Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Lúther, helvíti og Þjóðkirkjan

Mynd af Lúther

Í aðaljátningu Þjóðkirkjunnar er sagt að Jesús muni við endurkomu sína refsa guðlausum mömmum með “eilífum kvölum", það er að segja með helvíti.

Þegar bent er á þennan óhugnað hafa prestar sagt að það þurfi að lesa játninguna í sögulegu samhengi. Játningin var skrifuð af nánum samstarfsmanni Lúthers þannig að það er gagnlegt að skoða hvað Lúther sjálfur sagði um helvíti til að komast að hvert hið sögulega samhengi var. Þá getum við kannski betur skilið hvað aðaljátning Þjóðkirkjunnar á við þegar hún minnist á helvíti.

Lúther og helvítiskvalir

Í riti sínu um Davíðssálmana segir Lúther að eftirfarandi texti úr Davíðssálmi sé lýsing á helvíti:

Þú gerir þá sem glóandi ofn þegar þú lítur á þá, Drottinn. Drottinn eyðir þeim í reiði sinni, eldur gleypir þá. (S 21:10)

Lúther útskýrði að þarna væri hægt að sjá tvenns konar kvalir sem hinir guðlausu munu upplifa í helvíti.

a. Annars vegar innri, sálrænar kvalir. Hinir guðlausu munu sjá ógurlega ásjónu guðs í allri sinni reiði. Þeir myndu upplifa ótta og hræðslu um alla eilífð sem myndi valda þeim ólýsanlegum kvölum. Þetta kallar Lúther innri eld.

b. Hins vegar ytri, límaklegar kvalir. Í orðunum “eldur gleypir þá" sér hann aðra refsingu, annars konar eld. Þetta sé “ytri eldur" sem brennir líkamann en ekki sálina og hann tengir þetta við þessi ummæli Jesú: "Farið frá mér, bölvaðir, í þann eilífa eld sem búinn er djöflinum og árum hans." (Matt 25:41)

Alvöru sögulegt samhengi

Þegar aðaljátning Þjóðkirkjunnar talar um að við heimsendi muni Jesú dæma guðlausa menn til “eilífra kvala”, hvað er þá átt við ef við lesum játninguna í sögulegu samhengi?

Eins og við höfum séð þá talaði Lúther um að þessar eilífu kvalir yrðu annars vegar ólýsanlegar sálrænar kvalir og svo eilífar líkamlegar kvalir í eilífum raunverulegum eldi. Þegar við skoðum játningu Þjóðkirkjunnar í sögulegu samhengi þá liggur beinlínis við að álykta að “eilífar kvalir" í helvíti vísi til eilífra sálrænna kvala og eilífra líkamlegra kvala vegna elds.

Óhugnaleg heimsmynd

Í ár fagnar ríkiskirkjan því að það eru 500 ár síðan Lúther hóf mótmæli sín. Ég vona innilega að prestar munu ekki dásama trúarkenningar Lúthers í ljósi þess hversu ólýsanlegur hryllingur þær eru. Þvert á móti ættu þeir að sjá sóma sinn í því að nota tilefnið til þess að taka þennan óhugnað úr játningunni sinni.

Hjalti Rúnar Ómarsson 20.11.2017
Flokkað undir: ( Lúther , Ríkiskirkjan , helvíti )

Viðbrögð

Sýnið viðbrögð, en vinsamlegast sleppið öllum ærumeiðingum. Einnig krefjumst við þess að fólk noti gild tölvupóstföng, líka þegar notast er við dulnefni. Ef það sem þið ætlið að segja tengist ekki þessari grein beint þá bendum við á spjallborðið. Þeir sem ekki fylgja þessum reglum eiga á hættu að athugasemdir þeirra verði færðar á spjallborðið.

Hægt er að nota HTML kóða í ummælum. Tög sem virka eru: a href, b, i, u, br, p, strong, em, ul, li og blockquote. Einnig er hægt að notast við Markdown rithátt í athugasemdum. Notið skoða takkann til að fara yfir athugasemdina áður en þið sendið hana inn.