Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Að gefa Reiki

Reiki á kínversku

Reiki er ein af mörgum svonefndum heilunaraðferðum. Hana má rekja til Mikao Usui sem var uppi á fyrri hluta 19. aldar. Usui var rektor kristins háskóla í Kyoto í Japan og má rekja upphaf meðferðarinnar til þess að nemendur Usui (sem voru sérstakir áhugamenn um trúmál) spurðu hann oft og iðulega af hverju enginn gæti læknað líkt og Jesú og Búdda gerðu þ.e. með höndunum einum saman.

Í leit sinni að svörum við þessum áleitnu spurningum endaði Usui í klaustri á Kurama fjalli í Japan þar sem hann stundaði hugleiðslu, bænir og föstun. Eftir 21 dag rann upp fyrir Usui (í miðju sveltinu) hvernig hægt væri að lækna annað fólk á svipaðan hátt og Jesú og Búdda gerðu forðum. Aðferðina nefndi hann Reiki. Orðið er komið úr tveimur japönskum orðum ,,Rei” sem þýðist sem ,,alheims-“ og ,,kí” sem þýðist ,,lífsorka”. Reiki þýðir því alheimslífsorka. Meðferðin gengur út á að meðferðaraðilinn tengir sig við hina svokölluðu alheimslífsorku og gefur sjúklingi hana með handayfirlagningu í þeirri von að sá sem orkuna hlýtur verði betri til heilsunnar. Sá sem gefur Reiki er því eins konar straumbreytir á milli orkunnar og þess sem hana þiggur.

Hvað er alheimslífsorka?

Alheimslífsorkan er samkvæmt þeim sem Reiki stunda, sú orka sem er öllum lífverum nauðsynleg til að lifa af. Þessi orka er alls staðar til en vandinn er að hana þarf að virkja og beina í réttar áttir, þ.e. í orkusvið líkamans. Sé henni beint í rétta átt getur hún losað um stíflur sem myndast hafa í líkamanum og við stíflulosunina nær sá stíflaði heilsu. Til að virkja þessa orku og leiðbeina henni fer fólk á námskeið í Reiki.

Hvernig nærðu sambandi við alheimslífsorkuna?

Meðferðaraðili þarf að fara á námskeið þar sem hann er stilltur inn á alheimslífsorkuna með ,,vígslu” sem felur í sér hreinsun á orkubrautum viðkomandi. Slík hreinsun gerir tilvonandi meðferðaraðila hæfann til að miðla orkunni. Þetta er gert vegna þess að Reikifólk trúir því að við höfum öll meðfædda eiginleika til heilunar en eftir því sem við eldumst þeim stíflaðri verða orkubrautir okkar vegna sjúkdóma og streitu. Því þarf að virkja og hreinsa orkubrautir þess sem vill gefa Reiki og heilunin verður áhrifaríkari. Ekki er skýrt (m.v. lýsingar Reikifólks) í hverju ,,vígslan” er fólgin. Þær móttökustöðvar sem taldar eru mikilvægar hvað orkuflæði varðar eru: hvirfilstöð, ennisstöð, hálsstöð og hjartastöð. Þegar þessar stöðvar eru hreinsaðar, opnast rás fram í lófana sem svo gefur meðferðaraðila færi á að miðla orkunni. Þetta ferli er lykilatriði til að viðkomandi geti verið straumbreytir fyrir alheimsorkuna og þiggjandann.

Hvernig er þetta kennt?

Reiki er kennt á stuttum kvöld-og helgarnámskeiðum. Námskeiðunum er skipt í þrjú stig.

  1. Grunnnámskeið þar sem orkubrautir viðkomandi eru samræmdar. Alheimslífsorkan er leidd um nemandann með röð að ,,vígslum”. Á þessu námskeiði er sérstaklega reynt að opna höfuðstöð, ennisstöð, hálsstöð, hjartastöð, og orkustöðvar í lófum. Eftir þetta námskeið getur viðkomandi stundað sjálfsheilun en hefur jafnframt leyfi til að heila vini og vandamenn.

  2. Þetta er eins konar framhaldsnám í Reikifræðum. Kennslan fer fram með fleiri ,,vígslum” og kennslu í heilunartáknum (Reikifólk útskýrir þessa kennslu ekki frekar). Eftir þetta námskeið getur viðkomandi stundað allar þrjár gerðir Reiki þ.e. orkustöðvarmeðferð, afmörkuð meðferð og fjarheilun. Eftir þetta námskeið getur viðkomandi gefið sjálfum sér, öðrum einstaklingum, plöntum og dýrum Reiki.

  3. Á þessu námskeiði lærir viðkomandi að gerast Reikimeistari. Eftir þetta námskeið getur viðkomandi kennt Reiki og þjálfað aðra.

Leið orkunnar samkvæmt Reikifólki er í gegnum höfuðstöð og hjartastöð og dælist svo út í hendur gefanda og til þiggjanda. Í meðferð liggur þiggjandinn á bekk og er fullklæddur. Meðferðin tekur 45-90 mín. Reikimeðferðaraðili leggur hendur sínar við líkama viðkomandi þó án þess að snerta líkama þiggjanda. Þessi handayfirlega fer fram eftir ákveðnu handstöðumynstri. Samkvæmt Reikifólki fæst þessi aðferð við grunnvandamál hvers og eins (þ.e. við hinar meintu stíflur í orkubrautum) en ekki er eytt tíma í að ráðast á eitt og eitt einkenni. Það eina sem þeir sem þiggjendur finna fyrir í Reikitímum er hiti, kuldi eða léttum stingjum þegar orkan flæðir og lækning (við stíflulosunina) fylgir í kjölfarið.

Í reikimeðferð er hægt að velja á milli þrenns konar meðferða:

  1. Orkstöðvarmeðferð sem miðar að því að jafnvægisstilla líkamann og fyrirbyggja andleg og líkamleg mein. Oftast er miðað við að þetta fari fram nokkra daga í röð.

  2. Afmörkuð meðferð. Þá er unnið (eins og nafnið gefur til kynna) með afmarkað svæði og orkubrautir.

  3. Fjarheilun. Hér er alheimslífsorkunni beint til þiggjanda en hann þarf ekki að vera á staðnum. Samkvæmt Reikifólki hefur þessi orka fjórum sinnum hærri tíðni en venjuleg orka. Það eina sem þarf er nafn, heimilisfang, aldur og hvað eigi að vinna með og viðkomandi er send orkan!

Virkar þetta?

Samkvæmt Reikifólki hefur aðferðin gefist vel við: verkjum, streitu, kvíða, innkirtlavandamálum, vandamálum tengdu ónmæmiskerfinu, eykur innsæi þess sem þiggur, afleiðingum MS-sjúkdóms, hjartavandamálum, krabbameini, kemur jafnvægi á orkustöðvar, er vöðvaslakandi, kemur á innri ró og eykur umburðarlyndi okkar, lagar æðaskemmdir og kemur í veg fyrir æðakölkun.

Hvað segja svo rannsóknir? Undirrituðum er kunnugt um eina samantekt þar sem rannsóknir á gagnsemi Reiki við ýmsum meinum eru kannaðar (Lee, Pittler og Ernst, 2008). Niðurstaða þeirrar rannsóknar er nokkuð afdráttarlaus. Höfundar komast að þeirri niðurstöðu að ekki eru neinar vísbendingar um að Reiki gagnist sem meðferð við nokkrum meinum andlegum eða líkamlegum! Annað sem þeir félagar benda á er að rannsóknir á Reiki og gagnsemi þess eru svo aðferðafræðilega gallaðar að nær engin leið er að draga neinar ályktanir t.d. litlar úrtaksstærðir, léleg tilraunasnið svo fátt eitt sé nefnt.

Auk lélegra rannsóknarniðurstaðna og fjarstæðukenndra lýsinga á þeim ferlum sem Reiki byggir á (sbr. lýsingar undirritaðs fyrr í þessum pistli) er eitt stórt vandamál eftir. Það er að hvorki Reikifólki né öðrum hefur tekist að sýna fram á alheimslífsorka sé til!

Því má í raun segja að þessi hugmyndafræði falli um sjálfa sig.

Af framansögðu má því ljóst vera að gagnsemi Reiki er í besta falli óskýr og versta falli algjörlega gagnslaus.


Ítarefni

http://skepticwiki.org/index.php/Reiki
http://frontpage.simnet.is/blikid//index.htm
http://www.lifsafl.is/index.php?option=com_content&view=article&id=13&Itemid=5
http://www.viskaoggledi.is/heilun/reiki.htm
http://www.vitund.is/vitund/reiki/reiki.asp?id=3
http://en.wikipedia.org/wiki/Reiki

Heimildaskrá

Lee, M.S., Pittler, M.H., og Ernst, E. (2008). Effects of of reiki in clinical practice: a systematic review of randomized clinical trials. International Journal of Clinical Practice, 62, 947-954.

Birtist upphaflega á Húmbúkk

Mynd fengin hjá César

Magnús Blöndahl Sighvatsson 18.02.2014
Flokkað undir: ( Efahyggja )

Viðbrögð


Harpa Hreinsdóttir - 18/02/14 20:36 #

Ég vildi bara benda þér á nýrri rannsókn en þessa einu sem þér er kunnugt um, þ.e.a.s. A randomised controlled single-blind trial of the effects of Reiki and positive imagery on well-being and salivary cortisol, sem birtist í Brain Research Bulletin 81:1 2010. Niðurstöður hennar benda til að Reiki geri gagn. Það er varla hægt að afskrifa þetta tímarit sem húmbúkk (miðað við aldur, Impact-tölur og efnivið).

Á s. 57 í greininni Energy Therapies in Oncology Nursing, Seminars in Oncology Nursing, 28:1 2012 eru taldar upp margar rannsóknir á Reiki og vísað í þær í heimildaskrá. Margar þeirra birtust í tímaritum sem þú tekur væntanlega ekki mark á en ég vildi benda á þetta yfirlit af því þér er aðeins kunnugt um eina rannsókn eftir því sem þú segir í greininni.

P.s. Tek fram að ég hef aldrei prófað Reikimeðferð.


Harpa Hreinsdóttir - 18/02/14 20:50 #

Úbbs ... sá að þú byggðir á einni review-rannsókn (samantekt) frá 2008. Þú getur fundið nýrri samantektir en þessa með lítilli fyrirhöfn - a.m.k. gat ég það á ca. 5 mínútum ;)


Matti (meðlimur í Vantrú) - 18/02/14 21:18 #

Auk lélegra rannsóknarniðurstaðna og fjarstæðukenndra lýsinga á þeim ferlum sem Reiki byggir á (sbr. lýsingar undirritaðs fyrr í þessum pistli) er eitt stórt vandamál eftir. Það er að hvorki Reikifólki né öðrum hefur tekist að sýna fram á alheimslífsorka sé til!


Svanur Sigurbjörnsson - 18/02/14 22:22 #

Mér sýnist að Mikao Usui og Samuel Hahneman hafi verið uppi á svipuðum tíma. Leitt að reiki og homeópatía skyldu ekki renna saman í eitt undravert fag, eins konar Eurasian lækningu við öllu mögulegu. Maður sér fyrir sér þar sem hómeópatíuna skortir mátt geti reikið tekið við með fallegri handayfirlagningu og bjargað deginum, og öfugt, remedía í fallegu glasi komið reikimeistara með parkinson's sjúkdóm til hjálpar.


Svanur Sigurbjörnsson - 18/02/14 23:08 #

Þessi rannsókn sem þú bendir á Harpa í Brain's Research Bulletin er tilraun til klínískrar meðferðarrannsóknar sem lítur sæmileg út við fyrstu sýn en stenst ekki skoðun.

Um er að ræða litla hópa og rannsakandinn var einnig reikimeistarinn sem meðhöndlaði. Hann vissi því hverjir voru meðhöndlaðir og hverjir ekki (single-blind). Síðan var ekki byrjað með jafna hópa hvað andlega líðan varðar. Hópurinn sem fékk reikimeðferðin leið talsvert verr en hópnum sem enga reikimeðferð fékk, í byrjun rannsóknar. Það er því ljóst að "regression to the mean" eða tilhneiging hluta til að færast í sitt fyrra horf hafði talsverð áhrif. Það var tölfræðilegur munur á þeirri breytingu sem varð á hópunum á meðferðartímanum en aðeins af því að hóparnir komu frá ólíku grunnástandi.
Á DASS kvarða (stress, depurð og kvíði) byrjaði reiki-hópurinn í 18,7 en viðmiðunarhópurin í 10,4. Eftir meðferðina komst reiki-hópurinn í 12 en viðmiðunarhópurinn í 8,6. Allsendis ólíkir hópar og því er ekki hægt að sýna fram á neitt orsakasamhengi milli breytingar og meðferðar. Hóparnir eru líka afar litlir; 18 og 17 þátttakendur.
Niðurstaða: Algerlega marklaus rannsókn.

Um Brain Research Bulletin. Á þeirra eigin síðu segir: "Although clinical research is out of the Bulletin's skcope...". og "Brain Research Bulletin offers simple electronic submission, accelerated peer-review, rapid publication and high quality color production with no expense to authors." Sem sagt hraðsoðið on-line tímarit sem segir klínískar meðferðarrannsóknir utan síns sviðs. Það sést vel á þessum pappír. Svo er merkilegt að menntun fólksins sem er í ritstjórn hjá þeim er ekki gefin upp. Er hægt að "afskrifa þetta blað sem húmbúkk" eins og þú orðaðir það Harpa? Ekki ætla ég að dæma það út frá einum pappír en þeir fara greinilega gegn eigin ritstjórnarstefnu og birta þarna klíníska grein sem er rannsakandanum og blaðinu ekki til framdráttar.


Harpa Hreinsdóttir - 19/02/14 00:15 #

Það er alveg rétt sem Svanur segir að hóparnir voru ólíkir í upphafi. Það skrifast á reikning tilviljunar því valið var handahófskennt í Reiki-hópa og "Lyfleysu-Reiki-hópa" með því að kasta upp teningi ;)

Það er líka rétt að rannsóknin var fámenn. En ég hef lesið mökk af geðlyfjarannsóknum sem fóru fram á álíka fámennum hópum, jafnvel fámennari, og af þeim hafa verið dregnar víðtækar og afdrifaríkar ályktanir sem hver étur upp eftir öðrum í geðlækningatímaritum.

Það kemur fram í titli greinarinnar að rannsóknin var ekki tvíblind svo ég sé ekki ástæðu til að ræða það. Reikimeistarinn var einn þriggja rannsakenda, sem er vissulega galli. En svo sem ekki alvarlegri en þegar geðlyfjafyrirtæki panta rannsóknir, sjá um þær og panta og rannsóknarniðurstöðurnar líka eins og sýnt hefur verið kirfilega fram á (ég vísa einkum í Kirsch þessu til rökstuðnings, einnig í Healy, Moncrieff því það fólk verður hvorki rengt um fræðilega þekkingu né vandaðar rannsóknir).

Tímaritið Brain Research Bulletin hafði impact factor upp á 2.498 árið 2010, í 137. sæti af 237 ritrýndum viðurkenndum vísindatímaritum um taugalæknisfræði (Neuroscience).

Yfirlitsrannsóknin sem Magnús Blöndahl Sighvatsson vísar í sem sína einu heimild birtist í International Journal of Clinical Practice, sem hefur impact factor upp á 2.427 fyrir árið 2012 (nenni ekki gá hvort til eru tölur fyrir 2008 þegar greinin birtist). Það tímarit er í flokki almennra læknisfræðirita (Medicine General & Internal), sem eru miklu færri í skrá Journal Citation Reports en taugalæknisfræðiritin, er í 31. sæti af 155 skráðum slíkum tímaritum.

Svo segja má að miðað við vægi/áhrif (impact factor) raðist þessi tímarit ósköp svipað.

En ég er sammála Svani um að það að tímarit kalli sig ritrýnt fræðitímarit og sé skráð sem slíkt segir ekki allt, í þeim er stundum að finna bölvað drasl innan um fræðigreinarnar. Nefni t.d. hálfs árs gamla bloggfærslu konu sem fór til hnykkjara vegna kvíða, konan fattaði svo löngu seinna að maður getur dáið af hnykki og bloggaði um þessa reynslu sína og uppgötvun; sú gamla bloggfærsla var dubbuð óbreytt upp í grein í Læknablaðinu fyrir skömmu, í nóvember eða desember ef ég man rétt. Stærir þó Læknablaðið sig af að vera ritrýnt fræðitímarit sem er meira að segja með mældan impact factor (og vermir botninn í flokki skandinavískra vísindatímarita).

Ég ætti kannski að prófa Reiki einhvern tíma? Það er a.m.k. ekki nærri eins skaðlegt og stór hluti hinna gagnreyndu geðlækna sem hefur verið reyndur á mér ... og eftir að hafa lesið greinina í Brain Research Bulletin mætti kannski alveg gefa þessu séns. (Aftur á móti hef ég enga trú á að það sé hægt að hnykkja í mér - eða öðrum - undirstúkuna og fer því örugglega ekki til hnykkjara vegna kvíða.)


Matti (meðlimur í Vantrú) - 19/02/14 09:15 #

Hugmyndin að vandamál geðlæknisfræðinnar séu vatn á myllu skottulækninga er óskiljanlegt rugl.


Harpa Hreinsdóttir - 19/02/14 09:44 #

Ég hefði auðvitað átt að útskýra tilvísanirnar til geðlæknisfræði betur, Matti, það er alveg rétt.

Þær þjóna tilgangi samanburðar á svokallaðri sannreyndri læknisfræði (evidence based) við læknisfræði sem þið kallið gjarna kukl, í þessu tilviki Reiki. Ég er einungis að benda á að gagnrýnin á rannsóknaraðferðir í Reikirannsókninni á allt eins við svokallaða sannreynda læknisfræði. Ennfremur að svokölluð sannreynd læknisfræði er ekki nærri alltaf sannreynd heldur byggð á fölsun (úrvali hagstæðra niðurstaðna fjölda rannsókna) og því geti verið varasamt að stilla upp svokallaðri sannreyndri læknisfræði og annarri læknisfræði (í þessu tilviki Reiki) sem andstæðum.

Loks tók ég undir með Svani með að í tímariti sem flaggar því að vera ritrýnt vísindatímarit kann að vera að finna alls konar drasl inn á milli en viðurkenni að dæmið sem ég tók er auðvitað miklu meira krassandi rusl en nokkuð af því sem hann ýjaði að. Ritrýni og skráning í alþjóðleg gagnasöfn er vissulega ekki trygging fyrir að efnið sem birtist standist mál, um það erum við Svanur sammála.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.