Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Uppstigningardagur

Krosslafs hræ við láð varð laust,
ljótt með kauna aman.
Til himna líkt og skrugga skaust,
með skít og öllu saman.

-Helgi Hóseasson

Sumir trúa að Jesús hafir risið upp frá dauðum þremur dögum eftir krossfestinguna. Eftir upprisuna birtist hann lærisveinum sínum nokkrum sinnum og sagði þeim að láta enga þjóð í friði:

"Allt vald er mér gefið á himni og jörðu. Farið því og gjörið allar þjóðir að lærisveinum, skírið þá í nafni föður, sonar og heilags anda." (Matteusarguðspjall 28: 18-19)

Eftir að hafa mælt þessi orð á hann að hafa stigið upp til himna til að sitja við hægri hönd Guðs, sem þó er hann sjálfur. Ekki fylgir sögunni af hverju maðurinn-guðinn-sonurinn, sem hefur allt vald á himni og jörðu, sá ekki bara um þetta sjálfur í stað þess að fela lærisveinum sínum verkefnið.

Um þetta sagði Helgi í skemmtilegu viðtali:

það er ekkert smáræði sem reynt er að falsa krakka til þess að fallast á. Frá blautu barnsbeini og allt uppí fjórtán ára aldur -- og alla leið eftir það til grafar. Það er enginn smáræðis áróður! Eru ekki um þrjúhundruð prestar á Íslandi sem standa í því að ljúga þessari heimsku í fólk?

Ég sagði honum að það væri aldeilis furðulegt að reyna að koma krökkum til þess að trúa því að Krosslafur hafi gengið aftur eftir þrjá sólarhringa inní klettaholu. Draugsi var orðinn svangur, fór á vit stráka sinna og sagði við þá: "Hafið þið nokkuð hér til matar?" Þeir höfðu stykki af steiktum fiski og nokkuð af hunangsköku, sem hann át og skaust svo upp til himna með skítogöllusaman.

Reynir Harðarson 12.05.2010
Flokkað undir: ( Helgi Hóseasson , Upprisan )

Viðbrögð


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 12/05/10 11:02 #

Við fermingu var ég látinn játa trú á upprisu holdsins en síðar var því breytt í upprisu mannsins.

Þegar ég heyrði þessa vísu Helga vaknaði spurning sem ég hafði aldrei velt fyrir mér, en hefur nú verið leyst að hluta í Krossinum, að mér skilst.


Ægir Sveinsson - 12/05/10 14:48 #

Það er ekkert nema gott um skynsamlega og málefnalega umræðu og skoðanaskipti um trúmál að segja. En guðlast er engum til sóma og það að halda því á lofti og hreykja sér af því er ykkur til skammar. Fæstum myndi detta það til hugar að þramma í gegnum fjóshaug og æða síðan beint á skítugum stígvélunum inn í stofu fólks. Guðlast er sambærilegt við slíka framkomu.

Lifið heilir!


Þórður Ingvarsson (meðlimur í Vantrú) - 12/05/10 15:28 #

Hmm... hvað kallast það þegar fólk leitar uppi og sér guðlast í öllum andskotanum?


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 12/05/10 15:34 #

Lesi menn guðlast úr vísu Helga eru menn að misskilja. Í vísunni er aðeins talað um pínu þess sem hengdur var upp á kross og steig síðan til himna, bókstaflega í holdinu.

Hins vegar get ég vel skilið að einhverjum sárni þegar merking þess er útlistuð umbúðalaust og menn sjá hversu bjánaleg sú saga er.


Sindri G - 12/05/10 15:47 #

Guðlast, er glæpur án fórnarlambs. Guð almáttugur væri varla svo viðkvæmur að þola ekki að vera lastaður stöku sinnum.


Carlos - 13/05/10 08:31 #

Ég er ekki viss um að guðlast sé "glæpur án fórnarlamba". Guðlastendur í Grikklandi hinu forna voru kallaðir a-þeioi, án guðs fólkið og í samfélagi þar sem allir fórnuðu guðunum, þýddi það að þessir skáru sig úr. Brutu gegn samfélaginu.

Hraðspólum til samtímans, þar sem nánast allir sem vettlingi gátu valdið, dönsuðu í kringum gullkálf, sem mataður var með lánsfé. Fólk sem ekki tók þátt í þessum darraðadansi (keypti ekki of stórar fasteignir, bíla og flatskjái á 120% lánum) var litið hornauga. Það var ekki eins og hinir. Brutu gegn samfélaginu, venjum þess og stefnu.

Ég hugsa að fórnarlamb guðlasts sé aldrei guð, heldur það fólk sem sameinast um guð, með réttu eða röngu. Þessvegna þessar djúpu tilfinningar, þegar guðinn er lastaður. Fólk finnst vegið að sér og hrekkur í varnargírinn.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 13/05/10 10:47 #

Fólk finnst vegið að sér og hrekkur í varnargírinn.

Svona svipað og þegar útrásarvíkingar voru gagnrýndir í góðærinu. Þá hrökk fólk, sem átti enga milljarða, í varnargírinn.

Lexían er sú að fólk þarf að venja sig af þessu.


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 13/05/10 11:38 #

Svona í tilefni frétta um þessar mundir:

Auðmannspakk við láð varð laust,

ljót er okkar aman.

Til London eins og skrugga skaust

með skít og öllu saman.

Hverjir voru dansfélagar þeirra sem dönsuðu í kringum gullkálfinn?

(Bíllinn minn er 18 ára og ég á ekki flatskjá.)


Carlos - 13/05/10 20:36 #

trúmaður = útrásarvíkingur, Matti? Er það ekki rökleiðsla að nasisma, eða svona næstum því?

Mér finnst alltaf kostulegt þegar einhver óviðkomandi segir mér eða öðrum hvað mér eigi að finnast og hvernig ég eigi að hegða mér. Gefur í skyn að ég sé ekki myndugur einstaklingur.

Það er eitthvað annað en krúttlegt við svona

Lexían er sú að fólk þarf að venja sig af þessu.

Það má vel vera, en ef fólk fær ekki ráðrúm til að átta sig á eigin forsendum verður bæling, eins og það heitir í sálgreiningu og einkenndi t.d. viktoríanska tímabilið. Alltaf áhugavert að sjá hvernig bældar tilfinningar brjótast út annars staðar.

Gott hjá þér, Reynir, að benda á Kirkjuna. Hún tók að einhverju leiti þátt í að fegra og taka þátt í þeim dansi. Það gerðu listamennirnir sem þáðu húsnæði Björgólfanna í gömlu Hampiðjunni (Klink og bank) líka og þorrinn allur af okkur öllum.

Jafnvel þótt við höfum ekki öll tekið 120% lán.

Ég held annars að þessi athugasemd og næstu tvær fyrir ofan, ættu frekar heima í spjallinu, því að þær eru óraveg frá efninu, eller hur?


Matti (meðlimur í Vantrú) - 13/05/10 20:57 #

trúmaður = útrásarvíkingur, Matti? Er það ekki rökleiðsla að nasisma, eða svona næstum því?

Gerðu það fyrir mig Carlos og slepptu svona aumingjalegur og óþarfa skítkasti. Nei, þetta á ekkert skylt með rökleiðslu að nasisma. Það eina sem á skylt við það er þessi athugasemd þín.

Þú kaust að tengja þetta við góðærið, ég kaus að benda á aðra hlið á þeirri tengingu. Nasismi kemur málinu nákvæmlega ekkert við.


Carlos - 14/05/10 00:09 #

Hættu þessari uppgerð kallinn minn. Gerðu það fyrir mig Matti, farðu út í búð og kauptu þér rök sem duga (ekki virðistu geta lesið þér til gagns) og haltu þér við efnið, ef það er ekki til of mikils mælt.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 14/05/10 00:17 #

lol, þetta kemur úr hörðustu átt :-)


Svavar Kjarrval (meðlimur í Vantrú) - 14/05/10 01:23 #

Godwin's Law! Carlos tapar.


Ásgeir (meðlimur í Vantrú) - 14/05/10 09:23 #

Pukturinn hjá Matta, eins og ég skil hann er að ef „fólk hrekkur í varnargír“ þegar Guð er lastaður, af því að þetta er eitthvað sem það „sameinast um“, þá er ekkert að guðlasti, vegna þess að hlutir sem samfélagið sameinast um með þessum hætti eru sérstaklega gagnrýniverðir.

Þess vegna var líkingin við útrásarvíkingana rétt, vegna þess að, ef þú hefðir rétt fyrir þér, Carlos, þá hefði verið rangt, ekki bara efnislega, heldur siðferðilega, að gagnrýna útrásarvíkinga.

Það varst þú sjálfur sem notaðir líkinguna við guðlastara og fólkið sem neitaði að „dansa í kringum gullkálfinn“ í góðærinu. Ef þetta eru sambærilegir hópar, þá er guðlast rétt, vegna þess að fólk ætti ekki að hafa slíkar heilagar kýr sem ekki má gagnrýna eða gera grín að. Að kvarta undan guðlasti er ekkert annað en væl, sem hefur ekkert gildi. Þess vegna segir Matti að fólk ætti að venja sig af þessu.

Þetta er ósiður.


Ásgeir (meðlimur í Vantrú) - 14/05/10 09:29 #

Eins og Mick Hume sagði: „‘free speech’ is not the same thing as ‘me speech’. The precious right to be offensive must involve the right of others to offend our beliefs, too.“


Carlos - 14/05/10 12:49 #

Svona svipað og þegar útrásarvíkingar voru gagnrýndir í góðærinu. Þá hrökk fólk, sem átti enga milljarða, í varnargírinn.

Fólkið sem átti milljarðana og fólkið sem vildi eiga milljarðana ýtti því fólki sem vildi lifa spart, að það væri heimskt að taka ekki lán til að fjármagna neyslu. Þetta var hin hliðin á útrásinni og sú hlið sem Matti kaus að skauta framhjá í gagnrýni sinni á mig.

Punkturinn minn, sem Matti og þið allir misstuð af er aðeins "núanseraðri" en þið gerið ráð fyrir:

"Guðlast" er fyrst og fremst árás á ríkjandi sið, og þarmeð samfélagsgerð í klassískum skilningi orðsins. Þar sem samfélagið hefur "eina trú og einn sið" snýst guðlastið því ekki að guði, heldur samfélagsgerðinni (ég nefndi dæmið um aþeioi í Grikklandi til forna).

"Guðlast" er líka til sem árás á þjóðfélagshópa, sem sameinast um tiltekinn guð. Þá verður guðinn (eða spámaður hans) notaður sem tæki til að gera lítið úr hópnum, skekkja stöðu hans og jafnvel hafa af honum réttindi og reisn (t.d. Múhammeðsteikningar en líka meðferð á trúleysingjum á nánast öllum öldum).

Svo er það guðlastið sem tæki til að hrista upp í ríkjandi skipulagi, aðferð til mótmæla. Ekkert að því, en pointið mitt er að á meðan fólk lítur á skoðanir sínar sem helg vé, er ekkert skrýtið að það bregðist við af tilfinningasemi.

Þá tilfinningasemi þýðir ekkert að banna eða heimta að menn láti af. Það gerist bara ekki svo auðveldlega.

Komum okkur þá að samskiptum Matta og mín, útrásarvíkingana og það allt. Mér finnst Matti fastur í því að ögra fólk til viðbragða og hlæja síðan að því, þegar það sýnir þau. Honum er auðvitað leyfilegt að gera það sem hann vill. Mér finnst hinsvegar dálítið miður, að þessi stríðni hans miðar hvorki umræðunni né samskiptum áfram. Hann um það.

Auðvitað á að gagnrýna ríkjandi skipulag og samfélagssátt. Hvort heldur sem um dans um gullkálfinn eða einsleita trú eða "whatever" er um að ræða.

Ég bið bara um að menn spyrji sig, hvort það sé ætíð gagnlegt að gera út á særðar tilfinningar. Ég er nefnilega hræddur um að annars þörf gagnrýni fari fyrir ofan garð og neðan annars. Auk þess sem tveir geta leikið þann leik, að ögra og spæla.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 14/05/10 13:19 #

Mér finnst Matti fastur í því að ögra fólk til viðbragða og hlæja síðan að því, þegar það sýnir þau.

Það er vegna þess að þú hefur (lengi haft) fordóma gagnvart mér. Það er ekkert sem ég get gert við því.


Carlos - 14/05/10 13:42 #

Það má vel vera, Matti, og þá er bara tvennt í stöðunni, láta af þeim eða halda lífi í fordómunum. Ég er meira en til í að byrja á núllpunkti.


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 14/05/10 14:51 #

Ekkert er hafið yfir gagnrýni og heilagar kýr og gullkálfar ættu að fá hana í ríku mæli.

En gagnrýni eða goðgá og guðlast má líka gagnrýna.

Særindi eru kannski óumflýjanleg á báða bóga en gerum þetta ekki persónulegt.


Carlos - 14/05/10 18:23 #

Takk fyrir þetta, Reynir. Mig langar að sjá veiku punktana á öllum hliðum og tek þátt í umræðum á borð við þessa hér til þess að ná þeim upp á yfirborðið. Stundum virðist persóna mín og talandi hindra að nákvæmlega það gerist. Það finnst mér miður og vil forðast að svo fari.


Ægir Sveinsson - 14/05/10 18:55 #

Heilir og sælir.

Ég ætlaði nú reyndar að skrifa þessa einu athugasemd og láta þar við sitja enda sækist ég ekkert sérstaklega eftir einhverju þrasi sem litlu skilar. En ég sé hins vegar að margir líta ennþá þannig á málið að það sé hreint ekkert að guðlasti þannig að mig langar til þess að gera eina tilraun enn til að skýra það betur hvers vegna það er engum til sóma, hvaða skoðanir sem menn kunna annars að hafa á trú eða trúarbrögðum.

Ef við hugsum okkur það að einhver einstaklingur taki sig til og þrammi á Lækjartorg þar sem hann breiðir út bandaríska fánann á gangstéttina, sviptir niður um sig buxunum og skítur á fánann, þá myndu flestir Íslendingar líta svo á að maðurinn væri dóni og þessi hegðun ákaflega subbuleg. Enn verra væri ef hann væri með íslenska fánann, því þá held ég að langflestum okkar væri gróflega misboðið og margir gætu tekið þessu býsna persónulega og verið sárir yfir svona hegðun. Og HVER ERT ÞÚ að segja öðrum hvernig mér á að líða gagnvart slíku og að ég þurfi að venja mig af því? Þetta er svo hrokafull afstaða að ég á ekki orð!

Það getur vel verið að menn geti skitið á sinn eigin þjóðfána eða þjóðfána annarra í nafni einhvers frelsis. En það breytir því ekki að slík hegðun er algjörlega óþörf, sóðaleg, særandi og þeim sem slíkt gera til minnkunar og skammar. Þessi hegðun sem ég er að lýsa er fullkomlega sambærileg við guðlastið og ég verð að segja að ég hreinlega skil ekki hvað mönnum gengur til sem hafa þörf fyrir slíkt. Sem betur fer er það þannig að þótt margir séu engir aðdáendur Bandaríkjanna þá er ekkert sem knýr þá til að skíta á fánann þeirra og þess vegna skil ég ekki þessa þörf trúleysingja fyrir það að guðlasta.

Ég hefði haldið að við ættum að geta komið okkur saman um að bera virðingu fyrir öllum mönnum óháð hvort eða hvaða trú þeir hafa en það lítur út fyrir að hatursfullur hugur margra komi því miður í veg fyrir það.

Lifið heilir undir náð Drottins og blessun!


Baldvin (meðlimur í Vantrú) - 14/05/10 19:08 #

Kemur þessi gamla klisja um virðingarleysi fyrir náunganum.

Það er vel hægt að vera ósammála fólki og gagnrýna skoðanir þess og bera samt virðingu fyrir því sem manneskjum.

Trúarskoðanir eru ekki annars eðlis en aðrar skoðanir og harkaleg gagnrýni á aðrar skoðanir er yfirleitt látin óáreitt.

Það er bara þegar kemur að trúarskoðunum sem fólk dregur upp þetta sárindaspil sem allt á að trompa. Guðlastshugtakið er ekkert annað en útgáfa af þessu.


Ægir Sveinsson - 14/05/10 19:18 #

Guðlast hefur ekkert með gagnrýni á skoðanir að gera. Guðlast felur í sér það að drullað er yfir fólk og ekkert annað en ótrúlegur dónaskapur!


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 14/05/10 19:21 #

Ægir, ég skil þig. Mér dettur ekki í hug að "drulla yfir" persónulega trú manna. Mín vegna má hver sem er trúa hverju sem er, ef hann lætur annað fólk í friði.

Ástæða þess að ég tel fullkomlega réttlætanlegt að gera gys að kristni er sú að það er ekki flóafriður fyrir þessu helvíti (kristninni). Yfirgangur og ofríki hennar er með slíkum ósköpum að viðbrögðin eru aldrei annað en svipur hjá sjón í þeim efnum.

Þegar börnin manns fá ekki einu sinni frið í skólum fyrir þessum þvættingi þýðir ekkert að biðja sér griða.


Baldvin (meðlimur í Vantrú) - 14/05/10 20:23 #

Auðvitað má öllu ofgera og auðvitað er ljótt að ráðast á fólk persónulega og "drulla yfir það". En guðlast þarf alls ekki að fela það í sér og ég sé ekki að það geri það í þessu tilfelli.

Guðlast getur einmitt þjónað til að vekja fólk til umhugsunar um málefni sem það alla jafna veltir ekki fyrir sér. Háð og ádeila eru sterk verkfæri til gagnrýni og vitundarvakningar.

Það er bara þegar hæðst er að trúarskoðunum eða deilt er á þær sem allt í einu er talað um guðlast og fólk telur á sér brotið persónulega þó í raun hafi aðeins verið "ráðist" að skoðunum þeirra, líkt og alvanalegt er með annars konar skoðanir.


Ingibjörg G Guðmundsdóttir - 17/05/10 14:39 #

Mig langar að benda á að Helgi Hóseasson notaði alltaf„himnahlaupsdagur“ um daginn þann sem í upphafi skrifanna hér er nefndur „uppstigningardagur“.


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 17/05/10 14:57 #

Í Noregi er það himnaspretturinn eða "himmelspretten".


Finnur - 21/05/10 04:23 #

Þær geta verið magnaðar ferskeytlurnar, jafnvel þótt þeim sé illa saman hnoðað.

Fífl og fávita Vantrú illa líður,
svo froðufellandi formælingum öllu ríður.
Sannleikurinn samt svo illa svíður,
að sárann sinn böllinn hver rífur.



Reynir (meðlimur í Vantrú) - 21/05/10 10:28 #

Þakka þér fyrir þessa sjálfsmynd, Finnur. Þótt þér svíði sannleikurinn ættirðu að láta jafnaldrann í friði. Ég vona að þér líði brátt betur.


Finnur - 21/05/10 11:37 #

Tilvitnun í Matta úr neðra:

Að eiga við þig samræður á netinu er eins og að skrapa á sér kónginn með rifjárni. Sársaukafullt og tilgangslaust.
Annars er gott að sjá að þið látið þetta standa, upphaflega útgáfan náði þeirri frægð að vera eytt úr neðra. Hún var reyndar aðeins persónulegri, "sinn" var nafngreindur.

En gott hjá ykkur strákar.


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 21/05/10 12:03 #

Sannleikanum verður hver sárreiðastur.

Sýnið viðbrögð, en vinsamlegast sleppið öllum ærumeiðingum. Einnig krefjumst við þess að fólk noti gild tölvupóstföng, líka þegar notast er við dulnefni. Ef það sem þið ætlið að segja tengist ekki þessari grein beint þá bendum við á spjallborðið. Þeir sem ekki fylgja þessum reglum eiga á hættu að athugasemdir þeirra verði færðar á spjallborðið.

Hægt er að nota HTML kóða í ummælum. Tög sem virka eru: a href, b, i, u, br, p, strong, em, ul, li og blockquote. Einnig er hægt að notast við Markdown rithátt í athugasemdum. Notið skoða takkann til að fara yfir athugasemdina áður en þið sendið hana inn.










Muna þig?