Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Hvað er trúarbragðahatur?

Á bls. 2 í Fréttablaði dagsins stendur þetta:

Banna trúarbragðahatur

Bresk stjórnvöld hyggjast leggja lagafrumvarp fyrir þingið sem gerir það að saknæmu athæfi að hvetja til trúarbragðahaturs.

Talið er að frumvarpið taki mið af lögum um kynþáttahatur. Brot á þeim lögum varða allt að sjö ára fangelsi.

Áður en ég mynda mér skoðun á þessu máli langar mig heil ósköp til að vita um hvað er verið að tala. Því jafn eindregið sem ég er á móti kynþáttahatri hlýt ég að vera jafnmótfallinn því að fólk sé úthrópað eða beitt ofbeldi í krafti þeirra trúarbragða sem það aðhyllist. En er það sem hér um ræðir eitthvað slíkt, eða fjallar þetta lagafrumvarp um eitthvað allt annað?

Ég spyr af þeirri einföldu ástæðu að oft er okkur hér á Vantrú borið á brýn að vera e.k. trúarbragðahatarar, að við séum ofstopamenn gagnvart því sem mönnum er heilagast.

Ég vísa því að sjálfsögðu á bug. Það eru alltaf hugmyndakerfin sjálf sem liggja undir gagnrýni hér og auk þess mismununin sem oft fylgir. Hvergi er ráðist að fólki eða það úthrópað fyrir trúarskoðanir sínar.

Ég man reyndar varla til þess að hafa orðið var við slíkt hátterni í öllum þessum rökræðum um trúmál sem ég hef átt. Ekki einu sinni hjá biskupi Íslands þegar hann segir trúleysi ógna mannlegu samfélagi. Hann úthrópar okkur trúleysingjana ekki einu sinni sem siðleysingja þegar hann segir trúleysi kalla siðleysi yfir samfélagið.

Málflutningur hans er á sömu nótum og okkar. Munurinn er einungis sá að við höfum rétt fyrir okkur ;)

En ef svo vill til að nýju lögin í Bretlandi reynist afrakstur þrýstings frá trúmönnum sem ekki þola að heyra ráðist á hugmyndakerfi sitt, jafnvel þótt góður rökstuðningur um skaðsemi þess fylgi, tja þá erum við Vantrúfélagar í ákveðinni hættu, þ.e. ef svipuð lög verða tekin upp hér.

Biskupinn reyndar líka. Sjáumst í djeilinu, Kalli!

Birgir Baldursson 08.07.2004
Flokkað undir: ( Siðferði og trú )

Viðbrögð


Vésteinn Valgarðsson (meðlimur í Vantrú) - 09/07/04 00:17 #

Hmm .... ætli trúarbragðahatur sé það, að gagnrýna trúarbrögð einhvers? Ef heilu kynþættirnir eru gagnrýndir er það kynþáttahatur, ekki satt? Ef maður baunar á krysslinga og bábiljur pokapresta, ætli maður sé þá tekinn sömu tökum og menn sem tala um 'afríkunegra með prik í hendinni'?


Sigurður Ólafsson - 09/07/04 12:41 #

Hér er um hættulega og varasama þróun að ræða sem gæti teygt anga sín hingað. Reyndar þarf ekki sérstök lög til, því fjársterk trúfélög hafa miskunarlaust beitt her lögfræðinga gegn andstæðingum sínum. Má þar nefna "Vísinda"-kirkjuna sem hefur gert margan manninn gjaldþrota, m.a. hugrakka menn sem haldið hafa úti vefsíðum sem vara við vafasömum starfsaðferðum hennar. Hver veit, kannski verðið þið hér á vantru.net teknir fyrir næst!


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 09/07/04 13:23 #

"Reyndar þarf ekki sérstök lög til, því fjársterk trúfélög hafa miskunarlaust beitt her lögfræðinga gegn andstæðingum sínum..."

Reyndar hafa lög um guðlast gilt um langa hríð hérlendis og menn verið dregnir fyrir dómstóla í krafti þeirra. Sjá http://vantru.net/gudlast/


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 09/07/04 13:30 #

"Hmm .... ætli trúarbragðahatur sé það, að gagnrýna trúarbrögð einhvers? Ef heilu kynþættirnir eru gagnrýndir er það kynþáttahatur, ekki satt?"

Ég er á því að ekki sé hægt að líkja þessu saman. Ef maður getur sýnt fram á með rökum að tiltekin trúarbrögð geti verið skaðleg samfélaginu hlýtur að gilda annað um það en ef maður reyndi að halda því fram að tilvist einhvers kynþáttar væri skaðlegur á sama hátt, enda engin rök fyrir því.

Þeir sem setja svona lög eru dálítið að skjóta sig í fótinn, því með því hafa þeir komið í veg fyrir alla umræðu um skaðsemi hvers kyns ranghugmynda sem ofstækisfullt fólk innrætir sakleysingjum. Ef ég og fleiri tækjum okkur saman hæfum villimannleg trúarbrögð Asteka til vegs og virðingar og krefðumst þess að fá að fórna einum manni á dag svo sólin komi örugglega upp, mætti ekki gagnrýna þessa trú okkar á þeim forsendum að hún væri heimskuleg, hættuleg og mannfjandsamleg. Þeir sem það gerðu myndu enda í fangelsi, ekki satt?


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 09/07/04 13:45 #

Hérna er lagabókstafurinn:

125. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 Hver, sem opinberlega dregur dár að eða smánar trúarkenningar eða guðsdýrkun löglegs trúarbragðafélags, sem er hér á landi, skal sæta sektum eða [fangelsi allt að 3 mánuðum].1) Mál skal ekki höfða, nema að fyrirlagi saksóknara.

Við erum nú þegar í stórhættu. En biskoppurinn er með frítt spil, því félög um trúleysi hafa ekki enn verið viðurkennd sem lögleg trúfélög.


Sigurður Ólafsson - 09/07/04 15:30 #

Nú er það viðtekin venja og viðurkennd réttindi manna í öllum siðuðum þjóðfélögum að það megi ræða um og deila á skoðanir annarra einstaklinga (og hafa þær að háði og spotti ef vill). Pólitísk umræða gengur út á þetta og oft er hart deilt, sem er gott og eðlilegt. Hvað er trú manna annað en skoðun þeirra á lífinu og tilverunni? Hvers vegna eru þær skoðanir sérstaklega varðar í lögum? Hver vegna má ég gagnrýna og hæðast að pólitískum skoðunum manns sem er kommúnisti, en ekki skoðunum sem tengjast kristinni trú hans? Kristni og kommúnismi eru jú hvoru tveggja stórhættuleg "skoðanakerfi" og spurning hvort þeirra hefur haft meiri hörmungar og mannfórnir í för með sér fyrir mannkynið? Furðulegt!


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 09/07/04 16:22 #

Hárrétt athugað (reyndar set ég spurningarmerki við álit þitt á kommúnisma, en við erum ekki að ræða hann hér). Ég vísa í þessu samhengi til orða Páls Skúlasonar hér.


Sigurður Ólafsson - 09/07/04 16:41 #

Já, þetta er merkilegt! Löggjafinn á Íslandi telur það nauðsynlegt að verja "Trúarkenningar og guðsdýrkun" manna alveg sérstaklega. Skyldu nokkur lög vera til hér á landi sem hlú að og styðja "Vísindakenningar og sannleiksást"? Líklega ekki.

Hvað öld er aftur núna?


Vésteinn (meðlimur í Vantrú) - 09/07/04 22:12 #

Samkvæmt þessum lögum er maður á hálum ís ef maður bendir á fáránleika Biblíunnar, eins og þegar hún heldur því fram að jörðin sé í miðju sólkerfisins eða að þríhöfða þurs einþrír guðs-ómynd gægist undir pilsfaldana?


Johannes Eiríksson - 11/07/04 12:57 #

Já mér sýnist að það ætti að vera búið að hengja ykkur og húðstrýkja margoft. Mér finnst samt út í hött að ekki megi koma með gagnrýni hvort sem það er á trúaða eða trúleysingja. Menn ættu nú að þola það. Samt verða menn einhvern veginn að finna það út hvenær þeir fara yfir strikið. Og sleppa því. Menn verða að hafa þetta allt innan velsæmis marka. Ó þarfi að meiða fólk. En mér finnst fáránlegt að dæma einhvern fyrir að tala um 'afríkunegra með prik í hendinni'? Ég get ekkert séð að því. Það er bara eins og að tala um sauðheimskan Íslending í lopapeysu.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 11/07/04 14:23 #

"Mér finnst samt út í hött að ekki megi koma með gagnrýni hvort sem það er á trúaða eða trúleysingja."

Við hvetjum til þess að fólk tjái sig hér og gagnrýni málflutning okkar, enda meðvitaðir um að við getum haft rangt fyrir okkur. Það eina sem við förum fram á er að allur málflutningur sé málefnalegur. Við reynum að sjálfsögðu í hvívetna að halda fókusnum á málefnunum sjálfir.

Það er hálf ömurlegt að þurfa að tala um "okkur" í karlkyni, en það vantar konur í þennan hóp. Hvar eruð þið, skeffskessur?


Johannes Eiríksson - 11/07/04 21:41 #

Ef þú ert að tala um mig að ég hafi einhvern veginn verið með ómálefnalegan póst eða fyrir utan umræðuefnið þá skil ég ekki hvað þú ert að meina og óska eftir nánari útskýringu Birgir.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 12/07/04 00:55 #

Það fólst engin slík aðdróttun í pósti mínum. Ástæðan fyrir því að ég tók þetta fram um málefnaleikann er einvörðungu sú að árétta að málflutningur okkar hér sé málefnalegur en ekki settur fram í þeim tilgangi að "hvetja til trúarbragðahaturs".


Lárus Páll Birgisson - 20/08/04 16:28 #

aha!

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.