Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Banntrúarmaður svarar fyrir sig

Fólk

Guðmundur Andri Thorsson skrifaði pistil í Fréttablaðið 5. desember sem bar heitið Banntrúarmenn. Þar fjallaði hann um félagið Vantrú, sem hann hefur augljóslega ekki miklar mætur á. Tilefni pistilsins var grein sem hafði birst í Morgunblaðinu helgina áður. Um þá grein verður ekki fjallað nánar hér en þó er vert að minnast á að sú grein átti að birtast viku fyrr og þá algjörlega án þess að rætt væri við nokkurn félagsmann í Vantrú. Það var ekki fyrir frumkvæði blaðamanns Morgunblaðsins sem sjónarmið Vantrúar fengu að birtast í greininni og skemmst er frá því að segja að félagsmönnum þykir greinin draga taum Bjarna Randvers Sigurvinssonar ansi hressilega.

Öllu tali um „herferð“ Vantrúar gegn Bjarna Randveri er vísað til föðurhúsanna. Einu raunverulegu aðgerðir félagsins hafa verið að leggja fram erindi til siðanefndar Háskóla Íslands, en félagið taldi Bjarna hafa farið á svig við þær siðareglur sem HÍ hefur sett sér, og að fjalla á vefriti sínu um þá mynd sem Bjarni dró upp af félaginu á glærum sem hann notaði í kennslu sinni.

Guðmundur Andri segir að Vantrú hafi með kæru sinni vegið að akademísku frelsi fræðimanna við HÍ og leitast við að stjórna umfjöllun um sig. Það er hins vegar staðreynd að HÍ hefur sett sér siðareglur. Þær reglur setja þau höft á akademískt frelsi fræðimanna við skólann að þeir haldi sig innan siðlegra og akademískra vinnubragða. Frelsi án hafta er ekki eftirsóknarvert, hvorki innan fræðasamfélagsins né úti í hinu almenna, um það held ég að Guðmundur Andri hljóti að vera sammála okkur. Í siðareglunum kemur einnig fram að aðilar bæði innan og utan Háskólans geti sent erindi til siðanefndar.

Ef það að senda slíkt erindi vegna efasemda um að akademískar kröfur hafi verið uppfylltar í tilteknu máli er sjálfkrafa, óháð efnisatriðum, orðin árás á akademískt frelsi og tilraun til stjórnun umfjöllunar þá eru siðareglurnar hættar að þjóna tilgangi sínum og „frelsið“ orðið óbeislað.

Í pistlinum skrifar Guðmundur Andri: „Þeir sáu þá gullið tækifæri til að gera guðfræðideild HÍ og þessum kennara alveg sérstaklega lífið leitt, sem svo sannarlega hefur tekist“

Þetta er alrangt. Félagið taldi kennsluna ekki uppfylla akademískar kröfur og að siðareglur HÍ hafi verið brotnar. Félagið rökstuddi þá skoðun sína. Vissulega munu fáir aðdáendur guðfræðideildar finnast innan félagsins en að Bjarni Randver sé einhver erkióvinur þess er fráleitur hugarburður.

Aftur vitna ég í Guðmund Andra: „... samkvæmt grein Barkar virðast [félagar í Vantrú] hafa skipulagt látlausar árásir á Bjarna til að hrekja hann úr starfi fyrir þær sakir að hafa ekki farið þeim orðum um félagsskapinn sem félagsmenn töldu tilhlýðilegt.“

Þessar skipulögðu árásir er hvergi að finna í því sem félagið raunverulega gerði. Þær hafa menn fundið í stolnum gögnum af lokuðu innra spjalli Vantrúar. Þar ráða félagsmenn ráðum sínum en Vantrú er óhefðbundið félag að því leiti að tilvera þess er nær eingöngu bundin við netið. Vissulega voru notuð stór orð um Bjarna Randver í þessu trúnaðarspjalli manna á milli. En margt af því sem tekið hefur verið til þaðan var sagt í háði, t.d. þar sem talað er um „heilagt stríð“ og „einelti“. Þar voru menn að vitna í stórkarlalegri kerskni í orðræðu frá ákveðnum trúfélögum.

Hin svokallaða herferð var fyrst og fremst í kjaftinum á mönnum í umræðum sem fóru fram í trausti trúnaðar. Heiftin í félagsmönnum var ekki meiri en svo að þrisvar var Vantrú tilbúin til þess að ljúka málinu með sátt. Því var ávallt hafnað af Bjarna Randveri og stuðningsmönnum hans, bæði innan og utan guðfræðideildar (það er nefnilega ekki rétt að Bjarni hafi staðið einn í málinu þar til Guðni Elísson kom til sögunnar, fulltrúar guðfræðideildar voru honum við hlið frá upphafi). Hvort sem vinnubrögð siðanefndar hafa verið fullnægjandi eða ekki er ljóst að ekki stóð upp á félagið Vantrú að ljúka málinu án þess að dómur siðanefndar félli yfir Bjarna Randveri. Enda var tilgangur félagsins aldrei sá að koma höggi á hann.

Þetta mál ku hafa tekið mikið á Bjarna Randver. Það er miður. Félagsmönnum í Vantrú óraði aldrei fyrir þeim látum sem hafa orðið í kringum það sem þeir töldu frekar einfalda kvörtun til Siðanefndar. Hvort að þær tafir og sá kostnaður sem orðið hefur á málinu er vegna starfshátta siðanefndar eða um margt heiftúðugra viðbragða háskólamanna utan guðfræðideildar er ekki félagsmanna í Vantrú að dæma um. En það er engan vegin hægt að skrifa þá hluti á félag sem helst vildi ljúka málinu af sem fyrst, jafnvel án dóms siðanefndar. Vanlíðan og erfiðleikar Bjarna Randvers eru ekki fagnaðarefni fyrir meðlimi Vantrúar. Þvert á móti.


Styttri útgáfa af þessari grein birtist í Fréttablaðinu þann 8. desember sl.

Egill Óskarsson 09.12.2011
Flokkað undir: ( Háskólinn )

Viðbrögð


Matti (meðlimur í Vantrú) - 09/12/11 10:05 #

Kjarni málsins er þessi. Félagsmönnum í Vantrú þótti mörgum á sér brotið þegar þeir sáu hvernig Bjarni Randver fjallaði um þá og félagið í kennslu sinni.

Fólk þarf ekki að vera sammála þessu, en þetta var upplifun margar í Vantrú og þetta kemur skýrt fram í þeim umræðum sem Bjarni Randver og fleiri hafa undir höndum.

Vantrú fór af stað með málið af þeirri ástæðu einni saman. Vantrú sendi málið þá leið sem svona mál eiga að fara.


Jón Steinar - 09/12/11 13:56 #

Ef Bjarni Radver hefði sýnt álíka hlutdrægni og lýsingar um trúfélög og trúarbrögð utan þjóðkirkju, þá held ég að hann hefði ekki þurft að kemba hærurnar í guðfræðideild. (mekilegt nokk þá tekur hann sér það bessaleyfi að flokka trúleysi undir trúfelag, hvernig sem hann fékk það nú til að ganga upp). Ef hann hefði tekið til það versta og séviskulegasta sem hann gat um Muslima eða bara kristna sértrúarhópa og sett það upp svona þá hefði hann örugglega þurft að víkja, laga efnið eða biðjast afsökunnar.

Fyrst hann ákveður að flokka vantrú sem trúfélag, þá er sanngjarnt að bera saman efnistök hans og annarra trúbrota sem hann fjallar um.

Það er víst af nógu að taka í samhengis munnsafnaðar og hatursræðu, sem gerðu það versta sem frá Vantrúarmönnum að hreinu koddahjali.

Hann hjó ekki bara í knérunn félagsins Vantrúar, heldur ofbauð öðrum trúlausum þessi framsetning. Þ.á.m. ég.


Jón Steinar - 09/12/11 14:04 #

þegar ég var að alast upp voru kristnifræðitímar og trúarinnræting öllu svæsnari af hendi þjóðkirkjunnar. Heilu tímarnir og ræðurnar fóru í það að tortryggja og hæða önnur trúarbrögð og bendla trúlausa við satan sjálfan. Önnur kristin trúfélög voru ekki undanskilin slandrinu, jafnvel þótt sumir nemendur tilheyrðu þeim. Þetta ýtti m.a. undir einelti og einangrun barna.

Þjóðkirkjan hefur póliserað málið síðan þá, þótt enn örli á þessu, en þegar hún kemst með klærnar í óútfyllt eyðublöð barnshugans þá er hún enn einbeitt í því að boða sína nálgun og trúsem hina einu réttu.


Halldór Benediktsson - 09/12/11 15:04 #

Hefði ekki verið betra að senda bréf til Péturs og Bjarna um að leiðrétta það sem stóð í þessum glærum, bíða þangað til næst þegar kúrsinn er kenndur og ef það hefur ekki lagast að leggja þá fram erindi/kæru til siðanefndar?


Matti (meðlimur í Vantrú) - 09/12/11 15:06 #

Kannski hefði það verið betra.

Þér finnst það eflaust miklu betra, því þér fannst ekki á þér brotið.

Með þessu ertu að gefa í skyn að ásakanir Vantrúar hafi verið afskaplega léttvægar. Það fannst okkur ekki.


Halldór Benediktsson - 09/12/11 15:16 #

Þú meinar að ásakanir í garð Vantrúar hafi verið léttvægar er það ekki?

Meinti það nú ekki, en jú það er hægt að skilja það þannig.

Það var væntanlega einhver aðdragandi að þessu máli, ég veit að margir höfðu horn á höfði sér gagnvart Bjarna og fleirum í kringum hann löngu áður en þetta byrjaði allt saman. Sömuleiðis hafði Bjarni horn á höfði sér gagnvart Vantrú eins og sést bersýnilega á glærunum.

Ég er bara að pæla hvort þessi aðdragandi hafi skipt máli og þá hve miklu. Ef Bjarni hefði verið óþekktur hjá Vantrú, hefði þetta mál þá farið öðruvísi?


Matti (meðlimur í Vantrú) - 09/12/11 15:26 #

Jú, ég meinti það.

Það var væntanlega einhver aðdragandi að þessu máli, ég veit að margir höfðu horn á höfði sér gagnvart Bjarna og fleirum í kringum hann löngu áður en þetta byrjaði allt saman.

Ekki veit ég að það gildi um nokkrun innan Vantrúar. Bjarni Randver var næstum óþekktur hjá Vantrú. Ég held að þrisvar hafi verið brugðist við skrifum hans hér á vefnum áður en þetta mál kom upp.

Það er misskilningur að Vantrú hafi haft horn í síðu Bjarna fyrir þetta mál.


Halldór Benediktsson - 09/12/11 15:55 #

Ég er ekki mjög vel að mér í málefnum Vantrúar þannig að þetta er þá minn misskilningur.

Ég efa það ekki að þið fóruð þá leið sem samviska ykkar og réttlætiskennd sagði ykkur að fara. Þið vissuð af siðareglunum og sóttust eftir rétti ykkar, ekkert hægt að setja út á það.

En þar sem þið eruð mjög vanir ýmiskonar gagnrýni á ykkur jafnvel mjög ógeðfelldri gagnrýni, að þá er ég forvitinn að vita hvort þetta hafi verið kornið sem fyllti mælinn eða hvort það hafi með það að gera að þetta var kennt í HÍ eða eitthvað annað. Það geta ekki hafa verið margir sem sáu þessar glærur í námskeiðinu eða fengu þessa bjöguðu sýn á ykkur frá kennara og fræðimanni Háskólans. Þannig að þetta hlýtur að vera ákveðið prinsipp mál, er það ekki?

Málið er að margir mistúlka skrif ykkar, og þið vitið það. En þið haldið samt áfram vegna prinsippsins, sem er aðdáunarvert. En þegar einhver mistúlkar og bjagar skrif ykkar þá skrifið þið bara vanalega á móti eða eitthvað álíka, en sendið ekki inn erindi/kæru. Þetta tiltekna mál er auðvitað sérstakt og það á að vera hærri standard hjá Háskóla Íslands, en það sem mér finnst líka áhugavert er að í stað þess að gagnrýna og hæða þessa aðför að ykkur eins og þið gerið venjulega (og gerðuð líka reyndar) að þá er lagalega leiðin farin. Þetta er einmitt það sem er í hugum margra (held ég) að þetta hafi ekki verið í anda Vantrúar og að stigið hafi verið yfir eitthvað strik.

Aftur segi ég þó að það að fara lagalegu leiðina er alltaf skynsamlegt í sjálfu sér. Bara spurning hvort eitthvað annað hefði verið skynsamlegra.


EgillO (meðlimur í Vantrú) - 09/12/11 17:06 #

Vinnubrögðin voru ekki talin sæmandi elsta, stærsta og virtasta háskóla landsins. Það var að hluta til hans vegna sem þessi leið var farin.


JohannV - 09/12/11 17:55 #

Fín grein að vanda Egill.

Átti erfitt með að skilja þetta mál (hélt að því væri löngu lokið) miðað við umfjöllunina í Mogganum og Kastljósinu (hefðu hugsanlega átt að bjóða einhverjum úr siðanefndinni eða vantrú þangað).

Væri til í að sjá einhver dæmi um þessa herferð/einelti að hálfu Vantrúar. Vorkenni hálf flestum opinberum persónum ef einelti telst þegar óvöndum orð eru höfð um það á netinu. En það er kannski einn punkturinn í þessu máli.

Má ekkert skrifa á netinu, í lokuðu spjallsvæði, persónulegu bloggi eða youtube komment, án þess að það verði dregið fram seinna meir sem dóm um persónu hvers sem slíkt skrifar?

En svo vita líka allir að trúleysingjar hafa "bannað" kærleikan úr eigin hjarta og eru þar af leiðandi dónar og hvað var það aftur "hlandspekingar" ;)

Hvað þarf marga broskalla til að ekki meigi taka neitt mark á mér? :):):):):)


Magnús Pálsson - 09/12/11 18:46 #

Það er kannski rétt að benda á að segja ekkert á netinu sem menn myndu ekki segja í útvarpi eða sjónvarpi. Bara til þess að vera öruggur.


EgillO (meðlimur í Vantrú) - 10/12/11 11:17 #

Takk Jói:)

Við höfum einmitt verið að velta þessu með eineltið svolítið fyrir okkur, Valgarður Guðjónsson kemst sennilega best að orði þegar hann segir: „Þá höfum við fundið upp nýja tegund af einelti sem er alveg sérstaklega lævíslegt. Fórnarlambið veit nefnilega ekki að verið er að leggja það í einelti“. http://blog.eyjan.is/valgardur/2011/12/09/hid-illa-felag/

Það sem tekið er til marks um að við höfum skipulagt einelti (og nota bene, það hefur aldrei verið bent á í hverju einelti fólst) er tekið af lokuðu innra spjalli Vantrúar. Og var þar reyndar um að ræða augljóst grín.

En svo virðist sem að sumir vilji fá að túlka alla gagnrýni sem einelti. Sem gengisfellir hugtakið einelti alveg svakalega.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.