Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Lífssýn eða trú

Í greininni Trú og vísindi sem presturinn Gunnar Jóhannesson ætlaði sem svar við málflutningi Richard Dawkins þá kom hann fram með frekar þversagnakenndar skilgreiningar á trú og trúleysi. Markmið hans var, eins og margra presta, að skilgreina trúleysi út úr myndinni. Í upphaflegu svargrein minni hafði ég ekki pláss til að fjalla nákvæmlega um þennan hluta málflutnings Gunnars en nú mun ég bæta úr því.

Gunnar byrjar á að skilgreina það “að trúa”.

Trú er ekki hægt að rökstyðja með vísindalegum hætti. Ef það væri hægt að skjóta rökrænni kjölfestu undir trú þá er ekki lengur um trú að ræða heldur sannanlegar staðreyndir. En eðli þess "að trúa" leyfir einfaldlega ekki slíkt. Það finnur engin trú eftir rökrænum leiðum. Ég mundi aldrei geta sannfært Dawkins á rökrænan hátt um upprisu Jesú Krists frá dauðum einfaldlega vegna þess að þar er um trúaratriði að ræða, veruleika sem eingöngu er hægt að nálgast í gegnum trú.

Þetta er gott og gilt en síðan skilgreinir Gunnar trú sem eitthvað sem virðist algjörlega ótengt því “að trúa”.

En segja má að í innsta eðli sínu sé trú hið sama og að treysta; að trúa er að leggja traust sitt á eitthvað. Dawkins er ekki trúlaus að mínu viti. Hann trúir á skynsemina og vísindin og burði þeirra til að ljúka upp leyndardómum heimsins og mannsins og hann skilgreinir heiminn og sjálfan sig í ljósi þeirrar trúar.

Samkvæmt þessu virðist trú vera einhvers konar lífssýn eða lífsskoðun en þegar Gunnar heldur áfram þá er trú allt í einu orðin skilyrt því “að trúa”.

Ágústínus kirkjufaðir (354-430) sagði eitt sinn: "Skilningur er laun trúarinnar. Reyndu því ekki að skilja til þess að geta trúað, heldur trúðu til þess að skilja." Það eru orð að sönnu. Trú er með öðrum orðum sannfæring um það sem þú færð ekki séð en laun trúarinnar er að sjá það sem þú ert sannfærður um (sbr. Heb 11.1). Þó að trúarbrögð feli í sér tiltekna þekkingu á átrúnaðinum þá finnur trú sem slík sér ekki leið í gegnum huga mannsins heldur hjarta hans, þ.e. í gegnum tilfinningar og innri skynjun.

Nú ætti að sjást að fyrri trúarskilgreiningin passar ekki við þá seinni. Seinni útlistunin á trú er byggð á því "að trúa" einhverju (eða á eitthvað) sem er ekki sannanlegt (semsagt það sem ég myndi kalla yfirnáttúruleg fyrirbrigði). Gunnar virðist gera hvað hann getur til að aðskilja ekki þessar tvær skýringar sínar á trú og reynir þannig að segja að trúleysi sé ekki til. Þetta er einfaldlega orðhengilsháttur.

Nú er það væntanlega þannig að í hugum trúaðra manna þá blandast trú sem lífssýn og trú á eitthvað sem er ósannanlegt í eina heild. Þannig er það augljóslega ekki hjá okkur trúleysingjunum. Við höfum okkar lífssýn og skoðanir en við trúum ekki á yfirnáttúruleg fyrirbrigði. Trúleysi okkar blandast hins vegar saman við lífsskoðanir okkar og mynda heild. Gunnar kýs að kalla sinn heildarviðhorfapakka trú en ég myndi kalla minn pakka lífssýn.

Það er mjög skýrt að þegar við trúleysingjar tölum um trúleysi þá er það út frá "yfirnáttúrulegu"/"ósannanlegu" skilgreiningunni á trú og út frá útlistun Gunnars á því hvað felst í því “að trúa”. Af því má sjá að trúleysi er augljóslega til. Þeir sem ætla í einhvern orðaleik til að losna við trúleysið eru einfaldlega að dæma sjálfa sig frá þátttöku í umræðunni.

Óli Gneisti Sóleyjarson 01.08.2006
Flokkað undir: ( Efahyggja )

Viðbrögð


Svanur Sigurbjörnsson - 01/08/06 14:41 #

Heyr heyr! vel rökstutt Óli Gneisti og tilgáta þín um hugsun trúaðra á þessu hljómar sennileg.

Já það er nokkuð ljóst að hugtakið "trúleysi" væri ekki til (eða a.m.k. óþarft) ef "trú" táknaði það að aðhyllast hvers kyns lífsskoðanir hvort sem að þær væru af náttúru eða yfirnáttúru. Trú stendur fyrir trú á yfirnáttúru, ekkert annað. Hins vegar sögnin að "trúa á" eitthvað getur stundum staðið fyrir það að "aðhyllast" eitthvað, þ.e. treysta á það. Þetta flækir hlutina en er engu að síður svona í málinu. Trúleysingjar eru ekki trúaðir - það er hrein mótsögn og rökleysa að halda hinu gagnstæða fram, auk þess sem það þjónar ekki neinum tilgangi.


Lárus Viðar (meðlimur í Vantrú) - 03/08/06 12:57 #

Það væri örugglega móðgandi fyrir trúmenn ef ég segði sem svo að trú væri ekki til og að enginn maður væri í raun trúaður. Ég gæti sagt sem svo að enginn sé trúaður í sjávarháska, allir leggja traust sitt á þyrlur og björgunarmenn.

Þannig finnst mér það hálf-undarlegt og jafnvel móðgandi að segja sem svo að trúleysi sem slíkt sé ekki til. Hvernig gæti það annars "ógnað mannlegu samfélagi" ef það væri ekki til?


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 03/08/06 13:36 #

Mjög góður punktur. Kannski maður prófi að gera þetta að parti af málflutningi sínum, að enginn sé í raun trúaður og síst þegar á reynir. Bara svona til að kanna viðbrögðin.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.