Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Þeir eru grænir – rétt eins og frostpinnarnir

Um daginn, fimmtudaginn 02.03.2006, horfði ég á sakamálaþátt í Ríkissjónvarpinu sem heitir Sporlaust (e. Without a trace). Þessi þáttur fjallaði um mann sem ímyndaði sér að geimverur ætluðu að ræna sér og leit alríkislögreglunnar að honum. Eðlilegar skýringar voru þó á þessum ímyndunum mannsins, þær voru aðferð hans til að útskýra fyrir sjálfum sér alvarlegt áfall í æsku.

En þessi þáttur hristi aðeins upp í mér og vakti mig til umhugsunar. Þannig er nefnilega mál með vexti að það fólk sem upplýsir um trú sína á geimverur er álitið hálfskrítið og rúmlega það. Og ef trúin er sterk og fólk fer að haga gerðum sínum í samræmi við hana er það oftar en ekki álitið geðveikt og reynt að koma því undir læknishendur. Geðlæknisfræðin hefur bæði skilgreiningar og fræðiheiti yfir þetta, Ofsóknarranghugmyndir (e. paranoid delusions). Og í kjölfar sjúkdómsgreiningar kemur oftast nær meðhöndlun þar sem reynt er að lækna viðkomandi.

Hér er um að ræða fólk sem trúir því að úti í geimnum sé eitthvað sem ekki er hægt að sjá dags daglega. Og það er talið merki um sjúklegt ástand.

En það er til annar hópur fólks sem einnig trúir á verur úti í geimnum, verur sem sjást ekki en eiga samt að vera þar og fylgjast með öllu sem við gerum. Og þessar verur eiga skv. kenningunni að sjá inni í hug okkar án þess þó að hafa nokkurn tíma sett í okkur einhver huglestrartæki á borð við þau meintu tæki sem meintar geimverur eiga að hafa sett í fólk þegar það er “brottnumið”. Hvaða fólk skyldi ég vera að tala um? Jú, það eru þeir sem trúa á Jesú, Guð og englana.

Skv. 3. tl. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 70/1996 skal ríkisstarfsmaður vera nægilega heilbrigður til að sinna starfi sínu. Þetta á jafnt við um andlegt heilbrigði og líkamlegt. Ef ríkisstarfsmaður myndi upplýsa yfirmann sinn um trú sína um að geimverur fylgdust með öllu sem hann/hún gerði yrði honum/henni án vafa veitt tímabundin lausn frá störfum og veitt aðstoð til að leita sér lækninga. En ríkisstarfsmaður sem ímyndaði sér að Guð og Jesú fylgdust með öllu sem hann/hún gerði fengi bara klapp á bakið og væri sagt að halda áfram sínum góðu störfum.

Og þegar kemur að því að velja fulltrúa á Alþingi eða sveitarstjórnir eða aðrar trúnaðarstöðu í samfélaginu þá er það frambjóðanda áreiðanlega ekki til framdráttar að segjast trúa á geimverur. Það er krafist dómgreindar, hæfileika til að greina rétt frá röngu, til að greina lygaþvætting og kjaftæðisfroðu frá staðreyndum. En þjóðin virðist samt telja í góðu lagi að frambjóðendur til trúnaðarstarfa trúi á þá Guð og Jesú, þó svo að engar sannanir séu fyrir meintri himnatilvist þeirra.

Er þetta eðlilegt? Ég tel að svo sé ekki. Ég tel að þjóðin þurfi að vakna. Vakna til vitundar um að það er ekki í lagi að trúa því að einhverjar ósýnilegar verur séu til á himnum uppi. Það er í raun sjúklegt ástand að trúa í blindni og afneita vísindalegum rökum. Og þjóðin þarf nauðsynlega að opna augun, horfast í augu við þá staðreynd að það er enginn þarna uppi. Hvorki litlir grænir kallar né síðskeggjaðir feðgar.

Jón Einarsson 10.03.2006
Flokkað undir: ( Efahyggja )

Viðbrögð


Snæi - 11/03/06 14:04 #

Er samt ekki smá munur á því að trúa að geimverur séu að fylgjast með manni eða að persónugerving trúarinnar manns sé að vaka yfir manni? Ég held líka að sá maður sem mundi segja að Guð hafi talað við sig og sagt honum að gera hluti mundi vera á nóinu færður til geðlæknis...

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.