Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Nei, femínismi og biblían eiga ekki samleið

Femínistamerki

Nýlega birtist í Fréttablaðinu grein eftir Rúnar M. Þorsteinsson, guðfræðiprófessor við Háskóla Íslands. Í greininni spyr hann: “Eiga femínismi og Biblían samleið?”. Hann kemst að þeirri niðurstöðu að “Femínismi og Biblían virðast því fara ágætlega saman". Það er kolrangt.

Að afskrifa óþægileg vers

Þó Rúnar sé Nýjatestamentisfræðingur og fjalli bara um Nýja testamentið í greininni sinni, þá er Gamla testamentið hluti af biblíunni. Gamla testamentið og femínismi passa engan vegin saman. Í því eru konur meira og minna meðhöndlaðar sem eign feðra eða eiginmanna. Guð sjálfur heimilar meira að segja hermönnum sínum að “giftast” stríðsföngum. Og svo mætti lengi telja.

En Rúnar talar bara um Nýja testamentið. Hann viðurkennir alveg að þar séu textar sem “ýta konum til hliðar". Þar nefnir hann til svokölluð Hirðisbréf Páls, en í þeim stendur þetta:

Konan á að læra í kyrrþey, í allri undirgefni. Ekki leyfi ég konu að kenna eða taka sér vald yfir manninum, heldur á hún að vera kyrrlát. Því að Adam var fyrst myndaður, síðan Eva. Adam lét ekki tælast, heldur lét konan tælast og gjörðist brotleg. En hún mun hólpin verða, sakir barnburðarins, ef hún stendur stöðug í trú, kærleika og helgun, samfara hóglæti. (1.Tím 2:11-15)

[ungar konur eiga að] elska menn sína og börn, vera hóglátar, skírlífar, heimilisræknar, góðlátar og eiginmönnum sínum undirgefnar, til þess að orði Guðs verði ekki lastmælt. (Tít 2:4-5)

Það er hægt að bæta við fleiri textum úr öðrum bréfum Nýja testamentisins:

Eins skuluð þér, eiginkonur, vera undirgefnar eiginmönnum yðar, til þess að jafnvel þeir, sem vilja ekki hlýða orðinu, geti unnist orðalaust við hegðun kvenna sinna, þegar þeir sjá yðar grandvöru og skírlífu hegðun. Skart yðar sé ekki ytra skart, hárgreiðslur, gullskraut og viðhafnarbúningur, heldur sé það hinn huldi maður hjartans í óforgengilegum búningi hógværs og kyrrláts anda. Það er dýrmætt í augum Guðs Þannig skreyttu sig einnig forðum hinar helgu konur, er settu von sína til Guðs. Þær voru eiginmönnum sínum undirgefnar, eins og Sara hlýddi Abraham og kallaði hann herra. Og börn hennar eruð þér orðnar, er þér hegðið yður vel og látið ekkert skelfa yður. Og þér eiginmenn, búið með skynsemi saman við konur yðar sem veikari ker og veitið þeim virðingu, því að þær munu erfa með yður náðina og lífið. Þá hindrast bænir yðar ekki. (1 Pét 3:1-7)

Konurnar [eiga að vera] eiginmönnum sínum [undirgefnar] eins og það væri Drottinn. Því að maðurinn er höfuð konunnar, eins og Kristur er höfuð kirkjunnar, hann er frelsari líkama síns. En eins og kirkjan er undirgefin Kristi, þannig séu og konurnar mönnum sínum undirgefnar í öllu. (Ef 5:21-24)

En ég vil, að þér vitið, að Kristur er höfuð sérhvers manns, maðurinn er höfuð konunnar og Guð höfuð Krists. … Karlmaður á ekki að hylja höfuð sitt, því að hann er ímynd og vegsemd Guðs, en konan er vegsemd mannsins.Því ekki er maðurinn af konunni kominn, heldur konan af manninum,og ekki var heldur maðurinn skapaður vegna konunnar, heldur konan vegna mannsins. (1Kor 11:3, 7-9)

Ég held að enginn mótmæli því að femínismi og þessir textar fara ekki ágætlega saman. Hvernig samræmir þá Rúnar þessum textum og femínisma?

Falsanirnar eru í biblíunni

Það eina sem Rúnar segir er að:

  1. sá sem er sagður vera höfundur bréfanna er það ekki
  2. “staða kvenna hafi greinilega breyst til hins verra", þá miðað við fyrri tíð í frumkristni

Bréfin sem um ræðir eru vissulega falsanir en svona er textinn samt og þessi bréf eru í biblíunni hvort sem þær eru falsanir eða ekki. Það að höfundurinn sé ekki sá sem hann segist vera breytir engu um það.

Ef það kæmi í ljós að Um júðana og lygar þeirra væri ekki í raun og veru eftir Lúther, þá væri samt alveg jafn mikið gyðingahatur í þeim. Á sama hátt er alveg jafn mikil karlremba í þessum textum þó þetta væru allt falsanir.

Sömu sögu er að segja um hvort að frumkristni hafi ekki verið alveg jafn svakalega mikil karlrembumenning og sú kristna menning sem skóp þessa texta. Það breytir engu um merkingu textanna þó kristni hafi hugsanlega ekki verið jafn karlrembuleg og þessir textar.

Karlremban í biblíunni

Eina leiðin til að komast að þeirri niðurstöðu að “femínismi og biblían fari ágætlega saman" er að láta eins og allir karlrembutextanir í biblíunni séu ekki þar í raun og veru. Með þannig aðferðafræði er hægt að samræma alla texta við allt.

Því miður fer Rúnar þá leið í staðin fyrir að viðurkenna að þessir textar fari engan vegin saman við hugmyndir okkar um jafnrétti kynjanna. Hann kýs að svara spurningunni, ekki sem fræðimaður, heldur sem trúvarnarmaður, í verstu merkingu þess orðs.

Hjalti Rúnar Ómarsson 05.07.2016
Flokkað undir: ( Biblían )

Viðbrögð


Jón Valur Jensson - 17/11/16 03:35 #

Femínistísk guðfræði, sem tekur femínistísk viðmið fram yfir trúararf Biblíunnar eða leyfir sér að umtúlka Biblíuna svo að hún þjóni fremur femínistískum princípum heldur en túlkun og útleggingu út frá sannleika textans, sá guðfræði-femínismi er ekki samrýmanlegur kristindómi.

En Biblían sýnir konum mikla virðingu, og textar Nýja testamentisins um karl og konu og hjónabandið og kynlífið eru betri og lærdómsríkari en svo, að þeir verðskuldi rangtúlkanir og fordæmingar Hjalta Rúnars Ómarssonar.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 17/11/16 09:23 #

rangtúlkanir og fordæmingar Hjalta Rúnars Ómarssonar.

Hvaða rangtúlkanir? Þú verður að færa rök fyrir svona fullyrðingum, annars er þetta bara gaspur (eins og vanalega).


Hjalti Rúnar (meðlimur í Vantrú) - 17/11/16 11:24 #

Mér þætti líka gaman að fá að heyra um þessar rangtúlkanir. Ég kom nú mest bara með beinar tilvitnanir.

Svo virðist Rúnar nt-prófessor vera sammála mér varðandi þær túllkanir, hann telur bara að þetta séu falsanir og að staða kvenna hafi verið skárri áður en þessar falsanir voru ritaðar.

Sýnið viðbrögð, en vinsamlegast sleppið öllum ærumeiðingum. Einnig krefjumst við þess að fólk noti gild tölvupóstföng, líka þegar notast er við dulnefni. Ef það sem þið ætlið að segja tengist ekki þessari grein beint þá bendum við á spjallborðið. Þeir sem ekki fylgja þessum reglum eiga á hættu að athugasemdir þeirra verði færðar á spjallborðið.

Hægt er að nota HTML kóða í ummælum. Tög sem virka eru: a href, b, i, u, br, p, strong, em, ul, li og blockquote. Einnig er hægt að notast við Markdown rithátt í athugasemdum. Notið skoða takkann til að fara yfir athugasemdina áður en þið sendið hana inn.