Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Að hafa það sem samsæri reynist

Mynd af alsjáandi auga

Það er óneitanlega vanþakklátt og lítt skemmtilegt tómstundagaman að reyna að rökræða við heittrúaða fylgismenn samsæriskenninga. Nú má auðvitað finna dæmi um raunveruleg samsæri – og kannski styrkja þau fólk í trúnni – en hér er átt við trúna á samsæri sem ekki er hægt að styðja upplýsingum eða rökum.

Að mörgu leyti líkist þetta því að reyna að rökræða við trúaða, það er einfaldlega ekki hægt. Skýringin liggur væntanlega í því að þetta verður að trú, allri rökhugsun er sleppt, öllu sem hentar ekki kenningunni er hafnað og heilu skýjaborgirnar eru byggðar á litlum sem engum upplýsingum – og gjarnan virðist fylgja sláandi vankunnátta og þekkingarleysi.

Það er til dæmis algengt að sjá fylgismenn samsæriskenninganna hafna „opinberum“ skýringum á viðkomandi atburði á þeim forsendum að þær séu ósennilegar og ólíklegar. Fundið er til eitthvert smáatriði og allt hengt á viðkomandi atriði sem á að skýra hvers vegna opinber skýring er ólíklegt. Í staðinn velja þeir svo enn ósennilegri og langsóttari skýringu, jafnvel svo langsótta að þeir geta ekki með nokkru móti skýrt hana út sjálf(ir).

Þetta rímar ágætlega við margan bókstafstrúarmanninn. Kenningum um upphaf heimsins er til að mynda hafnað á þeim forsendum að þær séu ólíklegar og röð ólíklegra tilviljana hafi þurft til. Í staðinn kemur svo trúin á skapara og engu breytir þó bent sé á að engar upplýsingar séu fyrir hendi, eða líkur á, að sá skapari sé til, hvað þá að viðkomandi hafi einhverja hugmynd um hvernig sá skapari átti sjálfur að verða til.

Það fylgir svo þessari óbilandi trú rík þörf á að sannfæra allan heiminn um að viðkomandi hafi rétt fyrir sér. Trúboðið er stundað ef eljusemi og þeir sem voga sér að hafa aðra skoðun er mætt með kjafti og klóm, upphrópunum og skítkasti. Því fleiri mótrök sem borin eru fyrir viðkomandi, því meiri verður fúkyrðaflaumurinn. Því fleiri mótrök sem borin eru fyrir viðkomandi, því meiri verður fúkyrðaflaumurinn.

Samlíkingin við sértrúarsöfnuð varð svo enn skýrari fyrir nokkru. Þá gekk einn harður liðsmaður, Charlie Veitch, af trúnni og í kjölfarið hefur hann fengið yfir sig skæðadrífu fúkyrða og hótana, jafnvel líflátshótanir.

Þá er skondið að hafa í huga að það fylgir gjarnan þeim sem hvað æstastir eru í samsæriskenningunum að telja sig (gjarnan) víðsýna og talsmenn mannréttinda – baráttan gegn samsærunum er nefnilega oft undir formerkjum manngæsku og mannréttinda. En bregðast sjálf(ir) við því að einstaklingur hafi aðra skoðun en þeir með hótunum.

Það er kannski ekki rétt að dæma alla samsærissinna út frá einni frétt, en það má hafa í huga að þetta er ekki stór hópur, viðbrögðin virðast koma frá mörgum - og heiftin virðist í takt við það ofstæki sem virðist oftar en ekki fylgja.


Mynd fengin hjá Arthur Canata

Ritstjórn 07.06.2013
Flokkað undir: ( Efahyggja )

Viðbrögð


Nonni - 08/06/13 01:15 #

Þegar ég las þessar tvær málsgreinar, kom ekkert upp í hugann annað en þróunartrú guðleysingjans

Það er óneitanlega vanþakklátt og lítt skemmtilegt tómstundagaman að reyna að rökræða við heittrúaða fylgismenn samsæriskenninga. Nú má auðvitað finna dæmi um raunveruleg samsæri – og kannski styrkja þau fólk í trúnni – en hér er átt við trúna á samsæri sem ekki er hægt að styðja upplýsingum eða rökum.

Að mörgu leyti líkist þetta því að reyna að rökræða við trúaða, það er einfaldlega ekki hægt. Skýringin liggur væntanlega í því að þetta verður að trú, allri rökhugsun er sleppt, öllu sem hentar ekki kenningunni er hafnað og heilu skýjaborgirnar eru byggðar á litlum sem engum upplýsingum – og gjarnan virðist fylgja sláandi vankunnátta og þekkingarleysi.

Sköpunarsaga þróunartrúarinnar fær að fylgja með máli mínu til stuðnings:

  1. Upphaf - 13,7 milljarðar ára, eitthvað gerðist en enginn veit hvað það var.
  2. Í 9,1 milljarða ára var eitt og annað að gerast sem enginn getur útskýrt.
  3. Jörðin, sólin o.fl. varð til fyrir 4,6 milljörðum ára með svipuðu sniði og það er í dag.
  4. Fyrir 3,2 milljörðum ára fór að rigna á jörðina.
  5. Og áfram rigndi og lífið varð til.
  6. Í rúma þrjá milljarða ára var lífið að þróast á jörðinni, plöntur, tré, sjávardýr, landdýr, kk. og kvk. o.fl. o.fl. o.fl.
  7. Fyrir tvöhundruð þúsund árum varð maðurinn til en gerði samt lítið sem ekkert fyrr en fyrir um 5 - 10 þúsund árum.

Valgarður Guðjónsson (meðlimur í Vantrú) - 08/06/13 01:42 #

hmmm, kannski ekki alveg nákvæm samantekt, en látum það liggja á milli hluta.

Þú gleymir einu lykilatriði.

Þróunarkenningin og aðrar kenningar um þróun lífs byggja á upplýsingum og gögnum sem styðja kenningarnar. Þær koma heim og saman við þekktar staðreyndir. Það er ekki þar með sagt að þær séu tæmandi eða svari öllum spurningum.

Ef og þegar mótrök eða upplýsingar koma fram sem myndu afsanna viðkomandi kenningu - þá er henni hafnað.

Þetta gerist ekki hjá trúuðum. Og þetta gerist ekki hjá þeim sem hafa tekið samsæri sem sín trúarbrögð.

Ef þú kemur með upplýsingar sem afsanna þróunarkenninguna þá verður hún um leið verðlaus. Það hefur ekki gerst enn.


Steini - 08/06/13 06:15 #

Nonni, það veit enginn hvað gerðist hér í fortíðinni í orðsins fyllstu merkingu. Það eru "aðeins" kenningar, en það sem kallast kenning í vísindum er alltaf besta skýring á öllum viðeigandi gögnum hverju sinni.
Ef þú hefur betri skýringu eða ný gögn, þá eru allir að hlusta.

Ef þú ætlar að halda því fram að þessar allavega 5 kenningar og tilgátur sem þú nefnir séu byggðar á gott sem engum upplýsingum, þá stendur ekkert eftir hjá þér nema samsæriskenning sem snýr að praktískt öllu vísindasamfélaginu.


Hjalti Rúnar (meðlimur í Vantrú) - 08/06/13 16:38 #

Nonni, mikið af því sem þú telur upp hefur ekkert að gera með þróuanrkenninguna og enn síður eitthvað að gera með trúleysi.

Þegar þú afneitar aldri alheimsins ertu að afneita stjörnufræðinni. Þegar þú afneitar aldri jarðarinnar þá ertu að afneita jarðfræðinni. Og þegar kemur að aldri mannkynsins þá þarftu að afneita mannfræði og fornleifafræði.


Jóhann - 12/06/13 00:19 #

"Það er kannski ekki rétt að dæma alla samsærissinna út frá einni frétt"

Hvaða "frétt" er þetta?


Valgarður Guðjónsson (meðlimur í Vantrú) - 12/06/13 02:00 #

tja, mér dettur í hug fréttin af viðbrögðum fyrrum "safnaðarmeðlima" og félaga Charlie Veitch..


Jóhann - 12/06/13 21:34 #

Jæja, ég kíkti á hlekkinn og þar gaf að líta bjána.

Það að ætla sér að álykta eitthvað vitrænt af slíkum kumpánum getur aldrei falið í sér góða rökfærslu.

Max Planck og Einstein trúðu báðir að eitthvað meira væri spunnið í tilveruna, en það sem blasir við.

Samsæriskenningasmiðir?


Valgarður Guðjónsson (meðlimur í Vantrú) - 12/06/13 22:01 #

Greinin fjallar um hversu líkir samsæristrúarhópar eru sértrúarsöfnuðum, fréttin sem vísað var til styður þetta.

Mig rámar eitthvað í að Einstein hafi beitt aðferðum vísindanna og verið tilbúinn að taka rökum. Hvorugt á við sértrúarsöfnuði eða samsærishópa... og skil satt að segja ekki hvað Einstein kemur þessari umræðu við.

Það er allt í lagi að sleppa því að senda inn athugasemd ef þú hefur ekkert að segja...

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.