Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Kristilegt ofbeldi gegn börnum

elisa.jpg 2Kon2:23Þaðan hélt hann [Elísa] til Betel. Og er hann gekk upp veginn, gengu smásveinar út úr borginni, hæddu hann og kölluðu til hans: "Kom hingað, skalli! Kom hingað, skalli!" Sneri hann sér þá við, og er hann sá þá, formælti hann þeim í nafni Drottins. Þá komu tvær birnur út úr skóginum og rifu í sundur fjörutíu og tvo af drengjunum.

Það er fátt sem kallar fram jafn sterk viðbrögð og ofbeldi gegn börnum. Í dag fara prestar og biskup landsins oftar en ekki fremstir í flokki í gagnrýni á ofbeldisverk. Það er því skelfilegt að sömu menn dreifi blygðunarlaust biblíunni og kristinfræði til barna. Í kristinfræðslunni er með helgislepju kastað ryki í augu barnanna og gefið í skin að kristni sé kærleikur.

Í kristnum messum hér á landi vitna prestar jöfnum höndum í gamla testamentið sem og það nýja og upphefja kristna trú. Ást þessarar stéttar manna á spámönnum, lærsveinum, postulum og öðrum fornum öndum virðast þar engin takmörk sett. Aldrei hef ég séð prest gagnrýna ritninguna opinberlega. Til að valda ekki hneykslan tipla þeir á tánum í kringum viðbjóðslegan texta biblíunnar til að matreiða í landann áróðri sínum. Áróðurinn er eins og vel saman sett áróðurskvikmynd þriðjaríkisins. Í þeim myndum voru útrýmingarbúðirnar aldrei sýndar heldur aðeins ást foringjans á undirgefni þjóð sinni. Nákvæmlega þannig er Þjóðkirkjuáróðurinn sem landsmenn þurfa að búa við frá blautu barnsbeini.

Skoðum sýnishorn af ógeðslegum textum biblíunnar um meðferð guðs á börnum:

Sálm 137:9 Heill þeim er þrífur ungbörn þín og slær þeim niður við stein.

Jes 13:16 Ungbörn þeirra munu knosuð verða fyrir augum þeirra, hús þeirra verða rænd og konur þeirra smánaðar.

Hós 14:1 Samaría fær að gjalda þess, að hún hefir sett sig upp á móti Guði sínum. Fyrir sverði skulu þeir falla, ungbörnum þeirra skal slegið verða niður við og þungaðar konur þeirra ristar verða á kvið.

Hver hefur ekki heyrt af því að börn hafi verið lamin til hlýðni hér fyrr á tímum þegar guðsótti var landlægur fjandi hér á landi. Allt hefur þetta sínar skýringar sem má fræðast um í biblíunni:

Orðk 13:24 Sá sem sparar vöndinn, hatar son sinn, en sá sem elskar hann, agar hann snemma.

Orðk 19:18 Aga þú son þinn, því að enn er von, en farðu eigi svo langt, að þú deyðir hann.

Orðk 22:15 Ef fíflska situr föst í hjarta sveinsins, þá mun vöndur agans koma henni burt þaðan.

Orðk 24:13 Spara eigi aga við sveininn, því ekki deyr hann, þótt þú sláir hann með vendinum.

Orðk 29:15 Vöndur og umvöndun veita speki, en agalaus sveinn gjörir móður sinni skömm.

Þekktar eru allskonar afsakanir og væll guðfræðinga nú á tímum um að þetta sé gamla testamentið sem verði að líta á sem gamla sáttmálann, að þetta sé skrifað af mönnum í fornu samfélagi og eigi ekki við í dag eða að við verðum að lesa þetta allt í ljósi Jesú Krists. Við skulum þá skoða hluta af illskunni sem ljós Jesú Krists boðar börnum þessa heims.

Í meintu Nóaflóði (sem öll grunnskólabörn fræðast um í kristinfræði) er óteljandi fjölda barna drekkt af geðstirðum og brjáluðum guði fyrir að eiga ekki foreldra sem haga sér ekki samkvæmt lögmálinu. Í samkeppni við föðurinn boðar Jesú, sjálfur mannsonurinn, sömu örlög til milljóna barna með endurkomu sinni:

Mt24:37 Eins og var á dögum Nóa, svo mun verða við komu Mannssonarins. …39 Og þeir vissu ekki, fyrr en flóðið kom og hreif þá alla burt. Eins verður við komu Mannssonarins…

Þegar meintur frelsari mætir aftur eru líka ófædd börn og brjóstmylkingar ekki velkomnir:

Mt24:19 Vei þeim sem þungaðar eru eða börn hafa á brjósti á þeim dögum.

Ekki mun ástand innan fjölskyldna batna með endurkomu Jesú:

Mt10:21 Bróðir mun selja bróður í dauða og faðir barn sitt. Börn munu rísa gegn foreldrum og valda þeim dauða.

Ég held að allt siðmenntað fólk óski þess að Jesú komi aldrei aftur til jarðar slík er ofbeldisdýrkunin og illskan með endurkomunni.

Hver þekkir ekki söguna um eyðingu guðs á Sódómu og Gómorru með öllu íbúum, jafnt gamalmennum sem börnum. Jesú Kristur var fljótur að tileinka sér fjöldamorð föður síns, þegar hann fékk ekki fulla athygli frá íbúum þar sem hann átti að hafa messað sagði hann:

Mt 11:20 Þá tók hann að ávíta borgirnar, þar sem hann hafði gjört flest kraftaverk sín, fyrir að hafa ekki gjört iðrun. 21"Vei þér, Korasín! Vei þér, Betsaída! Ef gjörst hefðu í Týrus og Sídon kraftaverkin, sem gjörðust í ykkur, hefðu þær löngu iðrast í sekk og ösku. 22 En ég segi ykkur: Týrus og Sídon mun bærilegra á dómsdegi en ykkur 23 Og þú Kapernaum. Verður þú hafin til himins? Nei, til heljar mun þér steypt verða. Ef gjörst hefðu í Sódómu kraftaverkin, sem gjörðust í þér, þá stæði hún enn í dag. 24 En ég segi yður: Landi Sódómu mun bærilegra á dómsdegi en þér.

Ekki tekur betur við þegar frelsarinn umbunar karlmönnum að yfirgefa börnin sín:
Mt19:20 Og hver sem hefur yfirgefið heimili, bræður eða systur, föður eða móður, börn eða akra sakir nafns míns, mun fá margfalt aftur og öðlast eilíft líf.

Á meintum tímum Jesú voru karlmenn fyrirvinnur hvers heimilis og öfluðu matar þannig að börn þessara feðra sem fá hásæti í himnaríki deyja út hungri þökk sé Kristi.

Í endalausu sjálfsdekri og einræði krefst Jesú að börn jafnt sem foreldrar elski sig mest, því annars bíða þeirra kvalir í eldsofni:

Mt10:37Sá sem ann föður eða móður meir en mér, er mín ekki verður, og sá sem ann syni eða dóttur meir en mér, er mín ekki verður.

Til að undirstrika einræðisbrjálæðið má ekkert kristið barn kalla föður sinn föður:

Mt23:9 Þér skuluð ekki kalla neinn föður yðar á jörðu, því einn er faðir yðar, sá sem er á himnum. Þér skuluð ekki heldur láta kalla yður leiðtoga, því einn er leiðtogi yðar, Kristur...

Þessi skelfilega foringjadýrkun er lýsandi dæmi um brjálæðið í kristinni trú. Er þetta virkilega siðfræðin sem viljum kenna börnunum okkar?

Nú til að kórana ógeðið og siðleysið er Lot kallaður í öðru Pétursbréfi:

2:8 En hann frelsaði Lot, hinn réttláta mann, er mæddist af svívirðilegum lifnaði hinna guðlausu. 8á réttláti maður bjó á meðal þeirra og mæddist í sinni réttlátu sálu dag frá degi af þeim ólöglegu verkum, er hann sá og heyrði.

En hinn guðhræddi og "réttláti" Lot bauð dætur sínar til nauðgunar undir trylltan líð í fyrstu Mósesbók 19:8 Síðan drukkinn nauðgar Lot dætrum sínum og barnar þær í 19:30-38. Ekki þekki ég neinn þann ógeðslega perra og ofbeldismann sem ímyndar sér að dætur þeirra hafi áhuga á slíkum viðbjóði. Það eru sem sagt barnaníðingar sem eru "réttlátir menn" í nýja testamentinu. Er hægt að bera virðingu fyrir meintum Pétri Postula og biblíunni? Siðferðilega segi ég NEI.

Það er magnað að heyra sömu setninguna sem prestar tyggja í sífellu til að þvo munn sinn og samvisku: "Leyfið börnunum að koma til mín, varnið þeim eigi, því að slíkra er himnaríki." Auðvitað lýsir það óendanlegri fátækt kristinnar trúar að ekkert annað finnist um hlutskipti barna í nýja testamentinu, sem ekki boðar eitthvað illt. Jafnvel þessi tilgerðarlega setning vekur upp spurningar um hvernig viljalaus börn eru valin í þúsundáraríkið. Tilgangurinn helgar meðalið.
Kristindómurinn er rotið og skemmt epli sem ekkert barn ætti að þurfa að bragða á, hvorki í skóla né af opinberum aðilum. "Leyfið börnunum að koma til mín" er einfaldlega viðvörun til foreldra á sama hátt og þegar fréttist af manni sem býður börnum nammi við leiksvæði þeirra. Látum meintan Jesú Krist hafa lokaorðið:

Mt 14:4 Guð hefur sagt: "Heiðra föður þinn og móður og Hver sem formælir föður eða móður, skal dauða deyja"

Frelsarinn 20.09.2003
Flokkað undir: ( Klassík , Kristindómurinn )

Viðbrögð


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 26/09/03 23:38 #

Þessi saga um Elísa og birnurnar er alveg týpísk lygasaga sem ætlað er að vitna um mátt drottins. Það er eins og boðberum hans finnist aldrei nóg komið af vitnisburði og því detta þeir oft í þessa gryfju að gera hann að algeru skrímsli.

Einungis trúgjarnir vesalingar óttast drottin af þessum vitnisburði og bera lotningu fyrir honum. Við hin missum bara alla virðingu fyrir þessum brjálaða valdasjúklingi sem okkur er sagt að sé hið góða og elski alla.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.