Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Meira um guðfræði

Vegna nýlegra skrifa minna um guðfræðideild spunnust miklar umræður þar sem hnútur flugu um borð. Mig langar því til að skýra afstöðu mína örlítið nánar. Einkum vil ég svara þeim spurningum hvort ég sé á móti guðfræði og hvort ég sé á móti guðfræðideild.

Ég er hlynntur trúfrelsi. Í trúfrelsi tel ég að felist óhjákvæmilega að ríkisvaldið sé veraldlegt og afhelgað, semsagt að sum trúfélög njóti ekki forréttinda umfram önnur trúfélög, eða félög yfir höfuð. Í íslensku samhengi þýðir það augljóslega að ég tel að ríki og kirkja ættu að vera aðskilin. Ein af þeim forréttindum sem Þjóðkirkjan nýtur eru þau að ríkisrekinn háskóli kennir guðfræði. Það eru tvær aðalástæður fyrir því að ég tel það óheppilegt. Annars vegar er sú sem þegar er komin fram, að með því er einni trú hampað umfram aðrar. Ég veit ekki hvernig það getur talist í ætt við jafnræði. Hin ástæðan er sú að í guðfræði er gengið út frá þeirri forsendu að guð sé til í alvörunni. Að minnsta kosti eftir því sem ég kemst næst.

Það ætti kannski ekki að þurfa að taka það fram, en ég geri það nú samt, að trúarbragðafræði er að mínu mati sjálfsögð námsgrein í ópinberum háskóla. Hún ætti hins vegar heima annað hvort í félagsvísindadeild eða hugvísindadeild og kristindómur ætti ekki að vera á sérstökum stalli þar frekar en önnur einstök trúarbrögð. Nú tel ég mig hvorki vera í neinni stöðu til að skipa fólki hverju það á að trúa eða ekki að trúa, né til að velja áhugasvið annars fólks eða vettvang fyrir aðra að stunda háskólanám. Þannig að ekki berst ég gegn því í sjálfu sér að guðfræði sé stunduð. Hins vegar tel ég ekki eðlilegt að hún sé kennd í opinberum háskóla. Kirkjan hangir ekki á horriminni. Ef kirkjan kæmi sér upp sínum eigin prestaskóla á háskólastigi, þá mundi ég ekki mótmæla því, og ég reikna ekki með því heldur að fjárútlátin þýddu að biskup yrði framvegis að lifa á hafragraut. Hvers vegna stofnar kirkjan ekki sinn eigin skóla?

Vésteinn Valgarðsson 04.10.2006
Flokkað undir: ( Stjórnmál og trú )

Viðbrögð


Halldór E - 04/10/06 14:38 #

Ég er ekki fullkomlega ósammála þér hér. Meðal annars lít ég svo á að kirkjan eigi að mennta starfsfólkið sitt að einhverju leiti, en skilja það ekki eftir í höndum guðfræðideildar HÍ.

Hins vegar er mikilvægt að hafa í huga að í Háskóla Íslands fer fram kennsla í Íslenskum fræðum, en ekki bara í málvísindum eða bókmenntum almennt. Ástæðan er söguleg og sjálfsögð fyrir flestum, jafnvel þó þessi áhersla á Íslensk fræði sé sjaldnast til staðar í öðrum háskólum. Á sama hátt er eðlilegt að megináhersla í guðfræði á Íslandi liggi á hinum rómversk kristna armi. Ég er ekki með þessu að segja að málvísindi eigi ekki að hafa sitt rými eða trúarbragðafræði séu minna merkileg. Ég er einfaldlega að benda á að akademían hversu sjálfstæð sem hún er, hlýtur að einhverju leiti að vera í tengslum við umhverfi sitt. Að gagnrýna áherslur guðfræðinnar fyrir að líta til nánasta umhverfis síns í vali á viðfangsefnum er vart gild gagnrýni.

Hvað varðar sjálfstæði guðfræðinnar við HÍ þá er því að svara að þröskuldar fyrir þverfaglegt nám í HÍ eru enn mjög háir og samhengi fræðanna myndi líða fyrir það. E.t.v. er lélegri fræðimennska ásættanlegur fórnarkostnaður til að losna við guðfræðideildina. En það er vart að ég trúi því að upplýstir nútímamenn vilji stuðla að minnkandi fræðimennsku.

Loks varðandi stöðu Guðs. Fræðanna vegna er yfirleitt litið svo á að forsendan um Guð standist. Þetta er ekki það sama og að viðurkenna að Guð sé til. Það getur auðvitað farið saman en þarf ekki að gera það. Þessi forsenda mótar nefnilega viðhorf og framsetningu þess sem rannsakað er. Án þess að gefa sér þessa forsendu rannsóknanna vegna er að margra mati ómögulegt að nálgast viðfangsefnið un-biased. Um þetta eru auðvitað ekki allir sammála, en í því felst fegurð fræðistarfa.


G2 (meðlimur í Vantrú) - 04/10/06 15:24 #

Fræðanna vegna er yfirleitt litið svo á að forsendan um Guð standist. Þetta er ekki það sama og að viðurkenna að Guð sé til.

??? Hver er munurinn ???


Halldór E. - 04/10/06 17:01 #

Ég svara muninum á þessu tvennu í færslu á vefnum mínum http://elli.annall.is/2006-10-04/16.54.01


Butcer - 04/10/06 17:04 #

Guðfræðikennsla á ekki að vera ríkisrekin frekar en dungeons& dragons


Jórunn (meðlimur í Vantrú) - 04/10/06 21:14 #

Fyrir utan það eina siðferðislega rétta að aðskilja ríki og kirkju og gera þannig trúfrelsi raunverulegt á Íslandi yrði það gífurlegur sparnaður fyrir Háskóla Íslands að losna við guðfræðideildina þar sem fáir útskrifast - fólk er að droppa inn og taka eitt og eitt námskeið. Hver trúflokkur á að sjálfsögðu að framleiða sína predikara - það á ekki að vera á kostnað almennings.


Eyvindur Karlsson - 06/10/06 02:10 #

Já, ég held að ég sé bara fullkomlega sammála þér. Mér finnst heimskulegt að hafa sérstaka guðfræðideild við háskóla í landi þar sem ríkir trúfrelsi. Mér finnst sjálfsagt að kirkjan kenni sjálf til prests, enda væri það örugglega öllum til bótar. Bæði hefði kirkjan þá betri yfirsýn yfir kennsluna, og eins og bent hefur verið á myndi háskólinn væntanlega spara á því, og þar af leiðandi geta boðið betri kennslu við aðrar deildir. Og eins væri trúlega best að hafa trúarbragðafræði við félagsvísindadeild, þar sem hún er jú náskyld sagnfræði og mannfræði.

Annars vissi ég ekki að kristni væri sett á sérstakan stall. Svakalega er það undarlegt. Fer fólk sem hefur sérstakan áhuga á kristinni trú ekki í guðfræði? Er trúarbragðafræði ekki hugsuð, eins og nafnið gefur til kynna, sem yfirsýn yfir flest af helstu trúarbrögðum mannkyns?


Vésteinn Valgarðsson (meðlimur í Vantrú) - 06/10/06 11:19 #

Ég átti nú ekki við að kristni væri endilega gert hærra undir höfði í trúarbragðafræði; ég veit ekki til þess að svo sé. Hins vegar er henni gert sérstaklega hátt undir höfði innan guðfræðideildar sem slíkrar og það er það sem mér þykir óeðlilegt.


Eyvindur Karlsson - 06/10/06 11:46 #

Já, ég skil. Vissulega er það rétt.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.