Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Í hvað fara peningarnir okkar?

Eins og fram hefur komið þá borgar ríkið árlega tæplega fjóra og hálfan milljarð króna til þess að halda við ríkisreknu trúfélagi. Eins og þið vitið væntanlega þá fær ríkið sinn vasapening frá ykkur í gegnum skatta og gjöld. Svo í raun má segja að við, Íslendingar, séum að borga fyrir rekstur ríkiskirkjunnar. En hvað er það sem við fáum í staðinn? Hvaða stórvirki hefur kirkjan unnið í okkar þágu undanfarin ár?

Kirkjan sér um verndun og gæslu sálna ykkar, sem er náttúrulega mikilvægt þannig séð ef þið trúið á himnaríki og helvíti. Kirkjan sér um áfallahjálp fyrir þá sem hafa misst ættingja og vini, og er það ekki nákvæmlega það sem við þurfum þegar við erum hvað viðkvæmust; að fá opinberan sendimann trúfélags til að minna okkur á að þjáningar okkar og dauði sé allt hluti af óútskýranlegri áætlun almáttugrar veru.

Kirkjan hélt líka veglega veislu á Þingvöllum í tilefni kristnitöku á Íslandi með veglegum styrk frá okkur. Það voru ekki allir sammála um ágæti þessarar hátíðar og mætingin var víst einhvað slöpp en þetta var eflaust þrusu stuð fyrir þá sem mættu.

Kirkjan hefur líka verndað samfélag okkar gegn hatrömmum og öfgafullum hópum eins og Siðmennt og Samtökunum 78. Hópum sem í nafni réttlætis og virðingar hafa viljað bola burt rótföstum gildum okkar samfélags. Hún bjargaði okkur fyrir horn þegar einhverjir snargeðveikir þingmenn vildu leyfa skráðum trúfélögum að gefa saman samkynhneigða í hjónaband.

Kirkjan var líka svo framsýn að sækja inn í leik- og grunnskóla til að bjarga sálum aumingja barnanna sem veraldlega skólakerfið okkar hefði annars gert að sjálfstætt hugsandi fólki sem væri sjálfkrafa dæmt til eilífðarvistar án Ésú. Gvuð forði þeim frá því.

Þetta er aðeins það sem kemur fyrst upp í huga af merkum verkum hinnar biðjandi, boðandi og þjónandi ríkiskirkju. Klárlega hverrar krónu virði.

Haukur Ísleifsson 22.02.2008
Flokkað undir: ( Efahyggja )

Viðbrögð


Anna Benkovic Mikaelsdóttir (meðlimur í Vantrú) - 22/02/08 11:47 #

Mér sárnar þessi "vasapeningur" til ríkiskirkju, sem virðist alveg hafa burði til að vera sjálfstæður stórjarðaeigandi og safnaðargjaldaþiggjandi. Er það ekki nóg?


Valtýr Kári - 22/02/08 19:25 #

Nei Anna, það er ekki nóg.

Mikill vill meira.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.