Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Guð greiðir ekki fasteignaskatt

Mynd af peningum

Þessi dægrin eru fluttar fregnir í fjölmiðlum af hækkun fasteigna- og lóðargjalda í ýmsum sveitarfélögum. Þessi hækkun kemur misjafnlega við pyngju fólks, en ólög valda því að trúfélög greiða hvorki fasteignaskatta né lóðargjöld.

Fasteignaskattur er lagður á í samræmi við lög nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga, en þau eiga sér nokkra forvera sem rekja má allt til 1877, en fyrstu eiginleg lög um fasteignaskatt eru frá 1921 og hafa þau verið endurskoðuð allnokkrum sinnum. Í lögunum frá 1921 og síðari lögum var völdum aðilum veitt undanþága frá greiðslu fasteignaskatts og lóðargjalda. Þar má nefna sjúkrahús, skóla, elliheimili, íþróttahús, kirkjur o.fl. Undanþágunum fjölgaði nokkuð í gegnum tíðina, en í kjölfar skýrslu nefndar um undanþágur frá fasteignaskatti (2001) voru samþykkt lög frá Alþingi (árið 2005) sem tóku fyrir flestar af þessum undanþágum. Þrennt var þó skilið eftir: kirkjur og musteri trúfélaga, safnahús sem ekki eru rekin í ágóðaskyni og hús erlendra ríkja og alþjóðastofnana. Með þessum breytingum var ekki hróflað við undanþágu kirknanna, heldur var bætt í og bænahús og musteri annarra söfnuða einnig undanskilin. Rétt er að taka fram að eina skráða, veraldlega lífsskoðunarfélagið á landinu, sem á rétt til að fá gjöldin niðurfelld, hafnar algerlega slíkri ívilnun þótt í boði sé og greiðir sín gjöldin með sóma. Í skýrslu nefndarinnar frá 2001 er að finna þennan kostulega rökstuðning fyrir trúarundanþágunni: „Nefndin telur að umrædd undanþága byggi á ríkri hefð og er því ekki lagt til að hún verði afnumin.“ Þessi orð eru einkar athyglisverð í því ljósi að ekki þótti nefndarmönnum, né Alþingi, vera komin hefð fyrir því að undanskilja t.a.m. sjúkrahús og skóla gjöldunum.

Ríkisstofnunin þjóðkirkjan, sem almenningur kallar í daglegu tali ríkiskirkjuna, ríður býsna feitum hesti frá þessari undanþágu. Almenningur er skyldaður til að greiða fasteigna- og lóðargjöld ár hvert á meðan ríkiskirkjan greiðir krónur 0 af sínum tilbeiðsluhúsum og lóðunum sem þau standa á. Lóðirnar fær kirkjan (og önnur trúfélög) einnig ókeypis og eru þær að jafnaði dýrustu og eftirsóttustu landspildurnar í hverju sveitarfélagi. Í Reykjavík einni varð borgin því af a.m.k. tæplega 73 milljónum króna á þessu ári. Aðrir söfnuðir fengu rúmlega 12 milljónir í styrk frá Reykvíkingum á sama hátt. Samtals eru þetta rétt um 85 milljónir sem Reykvíkingar greiða með trúfélögunum í formi niðurfellingar fasteigna- og lóðargjalda af tilbeiðsluhúsum þessara aðila. Til dæmis má nefna að ég greiði á þessu ári um 100 þúsund kr. í fasteigna- og lóðargjöld af hóflegu íbúðarhúsnæði á meðan t.d. af monthöll ríkiskirkjunnar efst á Skólavörðuhæðinni er ekki greidd ein einasta króna! Samt hefur téð höll rakað til sín tugum milljóna árlega með því að selja lyftuferðir dýru verði upp í turnspíruna.

Hefð er aum réttlæting fyrir forréttindum trúfélaga, sérstaklega þegar borgarsjóður er rekinn með töluverðum halla. Í raun réttri eru Reykvíkingar að styrkja trúfélög um milljónatugi árlega með þessum hætti. Slíkt er óþolandi mismunun sem kjörnir borgarfulltrúar ættu að sjá sóma sinn í að fara fram á við löggjafann að verði breytt. Á meðan þeir bíða eftir að Alþingi bregðist við er þeim í lófa lagið að leggja niður Kirkjubyggingarsjóð borgarinnar, en það er enn ein matarhola ríkiskirkjunnar sem ausið er úr milljónum ár hvert af skattfé borgarbúa. Það væri óskandi að ríkiskirkjan hefði til að bera það siðferðisþrek að leggja sinn skerf til samfélagsins með því að greiða sín gjöld ótilneydd, líkt og Siðmennt gerir, en reyni ekki stöðugt að koma sér hjá því að deila kjörum með almenningi.


Birtist upphaflega í Fréttablaðinu

Guðmundur Guðmundsson 15.09.2016
Flokkað undir: ( Stjórnmál og trú )

Viðbrögð


Jörgen Þormóðsson - 22/09/16 18:07 #

Mjög áhugaverð grein. En hvernig færð þú út þessa tölu að borgin verði af 73 milljónum í fasteignagjöldum og lóðaleigu? Annað - borga íþróttafélög fasteignagjöld af íþróttahúsum eða falla þau undir 'safnahús'?


G2 (meðlimur í Vantrú) - 23/09/16 12:25 #

Forsendurnar fyrir þessum útreikningum má m.a. finna hér

Í stuttu máli þá gerði ég ráð fyrir að kirkjur féllu í B-skattflokk fasteignagjalda (1.32% af fasteignamati), sem inniheldur sjúkrastofnanir, skóla, heimavistir, leikskóla, íþróttahús og bókasöfn. Lóðargjöld reiknaði ég 0.2%. Útreikningarnir byggja á tölum Fasteignamatsins og aðferðum þess við útreikning gjalda.

Af íþróttahúsum er greiddur 1.32% fasteignaskattur og 0.2% í lóðargjöld.


Jóhann - 23/09/16 22:35 #

Mikið afskaplega er það dapurlegt þegar menn vilja skattleggja Guð.


G2 (meðlimur í Vantrú) - 24/09/16 13:00 #

Það er enn dapurlegra þegar menn heimta að aðrir greiði fyrir ranghugmyndir þeirra um heiminn og náttúrulögmálin.


Jóhann - 24/09/16 21:21 #

Það er nákvæmlega ekki neitt við heiminn, náttúrulögmálin og vísindin, sem afsannar tilvist Guðs.

Fasteignaskattar!

Líksat til er hér undirliggjandi einhver hugmynd um að skattlagningin gæti bætt hag aldraðra og öryrkja...


G2 (meðlimur í Vantrú) - 25/09/16 11:35 #

Það er alveg rétt hjá þér Jóhann að vísindin geta ekki afsannað tilvist Guðs. Fyrst og fremst er það vegna þess að staðhæfing eins og „Guð er til“ er óafsannanleg með aðferðum vísindanna, en einnig hitt að tilvist eða tilvistarleysi þess sem trúmenn kalla Guð er nokkuð sem varðar vísindin yfir höfuð engu. Hvort sem Guð er til eður ei þá gilda náttúrulögmálin og vitneskja vísindanna er óbreytt eftir sem áður.

Það er hins vegar lafhægt að afsanna tilvist Guðs með rökfræðinni, því það er svo margt rökfræðilega ómögulegt við guðshugmyndina að það er blátt áfram aumkvunarvert að hanga á slíkri hugmynd eins og hundur á roði. Er Guð almáttugur? Ef svo er, getur hann þá búið til svo stóran stein að hann geti ekki lyft honum? Ad infinitum.

Persónulega varðar það mig engu hvort fólk trúir á Guð eða hvaða aðra yfirnáttúru sem það kýs sér. Ég er hins vegar ekki sáttur við að þeir sem það gera njóti forréttinda vegna þeirrar afstöðu sinnar. Það er engin réttlæting til á því hvers vegna ekki á að greiða fasteigna- og lóðargjöld af kirkjum. Þeir sem vilja trúa geta rekið það áhugamál sitt rétt eins og hvert annað félag sem greiðir skatta og skyldur af starfsemi sinni. Það er það sem er undirliggjandi í þessum skrifum - réttlæti, en ekki hvort hægt er að afla fjár til þessa eða hins málefnisins.


Jóhann - 26/09/16 23:44 #

"Það er hins vegar lafhægt að afsanna tilvist Guðs með rökfræðinni, því það er svo margt rökfræðilega ómögulegt við guðshugmyndina að það er blátt áfram aumkvunarvert að hanga á slíkri hugmynd eins og hundur á roði."

og síðan stóri steinninn:

Það að það sé hægt að hnoða saman mótsögnum um Guð, sannar öðru fremur hvað margt er okkur hulið.

Sumir hér inni virðast halda að ef engin mótsögn sé til staðar, þá hljóti viðkomandi staðhæfing að teljast rétt.

Hver sem hún er.

Ég er einfaldlega að halda því fram að það sé langtum betra að gefa mögulegri tilvist Guðs gaum (enda er ekkert sem afsannar það, ekki heldur rökfræðiæfingar), heldur en hitt að tuða í sífellu um "efni" og skattlagningu.

Þið sannfærðu trúleysingjarnir eruð bara neysluhyggjusinnar, með smá dassi af bræðralagi.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 27/09/16 08:51 #

Sumir hér inni virðast halda að ef engin mótsögn sé til staðar, þá hljóti viðkomandi staðhæfing að teljast rétt.

Nei.

Þið sannfærðu trúleysingjarnir eruð bara neysluhyggjusinnar, með smá dassi af bræðralagi.

Nei.

Þú veist (eða ættir að vita) betur Jóhann, vinsamlegast hættu að haga þér eins og fáviti.


Jón Norðfjörð - 20/10/16 22:28 #

Náttúrulögmálin eru í fullkomnu samræmi við þann boðskap sem Guð kennir okkur í Ritningunum. Það er nokkuð magnað. Ekkert ósamræmi þar.

Sýnið viðbrögð, en vinsamlegast sleppið öllum ærumeiðingum. Einnig krefjumst við þess að fólk noti gild tölvupóstföng, líka þegar notast er við dulnefni. Ef það sem þið ætlið að segja tengist ekki þessari grein beint þá bendum við á spjallborðið. Þeir sem ekki fylgja þessum reglum eiga á hættu að athugasemdir þeirra verði færðar á spjallborðið.

Hægt er að nota HTML kóða í ummælum. Tög sem virka eru: a href, b, i, u, br, p, strong, em, ul, li og blockquote. Einnig er hægt að notast við Markdown rithátt í athugasemdum. Notið skoða takkann til að fara yfir athugasemdina áður en þið sendið hana inn.










Muna þig?