Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

David Lynch í ruglinu

Kvikmyndaleikstjórinn David Lynch er að koma til landsins. Því miður ætlar hann ekki að ræða kvikmyndaferil heldur fyrirbæri sem kallast Transcendental Meditation (TM) og er yfirleitt kallað innhverf íhugun á íslensku. Stofnað var til þessa kerfis af Maharishi Mahesh Yogi (1918-2008).

Til að byrja með er rétt að taka fram að Vantrú er ekki á móti hugleiðslu sem slíkri. Það er örugglega bara gott og róandi. Það er annað sem ergir okkur við þetta fyrirbæri. Það sem okkur líkar illa við eru þær fjarstæðukenndu staðhæfingar sem fylgja þessum kenningum og að kerfið byggir á blindri trú á Maharishi Mahesh Yogi.

Frægasta dæmið af fráleitum kenningum TM(TM) hreyfingarinnar er jógíska flugið. Samkvæmt því þá geta menn flogið þegar þeir hafa náð ákveðnu stigi í hugleiðslu. Hér er skemmtilegt myndband sem sýnir þeirra allra hæfustu flugkappa.

Kjánar sem hoppa um á rassinum er ekki það eina sem gerir TM(TM) vafasamt. Samkvæmt kenningum þeirra geta menn með hugleiðslu breytt heiminum, komið í veg fyrir stríð, glæpi og svo framvegis, ef þeir eru nógu margir. Það er bara vitleysa. Árið 2003 var hópaðgerð í Bretlandi þar sem menn reyndu með hugleiðslu að koma í veg fyrir endurkjör Tony Blair. Maharishi Mahesh Yogi varð ákaflega fúll þegar þetta virkaði ekki og bannaði kennslu á TM(TM) í Bretlandi þar til Blair hætti sjálfviljugur.

Nú eru sumir, þar á meðal undirritaður, sem geta alveg tekið undir að málefnið hafi verið fínt (enda er forsætisráðherrann fyrrverandi óhóflega kristinn) en maður spyr sig hvort að hugleiðendurnir hefðu ekki frekar átt að fara út og spjalla við kjósendur, dreifa bæklingum og þess háttar frekar en að sitja og hugleiða? Það hefði ekki endilega virkað en það hefði allavega mögulega haft áhrif ólíkt hugleiðslunni. En þarna sameinast bænin og hugleiðslan. Þetta eru fyrirbæri sem hafa engin bein áhrif á neinn nema þann sem þetta stundar. Rétt er að taka fram að ýmis óbein áhrif eru möguleg eins og sést á bænarannsóknum þar sem sjúklingar sem beðið er fyrir vegnar verr en öðrum ef þeim er sagt frá bænunum.

Við hvetjum að sjálfsögðu alla sem vilja að mæta á fyrirlestur Lynch en takið því sem hann segir með fyrirvara. Ef þið eruð heppin þá verður þetta jafn skemmtilegt og þegar Lynch talaði í Þýskalandi ásamt skoðanabróður sínum sem talaði í sífellu um hið ósigrandi Þýskaland sem Adolf Hitler mistókst að koma á.

Óli Gneisti Sóleyjarson 01.05.2009
Flokkað undir: ( Nýöld )

Viðbrögð


Þórður Örn Arnarson - 01/05/09 13:15 #

Þetta er ekkert smá fyndið. Það er sennilega rétt hjá þeim samt, ef allir hoppuðu bara um á rassinum allan daginn myndi það að minnsta kosti gera stríðsrekstur töluvert erfiðari :)

Ég ætla samt að kíkja á Lynch, aðallega af því að mig langar að sjá þennan frábæra leikstjóra með berum augum.


Björgvin Ragnarsson - 01/05/09 14:47 #

Þetta video og tal um kjána sem hoppa á rassinum er bara til að rugla lesendur. Hvernig væri bara að að hlusta á hvað David Lynch hefur að segja og meta svo hvað er að marka í því?


Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 01/05/09 15:00 #

Bjánarnir sem hoppa á rassinum eru hluti af hugmyndakerfinu sem Lynch er að kynna þannig að sjálfssögðu koma þeir málinu við. En eins og ég sagði í greininni þá ætti fólk endilega að mæta og hlusta á Lynch en bara ekki trúa blint og þá ætti enginn að falla fyrir þessu.


Hildur - 01/05/09 20:59 #

"no one has gotten beyond stage one of the process"

þú segir ekki.


Björn Ómarsson - 01/05/09 22:01 #

Ég hló upphátt þegar "vísindamaðurinn" fór að benda á heilalínuritið (EEG) rétt fyrir "flug".

Looking at one second period, just before they actually lift up, there's broadband... global coherence. And so the person is in a very different state of mind, different state of brain [sic] we call pure consciousness...

Þetta sem hann er að lýsa er hvorki meira né minna en hin spiritúalíski og dularfulli EMG artifakt! Dásamlegt að þessum mikla vísindamanni hafi loksins tekist að ná honum á heilalínuriti!

EMG artifakt kemur til vegna þess að raf-virkni í vöðvum líkamans (kringum 1 milli-volt)er talsvert miklum mun sterkari en rafvirkni í heilanum (kringum 1 míkró-volt), jafnvel þegar þú ert svona nálægt heilanum. þetta er ástæðan fyrir því að maður á að vera kyrr þegar verið er að mæla EEG! Skýring "vísindamannsins": rétt fyrir flug nær maður hreinni meðvitund sem orsakar artifaktinn, verður held ég að víkja fyrir augljósu útskýringunni: rétt fyrir hopp, kreppir maður vöðva.


Kári - 01/05/09 22:39 #

Ég var að bíða eftir því að Vantrú myndi fjalla um Lynch kallinn. Ég held að þetta verðskuldi mikla skeptík.


Gurrí - 02/05/09 21:25 #

Vinur minn fór á fundinn í Háskólabíói og varð fyrir vonbrigðum. Sá er reyndar ekki mjög innhverfraríhugunarsinnaður, var þó forvitinn og langaði líka til að berja frægakarlinn augum. Þessi vinur minn frétti að það kostaði "bara" 100 þúsund að fara á námskeið í þessu. Miklu ódýrara hér en í Bandaríkjunum.


Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 02/05/09 21:54 #

Maður getur ekki sett verðmiða á sálarró, heimsfrið og möguleikann á að læra að fljúga.


Þundur Freyr - 03/05/09 23:17 #

Ja ég bíð allavegana spenntur eftir að fyrsta manneskjan nær stigi 2. Þá borga ég milljón fyrir námskeiðið, ekki einhvern skitinn 100Þ kall :D

Þangað til þá held ég mig við píramíta schemin, ég er alveg að verða milljóneri með þessu NuSkin dóti.


Óskar P. Einarsson - 04/05/09 10:49 #

Já, Lynch er svolítið að missa sig í ruglinu og .hann er samt eini virkilega mikilvægi leikstjórinn starfandi í dag, sá eini sem ég vill meina að hafi náð Kubrískum hæðum eftir dauða Stanley Kubrick. En það er önnur saga...

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.