Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Sous vide Jesús

Mynd buddy Christ

Samkvæmt miðaldra karlmanni í stjórn ríkiskirkjunnar er gagnrýni á launakjör biskups hluti af #metoo. Leggur hann þar þá umræðu, sem hefur orðið um afturvirkar launahækkanir sem skiluðu biskupi launum upp á eina og hálfa milljón og eingreiðslu upp á nokkrar milljónir, að jöfnu við þau hræðilegu dæmi um misrétti, áreitni og ofbeldi sem konur hafa greint frá undir merki #metoo undanfarið. Það kemur því miður ekkert á óvart. Þetta er ekki fyrsta dæmið um skrýtinn skilning presta og guðfræðinga á #metoo þeir virðast telja að þessi bylting snúist um að karlar komi fram fyrir hönd kvenna sem verða fyrir gagnrýni og skilgreini hana sem #metoo. Fyrir utan reyndar karlprestinn sem taldi sjálfan sig vera þolanda sem félli þar undir.

Þetta er auðvitað bara nýjasta dæmið um það hvernig kirkjan, prestar og guðfræðingar hengja sig utan í stefnur og strauma í samfélaginu til að reyna að fá að vera með. Munið þið til dæmis eftir því þegar Jesús var í Gleðigöngunni? Eða Druslugöngunni? Ég býst við að fljótlega munum við heyra af því að hann hafi í rauninni ekki breytti vatni í vín heldur í edik, svo að fólkið gæti nú þrifið almennilega heima hjá sér. Og að sjálfsögðu var brauðið sem mettaði fjöldan súrdeigsbrauð, og fiskurinn eldaður Sous Vide.

En hvenær gerðist það síðast að samfélagið tileinkaði sér hluti sem kirkjan bryddaði upp á? Það er orðið ansi langt síðan. Ástæðan fyrir því að prestarnir og guðfræðingarnir eru sífellt að túlka skoðanir manns sem á að hafa verið uppi í framandi samfélagi fyrir 20 öldum síðan þannig að þær smellpassi við frjálslynt norrænt velferðarsamfélag á 21. öldinni er sú að þeir finna að kirkjan er hætt að skipta máli. Hún er ekki lengur hornsteinninn í samfélaginu, aflið sem mótar og stjórnar gildum og viðhorfum. Þvert á móti er hún í sífelldum eltingarleik við almenningsálitið, alltaf nokkrum skrefum á eftir.

Það að staðsetja Jesú í göngum sem fagna frelsi frá úreltum hugmyndum um kynhneigð og –hegðun er dæmi um örvæntinguna sem gripið hefur um sig innan þessarar íhaldssömu stofnunar. Hún grípur í hvert hálmstrá sem hún finnur til þess að staðsetja sig í nútímanum sem hefur skilið hana eftir. Það eina sem heldur ríkiskirkjunni í umræðunni þessa dagana eru vandræðin sem hún lendir í gagnvart almenningsálitinu vegna þess að hún er ennþá ríkisstofnun. Launahækkanir kjararáðs eru bara nýjasta dæmið. Þau verða fleiri, þartil kirkjan fær loksins frelsi frá ríkinu til þess að vera hún sjálf. Henni og okkur öllum til góða.


Mynd fengin hjá David Clow og birt með cc-leyfi.

Egill Óskarsson 10.01.2018
Flokkað undir: ( Kristindómurinn )

Viðbrögð


Matti (meðlimur í Vantrú) - 10/01/18 14:29 #

Fiskarnir hljóta samt að vera myndlíking - var Jesús ekki vegan?

Sýnið viðbrögð, en vinsamlegast sleppið öllum ærumeiðingum. Einnig krefjumst við þess að fólk noti gild tölvupóstföng, líka þegar notast er við dulnefni. Ef það sem þið ætlið að segja tengist ekki þessari grein beint þá bendum við á spjallborðið. Þeir sem ekki fylgja þessum reglum eiga á hættu að athugasemdir þeirra verði færðar á spjallborðið.

Hægt er að nota HTML kóða í ummælum. Tög sem virka eru: a href, b, i, u, br, p, strong, em, ul, li og blockquote. Einnig er hægt að notast við Markdown rithátt í athugasemdum. Notið skoða takkann til að fara yfir athugasemdina áður en þið sendið hana inn.










Muna þig?