Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Eru flestar fermingar á Íslandi ólöglegar?

Mynd af fermingu

Samkvæmt lögum er ríkiskirkjunni bannað að ferma börn nema þau séu orðin 14 ára gömul. Ástæðan fyrir banninu er sú að börn eru of ung til þess að geta gefið upplýst samþykki fyrir fermingunni. Þrátt fyrir þetta hefur ríkiskirkjan lengi fermt 13 ára börn. Við í Vantrú höfum nú farið fram á að ólögmæti þessara ferminga verði viðurkennt opinberlega. Því bað formaður okkar í dag um að fá það staðfest frá Biskupsstofu að fermingin hans hafi verið ólögleg.

Hvers vegna?

Sumir velta því eflaust fyrir sér hver sé tilgangurinn með svona uppátæki.

Til að byrja með mun þetta vonandi minna fólk á hversu vafasamar fermingar eru. Börn fermast að stórum hluta vegna félagsþrýstings og löngun í gjafir. Kirkjan notar svo tækifærið til að reyna að innræta skipulega börnum glórulausar kennisetningar sínar. Ljóst er að töluvert færri myndu fermast ef fermingin færi fram seinna.

Önnur ástæða fyrir þessu byggir á því að stjórnendur ríkiskirkjunnar hafa barist fyrir því að viðhalda tengslum ríkis og kirkju. Við viljum gera þá sambúð sem óþægilegasta fyrir kirkjuna í von um að stjórnendum hennar fari að lítast betur á aðskilnað.

Loks má velta því fyrir sér hvort að fólk sem hefur borgað fyrir fermingu eigi ekki rétt á endurgreiðslu ef það kemur í ljós að fermingarnar voru ólöglegar og börnin ekki fermd þar sem þau gátu ekki gefið samþykki.

Tölvupósturinn

Hér fylgir tölvupósturinn sem var sendur biskupnum í dag:

Ágæti biskup Íslands

Ég var femdur 23. mars 1997, þá 13 ára gamall, í Hjallakirkju í Kópavogi. Samkvæmt fyrstu grein tilskipunar um ferminguna (9/1759) má ekki ferma börn „fyrr en þau eru orðin fullra 14 eða 15 ára“. Ástæðan sem er gefin fyrir banninu er sú að fyrir þann tíma eru börn almennt ekki dómbær á að veita samþykki fyrir eins „þýðingarmiklum sáttmála“ eins og felst í fermingunni.

Ég bið því um staðfestingu á því að ég sé ekki með réttu fermdur þar sem ferming mín var ólögmæt.

með kveðju,
Hjalti Rúnar Ómarsson

Ritstjórn 23.03.2016
Flokkað undir: ( Fermingar , Ríkiskirkjan )

Viðbrögð


Gunnar Snorri Ragnarsson - 23/03/16 09:42 #

Af hverju myndi nokkur maður setja neðra mark á einhverju sem "14 eða 15"? Það er fáránlega heimskulegt.


Kristinn - 23/03/16 16:31 #

Það má ekki bara taka eina setningu úr og láta eins og restin sé ekki til. Það verður að líta á lögin í heild sinni.

Hvað þau börn áhrærir, sem eru í vist eða eiga að fara í vist eða læra handiðn einhverja, þá viljum Vér alvarlega banna húsbændum þeirra eða meisturum að draga nokkuð frá launum barnanna eða láta þau vera lengur að náminu en annars skyldi verið hafa, fyrir þá sök, að nokkur tími eyðist til uppfræðslu þeirra og undirbúnings undir fermingu.

Þarna kemur greinilega fram að það er reiknað með að nemendur fái tíma úr námi til að stunda fermingarfræðslu. Ef menn vilja að farið sé eftir hluta af lögunum, þá gengur ekki að mótmæla því að farið sé eftir öðrum hluta þeirra. Ef þið viljið að þessi lög gildi hvað varðar aldurinn, þá verðið þið líka að samþykja að börn fái að fara úr skóla í fermingarfræðslu, án þess að það sé látið bitna á einkunum þeirra eða öðru. Annað væri hræsni.


Hjalti Rúnar (meðlimur í Vantrú) - 23/03/16 17:59 #

Kristinn, eru 13 ára börn "í vist" eða "að læra handiðn"? :S


Magnús S. Magnusson - 23/03/16 18:24 #

Frábært framtak. Raunar magnað að fyrr megi börn játast undir fornaldartrúarbrögð full af hindurvitnium úr óupplýstri brútal fornöld ásamt blóðugri mannfórn, kvennhatri og útskúfun samkynhneigðra og öðruvísi þenkjandi, en að kaupa rauðvínsflösku. Trúarjátningin hljómar í dag sem röfl dauðadrukkins geðsjúklings og Faðirvorið lítið betra. Mikið er vald trúmangara ríkisins.


Árni - 24/03/16 12:21 #

Að gefnu tilefni er gaman að minna á að ferming hér áður fyrr var manndómsvígsla, þ.e.a.s kirkjunnarmenn báru skildu til að fræða og kenna íslensku þjóðinni og fermingin var því til staðfesingar auk þess að fólk varð sjálfráða og fjárráða við fermingu. Það er þvi kirkjunni að þakka hversu vel læs þjóðin okkar er og hefur verið ansi mörg á aftur í tímann. Varðandi fermingar sem voru 1997 held ég að bréfaritari til biskups í þessari frétt þurfi að ræða við foreldra sína varðandi ferminguna - ekki kirkuna. Það voru foreldrar hans sem báru ábyrgð á honum, ekki krikjan. Með þessum orðum bið ég góða Guð um að blessa mann og annan og gleðilega skírdag


Hjalti Rúnar (meðlimur í Vantrú) - 24/03/16 19:00 #

Varðandi fermingar sem voru 1997 held ég að bréfaritari til biskups í þessari frétt þurfi að ræða við foreldra sína varðandi ferminguna - ekki kirkuna. Það voru foreldrar hans sem báru ábyrgð á honum, ekki krikjan. Með þessum orðum bið ég góða Guð um að blessa mann og annan og gleðilega skírdag

Árni, foreldrar mínir hafa engin lög brotið. Bannið beinist að kirkjunni, hún ber ábyrgð á þessu, hún braut lögin.


Carlos - 25/03/16 12:08 #

Kirkjan hefur heldur engin lög brotið, auk þess sem formaður Vantrúar hefur auðveldlega og án ásakana eða mótspyrnu frá kirkju eða embættiskerfi fengið sig leystan frá þessum sáttmála, þegar hann skráði sig úr Þjóðkirkjunni.

Ég geri annars ráð fyrir að formaður Vantrúar sé ekki lengur í Þjóðkirkjunni, er það ekki annars?


Hjalti Rúnar (meðlimur í Vantrú) - 25/03/16 15:54 #

Kirkjan hefur heldur engin lög brotið,...

Carlos, kirkjan hefur brotið þessi lög:

Það skal vera aðalregla, að prestar megi eigi taka börn til fermingar, þau er fermast eiga, fyrr en þau eru orðin fullra 14 eða 15 ára, með því að börn, sem yngri eru, kunna sjaldan að meta rétt, eða hafa hugsun á að færa sér í nyt það er kennarar þeirra leiða þeim fyrir sjónir og brýna fyrir þeim, og skynja eigi, hve þýðingarmikill sáttmáli sá er, er þau í fermingunni endurnýja og staðfesta.


Carlos - 25/03/16 17:01 #

Það er ekki rétt, þar sem yngri lög og venja (börn eru fermd á fjórtánda ári, nema til komi undanþága) gilda, eins og Guðmundur Þór hefur bent á, þegar annar einstaklingur fékk sömu hugmynd og þú fyrir 8 árum síðan, eins og þú veist sjálfur.

http://tru.is/svor/2006/01/fermingfjortanara

Auk þess hefurðu sjálfur ómerkt fermingarheitið, án þess að hafa þar mætt mótstöðu Kirkjunnar eða íslenska embættiskerfisins, þegar þú skráðir þig úr Þjóðkirkjunni, eins og ég benti á áður en þú kýst ekki að tjá þig um. Af hverju er það?


Hjalti Rúnar (meðlimur í Vantrú) - 25/03/16 17:19 #

Það er ekki rétt, þar sem yngri lög og venja (börn eru fermd á fjórtánda ári, nema til komi undanþága) gilda, eins og Guðmundur Þór hefur bent á, þegar annar einstaklingur fékk sömu hugmynd og þú fyrir 8 árum síðan, eins og þú veist sjálfur....

Carlos:

  1. Yngri lög ganga almennt framar eldri lögum ef þau skarast á. Hér er hins vegar engin mótsögn. Guðmundur Þór bendir á að samkvæmt yngri lögum hafa foreldrar forræði og umsjón með börnum. Hvernig er mótsögn í því að foreldrar hafi forræði yfir börnum og að prestum sé bannað að ferma börn fyrr en þau eru orðin fullra 14 ára? Þú gætir alveg eins sagt að sýslumaður mætti gefa 14 ára börnum ökuskírteini af því að foreldrar hafa forráð yfir þeim.

  2. Sett lög eru almennt rétthærri en venjur.

Auk þess hefurðu sjálfur ómerkt fermingarheitið, án þess að hafa þar mætt mótstöðu Kirkjunnar eða íslenska embættiskerfisins, þegar þú skráðir þig úr Þjóðkirkjunni, eins og ég benti á áður en þú kýst ekki að tjá þig um. Af hverju er það?

Carlos, ég sé ekki hvaða máli það skiptir beinlínis að ég hafi "ómerkt fermingarheitið".


Sigurjón - 27/03/16 11:44 #

Ég sem hélt að fermingarheitið fjallaði um að gera Jesú að leiðtoga lífs síns, ekki að vera meðlimur í Þjóðkirkjunni. Það er kannski misskilningur.

Sýnið viðbrögð, en vinsamlegast sleppið öllum ærumeiðingum. Einnig krefjumst við þess að fólk noti gild tölvupóstföng, líka þegar notast er við dulnefni. Ef það sem þið ætlið að segja tengist ekki þessari grein beint þá bendum við á spjallborðið. Þeir sem ekki fylgja þessum reglum eiga á hættu að athugasemdir þeirra verði færðar á spjallborðið.

Hægt er að nota HTML kóða í ummælum. Tög sem virka eru: a href, b, i, u, br, p, strong, em, ul, li og blockquote. Einnig er hægt að notast við Markdown rithátt í athugasemdum. Notið skoða takkann til að fara yfir athugasemdina áður en þið sendið hana inn.










Muna þig?