Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Raunverulegar lausnir

Eiturlyf, drykkja, einelti, ótti, sjúkdómar, áhyggjur, ofbeldi, skuldir og sjálfsmorð eru allt vandamál sem snerta líf okkar allra í einhverri mynd. Við getum auðveldlega bætt við þennan lista í það óendanlega: fordómar, einmanaleiki, þunglyndi, agaleysi o.s.frv. o.s.frv.

Hvað getum við gert í sameiningu til þess að hafa hemil á þessum vandamálum og hafa áhrif á það að við getum öll lifað í þjóðfélagi tækifæra í stað þess að ýta undir misskiptingu og óhamingju?

Alltof margir gefast upp og fyllast svartsýni í því að hjálpa náunganum því að þeim virðist verkefnið vera svo ógnarstórt að það sé hvort eð er ekki á þeirra valdi að bæta heiminn, í það minnsta ekki í gegnum raunveruleg verk. Í þessari ranghugmynd felst sinnuleysi margra. Það er rétt að það er ekki í valdi nokkurs manns að bjarga öllum heiminum, en það sem við ættum að vera að bjarga er okkar eigin persónulega ábyrgð í veröldinni.

Ég bið ykkur: ekki halda það í einhverjum barnaskap að við getum þulið upp einhverjar galdraþulur til þess að geta haft víðtækari áhrif, verið raunsæ og notið þann mikla velvilja sem þið búið yfir til þess að hafa raunveruleg áhrif og gerið það sem er í okkar valdi að gera. Hvert og eitt okkar getur haft gríðarleg áhrif á líf allra í kringum okkur með því að læra um orsakir vandamálanna og miðla því áfram, bæði í litlu og stóru.

Orsakir flestra ofantaldra vandamála er meðal annars hægt að finna í fáfræði, meðvirkni, hræðslu, misskildu umburðarlyndi og brotnum sjálfsmyndum einstaklinganna. Lærum hvernig við tökum á þessum vandamálum, þau verða ekki kveðin niður með öðru móti.

Mig langar til þess að hvetja alla sem ætla að leggjast á bæn í dag að nota tímann frekar til að fara á bókasafnið eða gúggla á netinu og leita upplýsinga um þessi vandamál, orsakir þeirra og hvað er raunverulega í okkar valdi að gera, hvort sem vandamálið er okkar eigið eða einhvers sem stendur okkur nærri og við höfum áhyggjur af.

Þekking veitir okkur vald og sjálfstraust til þess að takast á við hin erfiðustu vandamál.

Til þess að koma ykkur aðeins af stað:

leitarorð fyrir eiturlyf: eiturlyfjamisnotkun= Börn og unglingar og vímuefni (persona.is)

leitarorð fyrir drykkju: áfengisvandamál= Áfengismisnotkun (salfraedingar.is)

leitarorð fyrir einelti: orsakir eineltis= Einelti (barn.is)

leitarorð fyrir ótta: alið á ótta= Alið á ótta og grafið undan mannréttindum (amnesty.is)

leitarorð fyrir sjúkdóma: læknar+forvarnir= Forvarnir - bót eða böl? (laeknabladid.is)

leitarorð fyrir áhyggjur: áhyggjur+álag= Lífshættir án streitu - þegar álag styrkir en skaðar ekki (rsd.is)

leitarorð fyrir ofbeldi: ótti+ofbeldi= Ofbeldi í samböndum (styrkur.net)

leitarorð fyrir skuldir: fjármál+ráðgjöf= Ráðgjafarstofa um fjármál heimilanna (fjolskylda.is)

leitarorð fyrir sjálfsmorð: sjálfsvíg+hjálp= Sjálfsvíg ungs fólks (persóna.is)

leitarorð fyrir fordóma: fordómar= Fordómar eru fáfræði, eða hvað? (alltannad.is) + af youtube= Jane Elliot

leitarorð fyrir einmanaleika: orsakir einmanaleika= Einmana börn (bb.is)

leitarorð fyrir þunglyndi: þunglyndi+meðferð= Þunglyndi (medferd.is)

leitarorð fyrir agaleysi: agi+leiðbeina= Jákvæður agi (barnaland.is)

leitarorð fyrir meðvirkni: meðvirkni= Meðvirkni (medferd.is)

leitarorð fyrir misskilið umburðarlyndi: páll skúlason= Á að virða skoðanir annarra? (vantru.is)

leitarorð fyrir brotna sjálfsmynd: sjálfsmynd= Sjálfsvirðing, sæmd og andstaða (hugsandi.is)

Þitt er valið: bæn eða aðgerðir.

Kristín Kristjánsdóttir 10.11.2007
Flokkað undir: ( Efahyggja )

Viðbrögð


Haukur Ísleifsson - 10/11/07 21:06 #

Ef bæn væri svarið værum við safe.


óðinsmær - 10/11/07 22:04 #

þetta er ekkert nema hroki. Hvernig dirfist þið að saka fólk sem á erfitt eða sem sem horfir á sína nánustu eiga í erfiðleikum, um að hafa bara ekki leitað nógu mikið, lesið nógu mikið eða "gúgglað" nógu mikið? Og talið síðan um að þetta séu einhverskonar "raunverulegar lausnir" - það er skammarlegt satt að segja

bænagangan í dag snerist um að byggja sjálfan sig upp, löngun til þess að skilja sig betur og gerast betur undirbúinn til þess að takast á við vandamálin. Hún snerist ekki um galdraþulur né að segja "abrakadabra" "púff" núna er allt í lagi....


Viddi - 10/11/07 22:42 #

Hún snérist kannski um það hjá litlu brot af göngufólki, óðinsmær.

En stærstu hluti hefur verið fólk sem hefur ekki þurft að takast á við svona vandamál og hélt að svona ganga væri betri "en að gera ekki neitt" varðandi þessi mál.


Kristín Kristjánsdóttir (meðlimur í Vantrú) - 10/11/07 23:38 #

Einmitt af því að fólk á erfitt þá er full ástæða til þess að vekja það af sjálfsblekkingablundinum og hvetja það uppúr meðvirkninni.


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 10/11/07 23:44 #

Blessaðir sauðirnir. Þetta eru velviljuð grey sem hefur verið sagt að guð þeirra svari bænum. Sá sem biður guð um brauð fær ekki steina. Að vísu er undarlegt að það þurfi að biðja algóðan guð að vera nú aðeins betri og benda alvitrum guði á stöðu mála. En vitið eru auðvitað ekki meira en guð gaf.

Svo er meginkrafan að auka kennslu barna í kristinfræði. Hver ætli ástæðan sé? Er fólkinu svona annt um menntun eða halda þau að aukin kristinfræði snúi fólki til sannrar trúar? Er þetta fólk þá ekki eitthvað að misskilja kristinfræðina? Er hún ekki svo gasalega hlutlaus og laus við nokkra innrætingu? Ég verð að viðurkenna að þetta vekur vissulega upp spurningar. Enda er það þetta með vitið...


Guðjón - 11/11/07 11:39 #

Ætli hún Kristín sé ekki velviljaður kjáni sem hefur aldrei horft framan í manneskju sem er full örvæntingar.

Þú segir ekki foreldrum sem eru ráðþrota vegna ungmennis sem er í dópi að gúgla á netinu. Því síður segjir þú við manneskju sem talar um sjálfsvíg lesa bók. Ef þú vilt hjálpa fólki er yfirleitt best að reyna hjálpa fólki til að gera það sem það vill sjálft gera og gæta þess að vera ekki að skipta þér að hlutum sem þér koma ekki við. Ég gerir ekki ráð fyrir að Kristín myndi í raun og veru segja við foreldra sem væru trúaðir og búin að missa barn vegna sjálfsvígs að þau ættu ekki að fara með bænir heldur gúggla á netinu. Hvort sem maður er trúaður er ekki þá þarf maður fyrst og fremst stuðning frá öðrum þegar maður stendur fram fyrir alvarlegum vanda sem maður ræður ekki við óstuddur. Þekking er góð en hún hefur sínar takmarkanir.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 11/11/07 12:45 #

Þetta snýst ekki um að "googla eitthvað á netinu", þetta snýst um raunverulegar lausnir.

Hvort sem maður er trúaður er ekki þá þarf maður fyrst og fremst stuðning frá öðrum þegar maður stendur fram fyrir alvarlegum vanda sem maður ræður ekki við óstuddur.

Já og það felst enginn "stuðningur" í því að einhver fari með bæn. Í stað þess að biðja fyrir fólki í vanda legg ég til að fólk hjálpi því raunverulega með einhverjum öðrum hætti.


Kristín Kristjánsdóttir (meðlimur í Vantrú) - 11/11/07 15:33 #

Hér er strax að koma fram ástæða þess að ég skrifaði þessa grein.

Guðjón, mig langar til að biðja þig að lesa greinarnar um eiturlyf, meðvirkni og sjálfsvíg sem ég fann í leit minni þegar ég skrifaði greinina.

Ætli hún Kristín sé ekki velviljaður kjáni sem hefur aldrei horft framan í manneskju sem er full örvæntingar

Ég myndi ekki skrifa svona grein ef ég hefði ekki leitað mér upplýsinga. En ég hef alltaf gert það og gerði það líka sérstaklega fyrir þessi skrif og hef því þekkinguna til þess að skrifa hana. Ég hef líka þekkinguna af því að hjálpa fólki sem var örvæntingarfullt. Ég get til dæmis frætt þig um það að ég hef talið manneskju af því að fyrirfara sér- einmitt af því að ég vissi hvað væri hægt að segja við einstakling í þessum sporum og hvað ætti ekki að segja.

Þú segir ekki foreldrum sem eru ráðþrota vegna ungmennis sem er í dópi að gúgla á netinu.

Jú þú gerir það einmitt því að það er gnægð upplýsinga um ýmiskonar úrræði að finna á netinu. En þú ættir helst að setjast niður sjálfur og gúggla til þess að sigta út góðar og nothæfar upplýsingar. Það er nokkuð öruggt að foreldrarnir myndu upplifa mikinn stuðning frá þér í gegnum það að þú hafir verið viljugur að leggja þessa vinnu á þig fyrir þau.

Því síður segjir þú við manneskju sem talar um sjálfsvíg lesa bók.

Lestu sjálfur greinina um sjálfsvíg og vertu þar með betur undir það búinn að hjálpa einhverjum í þessum sporum og skilja þá vanlíðan sem liggur á bakvið svona. En þú ættir alltaf að leita hjálpar fagfólks (uppl. um það er að finna í greininni) ef þú veist af einhverjum í þessum sporum, þó að þú reynir að hjálpa líka sjálfur.

Ef þú vilt hjálpa fólki er yfirleitt best að reyna hjálpa fólki til að gera það sem það vill sjálft gera og gæta þess að vera ekki að skipta þér að hlutum sem þér koma ekki við.

Þetta gengur einfaldlega ekki upp. Ef manneskja vill fyrirfara sér ætlar þú þá að hjálpa henni að gera það? Það er gríðarlega mikilvægt að koma með nýjar upplýsingar og þekkingu til fólks sem er komið í öngstræti því að ef það hefur ekki náð að hjálpa sér sjálft fram að þeim tímapunkti þá ætti það að segja okkur töluvert.

Að byggja fólk upp er mjög mikilvægt en þú þarft að gera það eftir réttum leiðum. Bænir veita aðeins sefjun í stutta stund, það þarf alvöru aðgerðir og betri skilning á hlutunum til þess að ráðast að rót vandans.

En þú ert líklega að meina það að ef fólk er að gera eitthvað rétt þá eigi að styrkja fólk í því og ég er algerlega sammála því. Fólk þarf að vita að margt sem það er að gera er mjög rétt og að dómgreind þess sé oft á tíðum góð. Með því að einblína á hæfileika fólks í stað galla þá hveturðu það til þess að reyna áfram að hjálpa sér sjálft og það er mjög mikilvægt.

Þú þarft ekkert að taka ráðin af fólki, þú segir einfaldlega frá þinni vitneskju og hvetur fólk til þess að notfæra sér hana, ef þú hefur kynnt þér það að þetta séu vandaðar upplýsingar. Með því að hrósa fólki fyrir það sem það hefur gert rétt þá ýtir þú undir það að það sé viljugt til þess að íhuga í það minnsta nýjar upplýsingar. ´

Manneskja sem missir trúna á eigin dómgreind er háð því að fara eftir leiðbeiningum úr umhverfinu og slíkar leiðbeiningar eru mjög misvísandi og geta aldrei skapað sömu heild eða öryggistilfinningu og eigin dómgreind getur gert ef þú nærð að byggja hana upp. Slíkt opnar líka fyrir möguleikann á því að fólk sé misnotað sem aftur elur enn frekar á því að fólk upplifi óhamingju og tóm í sínu lífi. Því ætti aldrei að reyna að svipta fólk trúna á eigin dómgreind. Það gera allir mistök en það er bara eðlilegur partur af því að læra og þroskast í sífellu.

og gæta þess að vera ekki að skipta þér að hlutum sem þér koma ekki við

Þegar vandamálin eru stór þá þarftu að skipta þér af "því sem kemur þér ekki við" ef þú ætlar þér raunverulega að hjálpa manneskjunni. En það er algert skilyrði að þú kynnir þér málin svo þú hafir eitthvað raunverulegt fram að færa. Lestu núna greinina um meðvirkni.

Ég gerir ekki ráð fyrir að Kristín myndi í raun og veru segja við foreldra sem væru trúaðir og búin að missa barn vegna sjálfsvígs að þau ættu ekki að fara með bænir heldur gúggla á netinu.

Úr sjálfsvígsgreininni af persona.is:

Sjálfsvíginu lýkur ekki við verknaðinn sjálfan heldur lifir það áfram í þeim sem eftir lifa, oft með mikilli þjáningu. Hér er í flestum tilfellum um flókna sorg að ræða þannig að erfitt er fyrir aðstandendur að vinna sig í gegnum sorgina með þeim björgum sem fjölskylda þess látna býr yfir.

Hefðbundnar sorgarathafnir kirkju duga skammt þegar um sjálfsvíg er að ræða. Rannsóknir sýna að mikil vanlíðan getur fylgt í kjölfarið árum saman, líkamleg veikindi aukast og þunglyndi er algengur fylgifiskur. Hér þarf því að koma til sorgarráðgjöf og í mörgum tilfellum sorgarmeðferð.

Hér er enginn að letja fólk í því að leita stuðnings í trúnni, en það er mikilvægt að benda fólki á það að það þarf svo miklu meiri stuðning heldur en trúin ein og sér getur veitt. Þú vitanlega neyðir aldrei nokkurri hjálp upp á fólk en það ætti í það minnsta að hafa upplýsingarnar þannig að það geti tekið upplýsta ákvörðun um þetta sjálft. Oft þiggur fólk hjálpina síðar þó að það hafi afneitað henni í upphafi. Mikilvægast er að fólk viti hvað stendur því til boða.

Hvort sem maður er trúaður er ekki þá þarf maður fyrst og fremst stuðning frá öðrum þegar maður stendur fram fyrir alvarlegum vanda sem maður ræður ekki við óstuddur

Alveg rétt, en þú getur veitt margfalt meiri stuðning með því að kynna þér málin og vita þannig betur hvers konar stuðning viðkomandi þarfnast. Þetta hugtak stuðningur nær yfir svo miklu meira heldur en bara einfalt faðmlag eða hlýleg orð. Stuðningur felst líka í því að sjá út úrræði og lausnir því að manneskja sem á við mikil vandamál að stríða er oft einfaldlega svo úrvinda að hún hefur misst hæfileikann til þess að sjá út lausnir á sama hátt og utanaðkomandi gæti gert.

Þekking er góð en hún hefur sínar takmarkanir.

Hvaða takmarkanir eru það? Ertu að vísa í það að í þekkingunni felist ekki einlæg hluttekning og faðmlag? Að leggja það á sig að leita upplýsinga og leita úrræða fyrir einhvern felur sjálfkrafa í sér mjög mikla hluttekningunni og samúð.

En ég mæli eindregið með því að þessu öllu fylgi þó faðmlag þegar það á við eða að stundum sé gefið svigrúm til þess að melta nýjar upplýsingar þegar það á við.


Guðjón - 11/11/07 16:52 #

Ég hef ekki tíma til þess að standa í þrasi. En hættulegastat fólkið sem ég hef kynst tengslum heilbrigðisgeiranum er fólk sem veit betur en fólkið sem það er að hjálpa hvað er því er fyrir bestu og reynir að þvinga lausnum sínum uppá með illu.


Haukur Ísleifsson - 12/11/07 00:07 #

Það var sérstaklega tekið fram í svari Kristínar að það ætti ekki að taka ráðin af þeim sem hjálpa á.


Guðmundur - 12/11/07 00:09 #

Gott að þú ert farinn að viðurkenna að svona vandamál sé best að leysa í heilbrigðisgeiranum en ekki trúboðsgeiranum.


Guðmundur D. Haraldsson - 16/11/07 21:43 #

Þú segir ekki foreldrum sem eru ráðþrota vegna ungmennis sem er í dópi að gúgla á netinu. Því síður segjir þú við manneskju sem talar um sjálfsvíg lesa bók. Ef þú vilt hjálpa fólki er yfirleitt best að reyna hjálpa fólki til að gera það sem það vill sjálft gera og gæta þess að vera ekki að skipta þér að hlutum sem þér koma ekki við.

Ég skil þetta sem svo að maður eigi ekki að skipta sér af ef einhver segist ætla að fyrirfara sér. Ég er mjög svo ósammála þessari skoðun og ég get ekki hamið mig um að mótmæla.

Viti maður af einhverjum sem er hugsanlega í þeim hugleiðingum að svipta sig lífi, finnst mér að maður ætti að reyna að tala við manneskjuna. Maður ætti að reyna að fá hana af því að svipta sig lífi með því að ræða við hana um af hverju hún vilji kveðja lífið. Ef í ljós kemur að manneskjan var að grínast (og maður misskildi) eða eitthvað slíkt er tæplega grundvöllur til að gera meira. En sé maður í vafa ber manni skylda, finnst mér, að láta ættingja eða aðra vita, en jafnframt að hvetja þann sem er í sjálfsvígshugleiðingum að leita sér hjálpar og það strax. Eftir aðstæðum, t.d. ef manneskjan biður um það, ætti maður að aðstoða hana við að finna hjálpina.

En verður maður að gera eitthvað? Það er mín skoðun að allir sem vilja kalla sig siðlega eigi að gera sitt, ef þeir geta, þegar hætt er við að fólk svipti sig lífi að óþörfu. Það finnst mér vera skylda fólks, rétt eins og að aðstoða einhvern sem lendir í slysi. Ýmsir þættir geta auðvitað gert manni erfitt fyrir um að gera nokkuð, en ég myndi segja að þetta gildi almennt.

Önnur hugsanleg mótrök við þessu öllu, sem mér detta í hug, eru: Vilja þeir sem eru í sjálfsvígshugleiðingum ræða málin og dugar að tala við þá?

Rannsóknir - sem þó er erfitt að gera - hafa sýnt að margir þeir sem yfir höfuð eru að velta fyrir sér að fyrirfara sér vilja ræða málin við einhvern. En þeir mæta ekki alltaf skilningi þegar þeir reyna að ræða málið við einhvern, einhverra hluta vegna. Ég held að það sé ekki vegna illsku, kannski frekar misskilningur eða annað slíkt. Ég vil líka benda á að stundum uppgötva vinir eða ættingjar einhvers sem fyrirfór sér að hann var búinn að tala einhverntímann um að fyrirfara sér eða að hann hafi nefnt að hann væri að hugsa um það, en ættinginn eða vinurinn áleit að um grín væri að ræða.

Svo er spurning hvort það dugi að ræða málin. Ég efast stórkostlega um að maður geti fengið viðkomandi til að vera glaðan og lausan við sjálfsvígshugsanir, held reyndar að það sé fráleitt. En kannski getur maður tafið fólk í því að gera sér skaða, kannski hrekkur það úr hugsunarmynstrinu, fer eftir aðstæðum. Ekki gott að segja.

Sjálfsmorð eru ekkert grín og það er ekkert grín að ætla sér að gera eitthvað þegar einhver segist ætla að fyrirfara sér. En mér finnst að maður ætti að gera það. Það að maður sé að skipta sér af er mýta - á maður ekki að skipta sér af ef fólk ætla sér að skaða sig? Auðvitað!

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.