

Frelsarinn 14.10.2003
Flokkað undir: ( Klassík , Rökin gegn guði )