Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Játningar Þjóðkirkjunnar

Mynd af mynd af því þegar postularnir semja játningu

Ég vona að játningaprófið hafi sýnt fram á að játningar Þjóðkirkjunnar eru uppfullar af rugli sem afar fáir Íslendingar trúa í raun og veru og þá eru prestar ríkiskirkjunnar taldir með. Árni Svanur Daníelsson, prestur í Bústaðarkirkju, gagnrýndi prófið fyrir að byggjast á “bókstaflegri" túlkun á játningunum og sagði að það skorti vísindaleg gögn fyrir þeirri fullyrðingu að prestar trúi ekki játningunum.

Að túlka játningarnar

Árni heldur því fram að prófið okkar byggi á því að við "túlkum játningarnar bókstaflega" en kirkjan skoði játningarnar þvert á móti "alltaf í sögulegu samhengi".

Auðvitað á að lesa játningarnar í "sögulegu samhengi" en Árni Svanur fer ekki nánar út í það hverju það á að breyta varðandi innihald þeirra. Einn hluti hins sögulega samhengis er að líta til þess hvað mennirnir sem sömdu játningarnar voru að hugsa. Því er auðsvarað: þeir trúðu virkilega öllu ruglinu sem er að finna í þeim.

Þegar játningarnar tala um að Jesús hafi verið fæddur af Maríu mey, að við endurkomu Jesú muni fólk rísa upp frá dauðum í líkömum sínum og að ljúfmennið Jesú muni refsa fólki með eilífum kvölum, þá þýðir það að höfundar játninganna trúðu í alvörunni þessu rugli.

Ef einhver trúir ekki þessum atriðum, þá er hann einfaldlega ósammála játningum kirkjunnar að því leytinu og ætti að segja það hreint út, í staðinn fyrir að reyna að halda því fram að hann sé sammála þeim atriðum, en túlki þau bara ekki "bókstaflega".

Trúa prestar játningunum?

Árni gerir einnig athugasemd við þá fullyrðingu að prestar Þjóðkirkjunnar trúi ekki játningunum og kallar eftir “empírískri rannsókn" því til stuðnings.

Ég viðurkenni að ég hef ekki sent spurningalista til marktæks úrtaks presta ríkiskirkjunnar. Kannski trúa þeir allir að konur eigi að vera undirgefnar eiginmönnum sínum, að fólk án heilags anda sé undir valdi djöfulsins sem rekur það til "margvíslegra synda, til óguðlegra skoðana og til augljósra glæpa" og að fólk sem trúir ekki á þrenningarkenninguna eins og hana er að finna í Aþaníusarjátningunni muni án efa glatast og enda í eilífum eldi. Er líklegt að prestar Þjóðkirkjunanr trúi þessu og fleira rugli í játningunum?

Miðað við það sem ég hef lesið frá prestum Þjóðkirkjunnar í gegnum tíðina finnst mér mjög ólíklegt að það sé meira en örlítill hluti presta sem trúir öllu ruglinu í játningunum.

Svo eru líka prestar, og ég veit ekki hvort þeir séu í meiri- eða minnihluta, sem trúa jafnvel ekki þeim atriðum í játningunum sem eru oft taldin til grundvallarkennisetninga kirkjunnar.

Sem dæmi hef ég séð nokkra presta afneita meyfæðingunni, en sömu prestar segjast væntanlega trúa því að Jesús hafi verið “getinn af heilögum anda" og “fæddur af Maríu mey" í hverri einustu messu. Mig grunar meira að segja að Árni Svanur sé í þeim hópi.

Hverju trúa prestar og kirkjan raunverulega?

Það væri gaman ef það væri hægt að komast að því hver trú Þjóðkirkjunnar er í raun og veru fyrst það má ekki vísa í játningar hennar. Stjórnendur hennar gætu til dæmis samið alvöru játningu eða uppfært þær gömlu.

Sömuleiðis væri afskaplega fróðlegt að komast að því hverju prestar trúa í raun og veru. Við í Vantrú værum heldur betur til í að gera könnun á trúarskoðunum presta, en hingað til hefur okkur ekki fundist líklegt að prestar myndu svara okkur [1]. Ef Árni heldur að trú presta sé í samræmi við játningarnar, þá værum við til í að sjá um gerð svona könnunar ef Árni gæti sannfært félaga sína um að svara henni. Ert þú til í það Árni?


[1] Sem dæmi, þá sendum við spurningalista til þeirra tveggja presta sem komust til úrslita í biskupsskosningunum, en við fengum engin svör við honum.

Hjalti Rúnar Ómarsson 31.01.2015
Flokkað undir: ( Kristindómurinn )

Viðbrögð


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 02/02/15 00:55 #

Mér finnst stærsta spurningin í þessu öllu vera þessi: Ef prestar trúa ekki játningum kirkju sinnar og vilja skoða þær í sögulegu samhengi, felst þá ekki í því sú yfirlýsing að kristin trú fyrr á tímum hafi verið alröng?

Hvað er hægt að seilast langt með þetta? Munu prestar í framtíðinni kannski hætta að kannast við nokkurn guðdóm, nokkurn frelsara og nokkurt himnaríki, en segja kristnina snúast eingöngu um siðfræði? Ef það gerist, verða þá ekki Árni Svanur og aðrir prestar nútímans að villutrúarfólki í þeirra huga? Hversu lengi getur kristni haldið áfram að vera kristni eftir að búið er að reita af henni allt sem hún hefur staðið fyrir gegnum aldirnar?

Sýnið viðbrögð, en vinsamlegast sleppið öllum ærumeiðingum. Einnig krefjumst við þess að fólk noti gild tölvupóstföng, líka þegar notast er við dulnefni. Ef það sem þið ætlið að segja tengist ekki þessari grein beint þá bendum við á spjallborðið. Þeir sem ekki fylgja þessum reglum eiga á hættu að athugasemdir þeirra verði færðar á spjallborðið.

Hægt er að nota HTML kóða í ummælum. Tög sem virka eru: a href, b, i, u, br, p, strong, em, ul, li og blockquote. Einnig er hægt að notast við Markdown rithátt í athugasemdum. Notið skoða takkann til að fara yfir athugasemdina áður en þið sendið hana inn.










Muna þig?