Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Réttarhaldið yfir heimsmynd okkar

Við höldum réttarhald yfir heiminum til að meta hvernig hann raunverulega er. Það er vitað að við getum ekki bara gefið okkur staðreyndir sem virðast augljósar því þá væri ljóst að sólin snerist um flata jörðina. Við þurfum að rannsaka heiminn til að skilja hann. Stundum höfum við rétt fyrir okkur og stundum rangt þannig að við verðum að vanda til. Við verðum að vera gagnrýnin á það hvernig við framkvæmum rannsóknir okkar.

Í glæparéttarhöldum í nútímalýðræðisríkjum er mikilvægt að sönnunarbyrðin sé næg ef á að dæma einhvern fyrir glæp. Það sama á við um réttarhöld okkar yfir raunveruleikanum. Þegar á að dæma menn fyrir glæpaverk þá vitum við að framburður vitna er ekki alltaf traustsins verður. Við vitum að hugurinn er flóknari en svo að hann endurspili minningar eins og myndbandsupptaka. Á sama hátt vitum við að hugurinn getur blekk okkar á annan hátt þegar við erum að skoða heiminn. Það er ekki öll reynsla okkar raunveruleg, hugurinn er ekki fullkomin vél.

Þegar glæpir eru rannsakaðir þá er meira lagt upp úr vitnisburði sérfræðinga sem byggja mál sitt á því að rannsaka gögn málsins. Við vitum að þessir sérfræðingar eru ekki heilagir óskeikulir menn þannig að við látum oft aðra fara yfir framburð þeirra.

Það sem við vitum fyrir víst er að þegar glæpir eru rannsakaðir þá treystum við ekki fólki sem hefur tilfinningu fyrir því hver er sekur nema að sú skoðun sé studd staðreyndum, rökum og gögnum. Við gerum það sama í réttarhaldi okkar yfir raunveruleikanum. Tilfinningarök segja okkur ekkert um eðli heimsins, það skiptir engu hvað við viljum eða höldum. Við getum ekki leyft okkur að byggja heimsmynd okkar á grunni blindrar trúar.

Við þurfum að ástunda gagnrýna hugsun þegar við metum heimsmynd okkar því annars verður hún mjög vafasöm. Í rannsókn okkar á heiminum þá verðum við að nota aðferðir vísindana því sú aðferðafræði hefur sýnt sig og sannað. Hún er ekki fullkomin en hún er sífellt endurskoðuð og betrumbætt sem gerir hana að verðmætasta tóli okkar.

Óli Gneisti Sóleyjarson 01.09.2006
Flokkað undir: ( Efahyggja )

Viðbrögð


Aiwaz (meðlimur í Vantrú) - 01/09/06 09:21 #

Góður Óli. Með sömu rökum ætti einmitt grænsápuguðfræðin að pakka saman og fara í frí. Ef það kæmi í ljós í réttarhöldum að 90% af vitnisburði einhvers væri augljóslega tóm steypa er öllum vitnisburðinum hent út sem dauðum og ómerkum því ef vitnið lýgur vísvitandi um flest efnisatriði afhverju ætti þá að líta svo á að restin sé sönn?


Árni Árnason - 01/09/06 16:24 #

Vígðir menn, sem aðrir, krefjast þess að sannleikur siðmenntaðs réttarkerfis sé fundinn með lögfullum sönnunum, sem hafnar eru yfir allan skynsamlegan vafa.

Að klæðast hempu virðist undanþiggja menn öllum slíkum kröfum.


Vésteinn Valgarðsson (meðlimur í Vantrú) - 01/09/06 23:44 #

Tja, dómarar klæðast nú líka hempu.


Sveinbjörn Halldórson - 02/09/06 03:00 #

Hverjir sitja í vitnastúkunni þegar raunveruleikinn er dæmdur? Hver dæmir hvað? Þetta er fráleitt! Hverjir halda réttarhald yfir heiminum? Guði sé lof að þessir menn eiga ekki eldspýtur, þeir gætu borið þær, með gagnrýnum huga auðvitað, að nýjum brennum. Svaraðu spurningum mínum rangt.


danskurinn - 02/09/06 08:35 #

Ég verð eiginlega að taka undir með Sveinbirni. Greinin hefur nokkurn fasistablæ vil ég segja, án þess að ég haldi því fram Óli Gneisti hafi slíka tendensa í meira mæli en gengur og gerist. Réttarhöld eru að sjálfsögðu engin trygging fyrir réttlæti eða sannri niðurstöðu. Hægt er að beita gagnrýnni hugsun og rökum til koma sök á saklaust fólk. Það er gert á hverjum degi.


Ásgeir (meðlimur í Vantrú) - 02/09/06 10:19 #

Mér heyrist menn vera að misskilja þessa grein allverulega. Óli er að sjálfsögðu ekki að tala um réttarhöld í bókstaflegum skilningi, hann er að tala um þegar við sjálf, hver einstaklingur, prívat og persónulega, dæmir sína eigin heimsmynd.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 02/09/06 12:08 #

Réttarhaldið yfir raunveruleikanum stendur stöðugt yfir. Það er kallað vísindastarf og sífellt koma fram ný vitni með nýjar upplýsingar. Hvort þær upplýsingar teljast gildar veltur á sönnunum þeim sem fram koma, auk þess sem öllum öðrum er frjálst að endurmeta þau gögn og gera nýjar tilraunir.

Hvaða fasistatal er þetta?


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 02/09/06 12:10 #

Svo eru reyndar nokkur önnur réttarhöld raunveruleikans í gangi, svokallað trúarstarf og guðfræði. Þar er lítið grennslast fyrir um sannleiksgildi þess sem vitnin koma fram með og niðurstaðan er eftir því.

Það er engin spurning í mínum huga hvert þessara réttarhalda er áreiðanlegt.


danskurinn - 02/09/06 13:12 #

Óli skrifar: "Tilfinningarök segja okkur ekkert um eðli heimsins, það skiptir engu hvað við viljum eða höldum. Við getum ekki leyft okkur að byggja heimsmynd okkar á grunni blindrar trúar.

Þessi setning er gasaleg. Tilfinningarök segja okkur hvernig okkur líður, hverja við elskum og hvernig við finnum til, hvað okkur finnst fallegt osfv.. Ef það er hægt að færa rök fyrir því hvernig við ættum að finna til með náunganum þá þætti mér það holl lesning ef einhver treystir sér til að skrifa upp þær reglur. Það er spurning hvort slík röksemdafærsla myndi bæta samskipti fólks. Heimsmynd okkar verður aldrei skilin frá innsæi okkar eða tilfinningum. Viðhorf okkar getur ekki verið vélrænt. Mestu "vitleysingjarnir" enda oft sem mestu hugsuðirnir, frumkvöðlar og snillingar. Slík fólk hefur löngum þurf að glíma við fordóma samfélagsins, ekki síst úr akademískri átt. Við skulum því einmitt leyfa okkur hvað sem er innan þess ramma sem tilfinningarök okkar og innsæi setja.

Samlíking Óla er óheppileg. Kirkjan og dómsvaldið hafa lengi verið samvaxin, sérstaklega á Íslandi þar sem sama ráðuneytið er ennþá yfirbatterí beggja málaflokka. Stutt er síðan þetta var í raun sami málaflokkurinn. Þess vegna tala ég um fasisma. Fyrsta skrefið til að aðskilja ríki og kirkju er einmitt að aðskilja þessi dóms- og kirkjumál. Samlíking Óla er því óheppileg.


Sveinbjörn Halldórsson - 02/09/06 19:42 #

Er ekki dálítið langsótt að kenna vísindastarf við réttarhald? Hver er sá seki, Raunveruleikinn? Gott og vel, ef hugsunin á bak við þessa tvíræðu grein er er sú sem Ibsen orðaði einhverntíma minnir mig: Að skrifa er að halda réttarhöld yfir sjálfum sér. Þá samþykki ég það.


Sveinbjörn Halldórsson - 02/09/06 21:36 #

Það sem danskurinn segir er hárrétt. Fasisminn er lævís snákur. Hann talar með tungum tveim, kannski vissum við það ekki..Óli geisti er án efa réttsýnn maður, en ákaft andóf gegn grundvallar þörf manneskjunnar leiðir til eins.. og aðeins eins. Sé raunveruleikinn dæmdur er ef til vill tvennt í stöðunni, hann er jarðaður með gauragangi eða hann birtist eins og vofa, nema hvorttveggja sé..eins og í kristninni.


Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 03/09/06 14:24 #

Málið er að ég segi aldrei að innsæi hafi ekki sitt hlutverk í þekkingarleit okkur. Innsæi getur leitt okkur áfram í átt að þekkingu en við eigum ekki að nota það til þess að meta hvað er satt eða ósatt.


Árni Árnason - 04/09/06 10:41 #

Dómarar klæðast reyndar skikkjum, en hempa er tákngerfi presta.

Kveðja Árni

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.