Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Hverjar eru kröfurnar?

Einhverjir velta því fyrir sér hver markmið okkar trúleysingja sé með því að halda uppi gagnrýni á trú, trúarbrögð, kristni og þá sérstaklega Þjóðkirkjuna. Ég get vissulega ekki svarað fyrir alla en ég mun í þessari grein reyna að telja upp hin og þessi atriði sem við "herskáu trúleysingjarnir" (einsog sumir, til dæmis Douglas Adams heitinn, kallaði okkur) erum flestir sammála um.

Við hinir trúlausu höfum ástæðu til að vera reiðir við þá kristnu, biskup Íslands ræðst harkalega á okkur og greinar sem svara ásökunum hans fást ekki birtar. Jónína Ben segir að trúleysi sé ástæða þess að það sé níðst á börnum þó fullsannað sé að oft eru gerendurnir kristnir, myndi svipuð grein frá trúleysingja fást birt í dagblaði?

Við þurfum að borga undir Þjóðkirkjuna, Kristnihátið, kristnihátíðarsjóð, við þurfum að borga fyrir kristinfræðikennslu sem er í raun ekkert nema trúboð, menntakerfi sem á að hafa kristið siðferði sem grundvöll, höfum forseta sem er yfirmaður kristinnar kirkju. Okkar siðferði er talið óæðra siðferði hinna kristnu, opinber stefna ríkisins og kirkjunnar er í raun að við séum verra fólk en hinir kristnu.

Við erum litnir hornauga í samfélaginu þegar við tökum ekki þátt í kirkjulegum athöfnum (brúðkaupum, skírnum, fermingum) sem Íslendingar fylgja hefðarinnar vegna. Við þurfum að berjast til að koma í veg fyrir það ranglæti sem börn trúlausra (og þeirra sem eru af annarri trú) verða fyrir í skólum. Við verðum að svara þeim áróðri sem dynur á þjóðinni úr öllum áttum, í raun úr það mörgum áttum að fólk tekur varla eftir því.

Trúleysingjar hafa verið ofsóttir af kristinni kirkju síðan hún var stofnuð og það er fullkomlega eðlilegt að við stöndum á fætur og bendum á hve óeðlileg, hve órökrétt, hve ranglát og vond þessi trú er raunverulega (lesið Biblíuna). Við náum engum markmiðum okkar ef við óttumst að særa tilfinningar hinna kristnu, þeir hafa fótumtroðið okkur í gegnum tíðina og gera það enn.

Ég held áfram þeirri baráttu sem "herskáir" trúleysingjar hafa haldið uppi í gegnum tíðina, ég er þeim ólýsanlega þakklátur því ef kristni hefði jafn mikil ítök í heiminum og áður fyrr þá værum við mun verr stödd ("There was a time when religion ruled the world. It is known as The Dark Ages." - Ruth Hurmence Green). Ég er þó sérstaklega þakklátur Nietzsche sem náði til mín þegar ég var svona 10-11 ára með einni setningu og útskýrði fyrir mér að það væri enginn guð, ein setning dugði gegn öllum trúboðstilraunum sem gerðar voru á mér sem barn (aðallega í gegnum skólastarf).

Við erum fúl, við erum harkaleg en við höfum góða ástæðu og réttlátan málstað.

Óli Gneisti Sóleyjarson 15.09.2003
Flokkað undir: ( Siðferði og trú )

Viðbrögð


Diljá Mist Einarsdóttir - 04/10/04 18:16 #

Ég skal með ánægju upplýsa þig, Óli, um hugmyndir mínar um hvers vegna við Íslendingar byrjum á því að læra krisinfræði í skólum en ekki íslam. Þeir sem e-ð hafa lesið í Íslandssögu sem og Íslendingasögum vita það að kristni er jú stór hluti af þeirri sögu (en ekki íslam, ef þú vissir það þá ekki). Svo ber að nefna það að kristni er þjóðtrú okkar Íslendinga þar sem að meirihluti okkar er þeirrar trúar (en ekki td íslamstrúar). Síðan þykir mér vert að nefna það að mér vitanlega hefur trúarbragðakennsla í grunnskólum farið vaxandi, sjálf var ég svo lánssöm að fá að læra bæði kristinfræði og trúarbragðafræði og hafði gaman af. Skemmtilegt að þú skulir minnast á hlutleysi ykkar hvað varðar kristilegar hátíðir þar sem að mér virðist sem svo að hræsni ykkar trúleysingja sé álíka mikil og týpisks kommúnistaleiðtoga sem kemst til valda, þar sem að flestir ykkar halda fæðingu frelsarans hátíðlega og allt það sem henni fylgir með bros á vör. Mér finnst einnig að ekki eigi að setja trúleysingja og fólk "annarrar trúar" undir sama hatt! Fyrst ofsóknir eru þér, Óli, svona ofarlega í huga, legg ég til að þú lesir e-ð um sögu kristinna manna sem hafa verið ofsóttir víða um heiminn í gegnum tíðina sökum trúar sinnar t.d. Kínverja í kommúnistaríkinu.

Guð veri með þér !


Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 04/10/04 21:54 #

Það er ósiður að ljúka kommentum á hjátrúarkveðjum.

Ég vill hiklaust að það verði kennt um kristna trú í grunnskólum, ég vill að það verði kennt um græðgi kirkjunnar, galdraofsóknir, morð, valdabrjálæði og allt það rugl sem hefur fylgt trúnni í gegnum tíðina.

Það er ekki kennd kristinfræði í grunnskólum, það er lygi, í raun og veru þá er þetta kristniboð og mér finnst svínslegt að það sé verið boða trú fyrir þá peninga sem ég legg inn í sameiginlega sjóði okkar.

Jólin eru ekki fæðingarhátíð frelsarans, það myndirðu vita ef það væri ekki búið að ljúga að þér. Jólin hafa verið haldin frá því löngu áður en kristni kom til Íslands enda er þetta hátíð til að fagna því að sólin er að hækka á lofti, þess vegna kallast þetta ljósahátíðin. Í raun eru það því hinir kristnu sem eru hræsnararnir.

Af hverju á ekki að setja trúleysingja og fólk annarrar trúar undir sama hatt þegar er verið að tala um þá ríkisstyrktu skoðanakúgun sem fer fram í samfélaginu?

Það að kristnir menn hafi verið ofsóttir í gegnum tíðina kemur þessu máli bara alls ekkert við, ég er hins vegar viss um að ef við myndum leggja á vogarskálarnar ofsóknir gegn kristnum og ofsóknir hinna kristnu þá myndu illvirki kristinna manna vega mun þyngra.


Hjalti (meðlimur í Vantrú) - 05/10/04 01:16 #

Svo ber að nefna það að kristni er þjóðtrú okkar Íslendinga þar sem að meirihluti okkar er þeirrar trúar (en ekki td íslamstrúar).

Þetta er einfaldlega rangt, hvar hefurðu annars heyrt að meirihluti Íslendinga séu kristnir?


Lárus Páll Birgisson - 07/10/04 10:43 #

þjóðskrá


Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 07/10/04 10:47 #

Þjóðskrá skráir ekki trú heldur trúfélagsaðild, það eru ekki nærri því allir sem eru í trúfélagi sem samsvarar þeirra eigin trúarskoðunum.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 07/10/04 16:18 #

Einmitt, enda eru menn sjálfkrafa skráðir í trúfélag móður við fæðingu og oft kemur það fyrir að þeir sem ekki eru skráðir í Þjóðkirkjuna fá slíka skráningu átómatískt þegar þeir flytja á milli hverfa eða landshluta.

Það er því ósköp lítið að marka þetta, fólk sem samviskusamlega skráði sig utan trúfélaga fyrir nokkrum árum getur núna verið í Þjóðkirkjunni án þess að hafa hugmynd um það.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.