Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Svartir straumar og annað kjaftæði

Mynd af segulsviði

Samkvæmt kenningunni um jarðarveiki (geopathic stress) eru svartir straumar (black streams) sem flæða eftir orkulínum jarðarinnar og mynda svokölluð jarðfræðileg streitusvæði. Straumarnir eiga að myndast vegna vatnsæða og steinefna í jarðveginum og eiga að hafa skaðleg áhrif á gróður, heilsu manna og dýra.

Þeir sem aðhyllast hugmyndina vara fólk við því að búa þar sem svartir straumar flæða og sérstaklega að hafa rúmstæði sitt staðsett þar sem þeir krossast. Meintir rannsakendur svartra strauma (sem aðhyllast hugmyndina) segja að straumarnir valdi hjónaskilnuðum, krabbameinum, þunglyndi, hegðunarröskunum, gnístan tanna í svefni og svitaköstum, geðvonsku, pirring og nánast öllum sjúkdómum og geðröskunum sem greindar eru. Sem dæmi má nefna að gjarnan tala þeir um „krabbameinshverfi” og „krabbameinsgötur” þar sem orkumiklir svartir straumar eiga að liggja (Valdemar G. Valdemarsson, 2009).

Á Íslandi hefur nuddarinn Brynjólfur Snorrason rannsakað svarta strauma. Fljótlega eftir að hann tók að starfa við nudd fór hann að furða sig á því hversu margir þeirra sem fengu hjá honum góða bót versnuðu fljótt aftur. Brynjólfur rannsakaði húsakost þessa fólks og útskýrir afturför skjólstæðinganna með því að undir húsum þeirra liggi svartir straumar. Að hans sögn hefur hann þróað tæki, svokallaða spólu, sem eyðir áhrifum svörtu straumanna og myndbandsupptökuvél sem greinir jarðárur og orkusvið í umhverfi mannslíkamans (Valdemar G. Valdemarsson, 2009).

Í bókinni „Are you sleeping in a safe place?” (Valdemar G. Valdemarsson, 2009) eru sagðar reynslusögur af fólki sem á að hafa orðið veikt vegna svartra strauma. Höfundur bókarinnar missti son sinn úr krabbameini, en rétt fyrir andlát hans komst höfundurinn að því að rúm sonarins væri yfir svörtum straumum. Í bókinni er meðal annars sögð saga af stúlku sem greindist með hvítblæði í byrjun árs 1984. Stúlkan fór í lyfjameðferð og mergskiptingu og var síðan útskrifuð af spítalanum í nóvember sama ár. Þegar stúlkan kom heim til sín var hún látin sofa í rúmi móður sinnar og byrjaði henni jafnt og þétt að batna. Í byrjun mars 1985 flutti stúlkan í sitt eigið rúm og nokkrum vikum síðar fór hún í læknisskoðun og kom í ljós að henni hafði hrakað og hún væri dauðvona.

Í neyð sinni fékk fjölskyldan til sín „mælingarmann” sem komst að því að undir rúmi stúlkunnar krossuðust svartir straumar. Rúmið hennar var fært til og stúlkan var laus við hvítblæðið nokkrum mánuðum síðar (Valdemar G. Valdemarsson, 2009).

Kennslukonan Kathe Bachler gaf út bók sem nefnist „Discoveries of a dowser” (Valdemar G. Valdemarsson, 2009) en þar styður hún kenningar sínar um svarta strauma með reynslu sinni af þeim. Hún segist hafa komist að því að 95% barna sem eigi erfitt með nám megi rekja til þess að skrifborð þeirra í kennslustofunni séu yfir svörtum straumum. Við að færa skólaborðin til segir Bachler að börnin hafi náð betri árangri en áður í náminu.

Ennfremur segja þeir sem aðhyllast hugmyndina um svarta strauma að rannsóknir þeirra á fornum menningar-samfélögum, til dæmis í Kína og S-Ameríku, sýni að nánast aldrei hafi hús verið staðsett yfir svörtum straumum. Telja þeir að hér geti ekki verið um tilviljun að ræða (Mercola, 2000).

Þeir sem mæla svarta strauma notast gjarnan við pendúl, stálprjóna eða spákvist. Þegar notast er við stálprjóna á að halda á einum prjón í hvorri hendi, og á sá sem mælir að einbeita sér að neikvæðum straumum. Síðan á fólk að ganga rólega áfram og ef prjónarnir snúast er fólk búið að finna svarta strauma.

Önnur leið til að mæla svarta strauma á að vera að fylgjast með svefnhegðun ungra barna. Fylgjendur hugmyndarinnar segja að ung börn skynji hvort tilteknir staðir séu hættulegir heilsunni eða ekki. Ef ungbarn breytir um stellingu í svefni og hjúfrar sig saman öðru megin í rúmið getur það verið vísbendi um að svartir straumar séu undir rúminu (Mercola, 2000).

Rökin sem fylgjendur hugmyndarinnar um svarta strauma nefna eru flest á svipuðum nótum og dæmin hér að ofan. Dæmisögur af mjög veiku fólki sem batnar eftir að rúmstæði þeirra er fært til eru algengar. Slíkar dæmisögur skýra ekki neitt. Sá sem reynir eina meðferð getur ekki vitað hvað hefði gerst ef hann hefði gert eitthvað allt annað. Bati sem næst skyggir á alla aðra reynslu. Þannig er ekki vitað hvað hefði gerst hefði stúlkan með hvítblæðið sofið ennþá í rúmi móður sinnar.

Gangur sjúkdóma er oftast í rykkjum, með slæmum og góðum tímabilum. Fólk leitar sér oft meðferðar þegar líðanin er verst. Þannig getur hvaða meðferð sem er virst bera árangur þrátt fyrir að vera gagnslaus því líklegast er að fólki skáni eftir að hafa liðið illa lengi (tölfræðilegt aðhvarf). Nuddarinn Brynjólfur Snorrason hefur ekki skilning á tölfræðilegu aðhvarfi og áttar sig ekki á því að skýra megi afturför kúnnanna með tölfræðilegu aðhvarfi í stað svartra strauma. Eða einfaldlega vegna þess að hann sé slæmur nuddari?

Bættan námsárangur nemenda Kathe Buchler má skýra á marga aðra vegu heldur en með svörtum straumum. Sem dæmi mætti nefna að líklegt er að Kathe hafi sýnt þessum nemendum meiri athygli, eftir að hún færði skrifborð þeirra til, sem gæti hafa aukið áhuga þeirra á náminu. Það er líka tekið fram að Kathe byggir hugmyndir sínar um svarta strauma á eigin reynslu en ekki raunprófunum.

Eins er það engin röksemdarfærsla að halda því fram að tilviljun geti ekki hafa ráðið röðun húsa í fornum menningarsamfélögum. Tilviljun gæti einmitt hafa ráðið því hvernig húsin röðuðust.

Notkun stálprjóna við að finna svarta strauma á rætur sínar að rekja til þjóðtrúar að finna megi vatn (olíu, gull og fleira) með því að ganga um jarðir haldandi á trjágrein og þar sem trjágreinin snúist í átt að jörðu sé vatn að finna. Fjöldi rannsókna hafa ítrekað sýnt fram á að þessi aðferð virkar ekki neitt til að finna vatn, eða aðra hluti, og líklegasta skýringin á því að prjónarnir snúist sé vegna handahreyfinga þess sem heldur á þeim (skepdic.com, 2004). Ég vil benda lesendum á myndskeið máli mínu til stuðnings.

Það er fráleitt að telja að svefnhegðun ungra barna sanni tilvist svartra strauma. Sá sem efast ekki um tilvist svartra strauma getur talið sér trú um að allskyns hlutir renni stoðum undir kenningar sínar án þess að nokkuð vit sé í þeim. Þetta er dæmi um slíkt.


Heimildir:

Mercola, J. (2000). Geopathic stress. Sótt af internetinu þann 7. Febrúar 2009 af vefslóðinni http://articles.mercola.com/sites/articles/archive/2000/08/13/geopathic-stress.aspx

Skepdic.com (2009). Sótt af internetinu þann 7. Febrúar 2009 af vefslóðinni http://www.skepdic.com/dowsing.html

Valdemar G. Valdemarsson (2009). Orkulínur. Sótt af internetinu þann 7. febrúar 2009 af vefslóðinni http://www.isholf.is/vgv/geopstr.htm

Mynd fengin hjáWindell Oskay

Birtist upphaflega á Húmbúkk

Brynjar Halldórsson 25.03.2014
Flokkað undir: ( Efahyggja )

Viðbrögð


Vésteinn Valgarðsson (meðlimur í Vantrú) - 26/03/14 11:34 #

"Ideomotor effect" hefur mikil áhrif á spákvisti, ómeðvitaðar hreyfingar sem láta t.d. pendúl byrja að hreyfast þótt maður haldi að maður sé með höndina kyrra. Það lítur út eins og hann byrji að hreyfast af sjálfu sér, en gerir það auðvitað ekki. Og að "einbeita sér að neikvæðum straumum" -- hvað í fjandanum er það eiginlega? Annars er ekki erfitt að rannsaka þetta. Það ætti bara að bjóða manninum með spákvistinn að ganga um skólastofuna mannlausa og sýna hvar þessi "straumur" á að vera og bera það svo saman við hvar viðkomandi krakkar sitja. Fylgnin yrði væntanlega nálægt slembidreifingu.


Björn Geir - 28/05/19 19:14 #

Takk fyrir þennan pistil. Vitið þið hvort íslenskir starfsmenn veitufyrirtækja notast við spákvisti eða stálprjóna? Svo reyndist vera raunin hjá mörgum vatnsveitum í Bretlandi: https://medium.com/@sallylepage/in-2017-uk-water-companies-still-rely-on-magic-6eb62e036b02

Sýnið viðbrögð, en vinsamlegast sleppið öllum ærumeiðingum. Einnig krefjumst við þess að fólk noti gild tölvupóstföng, líka þegar notast er við dulnefni. Ef það sem þið ætlið að segja tengist ekki þessari grein beint þá bendum við á spjallborðið. Þeir sem ekki fylgja þessum reglum eiga á hættu að athugasemdir þeirra verði færðar á spjallborðið.

Hægt er að nota HTML kóða í ummælum. Tög sem virka eru: a href, b, i, u, br, p, strong, em, ul, li og blockquote. Einnig er hægt að notast við Markdown rithátt í athugasemdum. Notið skoða takkann til að fara yfir athugasemdina áður en þið sendið hana inn.