Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Hvers vegna ekki að sleppa bara Biblíunni?

Mynd af biblíu

Í maí upphófst hinn árlegi ágreiningur innan ríkiskirkjunnar vegna reglna um samviskufrelsi presta gagnvart giftingum hinsegin fólks í opinberum kirkjum landsins. Árið 2010, þegar ein hjúskaparlög voru samþykkt á Alþingi, voru settar sérstakar reglur innan ríkiskirkjunnar sem hafa verið í gildi fyrir starfsmenn hennar, jafnvel þó það stangist eitthvað á við lög um opinbera starfsmenn.

Samviskufrelsið er aðferð sem opinberir embættismenn ríkiskirkjunnar geta beitt til að neita að framkvæma sínar lögbundnu starfsskyldur, þó það sé viðkomandi “til vanvirðu og álitshnekkis”. Frekari rökstuðning fyrir þessu fyrirkomulagi má lesa í umsókn Prestafélags Íslands(.pdf) frá því í maí 2010 þar sem óskað er “að borin sé virðing fyrir þeim veruleika að ekki deila allir vígslumenn Þjóðkirkjunnar sama hjónabandsskilningi.

Unga fólkið ályktar

Snemma í maí 2015 birtist ályktun um samviskufrelsi presta frá Kirkjuþingi unga fólksins. Í ályktuninni var meðal annars lögð sérstök áhersla á að prestar væru opinberir starfsmenn og megi því auðvitað ekki mismuna þegar kemur að athöfnun ríkiskirkjunnar.

[V]ið erum nógu snjöll til að vita að margt sem stendur í Biblíunni á ekki við í nútíma samfélagi. Hvers vegna erum við ekki nógu snjöll til að sjá að mismunun gegn hinsegin fólki, á ekki heima í kirkju samtímans?

Snjallt að nota orðið snjöll þarna. Hvað með þessa snjöllu spurningu: Af hverju erum við þá ekki nógu snjöll til að sleppa bara biblíunni? Maður þarf ekki að vera bókstafstrúaður til að sjá að heilu kaflarnir í þessari bók hafa verið notaðir til að réttlæta ólýsanleg grimmdarverk, gegn manneskjum og menningu, öldum áður og fram á okkar tíma.

Biblían er barefli

Biblían, sama hvernig hún er lesin eða túlkuð, er gagnslaus þegar kemur að siðferðis- og þjóðfélagsmálum. Hún er ávallt ágreiningsefni og hefur verið í aldaraðir. Á meðan hópur fólks veitir henni sérstakan sess í samfélaginu, sem eitthvað merkilegra fornrit en önnur, er hægt að nota hana til að mismuna samkynhneigðum og öðrum, sem er óumdeilanleg og regluleg afleiðing boðskapsins sem margir virðast meðtaka úr Biblíunni.

Vegna þess hvað þetta rit er mistúlkað og misskilið og byggir auk þess á afar veikum stoðum og heimildum sem eru margar hverjar uppskáldaðar, er einfaldlega betra að sleppa þessu bábiljubulli og finna eitthvað annað og betra til að styðjast við. Hugmyndir óupplýstra og ofbeldisfullra bronsaldarmanna eiga lítið skylt við upplýst, nútímalegt, sanngjarnt og réttlátt þjóðfélag og tengjast því ekkert hvernig opinber og lýðræðisleg stjórnsýsla starfar.

Meðan ríkið styður við eina sérstaka kirkjudeild í stjórnarskrá mun þjóðfélagið búa við þann veruleika að innan opinberrar stjórnsýslu á 21. öldinni munu áfram starfa örfáir bjúrókratískir miðaldarmenn sem sem vilja ekki þjónusta sumt fólk vegna þess að Biblían þeirra segir nei.

Notað gegn fólki

Til að stemma almennilega stigu við mismunun er ekki nóg að afnema reglur um samviskufrelsi presta hjá ríkiskirkjunni. Það þarf að rifta öllum samningum við þessa stofnun, afnema ríkiskirkjuna úr stjórnarskránni og moka öllu heila klabbinu úr lögum og stjórnsýslu, sem þarmeð setur Íslensku Evangelísku Lúthersku kirkjudeildina i sama sess og öll hin lífsskoðunarfélögin. Síðan þarf að halda í hávegum alþjóðlegum mannréttindasáttmálum.

Ríkiskirkjan er dragbítur á þjóðfélaginu. Ef fólk telur hana í alvöru vera einhvern sérstakan siðferðisáttavita þá er þetta gamall og saltryðgaður kompás með brotna ör sem bendir bara suður. Að uppi hafi verið heilu þjóðfélagshóparnir sem héldu að þetta væri eina og rétta leiðin þegar tilveran hefur upp á svo margar aðrar mun betri, skemmtilegri og uppbyggilegri leiðir að bjóða mun sæta furðu í mannkynssögutímum framtíðar. Tími ríkiskirkjunnar er löngu liðinn og hefði í raun aldrei átt að vera. Og Biblían er úrelt og hættulegt drasl.

Ritstjórn 12.06.2015
Flokkað undir: ( Biblían , Efahyggja )

Viðbrögð


Oddur - 12/06/15 10:27 #

Hvernig væri að þeir færu bara eftir stjórnaskrá.

65. gr. Allir skulu vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti.

Sýnið viðbrögð, en vinsamlegast sleppið öllum ærumeiðingum. Einnig krefjumst við þess að fólk noti gild tölvupóstföng, líka þegar notast er við dulnefni. Ef það sem þið ætlið að segja tengist ekki þessari grein beint þá bendum við á spjallborðið. Þeir sem ekki fylgja þessum reglum eiga á hættu að athugasemdir þeirra verði færðar á spjallborðið.

Hægt er að nota HTML kóða í ummælum. Tög sem virka eru: a href, b, i, u, br, p, strong, em, ul, li og blockquote. Einnig er hægt að notast við Markdown rithátt í athugasemdum. Notið skoða takkann til að fara yfir athugasemdina áður en þið sendið hana inn.