Matthías Jochumsson - fórnarlamb ríkiskirkjunnar
Fyrir nokkru var þess minnst að hundrað ár voru liðin frá andláti Matthíasar Jochumssonar. Þjóðkirkjuprestar notuðu tækifærið og dásömuðu Matthías í ræðu og riti og létu eins og hann hafi verið besti vinur ríkiskirkjunnar. Sú var alls ekki raunin.
Villutrúarmaður gegn ríkiskirkjunni
Matthías var alger villutrúarmaður. Hann trúði ekki á þrenninguna, ekki á guðdóm Jesú og eins og varð síðar alræmt, þá afneitaði hann helvíti og eilífum kvölum hinna fordæmdu.
Samkvæmt kennslubókum í trúfræði við hina virtu guðfræðideild Háskóla Íslands myndu þessar skoðanir hans ekki einungis gera hann að villutrúarmanni, heldur nær hann því ekki einu sinni að teljast kristinn.
Matthías reyndi meira að segja að stofna sína eigin villutrúar-kirkju hér á landi, en tókst ekki. Hann gerðist prestur ríkiskirkjunnar þegar hann varð blankur.
Fangi ríkiskirkjunnar
Sem prestur ríkiskirkjunnar gerði hann þau alvarlegu mistök að gagnrýna helvíti. Kallaði það “lærdóminn ljóta" í tímaritsgrein. Biskup ríkiskirkjunnar sendi honum harðort bréf og Matthías baðst afsökunar.
Svona segir presturinn Sigurður Árni frá þessu:
Almannrómur taldi, að ef hann hefði ekki beðist velvirðingar á skrifum sínum, hefði hann verið sviptur hempunni. Svo mun þó ekki hafa verið.
Í nýlegri ævisögu Matthíasar er sagt frá innihaldi bréfsins, sem er kallað “hótunarbréf”:
Biskupinn sagði að Matthías hafi “gengið gegn tveimur greinum prestaðeiðsins með þessum skrifum sínum auk einnar greinar Ágsborgarjátningarinnar. Hann spyr hvort það sé ekki skylda hans að segja af sér prestsembætti vegna þessa og leggur það í dóm Matthíasar sjálfs. Hann skipar honum að biðjast með opinberri yfirlýsingu afsökunar og taka aftur " lastandi, fordæmandi og niðrandi ummæli um kenningu kirkjunnar". Ef hann geri ekki svo geti það haft "alvarlegar afleiðingar".” [1]
Það er ekki byggt á almannarómi að Matthías hefði verið rekinn ef hann hefði ekki beðist afsökunar, heldur bréfinu sjálfu.
Raunin er sú að þessi “trúsnillingur" (samkvæmt Sigurði Árna) ákvað að selja samviskuna sína og gerast prestur í ríkiskirkjunni. Það fylgir því starfi að maður getur ekki talað heiðarlega um trúmál, því þá getur maður misst lífsviðurværið. Eins og Sigurður Árni veit eflaust sjálfur.
[1] Þórunn Jarla Valdimarsdóttir - Upp á Sigurhæðir – saga Matthíasar Jochumssonar, bls. 485-487
Flokkað undir: ( Ríkiskirkjan )