Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Út úr trúleysingja-skápnum

Merki Out-campaign

Ég var nýnemi í Menntaskólanum á Akureyri þegar ég heyrði fyrst talað um trúleysi. Gettu betur var í fullum gangi og strákarnir í MR liðinu voru mestu töffarar sem ég gat ímyndað mér. Oft á dag fór ég inn á heimasíðuna hjá Snæbirni Guðmundssyni til að athuga hvort hann væri búinn að pósta einhverju nýju.

Einn daginn birti hann grein sem hann hafði skrifað fyrir nýja vefsíðu, Vantrú. Eftir að hafa lesið hana opnaðist fyrir mér nýr heimur. Að velta fyrir mér trú og trúleysi varð fljótt mitt helsta áhugamál. Ég tók þátt í umræðum á opna Vantrúarspjallinu og hápunkti ársins 2004 var náð þegar Birgir Baldursson bauð mér að gerast meðlimur í félaginu.

Að vera meðlimur þýddi að ég fékk að taka þátt í umræðum á lokuðu spjalli og einn þráðurinn var fyrir meðlimi til að kynna sig. Ég gleymi því ekki að lesa um fullorðið fólk útskýra af hverju það gengi undir dulnefni á síðunni. Ef það fréttist út á við að það væri trúlaust, þá gæti atvinna þess verið í húfi. Það var þá, og þegar ég fór að tala um Vantrú við vini og ættingja, að ég áttaði mig betur á viðhorfi almennings.

Margir urðu ótrúlega sárir við mig þegar ég sagðist ekki trúa á Guð. Aðrir bentu á að ég hlyti að vera siðlaus. Einn besti vinur minn sagði mér að honum þætti vænt um mig, en því miður að þá myndi ég brenna í helvíti. Þegar yngri bróðir minn komst á fermingaraldur var mér bannað að ræða við hann um Guð. Ég hundsaði það og útskýrði fyrir honum að auðvitað væri það undir honum komið hvort hann fermdist eða ekki. Mér þætti þó eðlilegt að hann spyrði sig að því hvaða merkingu hann legði í orðið Guð og hvað það þýddi að trúa á hann.

Málefnin sem tekin voru fyrir á vefsíðunni og spjallinu voru ýmisleg. Fóstureyðingar, nálastungur, femínismi, stjörnuspeki, eftirlífið, ég gæti endalaust haldið áfram. Það var reglulega sem meðlimir voru ekki sammála og þá tóku við langar rökræður þar sem ég man ekki nokkurntímann eftir að hafa séð skrifað „þetta er bara mín skoðun“ eða „verum sammála um að vera ósammála“. Engin virðing var borin fyrir skoðunum og þær mátti gagnrýna að vild.

Ég er ótrúlega þakklát fyrir að hafa kynnst þessari umræðuhefð þetta snemma. Ég lærði að móðgast ekki þegar fólk er ósammála mér og vera óhrædd við að setja spurningarmerki aftan við það sem er almennt viðurkennt. Það mikilvægasta sem ég lærði var þó að viðurkenna þegar ég hef rangt fyrir mér, og að það væri ekkert til að skammast sín fyrir.

Ég horfði í gær á samtal milli Richard Dawkins og Sam Harris sem átti sér stað nýlega. Þeir eru báðir höfundar og vísindamenn sem eru í miklu uppáhaldi hjá mér. Í lokin voru þeir spurðir spurninga úr sal og ein þeirra var:

„Hvort finnst ykkur líklegra að Bandaríkjamenn kjósi sér fyrr, opinberlega samkynhneigðan forseta eða forseta sem er opinberlega trúlaus?“

Dawkins svaraði um leið að hann yrði ánægður með bæði, og eins yrði hann ánægður ef þeir kysu konu. Harris tók undir og benti um leið á hvað samfélagið hefur tekið miklum framförum á tiltölulega stuttum tíma þegar kemur að réttindum samkynhneigðra. Þeir voru sammála um að velgengni LGBTQ (e. Lesbian, Gay, Bisexual, Transgender, Queer or Questioning) baráttunnar væri hvatning fyrir fríþenkjara (e. freethinkers) og minntust á að Openly Secular herferðin (https://openlysecular.org/) tæki sér hana til fyrirmyndar.

Það var þá sem ég áttaði mig á hvað Vantrú var mér mikilvægt stuðningsnet á sínum tíma. Trúleysi var langt því frá að vera jafn viðurkennt á Íslandi og það er í dag, sem ég vil meina að sé að stórum hluta Vantrú að þakka. Enginn í mínum vinahóp átti þetta (opinberlega) sameiginlegt með mér og langflestir gerðu mér það ljóst að þetta var málefni sem ekki var vilji til að ræða.

Við komumst seint áfram ef við samþykkjum ólíkar skoðanir hvors annars án þess að gagnrýna þær. Á einhverjum tímapunkti munu ólík lífsviðhorf okkar mætast og þá verður að vera hægt að ræða þau. Því opnari sem samfélög eru fyrir því að hlusta á ólíkar raddir, því betra.

Það eru liðin nokkur ár frá því að ég skráði mig síðast inn á spjallið, en fyrir alla þá Íslendinga sem kunna að meta gagnrýna hugsun og efahyggju, þá samgleðst ég þeim að eiga athvarf á Vantrú sem enn er starfrækt af sama metnaði í dag og var þegar ég kom út úr trúleysingjaskápnum.

Kristín Kristjánsdóttir 16.01.2017
Flokkað undir: ( Vantrú )

Viðbrögð

Sýnið viðbrögð, en vinsamlegast sleppið öllum ærumeiðingum. Einnig krefjumst við þess að fólk noti gild tölvupóstföng, líka þegar notast er við dulnefni. Ef það sem þið ætlið að segja tengist ekki þessari grein beint þá bendum við á spjallborðið. Þeir sem ekki fylgja þessum reglum eiga á hættu að athugasemdir þeirra verði færðar á spjallborðið.

Hægt er að nota HTML kóða í ummælum. Tög sem virka eru: a href, b, i, u, br, p, strong, em, ul, li og blockquote. Einnig er hægt að notast við Markdown rithátt í athugasemdum. Notið skoða takkann til að fara yfir athugasemdina áður en þið sendið hana inn.










Muna þig?