Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Áfram Jesús!

Ég dáist mjög að Jesú og mörgu sem haft er eftir honum. Helvíti hefur hann verið kaldur og mikið óskaplega bætti hann geldar hugmyndir samtímamanna sinna. Að vísu flaskaði hann á guðshugmyndinni en hann átti fína spretti, sér í lagi þegar aðstæður hans og bakgrunnur er hafður í huga.

Ekki misskilja mig. Ég tel Búdda og Lao-tse mun fremri Jesú að mörgu leyti en þeir voru ekki undir oki eingyðistrúarinnar líkt og Jesú greyið. En þótt honum hafi ekki auðnast að brjótast undan þeim klafa gerði hann þó sitt til að benda á fáránleika trúarbragðanna, og fulltrúa þeirra, á sinn hátt. Nýja testamentið var bylting.

Jóhannes skírari sló tóninn. Í upphafi Nýja testamentisins segir: "Þegar hann sá, að margir farísear og saddúkear komu til skírnar, sagði hann við þá: "Þér nöðru kyn, hver kenndi yður að flýja komandi reiði? Berið þá ávöxt samboðinn iðruninni." (Mt. 3:7)

Takið eftir. Jóhannes var ekki að bauna á trúlausa, heldur fulltrúa trúarinnar. Því hjá þeim var enga iðrun að finna, þeir töldu sig hafa höndlað sannleikann, með því að stúdera skræðurnar og fylgja bókstafnum út í æsar. Þegar Jesú lét svo í sér heyra stuttu síðar, í fjallræðunni, tók hann í sama streng: "Ef réttlæti yðar ber ekki af réttlæti fræðimanna og farísea, komist þér aldrei inn í himnaríki." (Mt. 5:20)

Og hann hélt áfram:

Rísið ekki gegn þeim sem gerir yður mein. Nei, slái einhver þig á hægri kinn þá bjóð honum einnig hina. Og vilji einhver þreyta lög við þig og hafa af þér kyrtil þinn, gef honum eftir yfirhöfnina líka. (Mt. 5:39)

Þegar þú gef ölmusu, skaltu ekki láta þeyta lúður fyrir þér, eins og hræsnarar gera í samkunduhúsum..." (Mt.6:2)

Og þegar þér biðjist fyrir, þá verið ekki eins og hræsnararnir. Þeir vilja helst standa og biðjast fyrir í samkundum og á gatnamótum, til þess að menn sjái þá. (Mt. 6:5)

Safnið yður ekki fjársjóðum á jörðu, þar sem mölur og ryð eyðir og þjófar brjótast inn og stela. (Mt. 6:19)

Allt sem þér viljið að aðrir menn gjöri yður, það skuluð þér og þeim gjöra. (Mt. 7:12)

Jesú eyddi mestu púðri sínu í að fordæma súrdeig faríseanna (hræsnina) en það dafnar vel meðal þeirra sem kenna sig við hann nú á dögum. Prestar prédika yfir lýðnum og vitna oft í fjallræðuna, en aldrei minnist ég þess að hafa heyrt þá minnast á Mt. 6:5. Og hvar safnar kirkjan sínum fjársjóðum?

Hver er það sem bendir á kalkaðar grafir nútímans og súrdeig faríseanna? Ekki eru það kirkjunnar menn. Sennilega er vantrú öflugasti arftaki Jesú, hér og nú, að því leyti. Merkilegt nokk. En kirkjan býður okkur ekki hina kinnina heldur úthrópar okkur hættulega siðleysingja. Látum Jesú botna þetta:

Hví sér þú flísina í auga bróður þíns, en tekur ekki eftir bjálkanum í auga þínu? (Mt. 7:3)

Margir munu segja við mig á þeim degi: "Herra, herra, höfum vér ekki kennt í þínu nafni, rekið út illa anda í þínu nafni og gjört í þínu nafni mörg kraftaverk?" Þá mun ég votta þetta: "Aldrei þekkti ég yður. Farið frá mér illgjörðamenn." (Mt. 7:22)

Reynir Harðarson 16.11.2008
Flokkað undir: ( Kristindómurinn , Siðferði og trú )

Viðbrögð


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 16/11/08 13:27 #

Verð að bæta við að Hjörtur Magni fríkirkjuprestur er duglegur að gagnrýna hræsni ríkiskirkjunnar. Hann má eiga það.


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 24/11/08 08:41 #

Já, samanber þessa frétt á mbl.is og á visir.is í dag.


Jón Arnar Magnússon - 10/12/08 15:04 #

Biblían er bók skrifuð af mönnum.

Það er munur á trú annars vegar og fólki sem misnotar trú hins vegar.

Kaþólskan kirkjan var spillt hér áður fyrr. Þar að segja í kringum þann tíma sem Lúther kom fram með sínar kenningar.

Málið er að þessi Jesú er ósköp venjulegur maður af hold og blóði. Hann bar virðingu fyrir náttúrunni og kenndi fólk að elska. Hann er einhvers konar fyrirmynd mín um hvernig lífið á að vera.

Það er alveg burtséð frá því hvort að hann hafi verið til eða ekki. Það er hlutverk sagnfræðinganna að komast að því.

Trúin er eitthvað sem kemur innan frá. Þá er ég ekki að segja að þessi atburður sem er lýstur i Biblíunni sé sannleikur eða lygi heldur er að maður finni fyrir sínum mætti.

Að maður finnur fyrir sjálfum sér og orkunni í kringum sig.

Trúin hefur hins vegar hjálpað fólki. Ég nefni AA tildæmis.

En að þröngva trú upp á einhvern er siðlaust og á ekki heima í kirkjum eða eitthvað slíkt. Frekar á þetta vera valkostur.

Ef menn finna fyrir æðrum mætti í sjálfum sér þá skil ég vel að þeir finni sér farveg í kirkjunni til dæmis ef þetta hjálpar þeim að vera betri maður.

Það segir okkur ekki það að við eigum að segja að hinir sem taka bibliuna í efa að þeir séu verri menn en áður.

Fyrir þá sem eru trúaðir og fyrir þá sem eru trúlausir og eru fastir á sinu þá þætti mér vænt um ef þið getið báðir opnað augum og skoðað umhverfið í kringum ykkur áður en þið farið að rífast út i hvern annan.

Kær kveðja Jóndi


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 10/12/08 19:06 #

Þakka þér fyrir, Jóndi. Ég get tekið undir hvert orð.

Ég vil þó leyfa mér að minna á hversu siðlaus Lúther var (ummæli um gyðinga t.d.) og fullyrði að enn í dag er kirkjan gjörspillt.

Ég hef nú verið þeirrar ógæfu aðnjótandi að kynna mér störf og starfshætti Þjóðkirkjunnar allnáið undanfarin tvö ár og fullyrði fullum hálsi að hræsnin þar er í hærri hæðum en ég hélt. Raunar svakalegri en ég hefði nokkurn tíma trúað að óreyndu. Hræsni, óheiðarleiki og siðblinda.

Sterk orð, en þetta er niðurstaða mín eftir að hafa "skoðað umhverfið". En ég er ekki blindur á það góða sem þar er að finna, og öllu því góða sem í trúuðum býr.


Ronni - 10/12/08 19:32 #

Það sem er hátt í augum manna er viðurstyggð í augum Guðs. Jesús er gjörsamlega dýrkaður af meirasegja mönnum sem telja sig ekki kristna. Ætli það hafi verið kaleikurinn sem hann bað föðurinn að forða sér frá?


Ronni - 10/12/08 19:48 #

Kanski ekki. Ég hef verið að leyta í trúna mjög lengi og aldrei fundið mig neinsstaðar í neinu trúfélagi. Þetta er allt mjög "satt" sem þið setjið fram hérna á vantrú.

Ég ætlaði ekki að spilla gleðinni!


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 10/12/08 20:12 #

Engar áhyggjur, Ronni. Vangaveltur spilla engri gleði hér á bæ, þvert á móti fögnum við því að heyra ólík sjónarhorn.

Ég vona að þú finnir það sem þú leitar að. Mér finnst það boða gott að þú finnir þig ekki í neinu trúfélagi - þú gerir þá e.t.v. réttar kröfur.

Margir sem leita vita hins vegar ekki að hverju þeir leita. Ég ráðlegg þér að skilgreina vel að hverju þú leitar, til að þú eigir möguleika á að finna það.

Ég held til dæmis að það sé tímaeyðsla (sem ég er sekur um) að leita að guði - hann er ekki til. En það er hægt að finna þekkingu, visku, gleði, hamingju, tilgang o.s.frv.


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 11/12/08 11:24 #

Tæpum fjórum vikum eftir að þessi grein birtist má líta sýnishorn af heilindum ríkiskirkjuprests.

Lesendur geta metið heiðarleika, kærleika og sáttfýsi prestsins út frá þessari umfjöllun - og hvort þetta er e.t.v. kjarninn í "kristilegu siðgæði". Eða hógværð, lítillæti og sanngirni.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.