Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Völvuspá og talnaspeki í Vikunni

Það var athyglisvert að lesa Vikuna sem dagsett er 27. desember síðastliðinn. Völvuspáin á s. 14-15 var fróðleg. Við sporðdreka er sagt: „Þú munt hafa möguleika á að kynnast nýjum hliðum á sjálfri þér á komandi ári. Sjáðu til þess að þú getir tekið þér langt frí. Ástin mun blómstra í lok ársins. Sveiflur geta orðið í fjármálunum á árinu.“ (s. 15) Þetta á víst að eiga við mig. Það er nú ekkert ótrúlegt að ég muni kynnast nýjum hliðum á „sjálfri“ mér, enda gerist það reglulega, og langt frí líst mér vel á. Sveiflur verða nú á fjármálunum flest ár hjá mér (eins og öðrum) svo ekki er ólíklegt að það rætist. Hvað ástarmálin varðar mun það bara koma í ljós. Ef það skyldi ekki rætast hefur völvan mikla samt sem áður hitt í mark í þrem skotum af fjórum, sem er ekki slæmur árangur þegar spáin er svona sértæk. Það er mér reyndar umhugsunarefni að völvuspáin fyrir hin stjörnumerkin getur meira og minna átt við mig líka. Skrítið var það nú.

Á blaðsíðum 70-71 er svo merkileg úttekt á númerólógískum eiginleikum Karls Sigurbjörnssonar, biskups með meiru, og Gunnlaugs Guðmundssonar stjörnuspekings, niðurstöður rannsókna Benedikts S. Lafleur. Þar kemur ýmislegt fróðlegt fram, t.d. að Karl hafi skýrt skilgreinda köllun og sé leiðandi og ennfremur að hann sé skyldurækinn fjölskyldufaðir. Þá hefur Benedikt uppgötvað að biskup eigi „auðvelt með að koma skoðunum sínum á framfæri og afla málum fylgis“, sem er hárrétt. Það er einmitt auðvelt að koma skoðunum sínum á framfæri þegar maður hefur embætti biskups, og ekki er erfitt að afla málum fylgis þegar maður gætir þess að taka helst ekki afstöðu nema í óumdeildum málum á borð við að vera yfirlýstur andstæðingur náttúruhamfara eða yfirlýstur fylgismaður mannúðar. Mikið afrek, að afla fylgis við þau mál. Helsti galli biskups mun, samkvæmt Benedikt, vera sá að hann þarf „að gæta þess að einangra sig ekki í metnaðarfullum áætlunum sem ekki njóta fulls meðbyrs og trausts samstarfsmanna og þeirra sem ætlað er að hjálpa.“ Þessi orð voru rituð fyrir áramót, og Benedikt hefur að sönnu verið sannspár, samanber nýársræðu biskups og viðbrögð við henni. Þessa eiginleika má víst alla lesa út úr tölum biskups, en fæðingartala hans er t.d. 1, meistaratalan er 11 og lokaþversumman er 9. Það hefur varla haft áhrif á niðurstöður Benedikts, að biskup skuli vera ein best þekkta persóna Íslands. Hver sem er hefði getað skrifað að biskup Íslands ætti auðvelt með að koma skoðunum sínum á framfæri -- en það getur ekki hver sem er komist að því með leyndardómsfullum töfrabrögðum númerólógíunnar!

Næsta viðfangsefni Benedikts Lafleur er sem fyrr segir Gunnlaugur Guðmundsson stjörnuspekingur. Nú mætti ætla að talnaspekingnum Benedikt sé ekki alls ókunnugt um stjörnuspekinginn Gunnlaug, en látum það liggja milli hluta. Tölurnar tala nefnilega sínu máli: Það sem vekur nefnilega „strax athygli hjá Gunnlaugi er meistaratala hans 33 sem finna má í fæðingartölu hans. Eins og venjulega má reikna hana út á tvennan hátt, bæði lárétt og lóðrétt. Þegar hún er reiknuð út lárétt fáum við töluna 33. Og hana á helst ekki að leggja saman“ segir Benedikt, enda er þetta „flott tala“. Hvað getur maður annað en staðið höggdofa yfir þessari aðdáunarverðu meðferð vísindalegrar hlutlægni? Benedikt skýrir frá því að kannski sé það Gunnlaugi hollt að „vinna að listum á milli, jafnvel sameina listir og stjörnuspeki í ákveðnum tilvikum, til að mynda með hönnun listrænna stjörnukorta eða eitthvað í þeim dúr.“ Lánsmaður er Gunnlaugur, að hillan sem hann hefur rambað á í lífinu skuli henta honum svona vel, og hæfileikamaður er Benedikt að hafa komist að þessum óvæntu niðurstöðum eftir krókaleiðum talnaspekinnar!

Vésteinn Valgarðsson 17.01.2006
Flokkað undir: ( Nýöld )

Viðbrögð


Orri - 18/01/06 01:43 #

Furðulegt að eyða púðri í svona færslu.

Það vita væntanlega flestir, ef ekki allir, sem lesa þessa síðu að stjörnuspár blaðanna eru dægradvöl og grín.

Fyrir þeim, sem á annað borð taka sig alvarlega sem greinahöfunda á vantrú, hljóta að liggja mikilvægari verkefni í að opinbera sannleikann um lygina.


Vésteinn Valgarðsson (meðlimur í Vantrú) - 18/01/06 02:49 #

Fannst þér færslan svona alvörugefin?


urta (meðlimur í Vantrú) - 18/01/06 15:04 #

Ég tel að það sé ekki vanþörf á að vekja athygli á fyrirbæri eins og stjörnuspám, talnaspeki, álfatrú, reiki, miðlum, andalækningum o.s.frv, o.s.frv. sem "flestir ef ekki allir" telja að sé grín eins og Orri heldur fram. Það eru nefninlega ótrúlega margir sem taka svona hluti háalvarlega - allt þetta eða eitthvað af því.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.