Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Uppgjör efahyggjumanns

Trúleysi hefur verið mér mjög hugleikið frá því á menntaskólaárunum. Segja má að ég hafi frá þeim tíma verið herskár trúleysingi og þannig tekið undir flest sem fram kemur í málflutningi Siðmenntar og Vantrúar. Trúleysi mitt linaðist hins vegar fyrir tæpum tveimur árum er ég las fyrir einskæra tilviljun bók breska guðfræðingsins Alister McGrath The Reenchantment of Nature: The Denial of Religion and the Ecological Crisis (2002). Það sem sló mig við lestur þessarar bókar var hversu gagnrýnin sem MacGrath setti fram á raunvísindi samtímans átti mikinn samhljóm með þeirri gagnrýni sem ég hélt fram í bókinni Genin okkar: Líftæknin og íslenskt samfélag (2002). Þetta varð til þess að ég hellti mér út í lestur bóka þar sem guðfræðingar fjalla um tengsl trúar og raunvísinda og telst mér til að ég hafi á undanförnum tveimur árum keypt á fjórða tug bóka um þetta málefni.

Ég varð auðvitað fyrir áhrifum frá þessum lestri eins og sjá má í Lesbókargrein sem birtist í upphafi sumars árið 2004 og á orðaskaki sem ég átti við Vantrúarmenn í lok þess árs. Ég fór að trúa því í alvöru að hægt væri að finna sameiginlegan flöt á trú og raunvísindum, en þrátt fyrir það fylltist ég alltaf miklum efasemdum þegar ég hugsaði um persónulegan guð “theismans”, sem flestir þeirra höfunda sem ég las trúa á. “Deismi” virtist hins vegar vera að heltaka mig.

Í upphafi ársins 2005 var ég orðinn mjög leitandi og var kominn á kaf í vangaveltur um samskipti trúar og raunvísinda, sem varð til þess að ég fékk Guðmund Inga Markússon í lið með mér til þess að skipuleggja ráðstefnuna Forboðnir ávextir: Ráðstefna um trú og raunvísindi. Ráðstefnan var haldin í lok apríl og tókst með eindæmum vel. Í erindi mínu sýndi ég fram á að því fari fjarri að trú og raunvísindi hafi alltaf átt í stríði. Þetta er söguleg staðreynd, sem viðhorf einstaklingsins til mögulegra samskipta þessara stofnanna í nútíðinni getur ekki breytt. Um þetta leyti var ég nánast sannfærður að mögulegt væri að finna sameiginlegan flöt á trú og raunvísindum þó ég yrði aldrei sjálfur raunverulegur “theisti”.

Áfram hélt ég að lesa og til tíðinda dró í lok síðasta árs. Þá festi ég kaup á bókinni Finding Darwins God, þar sem lífvísindamaðurinn Kenneth Miller reynir að finna sameiginlegan flöt á trú og raunvísindum. Bókin byrjar mjög vel því hann tekur sköpunarsinna og talsmenn vithönnunartilgátunnar í gegn með mjög sannfærandi rökum. Ég fékk hins vegar áfall þegar hann fór að færa rök fyrir því hvernig persónulegur Guð getur verkað án þess að brjóta náttúrulögmálin: Guð getur bænheyrt þig með því að vinna í gegnum lögmál skammtafræðinnar, sem eru það sem kallast á ensku “indeterminísk”. Gefum Miller orðið:

The indeterminate nature of quantum behavior means that the details of the future are not strictly determined by present reality. God’s unverse is not licked in to a determinate future, and neither are we. Sadly, few theologians appreciate the degree to which physics has rescued religion from the dangers of Newtonian predictability (bls. 204)

Síðar í sama kafla segir Miller:

We need not ask if the nature of quantum physics proves the existance of a Supreme Being, which it certainly does not. Quantum physics does allow for it in an interesting way ... (bls. 213)

Þessar vangaveltur Millers opnuðu augu mín fyrir því að það er ekki hægt að finna samhljóm með trú á persónulegan guð og raunvísindum. Hver er munurinn að því að segja að vithönnunartilgátan sé rétt og því að segja að guð vinni gegnum lögmál skammtafræðinnar? Í mínum huga er munurinn í grunninn enginn og því er niðurstaðan sú að leit mín að sameiginlegum fleti á trú og raunvísindum hefur mistekist.

Síðan ég las bók Millers hef ég hætt þessari leit. Tveggja ára skoðun á möguleikanum á sameiginlegum fleti á trú og raunvísindum endaði því aftur í trúleysi. I have come full circle, eins og sagt er á ensku. Þrátt fyrir þetta er ég reynslunni ríkari því lestur allra þessara bóka um guðfræðileg málefni hafa gert mig næmari á umræðuna um trú og raunvísindi. Eftir stendur að ég á gagnrýna afstöðu mína til raunvísindanna, sérstaklega líftækninnar, sameiginlega með ýmsum guðfræðingum og þar er því enn mögulegur flötur á samræðu. Ég er hins vegar ekki lengur til viðræðu um guð því hann er ekki til!

Steindór J. Erlingsson 16.02.2006
Flokkað undir: ( Vísindi og trú )

Viðbrögð


G2 (meðlimur í Vantrú) - 16/02/06 09:04 #

Steindór, hvað er það sem guðfræðingar geta sagt af viti um líftækni? Er guði ekki alltaf troðið inn í slíka umræðu og ef hann er ekki til, hvert er þá gildi slíkrar umræðu?


Steindór J. Erlingsson - 16/02/06 18:22 #

G2, burt séð frá Guði þá eru margir þeir guðfræðingar sem ég hef legið yfir undanfarin misseri krítískir realistar eins og ég, þ.e. trúa ekki á algjöra smættun alls niður í lögmál eðlisfræðinnar m.a. vegna emergent properties. Hér er því grundvöllur fyrir gagnrýna samræðu milli mín og sumra guðfræðinga, sem hefur ekkert að gera með Guð.


Aiwaz (meðlimur í Vantrú) - 16/02/06 19:59 #

Welcome to the club! :o)


Snæbjörn - 16/02/06 20:01 #

Mjög forvitnilegt. En maður ætti nú samt að forðast allar tilraunir til sameiningar á þessu tvennu: Trú og vísindum.


G2 (meðlimur í Vantrú) - 16/02/06 20:26 #

Steindór, þú ert þá að tala við fólk sem hefur ákveðnar skoðanir eða hugmyndir um líftækni og vill svo til að eru guðfræðingar. Þetta er eins og að tala um fótbolta við guðfræðing, eða hannyrðir, það hefur ekkert með guð að gera. Þangað til kemur að þeirra fagi er þetta upp til hópa óbrjálað fólk. Á fræðilegum nótum tjáir guðfræðingur sig hins vegar á annan hátt heldur en t.d. verkfræðingur. Slíkt liggur í hlutarins eðli. Að þessu leyti eiga guðfræðingar ekkert erindi í neina vitræna umræðu af neinu tagi.


Finnur - 17/02/06 02:52 #

Athyglisverður pistill.

Hver er munurinn að því að segja að vithönnunartilgátan sé rétt og því að segja að guð vinni gegnum lögmál skammtafræðinnar?
Ef þú ert fylgjandi vithönnunartilgátunni, þá ertu jafnframt mótfallinn þróunarkenningunni. Vithönnunartilgátan er beinlínis sett til höfuðs vísindalegra aðferða, það er engin þörf á að leita náttúrulegra útskýringa vegna þess að svörin eru að finna í biblíunni.
Að halda því fram að skammtafræðin leyfi guðleg ítök er hinsvegar ekki andstætt vísindum, og jafnframt ótengt trúarbrögðum.


Steindór J. Erlingsson - 17/02/06 08:49 #

Finnur,ég er ekki sammála þér þegar þú segir

Að halda því fram að skammtafræðin leyfi guðleg ítök er hinsvegar ekki andstætt vísindum, og jafnframt ótengt trúarbrögðum.

Í GRUNNINN er þessi hugmynd náskyld vithönnun því báðar gera þær ráð fyrir guðlegri verkun í náttúrunni, sem er í mótsögn við grunnhugmyndir raunvísindanna. Tenging skammtafræðinnar við persónulegan guð virðist á yfirborðinu ganga upp en þegar dýpra er skoðað fellur hún á því skilyrði raunvísindanna að engar yfirnáttúrulegar skýringar eru leyfðar innan þeirra.


Snæbjörn - 17/02/06 09:28 #

Nei, þetta er engu að síður trúarlegt.

Hindraði lögmál Newtons nokkurn tímann Guð? Slíkar röksemdarfærslur hefðu verið slegnar út af borðinu af guðfræðingum með orðunum:

Guð getur gert kraftaverk og þar með brotið náttúrulögmál.

Það er það sem felst í hugtakinu yfirnáttúrulegur, þú ert hafinn yfir náttúruna.

Að segja að skammtafræðin leyfi guðleg inngrip er fremur fáránleg staðhæfing, líkt og það væri hægt að finna einhverjar náttúrulegar forsendur fyrir Guði? Væri þá ekki allt eins hægt að finna Guð?


Stefán Pálsson - 17/02/06 14:14 #

Hugmyndin um sameiginleg einkenni trúar og vísinda er svo sem ekkert nýnæmi í vísindaheimspeki. Frakkinn Pierre Duhem (1861-1916), sem telja má einn af brautryðjendum nútímavísindaheimspeki, benti á að eðlisfræði væri lokað kenningakerfi sem gerði það að verkum að á endanum byggðist það á nokkurs konar trú. Þetta taldi Duhem - sem sjálfur var sanntrúaður kaþólikki og fær eðlisfræðingur - ekki löst á vísindunum, þvert á móti.

Áhrif Duhem á skoðanir vísindasagnfræðinga og vísindaheimspekinga samtímans eru ótvíræð. Hann hafði þannig mikil áhrif beint og óbeint á Thomas Kuhn, risann í vísindaheimspeki 20. aldar.

Það stenst sömuleiðis ekki sagnfræðilega athugun að stilla vísindum og trúarbrögðum fram sem stríðandi fylkingum í gegnum alla söguna. Þvert á móti hafa þau oft og tíðum stutt hvort annað. Þannig trúðu til tiltölulega skamms tíma allir stjörnufræðingar á stjörnuspeki - og segja má að stjörnuspekin hafi verið forsenda rannsókna þeirra en ekki fjötur um fót.


Steindór J. Erlingsson - 17/02/06 17:57 #

Stefán þetta er fín hugleiðing hjá þér. Spuringin sem ég er að reyna að fást við í pistlinum snýst ekki um þá sögulegu staðreynd að raunvísindi og trú hafi ekki alltaf átt í stríði, heldur hitt hver mín persónulega afstaða til þessara mála á að vera í nútíðinni. Niðurstaða mín er sú að trú og raunvísindi fari ekki saman, ég er því að setja mig í flokk með frumspekilegum natúralistum.


danskurinn - 18/02/06 00:16 #

Steindór skrifar: "...engar yfirnáttúrulegar skýringar eru leyfðar innan þeirra [raunvísindanna]."

Án trúar væru engin raunvísindi. Raunvísindi spretta ekki upp úr engu. Þau verða til með þróun vitsmuna og eru verkfæri sem maðurinn hefur skapað í leit sinni að svörum við áleitnum spurningum. Spurningarnar byggja á þeirri trú og þrá að við munum einhverntíma vita svörin.

Við vitum í raun ekki mikið um sjálfa náttúruna eða þau ófrávíkjanlegu lögmál sem við trúum að eigi að gilda þar og þráum að þekkja. Mörkin á milli þekkingar og það sem álitið er yfirnáttúrulegt eru breytileg og færast til í takti með þróun vitsmuna okkar. Í rauninni er hægt að segja að raunvísindi þrái að sýna trúinni fram á, að hugmyndir um yfirnáttúru séu útskýranlegir hlutar náttúrunnar. Enda verður trú ónauðsynleg um leið og vitsmunalegar skýringar liggja fyrir. Ef þetta er rétt, þá má gera ráð fyrir að raunvísindi hætti að þróast um leið og maðurinn missir trúna eða tilfinninguna um yfirnáttúru.


Finnur - 18/02/06 09:32 #

Í GRUNNINN er þessi hugmynd náskyld vithönnun því báðar gera þær ráð fyrir guðlegri verkun í náttúrunni, sem er í mótsögn við grunnhugmyndir raunvísindanna.
Hugmyndin um guð á aldrei erindi innan raunvísinda. Hugmyndin um guð tekur við þar sem raunvísindi renna í þrot.
Hindraði lögmál Newtons nokkurn tímann Guð?
Ég held að það sé engin spurning um það að mekaníkin hafi útilokað guð. Samkvæmt henni er veröldin eins og samansafn tannhjóla og við getum reiknað út hreyfingu þeirra um allan aldur. Skammtafræðin hefur hinsvegar sýnt fram á að veröldin byggist öll á líkum. Ekkert er fyrirfram ákveðið.
Að segja að skammtafræðin leyfi guðleg inngrip er fremur fáránleg staðhæfing...
Ef þér finnst þetta fáránlegt staðhæfing Snæbjörn, hvernig útskýrir þú þá þann boðskap skammtafræðinnar að allt byggist á tilviljunum? Er það fáránlegt að segja að guð geti haft áhrif á atburðarásina, en rökrétt að segja að atburðarásin sé háð tilviljunum?


Steindór J. Erlingsson - 18/02/06 11:13 #

Danskur, segir að

Án trúar væru engin raunvísindi. Raunvísindi spretta ekki upp úr engu.

Þetta er rétt hjá þér, en þessi trú byggist einungis á því að náttúran sé skiljanleg og án afskipta yfirnáttúrlegra vera.

Sagan sýnir að náttúruspekingar á 16., 17. og fram yfir miðja 18 öld, litu á þekkingaröflun sýna sem sönnun á tilvist Guðs. Um aldamótin 1800 breytist þetta þegar náttúruspekin víkur fyrir raunvísindunum, sem þá voru að byrja að taka á sig mynd, því þá hætti guð að vera hluti af vinnutilgátun þeirra sem leituðu þekkingar á náttúrunni. Eins og einn kunnur vísindasagnfræðingur orðaði það breyttist rannsóknir á náttúrunni frá "godly to a secular activity".

Náttúruspekin var því undir miklum áhrifum frá guðfræðinni en hluti af myndunarferli raunvísindanna um aldamótin 1800 var að þarna var skilið á milli. Eina trúin sem er hluti af vinnuferli raunvísindanna er því trúin á að allir ferlar náttúrunnar séu skiljanlegir og eins og ég sagði ofar án afskipta yfirnáttúrlegra vera. Það er líka rétt að ítreka að trú náttúrspekinga á 17. og 18. öld var miklu nær deisma en theisma, en eins og þú veist danskur þá skptir Guð deismans sér ekki af sköpunarverki sínu. Hann er einungis primary cause og raunvísindin leyta að secondary causes.


danskurinn - 18/02/06 13:37 #

Steindór skrifar:"Eina trúin sem er hluti af vinnuferli raunvísindanna er því trúin á að allir ferlar náttúrunnar séu skiljanlegir og eins og ég sagði ofar án afskipta yfirnáttúrlegra vera. Það er líka rétt að ítreka að trú náttúrspekinga á 17. og 18. öld var miklu nær deisma en theisma, en eins og þú veist danskur þá skptir Guð deismans sér ekki af sköpunarverki sínu. Hann er einungis primary cause og raunvísindin leyta að secondary causes."

Sjálfsagt er það rétt en ég er að reyna benda á samspilið þarna á milli, núninginn þar sem sköpunarkrafturinn er virkjaður. Það er samspilið þarna á milli sem skapar hina mannlegu veröld, afrekin og menninguna. Verkfræðilegt undur eins og pýrímdarnir, verður fyrst til vegna trúar en ekki vegna verkfræðikunnáttu, sem verður hins vegar til sem nauðsynlegt verkfæri til að framkvæmda.

Og það skiptir í sjálfu sér engu máli hvort "vísindamenn" vilji sanna eða afsanna tilvist guðs. Trú og þrá er og verður alltaf nauðsynlegt innihald sem hvati í þekkingarleit mannsins. Yfirnáttúra er því ekki "fixed" fyrirbæri heldur skilningur eða skilningsleysi sem færist til eftir því sem þekking okkar vex, eða eins og Finnur skrifar hér fyrir ofan: "Hugmyndin um guð á aldrei erindi innan raunvísinda. Hugmyndin um guð tekur við þar sem raunvísindi renna í þrot." Svæðið þarna á milli er átakasvæðið þar sem sköpunarkrafturinn og hið mannlega innsæi eflist.


Steindór J. Erlingsson - 18/02/06 16:13 #

Danskur segir

Finnur skrifar hér fyrir ofan: "Hugmyndin um guð á aldrei erindi innan raunvísinda. Hugmyndin um guð tekur við þar sem raunvísindi renna í þrot." Svæðið þarna á milli er átakasvæðið þar sem sköpunarkrafturinn og hið mannlega innsæi eflist.

Þessu er ég ekki sammála því hjá hinum trúlausa eða hjá deista tekur ekkert við þegar raunvísindin komast í þrot. Við sættum okkur við að mannlegum gáfum, sem urðu til við þróun lífsins á jörðinni, eru takmörk sett. Að mínu viti leggur vissan um tilvist guðs, eða "átakasvæðið" milli trúar og vísinda, ekkert til raunvísinda samtímans.


danskurinn - 18/02/06 17:13 #

Steindór skrifar:" ...hjá hinum trúlausa eða hjá deista tekur ekkert við þegar raunvísindin komast í þrot."

Þetta hlýtur að vera rangt. Grunur eða tilfinning eða ósk tekur alltaf við.

Steindór skrifar:"Við sættum okkur við að mannlegum gáfum, sem urðu til við þróun lífsins á jörðinni, eru takmörk sett."

Og við gerum okkur einnig grein fyrir að þekking okkar er síður en svo komin að endimörkum hins mögulega. Það þýðir að þrátt fyrir takmörkun okkar, "vitum" við að meira er í vændum. Það er það sem tekur við.

Steindór skrifar:"Að mínu viti leggur vissan um tilvist guðs, eða "átakasvæðið" milli trúar og vísinda, ekkert til raunvísinda samtímans."

Ég er sammála því bókstaflega. Hitt er annað mál að þetta svæði er til og þar eru óskir okkar og trú. Án þeirra tæki ekkert við.


Steindór J. Erlingsson - 18/02/06 17:26 #

Danskurinn segir

Og við gerum okkur einnig grein fyrir að þekking okkar er síður en svo komin að endimörkum hins mögulega. Það þýðir að þrátt fyrir takmörkun okkar, "vitum" við að meira er í vændum. Það er það sem tekur við
. Auðvitað vitum við ekkert um endimörkin en eins og Kuhn benti á vinna raunvísindamenn innan viðmiðs, sem skilgreinir þær gátur sem vert er að leysa. Allt sem er utan viðmiðsins er tómamengi og draumórar einir að reyna að geta sér til um í hverju það felst. Sá sem er trúlaus lætur þá draumóra ekki byrgja sér sýn á núið. Því itreka ég, ólíkt því sem danskurinn heldur fram, a ekkert tekur við hjá hinum trúlausa þegar raunvísindin komast í þrot, skv. Kuhn getum við ekki leyft okkur það!


danskurinn - 18/02/06 19:42 #

Steindór skrifar: " Allt sem er utan viðmiðsins er tómamengi og draumórar einir að reyna að geta sér til um í hverju það felst."

Eru það ekki óskir okkar sem fara með okkur þangað sem við viljum fara. Ef við óskum okkur að smíða mikið og fullkomið vopnabúr, þá förum við með vísindin þangað. Niðurstaðan, eins og við sjáum best þegar við lítum yfir farinn veg, verður alltaf í samræmi við óskir okkar. Það eru því ekki mannana verk sem skapa heiminn, heldur óskir okkar eða tómamengið eins og þú kýst að kalla það. Það hlýtur að þurfa mikil átök að afneita því.

Steindór skrifar: "...ekkert tekur við hjá hinum trúlausa þegar raunvísindin komast í þrot, skv. Kuhn getum við ekki leyft okkur það!"

"Ekkert" er ekki til. Engin maður er án draumóra eða óska. Uppgjör efahyggjumanns virðist mótsagnarkennt þegar það fellst í yfirlýsingu um að sannleikurinn hafi fundist. Hið eiginlega uppgjör verður ekki fyrr en þegar kemur að sjálfsþekkingu. Það á maður við sjálfan sig ;-)


Sævar Helgi - 19/02/06 01:58 #

Frábær grein Steindór! Mér finnst hún sýna svart á hvítu hversu opin hugur vantrúarmannsins er. Um leið og nýjar sannfærandi upplýsingar koma til sögunnar eru vantrúaðir tilbúnir að endurskoða afstöðu sína.

Það er nokkuð sem trúmenn mættu mjög gjarnan taka sér til fyrirmyndar!


Þórður Ingvarsson (meðlimur í Vantrú) - 19/02/06 02:09 #

Uppgjör efahyggjumanns virðist mótsagnarkennt þegar það fellst í yfirlýsingu um að sannleikurinn hafi fundist.

Hvaða sannleikur er það?


danskurinn - 19/02/06 10:22 #

"Hvaða sannleikur er það?"

Sannleikurinn um að ekkert taki við þar sem raunvísindi renna í þrot ;-)


Gudjon - 19/02/06 16:03 #

Hvert munu vísindin leiða okkur? Að hvaða niðurstöðum munu hinir síðust mannlegu vísindamenn komast?

Að hvað niðurstöðum myndu vísindinn komast ef menn gætu stundað vísindarannsóknir endalaust?

Úr því að við getur ekki svarað þessum spurningum getum við ekki vitað hverja hinar endanlegu niðurstöður vísindanna eru.

Og í þessum skilningi verða niðurstöður vísindanna aldrei endanlegar heldur einugis bráðabirgaðniðurstöður vísindamanna sem eru háðir mannlegum takmörkunum og hafi því enga möguleika á að höndla sannleikann allann.


Finnur - 20/02/06 04:26 #

Þessu er ég ekki sammála því hjá hinum trúlausa eða hjá deista tekur ekkert við þegar raunvísindin komast í þrot.
Er hinn trúlausi þá búinn að ákveða að ekkert sé til utan raunvísinda? Raunvísindi eru þar með hinn endanlegi sannleikur.
Ef þetta er réttur skilningur hjá mér, má þá ekki segja að raunvísindi séu trúarbrögð vantrúaðra.


Þórður Ingvarsson (meðlimur í Vantrú) - 20/02/06 07:51 #

Er verið að athuga þanþol orðsins "trúarbrögð" í póstmódernískum skilningi? Trúarbrögð... er það ekki að bregða manni með trú? Gæti kannski verið að sé verið að véla fólk til að hafa betri tiltrú á árstíðirnar? Má vera að smakka á ís og sleikjó og trúa því að bragðið sé betra í fyrra skiptið séu trúarbrögð?


Finnur - 20/02/06 21:17 #

Þetta er nú útúrdúr hjá þér Þórður. Trúarbrögð hljóta að hafa dýpri merkingu en að smökkun á sælgæti.
Það sem Steindór er að tala um þessari grein, ef ég skil hann rétt, er að efahyggjan sé eina rétta leiðin til að leita að svörum. Og samkvæmt efahyggjunni finnast svör eingöngu í raunvísindum, allt annað er ekki til.
Þessu má líkja við trúarbrögð að því leiti að hér er Steindór búinn að einskorða sig við að einungis ákveðin hugmyndafræði sé rétt. Ekki ólíkt því þegar biblían segir að við skulum aðeins einn guð hafa.


Steindór J. Erlingsson - 21/02/06 00:34 #

Finnur, greining þín á viðhorfum mínum er ekki alveg rétt. Þegar þú segir að í "efahyggjunni finnast svör eingöngu í raunvísindum, allt annað er ekki til" gefur þú í skyn að ég sé harður pósitívisti og grimmur talsmaður vísindahyggju, sem er ekki rétt. Mín verufræðilega (ontology) afstaða er að ekkert sé til utan náttúrunnar, þ.e. enginn guð. Á þekkingarfræðilega (epistemology) sviðinu er ég hins vegar krítiskur realisti. Í því felst að skilningur okkar á náttúrunni hefur í gegnum tíðina orðið til við gagnkvæma víxlverkun samfélags- og raunvísindahugmynda. Ég útlistaði þessar hugmyndir mínar nýlega í stuttri grein, en besta útlistun á þessari þekkingarfræðilegu hlið hugmynda minna er að finna í rannsóknum mínum á náttúrufræðingnum Þorvaldi Thoroddsen.

Eins og ég sýni fram á í greininni um Þorvald er túlkun raunvísindamanna á þróunarkenningunni og þess hversu raunvísindin eru megnuð alltaf litið af heimspekilegri afstöðu.

Niðurstaðan mín er því sú að ofangreind lýsing þín á afstöðu minni nær einungis til verufræðilegar afstöðu minnar. Þegar kemur að þekkingarfræðinni hefur heimspekileg afstaða, þ.e. það sem við teljum til hugvísinda, félagsvísinda og guðfræði, vissulega áhrif á þróun raunvísindakenninga, a.m.k. innan líffræðinnar, eins og berlega má sjá í vithönnunartilgátunni, þar sem Guð spilar stórt hlutverk, eða í þróunarhugmyndum S.J. Goulds, þar sem marxismi litaði allt. Svona gæti ég lengi haldið áfram en bendi þeim sem hafa áhuga á að kynna sér þetta frekar á bókina Monad to Man: The Concept of Progress in Evolutionary Biology eftir Michael Ruse.


Finnur - 21/02/06 02:55 #

Hvað felst í því að vera grimmur talsmaður vísindahyggju, ef ekki sú afstaða að ekkert sé til utan náttúrunnar?
Er þetta ekki sama og efnishyggja?
Líf er ekkert annað en flókin efnasambönd sem eiga sér uppruna og endir í geimrykinu. Og rökin eru að raunvísindin geta ekki sýnt fram á neitt annað.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 21/02/06 03:00 #

Getur þú sýnt fram á eitthvað annað? Ef ekki, af hverju þá að gera ráð fyrir því? Rök takk!


Finnur - 21/02/06 03:40 #

Rökin eru þau að þrátt fyrir árangur raunvísinda, þá erum við engu nær um hver er tilgangur tilverunnar.
Ef eitthvað er þá hafa raunvísindin vakið upp fleiri spurningar um tilveruna heldur en svörin sem þau hafa veitt.

Sem dæmi, hvaða tilgangi þjónar líf? Vinsælt er svarið um viðhald á sjálfu sér. En þá vaknar spurningin afhverju fann maðurinn upp getnaðarvarnir og fóstureyðingu? Þessi uppfinning gengur þvert á útskýringu vísinda á lífi, ekki satt?

Og annað dæmi er, ef við erum ekkert annað en efnasambönd úr geimryki, þá ætti ekkert að vera því til fyrirstöðu að við gætum framleitt okkur sjálf á ólífrænan hátt. Þú getur farið útí búð og keypt do-it-yourself-kit þar sem þú getur búið til fleiri eintök af sjálfum þér. Og þessi eintök geta síðan búið önnur eintök af sjálfum þér, og svo koll af kolli. Ef hinn upphaflegi þú síðan deyrð, hvað eru þá afritin af þér? Eru þau þú líka?

Er ekki augljóst af þessum dæmum hversu takmörkuð raunvísindin eru? Og ef raunvísindin eru takmörkuð, er þá hægt að gera ráð fyrir því að þau svari öllu?







Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 21/02/06 04:03 #

Rökin eru þau að þrátt fyrir árangur raunvísinda, þá erum við engu nær um hver er tilgangur tilverunnar.

Fyrst þarf að spyrja hvort það sé tilgangur. það bendir ekkert til þess að það sé tilgangur.

Raunvísindin eru takmörkuð við það að halda engu á lofti nema því sem hægt er að færa sönnur fyrir. Sá sem aðhyllsti heimsmynd þá sem raunvísindin færa okkur aðhyllist hið raunverulega og heimsmyndin er opin fyrir breytingum. Hindurvitni eiga ekki upp á pallborðið, enda auðvelt að fá út ranga heimsmynd þegar gert er ráð fyrir þeim.


Finnur - 21/02/06 05:15 #

Fyrst þarf að spyrja hvort það sé tilgangur. það bendir ekkert til þess að það sé tilgangur.
Byggjast ekki raunvísindi á að allt hafi tilgang, orsök og afleiðingu?
Ef þú ert þeirra skoðunar að lífið hafi ekki tilgang Birgir, og þá væntanlega að ekkert hafi tilgang, þá hefurðu ekki þörf fyrir því að leita neinna svara.
Þó að þú getir lifað hamingjusamur án allrar forvitni um tilveruna, þá er ekki þar með sagt að það gildi um alla. Og reyndar held ég að það gildi um fæsta. Og þetta viðhorf þitt ætti ekki að verða til þess að þú gagnrýnir þá sem trúa að lífið hafi tilgang og leita svara utan jafnt sem innan vísinda.


danskurinn - 21/02/06 09:42 #

Steindór skrifar:"Mín verufræðilega (ontology) afstaða er að ekkert sé til utan náttúrunnar, þ.e. enginn guð."

Að hve miklu leyti er náttúran rannsakanleg? Og hvenær værum við komnir út fyrir náttúruna? Rannsóknir á náttúrunni eru fyrst og fremst háðar því að hverju við beinum sjónum okkar, þ.e. okkar eigin takmörkunum. Þess vegna rannsökum við einvörðungu það sem er rannsakanlegt á hverjum tíma með þeim verkfærum sem við höfum yfir að ráða. Verufræðilega er náttúran því algerlega bundin hugmyndum okkar eða óskum um hvað náttúran, eðli hennar og takmörkun er. Við erum því ævinlega að leita að staðfestingu á óskum okkar og hugmyndum, því ekki getum við rannsakað það sem við höfum enga hugmynd um. Verufræðileg afstaða þín hlýtur því að vera sú, að ekkert sé til nema það sem þú hefur hugmynd um eða getur óskað þér. Þess vegna er innsæi og skapandi hugsun í raun mikilvægasta "kryddið" þegar kemur að vísindum og heimspeki. Bestu aðstæðurnar til að efla innsæi og skapandi hugsun eru í listum, einmitt vegna þess að þar eru takmarkanir ekki eins sterkur þáttur í starfsumhverfinu. Þannig er listamaðurinn líklega bæði fyrsti vísindamaðurinn og heimspekingurinn. Hann er sá sem fyrstur brýst út fyrir takmarkanirnar í fíflagangi sínum og heimsku sinni. Eins og trúðurinn getur verið sá sem er alvarlegastur og hnitmiðaðastur í gagnrýni. Efnishyggjumenn og vísindatrúaðir ættu því að hugsa sig um tvisvar áður þeir halda fram þeirri skoðun og þeir séu komnir tveimur skrefum á undan hinum með fulla vasa af sönnunargögnum.


Steindór J. Erlingsson - 21/02/06 16:03 #

Það að trúa ekki á Guð er heimspekileg afstaða, s.k. frumspekilegur natúralismi, sem ekki er hægt að sanna endanlega með vísun í raunvísindin, enda er grunnforsenda þeirra aðferðafræðilegur natúralismi.

Í pistli þínu gleymir þú að raunvísindin eiga sér sögu sem einkennist af því að þau hafa kastað til hliðar miklu af því sem guðfræðingar hafa haldið fram í gegnum tíðina. Þegar litið er til sögunnar er ljóst að raunvísindin veita okkur áreiðanlegustu þekkinguna um náttúruna. Þetta felur í sér, andstætt því sem heldur fram, að "Efnishyggjumenn og vísindatrúaðir ... [eru] komnir tveimur skrefum á undan hinum með fulla vasa af sönnunargögnum".

Þar með útiloka ég ekki framlag lista og hugvísinda til þróunar raunvísindalegrar þekkingar, eins og ég gerði grein fyrir hér að ofan þegar ég skilgreindi þekkingarfræði mína. Rannsóknir mínar og annarra vísindasagnfræðinga hafa til að mynda sýnt að sterk tengsl virðist hafa verið milli módernisma í menningu og listum og á ákveðinna þátta í þróun raunvísinda á tímabilinu 1880-1930. Ef þú hefur áhuga gæti ég sent þér handrit greinar sem nú er í ritrýningu þar sem ég fjalla um þessi tengsl. Ef svo er sendu mér línu á steindor@akademia.is


Finnur - 21/02/06 21:37 #

Það að trúa ekki á Guð er heimspekileg afstaða, s.k. frumspekilegur natúralismi, sem ekki er hægt að sanna endanlega með vísun í raunvísindin...
Þessu er ég sammála þér um Steindór, en mér skilst að þessi afstað gangi þvert á skoðun trúarbræðra þinna hér á vantrú.
Það að trúa ekki á guð er afstaða sem hlýtur að byggjast á tilfinningu, vegna þess að vísinding geta ekki, og eiga ekki, að leita að réttri afstöðu.
En spurningin sem þessi afstaða skilur eftir sig, spurning sem bæði trúaðir og guðlausir geta spurt, er hvaðan kemur þessi tilfinning? Tilfinningin um guð eða guðleysi.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 21/02/06 21:56 #

en mér skilst að þessi afstað gangi þvert á skoðun trúarbræðra þinna hér á vantrú.

Það er eingungis vegna þess að þú neitar að hlusta. Þessi skoðun gengur bara alls ekki þvert á skoðun Vantrúarsinna. Ef þú villt ræða þetta tiltekna atriði nánar getur þú gert það á spjallinu.


Finnur - 21/02/06 22:03 #

[Athugasemd færð á spjallið MÁ]


danskurinn - 22/02/06 00:55 #

Steindór: "Þegar litið er til sögunnar er ljóst að raunvísindin veita okkur áreiðanlegustu þekkinguna um náttúruna. Þetta felur í sér, andstætt því sem heldur fram, að "Efnishyggjumenn og vísindatrúaðir ... [eru] komnir tveimur skrefum á undan hinum með fulla vasa af sönnunargögnum".

Nú hélt ég engu fram um hvort einhver eða eitthvað stæði skrefum framar eða aftar en annað. Ég sló aðeins varnagla og get gert það aftur. Það kemst engin á undan hinum. Það sem tekur sig út og álítur sig vera óháð öðru, staðnar og deyr. Besta dæmið um það er kirkjan. Reyndar er kirkjan ekki alveg sambærileg við vísindi að þessu leyti, því kirkjan fer af stað með fulla vasa af lygum sem hún kallar sönnunargögn. Vísindi með fulla vasa af sönnunargögnum eru frábær, en það eru til vasar sem þarf að fylla með öðru en sönnunargögnum. Lífið er nefnilega ekki það sem kemur fyrir mann heldur miklu frekar hvað manni finnst um það. Sú stærð er breytileg og jafnvel óútreiknanleg.

Steindór: "Rannsóknir mínar og annarra vísindasagnfræðinga hafa [...] sýnt að sterk tengsl virðist hafa verið milli módernisma í menningu og listum og á ákveðinna þátta í þróun raunvísinda á tímabilinu 1880-1930."

Stefnir þróun raunvísinda í þátt átt sem við óskum okkur? Myndi sú stefna og þróun breytast ef við breyttum óskum okkar?

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.