Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Hve oft er hægt að selja sömu kirkjujörð?

Síða úr álitsgerð kirkjueignanefndar

Í nýlegri umræðu á Alþingi sagði Birgir Þórarinsson að í kirkjujarðasamkomulaginu væri ríkið að borga fyrir 25% allra jarða á Íslandi. Því að árið 1907, þegar lög um sölu kirkjujarða voru sett, hafi kirkjujarðir verið 25% allra jarða og oft er talað um að þetta hafi verið um 600 jarðir [1].

Svipaðar fullyrðingar heyrast oft en þær eru samt rangar þó þær séu enduteknar.

1908-1930

Gefum okkur að þessi tala, 600 jarðir sé rétt.

Á fyrstu 15 árum eftir gildistöku laga um sölu kirkjujarða, 1908-1923 voru seldar hvorki meira né minna en 355 af þessum jörðum. [2]

Peningurinn sem fékkst fyrir þessar jarðir rann beint í prestlaunasjóð, sem fór í að borga prestum laun, en sjóðurinn stóð samt ekki undir þeim launagreiðslum og fór á hausinn. Þessar 355 jarðir voru sem sagt seldar og það sem fékkst fyrir þær rann beint í rekstur kirkjunnar.

Það er algerlega fráleitt að halda því fram að ríkið skuldi Þjóðkirkjunni krónu fyrir þessar jarðir.

1930-1992

Eftir að prestlaunasjóður fór á hausinn ákvað ríkið að borga laun presta beint úr ríkissjóði. Ríkið hélt áfram að selja kirkjujarðir og það var víst misjafnt hvort að sá peningur rann beint til kirkna (t.d. í Kristnisjóð) eða ekki. Á þessu tímabili borgaði ríkið laun prestanna og andvirði seldra jarða hefur væntanlega átt að standa undir þeim kostnaði.

Það er því mjög vafasamt að ríkið skuldi Þjóðkirkjunni krónu fyrir þær jarðir.

1992-1997

Árið 1992 undirbjuggu Þjóðkirkjan og ríkið kirkjujarðasamninginn og var þá athugað hversu margar jarðir voru óseldar. Niðurstaðan var að verðmæti eignanna væri á bilinu 3-6 milljarðar á verðlagi dagsins í dag.[3]

Þegar samningurinn var gerður árið 1997 var tekið fram að hann ætti einungis við um jarðeignir sem voru í umsjón ríkisins og höfðu ekki "verið seldar frá [kirkjum] með lögmætri heimild eða gengið undan þeim með sambærilegum hætti" og svo var vísað í lög um sölu kirkjujarða.[4]

Það er því alveg ljóst að kirkjujarðasamningurinn á bara við um þær jarðir sem eftir voru, þær sem ekki höfðu verið seldar, en ekki þessar meintu 600 jarðir eða 25% landins árið 1907. Enda hafði það sem var selt á því tímabili runnið beint eða óbeint, gegnum launagreiðslur, til kirkjunnar.

1997-2020

Síðan samningurinn var gerður árið 1997 hafa skattgreiðendur borgað Þjóðkirkjunni einhverja tugi milljarða og miðað við að á móti þeim greiðslum koma, samkvæmt bestu ágiskunum, verðmæti upp á 3-6 milljarða, er spurning hvaða vit sé í þessum samningi.

Raunin er að þetta var glórulaus samningur. Þeir sem sömdu fyrir hönd ríkisins voru augljóslega velunnarar ríkiskirkjunnar og þarna var í raun verið að semja um að ríkið myndi áfram borga laun presta landsins. Enginn passaði upp á hag skattborgara þess tíma né framtíðar.

Þess vegna er sorglegt að núverandi Alþingismenn og ríkisstjórn virðast vilja lengja gildistíma þessa samnings um 15 ár og meira að segja hækka afborgunina töluvert.


[1] Á heimasíðu Þjóðkirkjunar er t.d. talað um 600 jarðir

[2] Fyrri hluti Álitsgerðar Kirkjueignanefndar - bls. 42

[3] Seinni hluti Álitsgerðar Kirkjueignanefndar - sjá samantekt á öftustu síðu

[4] Sjá skýringar við kirkjujarðasamkomulagið.pdf) - bls. 2

Ritstjórn 23.01.2020
Flokkað undir: ( Ríkiskirkjan )

Viðbrögð

Sýnið viðbrögð, en vinsamlegast sleppið öllum ærumeiðingum. Einnig krefjumst við þess að fólk noti gild tölvupóstföng, líka þegar notast er við dulnefni. Ef það sem þið ætlið að segja tengist ekki þessari grein beint þá bendum við á spjallborðið. Þeir sem ekki fylgja þessum reglum eiga á hættu að athugasemdir þeirra verði færðar á spjallborðið.

Hægt er að nota HTML kóða í ummælum. Tög sem virka eru: a href, b, i, u, br, p, strong, em, ul, li og blockquote. Einnig er hægt að notast við Markdown rithátt í athugasemdum. Notið skoða takkann til að fara yfir athugasemdina áður en þið sendið hana inn.










Muna þig?