Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Afeinsömun

18 nóvember 1978 frömdu 908 fylgjendur sértrúarsafnaðarins Peoples Temple sjálfsmorð, ásamt leiðtoga sínum James Warren Jones (Jim Jones). Peoples Temple var stofnaður af Jim Jones árið 1955 en náði hámarks styrk árið 1977 þegar söfnuðurinn settist að í Gvæjana og setti á stofn bæinn Jonestown. Fylgjendur voru að meirihluta blökkumenn og heimilislausir, en þessir hópar fólks áttu um sárt að binda þessi árin og var andlegur „stuðningur“ Jim Jones vel þeginn. Fjöldasjálfsmorðin vöktu mikinn óhug, skiljanlega, um gervallan heim og áttu flestir bágt með að skilja hvernig svona nokkuð gæti átt sér stað í vel upplýstum heimi sem við lifum í. Sannfæring íbúa Jonestown var óbilandi, sérstaklega í ljósi þess að 276 af 908 fyrrum fylgjenda Peoples Temple voru börn. Segja má að þegar börn láta lífið af völdum trúar sé vissu hámarki náð. En hvernig getur svona líkt átt sér stað? Fylgjendurnir voru á flestan hátt eðlilegt fólk eins og hver annar, þau gátu vel hugsað sjálfstætt, ígrundað, en þau létu það eiga sig þegar þau tóku sopa af eitruðu Cool-Aid og gáfu börnum sínum smakk einnig. Hvað veldur því?

Í upphafi 20. aldar urðu miklar straumbreytingar í félagsvísindum um Evrópu og meðal þeirra má nefna bók Gustave LeBon Múgurinn (1895). Í bókinni setti hann fram kenningar sínar um múghegðun lágstéttafólks í frönsku byltingunni, skoðanir hans voru litaðar af fordómum en höfðu þó vissulega nokkurt gildi. „Múgmennið er hverflynt, auðtrúa og umburðalaust, og sýnir grimmd og illsku þess frumstæða, . . . það lætur stjórnast af heilastöðvum neðan mænukylfu.“ Nútímakenningar byggja á sömu hugmynd og LeBon hafði. Ákveðnar aðstæður, sem oft eru fyrir hendi í hópi og hjá múgi, valda því að einstaklingur upplifir sérstakt sálrænt ástand afeinsömunar (e. deindividuation). E. Diener (1976) dró saman ferli afeinsömunar í bók sinni Journal of Personality and Social Psychology sem gefur greinagóða mynd af einkennum.

Aðdragandi afeinsömunar:

Nafnleysi
Mikil spenna
Einblínt er á ytri/yfirborðskennd atriði
Sterk samkennd ríkir
Dregur úr sjálfsvitund

Afleiðingar afeinsömunar:

Dregið úr öllum hömlum á skyndihvötum
Aukið næmi gagnvart augnabliksbendingum og geðshræringu
Sjálfstjórn minnkar
Dregur úr tilliti til skoðana annarra
Skortur á rökhugsun

Afeinsömun getur birst í fjölmörgum aðstæðum, dæmi: mótmæli, stórtónleikar, við íþróttaviðburði, og fleira. Þekktasta myndin og afleiðing verður þó að teljast til ógnvænlegra atburða sértrúarsafnaða eins fjöldasjálfsmorðin í Jonestown. Fyrrnefndur E. Diener gerði sniðuga tilraun árið 1976 sem fór fram á hrekkjavökukvöldi, til að sýna fram á afeinsömun. Þegar börn birtust í dulklæðnaði sínum var þeim gefið nammi, sum voru spurð til nafns en önnur ekki. Diener brá sér aftur inn í húsið en skildi eftir nammiskálina. Í ljós kom að börnin sem voru í hóp eða höfðu ekki verið spurð um nafn stálu mun frekar sælgæti, á bakvið nafnleysi grímunnar og samkennd hópsins. Deila má um alvarleika afeinsömunar því afleiðingar geta verið allt frá því að gefa tíund af launum, til þess að ráðast inn á heimili leikstjóra og myrða konu hans ásamt ófæddu barni. En ég held að allir geti verið á einu máli um að þegar áróður „meistarans“ og samkennd hópsins lokar á einstaklingshugsun er kominn tími til að sýna sjálfstæði.


Heimildir:
Sálfræði 2, Atkinsson, 1988, Reykjavík
www.wikipedia.org

Friðrik Theodórsson 28.01.2007
Flokkað undir: ( Efahyggja )

Viðbrögð


Nordicus - 28/01/07 19:01 #

Fyrirmyndar grein, en ekki eru öll kurl borin til grafar varðandi Jonestown. Hvernig var hægt að flytja söfnuð er mest samanstóð af fátæklingum frá San Francisco til Gvæjönu. Fyrir hvaða fé, hversvegna fundust haugar af Thorazíni í búðunum. Vissulega skuggalega hóphegðun hverjir stóðu þessu að baki.


óðinsmær - 29/01/07 12:38 #

ég var að horfa á heimildamyndina root of all evil með dawkins og þótt ég hafi að mestu leiti farið á mis við hans boðskap og meiningar þá var ég sammála honum um trúarbrögð og börn, og fannst það ansi kröftugt sjónarmið sem flestir trúaðir ættu að skoða aðeins betur.


Svanur Sigurbjörnsson - 29/01/07 16:40 #

Undanfarnar 3 vikur hefur verið sýndur fræðslumyndaþáttur um Mao Tse Tung og Kína á hans tíma. Ég efast um að nokkurn tíma í heimssögunni hafi önnur eins afeinstaklingun átt sér stað. Kína með 800 milljónum manna (1968) varð eitt risakölt og eingar aðrar skoðanir en Maos voru leyfðar.
Takk fyrir góða hugvekjandi grein.


Lárus Viðar (meðlimur í Vantrú) - 29/01/07 19:16 #

Er afeinsömun ekki sama fyrirbærið og múgsefjun eða er það eitthvað annað?


caramba - 31/01/07 13:05 #

Afeinsömun er arfaslök þýðing á "deindividuation". Þýðingin er sennilega hugsuð þannig að einstaklingurinn afsali sér einkennum sínum þegar hann samsamast stærri hóp. En deindividuation er líka notað um athafnir eins og það að ganga í herinn, gleyma sér í áhugaverðu verkefni, sökkva sér í tómstundaiðju og hugleiðslu. Þannig gæti frímerkjasafnari verið afeinsamaður, a.m.k. tímabundið, án þess hægt sé að leggja honum til neikvæðar kenndir múgsefjunar eða sjálfssefjunar. Nemandi sem hrífst af námefninu og gleymir stað og stund yfir heillandi stærðfræðiverkefni (sjaldgæft að vísu!), er hægt að flokka hann undir afeinsamaðan einstakling í þeim skilningi sem ýjað er að í greininni? Varla. Greinin dregur upp tvívíða mynd af flóknum og margbrotnum veruleika, en það eru bara fastir liðir eins og venjulega hér á vantrú.


Jón Magnús (meðlimur í Vantrú) - 31/01/07 13:10 #

Þú ert greinilega að tala um hálfgerðan tittlingaskít eins og vanalega.


Friðrik - 01/02/07 19:11 #

Caramba: Þetta er hárrétt og góð skilgreining á afeinsömun hjá þér. Ég er sammála þér með þýðinguna, hún er slæm, en einfaldlega eina sem er í boði. Þú nefnir að greinin dregur upp tvívíða mynd af þessu flókna fyrirbrigði og það er rétt, greinin gerir það. En mér þykir sjálfsagt að snerta á slæmu hlið afeinsömunar í tengingu í trúarhópi en það tengist beint því sem Vantrú stendur fyrir. En auðvitað eru fleiri hliðar á fyrirbrigðinu og kannski ætti það að koma skýrar fram í greininni. Greinilega var ekki nóg að nefna að: "Afeinsömun getur birst í fjölmörgum aðstæðum, dæmi: mótmæli, stórtónleikar, við íþróttaviðburði, og fleira. Þekktasta myndin og afleiðing verður þó að teljast til ógnvænlegra atburða. . ."


Jóhann Friðriksson (meðlimur í Vantrú) - 05/08/08 16:39 #

Betra seint en aldrei, sérstaklega þar sem verið var að vitna í þessa grein.

caramba: Ég ætla ekki að rengja þig, en það sem þú talar um hljómar í mínum eyrum eins og flæði (e. flow). Örugglega enginn ruglingur á ferð?

Ágætis grein.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.