Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Útsendari Vantrúar á Hátíð Vonar

Mynd af Laugardalshöllinni

Um helgina héldu sannkristnir hátíð af tilefni komu bandarísks bókstafstrúarmanns. Á meðan öryggisgæsla hátíðarinnar var upptekin af mönnum með biblíuvers á bakinu tókst útsendara Vantrúar að komast inn á hátíðina. Hér er frásögn hans:

Lognið á undan storminum

Við innganginn var leitað í bakpokanum mínum, að hverju veit ég ekki. Glimmerið og biblíuna mína hafði ég falið annars staðar. Þegar ég kom inn var mér rétt tvö blöð, annars vegar dagskrá og hins vegar umslag. Á umslaginu gat maður fyllt út kreditkortanúmerið sitt og upphæð eða einfaldlega sett í það pening. Maður gat síðan sent umslagið í pósti til aðstandenda hátíðarinnar eða einfaldlega sett það í fötur sem voru við útgangana við lok samkomunnar.

Eftir nokkra bið komst ég í sæti í stúkunni.

Ræða Agnesar

Ríkiskirkjupresturinn María Ágústsdóttir, sem lesendur Vantrúar þekkja ágætlega, kynnti atriði kvöldsins. Hún er ein af “sanntrúuðu” ríkiskirkjuprestunum og hefur meðal annars séð um þætti á sjónvarpsstöðinni Ómega.

Eftir þónokkra söngva um blóð Jesú og fleira í þeim dúr upplýsti María loks að nú væri komið að því að biskup ríkiskirkjunnar flytti ræðu sína. Í ljósi hinnar miklu umræðu um aðkomu ríkiskirkjunnar að samkomu þekkst andstæðings réttinda hinsegin fólks mátti búist við því að biskupinn myndi minnast á þetta mál.

Eins og oft áður, þá var ekki mikið innihald í ræðu biskupsins og hún hefur ekki þorað að nefna þetta málefni beint. Í ræðunni má samt sjá hana tala um málefnið undir rós með því að segja að fólk sé mismunandi “í sér”. En hún afsakaði einnig afstöðu fólks eins og Franklin Grahams með þeim orðum að hún “virti mismunandi túlkun Ritningarinnar”:

Við erum ekki öll eins hvorki í útliti né í okkur. Við erum ólík og trúariðkun okkar einnig. En við komum saman í Jesú nafni og virðum fjölbreytileikann, mismunandi túlkun Ritningarinnar og boðun Orðsins. #

Eftir ræðuna voru síðan enn fleiri lög um blóð og ást Jesú sungin áður en Franklin Graham steig á svið.

Ræða Grahams

Mest af ræðu Franklin Grahams var endursögn á sama gamla “fagnaðarerindinu” sem sannkristna fólkið er svo afskaplega upptekið af: allir hafa syndgað og þess vegna er guðinn þeirra reiður og mun refsa fólki með eilífri helvítisvist nema það geri Jesú að BFF-inum sínum.

Áhugaverðasti kafli ræðunnar hans var umfjöllun hans um synd. Hann fór í gegnum boðorðin tíu og þegar hann kom að “Þú skalt ekki morð fremja.” nefndi hann fóstureyðingu á nafn og sagði það vera morð.

Þegar hann kom að boðorðinu “Þú skalt ekki drýgja hór” nefndi hann ekki þá synd á nafn sem allir vissu að hann væri að tala um. Hann sagði að allt kynlíf utan hjónabands karls og konu væri synd. Hann mótmælti svo þeirri fullyrðingu að sumt væri í lagi núna sem var talið rangt fyrir 20-30 árum síðan, lög guðs væru nefnilega óbreytanleg. Þau voru eins fyrir þúsund árum síðan og verða eins eftir milljón ár. Ég held að það sé óhætt að álykta að hann hafi haft samkynhneigð í huga.

Tilganginum náð?

Eins og áður hefur verið bent á þá var tilgangur hátíðarinnar að sannfæra ókristið fólk um að mæta á Hátíðina í þeirri vona að þau myndu taka trú á hátíðinni. Ræða Grahams lauk þess vegna á svokölluðu “altar call”, þar sem fólk sem hafði ekki gert Jesú að besta vini sínum var hvatt til þess að koma upp að sviðinu og fara með trúarjátningu.

Fjöldi fólks fór upp að sviðinu og eftir að hafa farið með trúarjátningu var því sagt að kíkja til hliðar og sjá hvort að “ráðgjafi” væri hliðin á þeim sem átti að fara yfir einhvern bækling með þeim. Stór hluti þeirra sem voru þarna fyrir framan sviðið voru sem sagt ekki að taka trú, heldur voru þeir að fara yfir einhvern bækling með fólkinu sem steig fram.

Mér tókst með klækindum að komast í einn svona bækling, og þá varð mér að ljóst að það er ekki bara fólk sem er að taka trú sem steig fram, heldur var gert ráð fyrir því að þarna væri fólk sem hafði áður “meðtekið Jesú Krist sem Drottin minn og frelsara”, en “var ekki viss um að það ætti eilíft líf og þurfti að fá að fá fullvissu.” eða “hafði brugðist í fylgd minni með Kristi og vildi endurnýja heit sitt við hann.” eða kom bara “til að sýna öðrum að ég trúi.”

Fyrir hvern var hátíðin?

Á meðan á þessu stóð fór ég út, enda hélt ég að hátíðin væri að mestu leyti búin fyrir utan nokkur lög. Seinna frétti ég að þegar þau lög voru spiluð hefði fólk “fyllst heilögum anda” og farið að veltast um af hlátri og ég veit ekki hvað.

Á leiðinni út velti ég því fyrir mér hvort tilgangurinn með þessari hátíð hafi í raun og veru verið sá að ná til ókristins fólks. Mig grunar að það sé miklu meir verið að reyna að peppa upp trúað fólk sem af einhverjum ástæðum er farið að efast.


Mynd fengin með leyfi frá Íþrótta- og sýningarhöllinni hf, ish.is

Ritstjórn 04.10.2013
Flokkað undir: ( Kristindómurinn )

Viðbrögð


Einar - 08/10/13 20:01 #

Leitt að þú skyldir verða fyrir vonbrigðum eins og hinir ýmsu aðilar sem reyndu að skapa einhver leiðindi. Urðu sér til skammar. Þú mátt alveg koma fram og játa þína kristnu trú. Sást að það er engin skömm.;-) Þú mátt bóka að þú sérð ekki eftir því.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.