Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Réttlæti eða ærandi þögn?

Það er líklega ekkert sem vekur jafnmikil tilfinningaþrungin viðbrögð og umræða um trúarbrögð. Þetta er náttúrulega mál sem er þéttofið við tilfinningar og grundvallarlífsskoðanir fólks. Umræður um trúarbrögð hafa hinsvegar verið að opnast síðustu ár með tilkomu vefsíðna sem hafa tekið fyrir trúmál eins og t.d. Vantrú. Í kjölfar þessarar umræðu þá er hugtakið trúfrelsi ekki lengur bannorð.

Þrátt fyrir að þessi umræða um trúmál, þó sérstaklega trúfrelsi, er komin að einhverju leyti upp á yfirborðið í þjóðfélagsumræðunni, þá gera margir sér ekki grein fyrir þeirri staðreynd að íslensk þjóðfélag er bundið í fjötra hefðarinnar í þessu þjóðþrifamáli. Hér er nefnilega einum trúarhóp hyglt vegna sögu og ríkistengsla hans.

Þessi tengsl tákna það að lítill hópur klerka hefur veruleg áhrif miðað við hinn meðalborgara. Ein hliðarverkun af þessum tengslum er mismunun í lögum landsins gegn öðrum trúarskoðunum, hvort sem um er að ræða klofningssöfnuði, nýja söfnuði, innflutta söfnuði eða jafnvel trúleysi. Sem betur fer hefur trúfrelsi verið að verða rólega að veruleika, þrátt fyrir lög landsins. Lögin eru nefnilega dugleg við að vera á móti öðrum söfnuðum en þeim eina sem hefur blessun ríkisvaldsins. Til þess að auðvelda okkur lífið í baráttunni gegn ranglætinu þá eru hérna nokkrir punktar, því við þurfum að krefjast réttinda, því við munum ekki fá þau í hendurnar, af því bara:

Þú mátt ekki tala

Hér á landi er oft sagt að sé skoðana- og tjáningafrelsi. Það er einfaldlega ekki rétt, því það eru ennþá leifar frá konungum Danaveldis. Því guðlast er bannað. Það var meira segja sett af stað rannsókn 1997 á grundvelli guðlastslaganna. Þá átti nefnilega að kæra Spaugstofumenn fyrir páskaþátt þeirra, þar sem meðal annars blindur maður fær Sýn (sjónvarpsstöðina).

Þessi vernd gegn kímni er einstök hér á landi, ekki myndu pólítískar skoðanir manna fá þessa vernd þrátt fyrir að margir taka pólitíkina og fótboltann mun alvarlegar en trúmál. Ímyndið ykkur samt sem áður hvernig því væri tekið ef því þú mættir ekki gera grín að enska knattspyrnuliðinu Manchester United eða KR. Það er eitthvað sem segir mér að það færi ekki auðveldlega í gegnum þingið.

Þú mátt ekki elska

Þökk sé Þjóðkirkjunni þá er ríkið ennþá að mismuna samkynhneigðum. Sú staðreynd að ríkið neitar samkynhneigðum um giftingar er ekkert annað en fáranleg. Einhverjir munu spyrja án efa, er það ekki Þjóðkirkjan sem er að þessarri mismunun, það er rétt, en Þjóðkirkjan er ekkert annað en hluti af ríkinu. Reyndar væri ekkert óeðliegt að tala um Ríkiskirkjuna í þessu samhengi, svo ég mun bara gera það framvegis.

Til þess að hægt sé að segja að hér sé raunverulegt trúfrelsi í þessu máli þá ættu öll trúfélög að hafa leyfi til þess að gifta fólk, sama af hvað kyni það er. Járnhæll Ríkiskirkjunnar er engin réttlæting fyrir því að traðka niður frelsi annara trúfélaga og jafnrétti í þessu máli þegar sum hafa nú þegar lýst yfir vilja sínum til þess að gifta samkynhneigða.

Þú skalt bara einn vernda

Sem stendur hljómar 62. grein stjórnarskrár Íslands svo:

Hin evangeliska lúterska kirkja skal vera þjóðkirkja á Íslandi, og skal ríkisvaldið að því leyti styðja hana og vernda. Breyta má þessu með lögum.“

Þú mátt ekki ekki trúa

Þar sem að kirkjan er svona þéttofinn inn í stjórnsýslu Íslands þá er félagafrelsið fótum troðið. Margir einstaklingar hafa skráð sig úr Ríkiskirkjunni en komast seinna meir að því að það er búið að skrá þá aftur í kirkjuna, gegn vilja sínum. Þetta er ekkert annað en stjórnarskrárbrot, því félagafrelsi á að ríkja hér á landi. Í ljósi fjöldans sem hefur komist að því á undanförnu misseri að það sé komið aftur inní Ríkiskirkjuna þá er án efa umtalsverður fjöldi einstaklinga sem eru að greiða í sjóði Ríkiskirkjunnar gegn vilja og vitund sinni.

Margir aðrir kynlegir hlutir eru tengdir trúfélagsskráningum. Ber þar hæst að börn eru skráð við fæðingu inn í trúfélag móður. Þá getur komið upp sú staða að ekki verður hægt fyrir annað foreldrið að skrá barnið út úr Ríkiskirkjunni, jafnvel með vilja barnsins. Þetta er ennþá merkilegra í ljósi þess að móðirin getur meira að segja verið komin í trúfélag sem hún hafði engan áhuga á að vera í. Ég spyr mig líka, hvernig stendur á því í þjóðfélagi sem þykist vera jafnréttisþjóðfélag að móðirin getur sett eins síns liðs barn í trúfélag, án þess að faðirinn komi málinu við.

Ef við viljum lágmarka áhrif rangra trúfélagsskráningar, þá þyrfti að tryggja gegnsæi í þessu máli. Það væri hægt t.d. með því að setja þar til gerðan reit á skattskýrslur þar sem kæmi fram í hvaða trúfélag sóknargjöld einstaklinga fara. Sóknargjöldin eru nefnilega greidd úr Ríkissjóði. Við þurfum líka að spyrja okkur að einu, af hverju er ríkið að rukka félagsgjöld ?

Þú skalt ekki með lögum land byggja [eða Þú skalt ekki lögum fylgja]

Ríkiskirkjan virðist einnig vera yfir lögin hafin, því hún hefur framkvæmt ótrúlegan fjölda ólöglegra ferminga. Hún fermir nefnilega fólk sem er ólöglegt að ferma. Til þess að mega að fermast þá þarftu, samkvæmt lögum, að vera orðin(n) 14 ára. En ég veit að ég var ekki orðinn 14 ára þegar ég var fermdur. Þrátt fyrir háan aldur laganna þá á að fylgja þeim eftir þangað til að þau eru felld úr gildi. Það er merkilegt að þetta mál hefur nærri því verið þagað í hel, því þetta er í raun reginhneyksli fyrir báða aðila. Af hverju á ríkið ekki að fylgja lögunum?

Þú skalt alltaf borga en við fáum meira

Margir vita ekki að Ríkiskirkjan fær meira en tíu þúsund krónur á hvern skattgreiðandi einstakling en önnur trúfélög fá tæplega 8.500 kr, þar með talið Háskóli Íslands. Já, það er hægt að kalla Háskólasjóð Háskóla Íslands trúfélag. Það er svo undarleg staðreynd að maður verður næstum því að spyrja sig hvort að Monty Python eigi hlut að málinu.

Ef við lítum líka á þá staðreynd að það er fullt af fólki í Ríkiskirkjunni sem vill ekki vera þar. Segjum líka að þetta sé eitt prósent þjóðarinnar (neðri mörk að mínu mati) sem eru tæp þrjú þúsund manns. Þetta eru þá minnst 30 milljónir á ári, bara í sóknargjöld en Ríkiskirkjan hefur fleiri leiðir til þess að afla fjár. Þetta er ekki lítil fjárhæð.

En ef þessir einstaklingar myndu skrá sig allir úr Ríkiskirkjunni þá myndu þau samt borga meira en 25 milljónir króna í sóknargjöld þrátt fyrir að vilja ekki vera í neinu trúfélagi. Hvernig er hægt að réttlæta það?

Þú skalt Stóra Bróður eiga

Hverju ég kýs að trúa, kemur ríkinu ekkert við. Svo af hverju heldur ríkið skrá utan um trúfélagsskráningar og sér um rukkun sóknargjalda. Þetta er dæmi um upplýsingar sem eiga ekkert að liggja á skrá hjá ríkinu sérstaklega þegar það er nokkuð ljóst að þeim tekst ekki einu sinni að hafa réttar upplýsingar um fólk. Þetta er dæmi um hlut sem væri að hægt að fletta upp í til þess að mismuna gegn fólki, því það þarf bara eitt rotið epli til þess að geta misnotað svona skrá. Samt það væri áhugavert að útvíkka þessar skráningar og sjá rekkjunautaskráningar landsmanna.

Án efa hafa einhverjir hugsað við lestur þessarar greinar:„af hverju skrifa um þetta, trúmál eru persónuleg og á ekki að ræða um“ Ég ætla að leyfa Dr. Martin Luther King eiga lokaorðið af þeim sökum:

On some positions, Cowardice asks the question, "Is it safe?" Expediency asks the question, "Is it politic?" And Vanity comes along and asks the question, "Is it popular?" But Conscience asks the question "Is it right?" And there comes a time when one must take a position that is neither safe, nor politic, nor popular, but he must do it because Conscience tells him it is right.


Birtist áður í Vinstri, tímariti Ungra Vinstri-grænra

Erlendur Jónsson 03.03.2008
Flokkað undir: ( Efahyggja )

Viðbrögð


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 03/03/08 15:40 #

Mjög góð grein. Þessi staða mála á Íslandi er okkur öllum til háborinnar skammar. Skömm þingmanna er mest, þá presta og preláta.

Mönnum fyrirgefst víst ýmislegt ef þeir vita ekki hvað þeir gjöra. Kostirnir sem þessir menn standa frammi fyrir eru að játa annað hvort sauðshátt sinn eða rangsýni.

Réttsýnir menn hafa bent á þetta en þorri manna er blindur eða lokar augunum, þvi að hrófla við þessu "er hættulegt", "tvíeggjað í valdabaráttu" og "óvinsælt"... meðal sérréttindahópsins.


Haukur Ísleifsson (meðlimur í Vantrú) - 03/03/08 17:02 #

Það er í rauninni stór furðulegt að þetta hafi haldist svona meðan það hefur verið meirihluti fyrir aðskilnaði í mörg ár.


Jóhann - 03/03/08 19:14 #

Svíum tókst nú eftir áratuga stapp að skilja á milli ríkis og kirkju, mætti kanski læra eitthvað af ferlinu hjá þeim.

Annars held ég að öll lönd í Evrópu séu komin með veraldlega stjórnarskrá, fyrir utan Bretland, Danmörku og fyrri nýlendur Dana. (Og jú, ætli vatíkanið og þessi furstadæmi séu ekki líka eitthvað á eftir þróuninni.) Það þarf að fara til miðausturlanda og niður á Arabíuskaga til að finna ríki sem enn blanda trúmálum inn í stjórnarskránna. Þetta eru varla þau lönd sem við viljum alla jafna bera stjórnarfar okkar saman við.


Jóhann - 03/03/08 19:26 #

Varðandi trúarskattinn, þá er búið að fela hann rækilega í skattkerfinu. Hér í denn þá var þetta nefskattur, kallaður sóknargjöld, sem var rukkaður sérstaklega svona eins og framlög í framkvæmdasjóð aldraðra og afnotagjaldið fyrir RÚV ohf í dag. En þessu var breytt einhverntíma og nú er svo látið heita að trúfélög "eigi hlutdeild í" tékjuskatti landsmanna.

Hljómar vissulega eins og lögfræðilegur orðhengilsháttur, en þetta hefur meðal annars þau áhrif að þessi skattur sést ekki á álagningarseðli eins og framkvæmdasjóðurinn gerir. Þetti er sennilega hluti af ástæðunni fyrir því hvað fólk hefur litla hugmynd um þessi gjöld.

Held það væri til verulegra bóta ef fólk þyrfti að velja sér trúfélag á skattskýrslu.


Guðmundur D. Haraldsson - 22/04/08 02:13 #

Úr 79. grein stjórnarskrárinnar:

Nú samþykkir Alþingi breytingu á kirkjuskipun ríkisins samkvæmt 62. gr., og skal þá leggja það mál undir atkvæði allra kosningarbærra manna í landinu til samþykktar eða synjunar, og skal atkvæðagreiðslan vera leynileg.


Teitur Atlason (meðlimur í Vantrú) - 22/04/08 10:56 #

  1. gr. Hin evangeliska lúterska kirkja skal vera þjóðkirkja á Íslandi, og skal ríkisvaldið að því leyti styðja hana og vernda. Breyta má þessu með lögum.

Samkvæmt 62. grein og þeirri 79. þarf þá alltaf þjóðarakvæðagreiðslu um breytingu á ríkiskirkjufyrirkomulaginu?

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.