Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Gleði hins fáfróða

"Lífið er lítið skemmtilegt ef maður trúir ekki á það sem ólíklegt er að sé til" segir Kolbrún Bergþórsdóttir í fjölmiðlapistli sínum í Blaðinu þann 9. maí 2006 og þá veit maður að það er ekki von á góðu. Pistill Kolbrúnar er fullur af útúrsnúningum, rökvillum og rangfærslum. Best að taka hann fyrir.

Kolbrún er að skrifa pistil sinn af því að hún sá frétt um skýrslu breska landvarnarráðuneytisins þar sem komist var að þeirri niðurstöðu að ekkert benti til þess að fljúgandi furðuhlutir væru á sveimi hér í kring. "Höfundar [reyndar var bara einn höfundur - innskot ÓG] skýrslunnar segja að fólk sem haldi því fram að það hafi séð geimverur hafi orðið fyrir rafgaseitrun." Þetta er bara rangt hjá Kolbrúnu, rafgaseitrun er bara ein mörgum mögulegum skýringum sem gefnar eru. Skýrslan er upp á mörg hundruð blaðsíður en Kolbrún hoppar á eitthvað atriði sem hún heyrði minnst á sjónvarpsfréttum til að dæma hana í heild sinni.

Kolbrún heldur áfram og segist hafa orðið "fyrir vonbrigðum" og segir að "mannkynið hefði afskaplega gott af því að vita af því að vitsmunaverur finnast annars staðar en á okkar litla hnetti. Það myndi lækka í okkur rostann." Hér er Kolbrún augljóslega að ruglast töluvert. Skýrsluhöfundur komst ekki að þeirri niðurstöðu að það væri ekki til viti bornar verur utan jarðarinnar heldur einungis að þær væru ekki á ferðinni hér í nágrenninu. Það eru fjölmargir vísindamenn að vinna í því að finna merki um vitsmunalíf í hinum stóra Alheim og slíkt hefur alls ekki verið útilokað.

Síðan fer Kolbrún að búa sér til strámann af vísindamönnunum (þó hann hafi bara verið einn) sem sömdu skýrsluna. Hún segir "ég [fór] að velta fyrir mér hugmyndaheimi skýrsluhöfunda. Sjálfsagt eru þeir miðaldra karlmenn með lítið hugmyndaflug. Ef þeir sæju geimveru myndu þeir aldrei trúa sínum eigin augum heldur halda að þeir hafi orðið fyrir ofskynjunun af völdum rafgas." Augljósa er þetta kolrangt hjá Kolbrúnu, vísindamaður myndi ekki hrapa að niðurstöðum við slíkar aðstæður heldur rannsaka þær. Til dæmis væri góð byrjun að rannsaka hvort rafgas væri í nágrenninu.

En Kolbrún er ánægð með skrípamyndina sem hún hefur búið sér til af vísindamönnum og segir "[é]g gladdist nokkuð þegar ég komst að þessari niðurstöðu. Ég áttaði mig um leið á því að það er ekki hægt að taka nokkurt mark á fólki sem hefur ekkert ímyndunarafl. Hugmyndaheimur þess er allt of þröngur. Ímyndunaraflið verður að hafa sitt pláss í tilverunni." Hér kemur augljóslega fáránlegasta staðhæfing Kolbrúnar, það að vísindamenn, eins og sá sem skrifaði skýrsluna, hafi ekki ímyndarafl. Að sjálfssögðu hafa vísindamenn ímyndunarafl (flestir alla vega) en ef þeir eru góðir í sínu fagi þá rugla þeir hugarfluginu ekki saman við raunveruleikann heldur nota það til þess að finna leiðir til að rannsaka heiminn.

Fantasíur eða vísindaskáldskapur geta verið góð skemmtun. Sjálfur hef ég gaman af X-Files en ég skil ekki hvers vegna heimur minn væri skemmtilegri ef ég héldi að geimverur væru sífellt að ræna jarðarbúum til þess að gera á þeim tilraunir. Kolbrún lítur nefnilega algjörlega framhjá því að það er enginn endalaus gleði að trúa á fljúgandi furðuhluti heldur getur það líka verið ávísun á líf í ótta. Það er ekkert aðlaðandi kostur að búa í heimi þar sem geimverur heimsækja jörðina í vafasömum tilgangi. Ég teldi þó jákvætt að vita af því ef slíkt væri að gerast en það bendir bara ekkert til þess.

Kolbrún segir í upphafi pistils síns að það sé lítið skemmtilegt að lifa ef maður trúir ekki á hið ólíklega. Þeir sem spila í Lottó eru kannski sammála, allavega þar til að búið er að draga út tölurnar. Ég tel heiminn, eins og hann er, mjög spennandi. Ef við horfum horfum til himins þá ættum við ekki að gera það í leit að fljúgandi furðuhlutum heldur til að dást að því hve heimurinn er glæsilegur að sjá. Hann er stórfenglegur. Ég er viss um að þeir sem hafa til dæmis horft á Satúrnus í gegnum stjörnusjónauka eru mér sammála í þessu.

Himingeimurinn er líka góð leið til að lækka rostann í mannverum. Þetta benti trúleysinginn Douglas Adams á í Hitch Hikers Guide to the Galaxy bókunum, þar var til ógurlegt tæki sem gerði huga manns að mauki með því einu að sýna manni hve lítill maður raunverulega er.

Gleði Kolbrúnar minnir mig á máltækið sem segir að fáfræði sé alsæla, ég kaupi þá speki þó ekki enda tel ég að sannleikurinn sé betri en lygin þó hún sé stundum sæt.

Heimildir: UFO study finds no sign of aliens

Óli Gneisti Sóleyjarson 11.05.2006
Flokkað undir: ( Efahyggja )

Viðbrögð


Magnús - 11/05/06 10:30 #

Góð grein hjá þér, Óli. Ég get ekki varist þeirri hugsun að Kolbrún sé að gera sér upp töluvert meiri víðsýni en hún býr í raun yfir.


Guðmundur I. Markússon - 11/05/06 11:31 #

Ég hef nú oft fundið samhljóm með Kolbrúnu en hér hveður við falskan tón.

Það eitt að horfast í augu við að maður dragi andann og sé yfirleitt til er "að trúa á það sem ólíklegt er að sé til".

Vísindastarf stendur og fellur með ýmindunarafli--til þess að upphugsa nýja rannsóknamöguleika, túlka niðurstöður, og láta ekki hið viðtekna villa manni sýn.


Svanur Sigurbjörnsson - 11/05/06 13:47 #

Já það er mikið af fólki sem hefur það sem ég kalla "frífljótandi" hugsun. Það er tilbúið að taka inná sig alls kyns hugmyndir í nafni umburðarlyndis og til tilbreytingar í heimi sem það telur annars svo leiðinlegan eða vondan. Jón Gnarr skrifaði t.d. í Bakþönkum Fréttablaðsins í vetur að það væri léttir í því að vita af sælu eftir dauðann þar sem lífið væri yfirleitt svo niðurdrepandi og fullt af þjáningu. Mér fannst þetta virka sem hvatningarbréf til allra sem íhuguðu sjálfsmorð. Það er sorglegt að fólk eins og Kolbrún og Jón Gnarr þurfi að trúa á ímyndaða vitleysu til að líða betur. Það voru nokkrir sem frömdu sjálfsmorð þegar Orson Wells og félagar fluttu leikritið "War of the Worlds" (Innrásin frá Mars) fyrir um 70 árum í útvarpi í USA. Ofsahræðsla greip um sig meðal auðtrúa fólks. Þannig að það hefur gerst í raun að fólk lifi í dauðans ótta við ímyndaðar geimverur og taki ákvarðanir með óafturkræfum afleiðingum.


Árni Árnason - 12/05/06 18:07 #

Mig grunar... nei ég er eiginlega alveg viss um að menn eru að leggja eitthvað miklu meira í þessi skrif Kolbrúnar en efni standa til. Nú þekki ég Kolbrúnu ekkert, en hef auðvitað margheyrt í henni og lesið eitthvað eftir hana eins og fleiri. Mér finnst Kolbrún Bergþórsdóttir pínulítill snillingur, og hef jafnan haft gaman af hennar innleggjum í gegn um tíðina. Ég er sömuleiðis viss um að hún er ekki þjökuð af neinum bábiljum, heldur hefur eins og ég og fleiri gaman af skáldskap, og frjóu ímyndunarafli. Þó að ég telji mig gallharðan skeptiker, kemur það ekki í veg fyrir að ég geti haft gaman af bulli. Ég get alveg lifað mig inn í drauga- og geimverumyndir, tímaflakk, flúgandi super- og leðurblökumenn og þar fram eftir götunum, svo fremi ég verði þess ekki var að verið sé að reyna að telja mér trú um að þetta sé naglfastur sannleiki. Ég hef lúmskt gaman af því þegar álfasteinar eru fluttir úr vegarstæðum, eða hlykkur tekinn á veginn í kringum þá. Ég held að það sem Kolbrún er að meina sé það að við meigum alveg leika okkur með hið óþekkta, við þurfum ekkert endilega að horfa á alla hluti með líflausum augum forpúkans. Ef menn fussa alltaf og sveia yfir öllu sem ekki er hægt að setja upp í formúlu, hljóti líf þeirra að verða sterilt og leiðigjarnt.

Ef það eina sem menn treysta sér til að lesa fyrir börnin sín eru hagtölur mánaðarins, vegna þess að ævintýrin standast ekki eðlisfræðina, þá er skeptikin of langt gengin.


Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 12/05/06 18:30 #

Sjálfur hef ég lengi verið á þeirri skoðun að Kolbrún sé leiðinleg og ófrumleg. Ég les nákvæmlega ekkert í pistlinum sem er ekki þar. Það er líka enginn að halda því fram að það ætti ekki að lesa ævintýri fyrir börn, sjálfur minnist ég sjálfur á að fantasíur og vísindaskáldsögur séu skemmtilegar en aðalmálið er að rugla þeim ekki saman við veruleikann. Kolbrún virðist ekki vilja gera þennan greinarmun og hún gerir lítið úr þeim sem það gera í þessum pistli. Hún virðist yfirhöfuð ekki hafa nokkuð vit á því sem hún er að tala um.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 13/05/06 01:17 #

Ætli hún haldi að skáldsögurnar sem hún les (og þær eru margar) séu sannleikur. :)


Árni Árnason - 14/05/06 09:44 #

Ég hef að vísu ekki séð þennan umrædda fjölmiðlapistil Kolbrúnar, en ég geri ráð fyrir að skáletruðu, tilvitnuðu, setningarnar hér að ofan hafi verið valdar sérstaklega í því augnamiði að sýna kjarnann í honum. Í því er þó lítið annað að finna en að tilraunir vísindamannana til að koma eðlis og efnafræðinni yfir UFO-ið og astraltertugubbið séu í besta falli jafnlangsóttar og fantasían.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.