Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Biskupsritari afvegaleiðir umræðuna um kirkjujarðirnar

Skjáskot úr gögnunum sem biskupsritarinn benti á

Nýlega hefur kirkjujarðasamkomulagið verið í umræðunni - tilefnið er það að fjármálaráðuneytið hefur upplýst að virði jarðanna er 7 milljarðar, og fyrir þær borgar ríkið Þjóðkirkjunni um 3,5 milljarða á ári. Siggeir F. Ævarsson framkvæmdastjóri Siðmenntar og þingmaðurinn Björn Leví hafa báðir gagnrýnt samninginn.

Pétur G. Markan biskupsritari hefur ákveðið að verja þennan samning og segir gögnin liggja fyrir og heldur því fram að verið sé að afvegaleiða umræðuna. Siggeir svaraði Pétri en við viljum bæta við nokkru sem teljum ekki hafa komið fram. Raunin er að Pétur áttar sig ekki á mjög veigamiklu atriði.

Örstutt saga kirkjujarðanna á 20. öld

Fyrir rúmum hundrað árum var engin "Þjóðkirkja" til sem stofnun eða félag. Það sem er núna yfirstjórn Þjóðkirkjunnar var þá íslenska ríkið. Ríkið hafði umsjón yfir kirkjujörðunum #

Árið 1907 ákvað ríkið að selja þessar jarðir sem það hafði yfirumsjón með. Ákveðið var að söluandvirði seldra jarða rynni í prestlaunasjóð sem notaður yrði til að borga prestum laun. Fjölmargara jarðir voru seldar, en það dugði ekki til, og sjóðurinn fór á hausinn. Þá tók ríkið á það ráð að borga laun presta beint og halda áfram að selja jarðir, en söluandvirði þeirra fór áfram að einhverju leyti í sjóð fyrir kirkjuleg málefni (þótt það hafi ekki verið alger regla). #

Samingurinn árið 1997

Árið 1997 var orðin til sérstök ríkisstofnun, Þjóðkirkjan, utan um kirkjustarfsemi ríkisins. Stjórnmálamenn sem voru hliðhollir Þjóðkirkjunni, og vildu gefa henni meira sjálfstæði, ákváðu að gera samning við þessa nýju stofnun um þessar kirkjujarðir.

Samningurinn fól í sér að ríkið borgar Þjóðkirkjunni laun ~150 presta og starfsmanna biskupsstofu gegn afhendingu þeirra kirkjujarða sem ekki höfðu verið seldar. Í útskýringum við samninginn er þetta orðað á þá leið að um sé að ræða jarðir sem kirkjur hafa átt og „eigi hafa verið seldar frá þeim með lögmætri heimild“ og svo er vísað í lögin frá 1907 um sölu kirkjujarða.

Ríkið er sem sagt ekki að borga fyrir þær jarðir sem voru seldar fyrir 1997.

Ástæðan fyrir því að svo er ekki er augljós. Áður en prestlaunasjóður fór á hausinn rann allt andvirði seldra jarða beint í hann (og þá í rekstur þess sem seinna varð Þjóðkirkjan) og eftir að sjóðurinn fór á hausinn fór andvirðið oft í svipaðan sjóð en auk þess voru prestar settir á launaskrá ríkisins.

Þjóðkirkjan var með öðrum orðum þegar búin að fá andvirði þessara seldu jarða greitt árið 1997, annað hvort beint eða í gegnum laun presta (eftir að ekki tókst að fjármagna laun presta með þessum jarðasölum).

Misskilningur Pétur

Allur málflutningur biskupsritara byggir á því að kirkjujarðasamningurinn frá 1997 fjalli um allar kirkjujarðir sem ríkið hafði umsjón með árið 1907 þegar það ákvað að byrja að selja þessar jarðir sínar. Það er einfaldlega rangt.

Hjalti Rúnar Ómarsson 17.11.2021
Flokkað undir: ( Kirkjujarðasamningurinn )