Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Siðþjónustur

Það er alkunn staðreynd að sóknarkirkjur landsmanna standa meira og minna auðar árið um kring. En það má breyta því með auðveldum hætti.

Sterkar líkur eru á því að þeir sem fjölmenna í kirkjur á jólum og páskum daufheyrist við þeim boðskap sem hljómar frá altarinu. Þetta fólk er einfaldlega komið þarna til að ná sér í smá stemningu í tilefni hátíðarinnar. Rausið í prestinum á ekki frekar hljómgrunn hjá kirkjugestum en samhengislaus romsan upp úr öldungi með elliglöp. Hvort tveggja getur hljómað fallega þótt engin skynsemi leynist á bakvið.

Guðsþjónustur eru einfaldlega leikrit. Leiðinleg, samhengislaus leikrit með tónlist sem getur verið ágæt. Og ætli það sé ekki orgelið og kirkjuklukkurnar sem kalla fram stemninguna þegar allt kemur til alls?

Á milli stórhátíða standa þessi hús nær tóm þegar guðsþjónustur eru í gangi. Sem betur fer eru þau þó nýtt til tónleikahalds og bæta þannig úr brýnni þörf fyrir tónlistarhús.

Þessa döpru mætingu mætti bæta með nýjum áherslum. Nú er það nefnilega svo að flestir hafa áhuga á siðfræðilegum bollaleggingum og pælingum um siðferði, þótt þeir nenni ekki að gera sér ferð til að hlusta á prestinn sinn tuða um skyldur manna við Guð. Ef prestunum yrði nú skipt út af og yfirnáttúran þeirra öll látin lönd og leið mætti troðfylla kirkjur alla sunnudaga.

Í stað guðsþjónustu kæmu siðþjónustur. Í stað presta kæmu siðfræðingar, aðrir heimspekingar og auðvitað leikmenn. Hafa mætti eitt málefni á dagskrá, einn eða tvo fyrirlestra um málið og loks umræður þar sem allir geta tekið þátt.

Það er tímaskekkja að halda úti fjöldamörgum húsum með kyndikostnaði og þrifum fyrir afmarkaða siðfræði einnar gamallar bókar. Það hefur ýmislegt gerst í þessum efnum frá því Biblían kom fyrst út og flest af því er einfaldlega miklu áhugaverðara en þrælasiðfræði júdókristninnar.

En hvað ætti að gera við prestana? Þeir gætu haldið áfram að vera forstöðumenn sóknarkirkna sinna, stýrt umræðum og kynnt afstöðu kristninnar til þess málefnis sem uppi er hverju sinni. Svo mætti jafnvel gera úr þeim dagskrárlið sem fælist í debati við frummælendurna.

Tónlistin mynd halda sér í dagskránni, en á breiðari forsendum en fyrr, því hún yrði ekki bundin af því að vera trúarleg. Þarna mætti stilla upp strengjakvartettum og blásarakvintettum, jafnvel djasskombóum og blúsgrúppum. Nóg er úrvalið.

Sjáið öll störfin sem þetta myndi skapa. Vilhjálmur Árnason og félagar í heimspekinni fengju drjúgar aukatekjur, sagnfræðingar gætu jafnvel loksins búist við að fá gigg utan skólanna. Og allt tónlistarfólkið okkar hefði loksins nóg að bíta og brenna.

Ég myndi ekki láta mig vanta í kirkju nokkurn einasta sunnudag.

Birgir Baldursson 28.09.2003
Flokkað undir: ( Klassík , Siðferði og trú )

Viðbrögð


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 28/09/03 22:29 #

Smá viðbót: Ég tek eftir því að ég hef verið mun berorðari þegar ég ber þessa hugmynd upp á spjallþráðum Striksins um síðustu áramót:

Breytum "guðþjónustum" í "hugþjónustur", þar sem siðfræðingar og leikmenn ræða heimspekileg og siðfræðileg málefni og fallegri tónlist er skotið inn á milli dagskrárliða (nóg er til af góðu tónlistarmenntuðu fólki sem ráfar um hálf verkefnalaust meðan talentlausir organistar með tíu þumalputta klúðra einföldum sálmum í fastri vinnu sunnudag eftir sunnudag). Út með guði, upprisur, heilagan anda, galdraþulur og annað yfirnáttúrudrasl, inn með siðrænan húmanisma, frjálsa hugsun og góða tónlist.

Það er enn betri hugmynd að kalla þetta "hugþjónustur".

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.