Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Stjórnlagaráð hikstar

11. fundur Stjórnlagaráðs

Frelsi, jafnrétti og bræðralag voru einkunnarorð frönsku byltingarinnar. Kirkjan hefur lengst af staðið gegn þessu öllu, og gerir enn, enda vildu Frakkar ekkert með hana hafa í sinni stjórnarskrá, Bandaríkjamenn ekki heldur.

Nú situr stjórnlagaráð á rökstólum og framkomnar tillögur A-nefndar ráðsins felast í því að ákvæðið um trúfrelsi skuli vera hluti af mannréttindakafla stjórnarskrárinnar. Nú er þetta ákvæði í kafla stjórnarskrárinnar um Þjóðkirkjuna, undarlegt nokk. Tillaga ráðsins um trúfrelsi sem mannréttindi hljóðar svo:

Sérhver maður á rétt á að vera frjáls hugsana sinna, sannfæringar og lífsskoðunar. Felur sá réttur í sér frelsi hvers og eins til að iðka trú sína, einslega eða í samfélagi með öðrum, opinberlega eða á einkavettvangi. Öllum er frjálst að breyta um trú eða sannfæringu og standa utan trúfélaga. Stjórnvöldum ber að vernda öll skráð trúfélög og lífsskoðunarfélög. #

Það er nýmæli að stjórnvöldum beri að "vernda" öll skráð trúfélög og lífsskoðunarfélög. Það er auðvitað fráleitt, eins og Pétur Gunnlaugsson benti smekklega á þann 3. júní á 11. fundi ráðsins. Vegna orða hans kom fram sú breytingartillaga að stjórnvöld ættu aðeins að vernda þau félög "sem miða að umburðarlyndi og jafnri virðingu allra". #

Við vitum að Biblían boðar síst nokkurt umburðarlyndi eða virðingu fyrir trúarskoðunum annarra og það sama má segja um marga talsmenn ríkiskirkjunnar. Eflaust á "verndin" þó að ná til þeirra og ákvæðið verður samstundis marklaust.

En stóru tíðindin eru hugmyndir eða kannski réttara sagt "ekki hugmyndir" stjórnlagaráðs um "Þjóðkirkjukaflann" eða "Þjóðkirkjuákvæðið". Allir í ráðinu sjá auðvitað að það gengur ekki upp að hampa einu trúfélagi um leið og stefnt er að jafnræði félaganna. Í stað þess að taka á þessu máli eins og öðrum vill ráðið vísa því í þjóðaratkvæðagreiðslu og gefa upp eftirfarandi kosti:

Valkostur 1: Evangelíska lúterska kirkjan er þjóðkirkja á Íslandi.

Valkostur 2: [Ákvæðið falli brott.] #

En ráðsmennirnir óttast að deilur um þetta ákvæði kunni að "drekkja allri umræðu um stjórnarskrána" og þess vegna vísa þeir þessum kaleik frá sér. Þeir reyna líka að telja sjálfum sér og öðrum trú um að þetta sé svo óskaplega viðkvæmt, flókið og erfitt. Strax eru menn farnir að tala um að það þurfi að gefa þessu nokkur ár, bíða eftir því að "þroskuð umræða" eigi sér stað. En mikill meirihluti þjóðarinnar hefur í fjöldamörg ár viljað aðskilnað ríkis og kirkju, síðast 73%. Og þótt ekki sé getið um Þjóðkirkju í stjórnarskrá þýðir það ekki einu sinni sjálfkrafa aðskilnað ríkis og kirkju. Hvað er þá svona erfitt?

Til að koma í veg fyrir óánægju (hverra?) og finna "milliveginn" kom fram eftirfarandi breytingartillaga í ráðinu:

Í lögum má kveða á um stöðu, stjórn og starfshætti hinnar lúterskevangelísku þjóðkirkju. #

Þegar "rökstuðningurinn" við þessa breytingartillögu er lesinn er erfitt að trúa eigin augum því þar stendur:

Breytt orðalag frá því sem nú er gefur ekki til kynna að til séu ein trúarbrögð sem hafi sérstaka stöðu umfram önnur.

Af hverju hljóðar tillagan þá ekki upp á að í lögum megi kveða á um stöðu, stjórn og starfshætti Ásatrúarfélagsins? Er það vegna þess að lúterskevangelíska þjóðkirkjan hefur eða á að hafa "sérstaka stöðu umfram önnur" trúarbrögð? Og ekki tekur betra við í framhaldinu:

Orðið „þjóðkirkja“ kemur áfram fyrir í stjórnarskrá. Orðið vísar nú hins vegar til nafns þjóðkirkjunnar sem trúfélags en felur ekki í sér þann skilning sem lesa mætti af núgildandi grein, að þjóðin sem slík hafi sér ákveðna kirkju.

Hver er svo grænn að falla fyrir svona orðaleik? Annar ráðsmaður reyndi aðra leið sem átti að milda sérhyglina og hljóðar svo:

Setja má lög um að hin evangeliska lúterska kirkja skuli vera þjóðkirkja á Íslandi, og skal ríkisvaldið að því leyti styðja hana og vernda. #

Flutningsmaður þessarar tillögu taldi allt annað að segja að setja megi lög um sérstöðu ríkiskirkjunnar, stuðning og vernd en að negla ósvífnina beinlínis í stjórnarskrána. Vissulega er það ekki sami handleggur en engum dylst að eitt trúfélag er greinilega öðrum merkilegra á Íslandi samkvæmt þessu og þessi grein þýðir í raun að stjórnarskráin leggi blessun sína yfir sérmeðferð dekurrófunnar.

Þá kom þriðja lausnin á þessum ægilega vanda, að vísu tvískipt:

Valkostur I: Í lögum má kveða á um kirkjuskipan.

Valkostur II: Í lögum má kveða á um kirkjuskipan, þar á meðal um stöðu, stjórn og starfshætti kristinnar þjóðkirkju. #

Flutningsmaðurinn taldi ekki rétt að nefna eitt trúfélag sérstaklega - þrátt fyrir valkost II - en valkostur I kemst illa frá því. Af hverju leggur hann ekki til að í lögum megi kveða á um hofskipan, samkunduhúsaskipan eða moskuskipan? Svarið er augljóst. Enn sem fyrr er verið að mylja undir eitt ákveðið trúfélag og aðeins það.

Verst við þessa moðsuðu alla er að með breytingartillögunum halda menn að þeir séu að skapa frið um "Þjóðkirkjuákvæðið" og að með svona skyndireddingu (fúski) sé hægt að komast hjá þjóðaratkvæðagreiðslu um málið! Já, sérákvæði um ríkiskirkjuna skal troðið í stjórnarskrána í neongulum felubúningi um leið og girt er fyrir þann möguleika að þjóðin geti þá a.m.k. afrekað það sem ráðinu mistókst, að tryggja jafnan rétt allra trúfélaga.

Í raun er sáraeinfalt og auðvelt að tryggja jafnan rétt trúfélaga - með því að nefna ekkert þeirra sérstaklega í stjórnarskránni. Málið verður fyrst viðkvæmt, erfitt og flókið þegar reynt er að fara miðja vegu á milli réttlætis og ranglætis. Það er ekki hægt.

A-nefnd ráðsins hefur nú málið til skoðunar í ljósi þessara athugasemda en þetta verður svo rætt aftur í tvígang áður en endanleg frumvarpsdrög verða til. Enn er óljóst hvort alþingismenn eiga svo eftir að bæta sinni snilli ofan á allt saman og "miðla málum" enn frekar, þeir eru vanir því.

11. fundur stjórnlagaráðs 3. júní, gögn og myndband


Mynd fengin frá myndasíðu stjórnlagaráðs (cc)

Reynir Harðarson 08.06.2011
Flokkað undir: ( Stjórnlagaráð , Stjórnmál og trú )

Viðbrögð


Reputo (meðlimur í Vantrú) - 08/06/11 16:14 #

Niðurstaðan verður alltaf eitthvað moð, kirkjunni í hag, á meðan launaður loppýisti með ríka fjárhagslega hagsmuni starfar í A nefndinni. Í eðlilegu þjóðfélagi hefði Örn Bárðarson verið vanhæfur í þessa nefnd.


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 08/06/11 16:29 #

Ef einum eru gefin forréttindi, er gengið á rétt allra hinna!

sagði Gísli Sveinsson yfirdómslögmaður um þetta mál fyrir tæpri öld, og bætti við:

Á meðan einni ákveðinni kirkju (Ͻ: trúarfélagi) er haldið uppi af þjóðfélaginu, er ekki trúfrelsi í fullum mæli í landinu, og getur ekki verið.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 08/06/11 16:34 #

Tæp öld er sennilega ekki nægur tími til að ræða þetta mál. Ætli við þurfum ekki heila öld í viðbót að mati sumra.

Af hverju lætur sumt fólk eins og þetta mál sé gríðarlega flókið? Málið er sáraeinfalt. Eflaust einfaldasta málið sem stjórnlagaráð hefur til umfjöllunar.


Birgir Hrafn Sigurðsson - 08/06/11 17:23 #

hver er skilgreiningin á "lífsskoðunarfélag" ?


Þórður Ingvarsson (meðlimur í Vantrú) - 08/06/11 17:34 #

Svanur Sigurbjörnsson skilgreinir lífsskoðunarfélög í greininni sinni Lífsskoðunarfélög.


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 08/06/11 18:47 #

Úr tillögu A-nefndar:

Með lífsskoðunarfélagi er átt við félag sem löggjafinn hefur viðurkennt á einhvern hátt, byggist á frjálsri aðild félaga og hefur eftirfarandi að markmiðum sínum og starfsvettvangi:

-Siðferði og siðfræði: Umræða um siðferðisgildi og hvernig best er að leysa siðferðileg álitamál.

-Fjölskyldan og félagslegar athafnir: Framkvæmd félagslegra athafna fjölskyldunnar (ferming, gifting, nafngjöf og útför) á tímamótum samkvæmt lífssýn félaga.

Þetta er greinilega sérsniðið fyrir Siðmennt - sem er engu skárra en önnur sérsmíði. Ríkisvaldið á auðvitað ekkert að vera að "viðurkenna" lífsskoðunarfélög eða "skrá" þau. En þegar menn gera (hugsunarlaust?) ráð fyrir að ríkið sjái um skráningar hvítvoðunga og annarra í (trú)félög og ausa í þau almannafé er nauðsynlegt að afmarka skilgreininguna.


AI - 10/06/11 12:03 #

Mikið ofboðslega er þessi klausa, sem ráðið leggur til löng. Því styttri sem stjórnarskrá er, því betra.

Þau þurfa að reyna að endurskrifa þetta betur og komast að kjarna málsins.

"Sérhver maður á rétt á að vera frjáls hugsana sinna, sannfæringar og lífsskoðunar." dugar vel eitt og sér. Restin er bara froða.

Kaninn afgreiðir þetta svona: "Congress shall make no law respecting the establishment of religion, or prohibiting the free exercise thereof; or abridging the freedom of speech, or of the press; or the right of the people peaceably to assemble, and to petition the Government for a redress of grievances."

Nær s.s. að skella í eina góða setnignu tjáningarfrelsi, félagafrelsi og trúfrelsi.

Best þætti mér samt að sjá stjórnarskrána einfaldlega sem eina klausu:

"Sérhver manneskja á rétt á að lifa lífi sínu á þann hátt sem hún velur, á rétt til lífs, frelsis og eignar, svo lengi sem hún virðir jafnan rét annarra."

Þarf nokkuð meira en það?


Matti (meðlimur í Vantrú) - 14/06/11 08:26 #

Athugasemd AI hér fyrir ofan lenti því miður í spam-filternum (ip-tala á svörtum lista).

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.