Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Glæpur Guðs gegn mannkyninu

Því er haldið fram að Jesús Kristur sé sonur Guðs, skapara heimsins og mannsins og hafi verið sendur af honum til Jarðar fyrir tveimur aldatugum til kennslustarfa.

Í þann tíð trúðu menn því að illir andar yllu því sem í dag er kallað geðsjúkdómar. Jesús þessi var ekkert að leiðrétta það en sýndi þess í stað nokkur trikk þar sem þessum öndum var t.d. fyrirkomið í svínahjörð. Hann viðhélt semsagt vanþekkingunni, þrátt fyrir að eiga að vita betur.

Ég ákæri hér með Jesú Krist fyrir þann höfuðglæp gegn mannkyninu að liggja á upplýsingum sem komið hefðu milljörðum manna til hjálpar undanfarin 2000 ár. Öll þjáningin, eymdin og volæðið sem fjarvera lyfja og þekkingar hefur valdið er meiri en tárum taki. Af einhverjum óskiljanlegum orsökum virðist það vilji Guðs og Jesú að mannkynið finni sjálft lausnir á volæði sínu, þó það kosti þögla kvöl tugmilljóna ungabarna sem deyja í fangi móður sinnar, árþúsundum saman.

Ég ákæri Jesú Krist fyrir að hafa legið á þekkingu sem leitt gat af sér öfluga og góða uppskeru, nýtingu orkulinda, veðurspárgerð, loftkælingu og húshitun, fjarskipti, bólusetningartækni, hraðskreiðan fararmáta, fullkomið hagkerfi og ótal aðra hluti sem hefðu auðveldlega geta dregið úr fátækt og hungri, kvölum, fáfræði og eymd, hefðu getað gert mannkyni kleift að lifa sem frjálsborið og upplýst fólk í réttlátu samfélagi og með góð tök á náttúrunni.

Það eina sem Jesús þessi hefur sér til málsvarnar er að hafa ekki í raun verið sonur Guðs, og því ekki með alla þessa vitneskju í farteskinu.

Þannig hlýtur því að vera háttað, hin myndin er of yfirgengileg.

Birgir Baldursson 26.08.2003
Flokkað undir: ( Klassík , Rökin gegn guði )

Viðbrögð


Selma - 26/08/03 11:33 #

Ég hef bara 3 spurningar til þín Birgir og vona að þú getir svarað mér út frá þínu hjarta en ekki byrja að tala um aðra eða vitna í einhverjar bækur.

1.Ertu eitthvað ósáttur við lífið. 2.Hvernig nennir þú að velta þér svona MYKIÐ upp úr þessu. 3.Hvað færðu út úr þessu öllu.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 26/08/03 16:13 #

Ég spyr á móti, Selma: Spyrðu þá í kringum þig sem aðhyllast fótbolta, tölvuleiki, fjallaferðir, kynlíf eða hvað annað sem er meira en góðu hófi gegnir hvort þeir séu ósáttir við lífið? Bullan sem situr með ensku knattspyrnuna á blasti um hverja helgi, jafnvel með félögunum á sportpöbbnum, er einmitt að taka þátt í lífinu út frá sinni eigin forgangsröð. Boltinn gefur kikk.

Það gera skrif um trúmál líka. Ég er bara tjáningarfullur þegar kemur að útsýn minni á heiminn, því mér finnst svo margir í kringum okkur vera að burðast með skakka og skælda mynd af þessu öllu, mynd sem kostar þá fullt af óþarfa orku og hömlum.

Svarar þetta einhverju?


rakel - 08/09/03 03:55 #

Eins og þú segir þá er þessu haldið fram af mönnum, fólki og ekki sonum guðs. Allt það sem hefur verið skrifað er einnig haldið fram af mönnum. Ég kannast ekki við þessar sögur af svínahjörðum en ég líka gafst upp á að lesa biblíuna, fannst hún vera dálítið smituð af henni Gróu á Leiti.

En hugmyndin um Jesú hefur nú nokkurnvegin svarið við því hvernig skal útrýma því hrikalega ástandi sem ríkir í mörgum heimsins löndum. Það væri þá að deila ríkidæminu betur niður.

Ég vildi þó aldrei halda því fram að Jesú sé sannur eða ósannur. Bíð betri tíma til að komast að því. Og aldrei vildi ég hvetja nokkurn mann til að fylgja trúarhópum hvort sem þeir eru ríkisreknir eða á spena fylgjenda sinna.

En þú hlýtur þó að sjá að ekki er hægt að ákæra mann sem þú segir sjálfur að hafi verið ófær um að fremja þá glæpi sem þú talar um?

Og hvað kemur húsahitun og loftkæling og allt hitt þessu við? Samkvæmt sögunni þá var Jesú maður og hlýtur því að hafa þurft að læra eins og við hin lærum allan andskotann. Jósef kenndi honum víst að smíða!


Gylfi Ólafsson - 08/09/03 14:36 #

Sæll Birgir Ég verð að vera ósammála þessum pól sem þú tekur í hæðina. Aðalmálið tel ég ekki vera að Jésú hafi verið að hylma yfir mikilvægar upplýsingar, heldur miklu heldur að hann hafi innprentað skakkan hugsanagang. Hugsanagangurinn um að e-ð æðra sé til í heiminum, sem leiðir oft í örlagatrú í e-i mynd, heldur aftur af vísindaþróun. Enda var það kirkjan sem barði vísindaþróunina niður á sínum tíma, og gerir enn að hluta til.

Með öðrum orðum; upplýsingarnar eða þekkingin sem slík hefði verið algerlega ónothæf fyrir mannkynið, en heimsmyndin sem Jésú predikaði er vandamálið og aðaláhrifavaldur í því hvernig mannheimar hafa þróast.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 08/09/03 17:00 #

Kæri Gylfi!

Spurningin hér er sú hvort sá guð sem sagður er algóður geti horft upp á eymd og volæði heimsins án þess að grípa í taumana. Ef Jesús bjó að hinstu rökum tilverunnar og færði mannkyni þau ekki til hagnýtingar, heldur viðhélt ranghugmyndum um veröldina er hann ekki verður þess að kallast guð, þótt alvitur sé.

Minn stóri punktur er þessi: Jesús getur ekki hafa verið guð, því það sæmir ekki guði að halda mönnum í þeim ranghugmyndum að illir andar valdi geðsjúkdómum, vitandi það að kirkjan myndi í aldaraðir stemma stigu við framþróun læknavísindanna á forsendum þess sem stendur í Biblíunni.

Blóðug og myrk saga kristindómsins er einfaldlega lifandi sönnun þess að fullyrðingin um að Jesús hafi verið guð er röng. Almennilegur guð hefði komið í veg fyrir allan þann viðbjóð með því að hafa trúarritið öðruvísi, ekki satt?


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 08/09/03 17:02 #

Rakel: Sé fullyrðingin um guðdóm Jesú rétt, þá ákæri ég. Ef hún er röng hefur hann það sem málsvörn og málið er látið niður falla.


Davíð - 09/09/03 13:12 #

Hann tók á sig þinn dóm, minn og alls heimsins. kveðja Davíð


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 09/09/03 14:03 #

Kæri Davíð!

Hvernig geturðu vitað þetta fyrir víst? Hvað veistu nema þetta sé aðeins ósvífin kirkjulygi sett fram með það eitt að markmiði að hneppa óuppdregna alþýðuna í hugsanaánauð?


Jón Gunnarsson - 29/09/03 09:11 #

Ég veit að Jésús lifir en. Hvað sem ég skrifa hér mun ekki breyta skoðun þinni á kristindómnum. Það er rétt að margt slæmt er í sögu kristninnar, en í henni er margt gott líka. ,,Hér er enginn Gyðingur né grískur, þræll né frjáls maður, karl né kona. Þér eruð allir eitt í Kristi Jésú.´´ úr Galatabréfi Páls Postula 3:28.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.