Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Glíman við Árna og guð

Mynd af Glíman við Guð

Fyrir jólin 2008 gaf Árni Bergmann út bókina Glíman við Guð. Því miður datt útgefanda bókarinnar ekki í hug að senda okkur á Vantrú eintak til að við gætum dæmt ritið en það hefði vafalaust komið sér vel til að koma því í umræðuna. Ég ákvað því að kaupa bókina þegar ég rakst á hana á bókamarkaði um daginn á nærri þúsund krónur sem félagið Vantrú mun ekki endurgreiða mér þó ég sé að skrifa þennan ritdóm fyrir vefritið.

Ég verð að segja að heildarviðbrögð mín voru vonbrigði. Ég bjóst við að bókin myndi fjalla um rökin fyrir guðstrú en svo er ekki. Ég varð því að endurskoða væntingar sjálfs míns til bókarinnar því það er ekkert meira þreytandi en bókagagnrýnandi sem kvartar endalaust yfir því hvað bók er ekki í stað þess að fjalla um hvað hún er.

Það sem Árni gerir í stað þess að fjalla um guð er að fjalla um trúarbrögð og ýmsar birtingarmyndir þeirra. Hann fjallar um bölsvandann, stríð í nafni trúar, vísindi og margt fleira en allt þetta er án þess að fjalla sérstaklega um hvers vegna við ættum að telja það líklegt að guð sé yfirhöfuð til. Árni talar með mjög svo óljósum hætti um sína eigin trú og það er erfitt að átta sig beint á henni. Hann virðist vera trúmaður en ekkert mjög sannfærður. Á köflum virðist hann tala á þann hátt að honum finnist í góðu lagi að trú á guð sé óskynsamleg. Árni nefnir snemma að hann eigi góðar minningar sem tengdar eru jólum og kirkjuferðum sem hann telur af einhverjum ástæðum trúnni til tekna þó þar séu í aðalhlutverki nánir ættingjar. Það ég eigi góðar minningar tengdar KEA og ýmsum ættingjum þá sé ég ekki fyrir mér að ég gerist Framsóknarmaður vegna þess - sama þótt mér þyki vænt um afa minn.

Þegar Árni reynir að sýkna trúarbrögðin af tengslum við stríð velur hann sér slök dæmi. Hann segir heimstyrjaldirnar tvær, Íraksstríðið og þjóðarmorðin í Rúanda ekkert hafa tengst trúarbrögðum en virðist þá telja að trúin þurfi að vera höfuðástæðan en ekki bara ein af ástæðunum. Þáttur kaþólsku kirkjunnar í Rúanda í þjóðarmorðunum í því landi eru hunsuð af Árna. Það hefur líka komið berlega í ljós síðustu ár að persónuleg trú Bush og Blair var ákaflega stór áhrifavaldur í þeirri ákvörðun að ráðast á Írak. Hann gleymir líka að gyðingahatur nasista var hluti af þeirra kristnu arfleifð og tengir trúmanninn Hitler við trúleysi. Árni virðist ekki heldur átta sig á að hann bendir sjálfur á einn höfuðvandann við trúarbrögð þegar hann nefnir það hvernig ríkisstjórnir nota þau til að æsa upp baráttugleði þjóða sinna. Guð er hin endanlega réttlæting illra verka.

Um leið er skrýtið að sjá Árna benda á trúleysi sem höfuðáhrifavald í ofsóknum kommúnista á hendur trúarbrögðum þó hann bendi sjálfur ítrekað á það sem skipti þar miklu meira máli. Í bókinni deilir hann nefnilega reglulega á það að trúarbrögð hafi oftast verið á bandi þeirra kúgandi valdhafa sem kommúnistar komu frá völdum (áður en þeir byrjuðu sjálfir að kúga). Ef við áttum okkur á þessu sjáum við ofsóknir á hendur trúarbrögðum fyrst og fremst sem tilraun til að viðhalda völdum og koma í veg fyrir andóf en ekki hatur trúleysingja á trú. Ofsóknirnar voru að völdum valdabaráttu og stjórnmála en ekki trúleysis.

Það má segja að bókin sé að mörgu leyti jafn pólitísk og hún er trúarleg. Höfundur virðist sitt á hvað vera í vörn og uppgjöri við stjórnmálaskoðanir sínar sem er satt best að segja nokkuð sem ég hef sáralítinn áhuga á. Bókin er frekar stefnulaus.Á köflum kemur Árni með undarlegar staðhæfingar sem hann rökstyður ekkert. Hann segir til dæmis að við fæðumst til trúar og heldur því fram að frumkristnu samfélögin hafi verið fyrstu sameignarfélögin. Hvort tveggja er mjög vafasamt. Við þetta bætist að Árni notar skáldskap inn á milli sem gerði voðalega lítið fyrir mig. Persóna sem átti að vera talsmaður efahyggju var ákaflega fjarri því að koma með þær athugasemdir sem ég hefði viljað koma með. Árni fellur líka í þá undarlegu gryfju að ræða um trúleysingja sem vopnast eingöngu orðum sem herskáa. Hann talar líka merkilega oft um fólk sem er reitt við guð eins og þar sé um trúleysingja að ræða en þetta eru augljóslega mengi sem hvergi skarast.

Það er líka skrýtið hverja Árni velur sem táknmynd vísinda og fræða. Þar eru Marx og Freud oftast nefndir en fræði beggja eru vægast samt mjög umdeild og hafa í raun alltaf verið það. Hann málar líka þá skrípamynd af stuðningsmönnum vísindanna að þeir telji að vísindin geti veitt öll svör og gert allt betra í blindri framfaratrú sinni. Kannski voru einhvern tímann til slíkir menn en ef við myndum færa þá til nútíðar og sýna þeim allar þær framfarir sem hafa orðið á sviðum vísinda, tækni og fræða yrðu þeir væntanlega ekki fyrir miklum vonbrigðum.

Á einum stað í bókinni þótti mér eiginlega mjög vænt um orð Árna. Hann talar nefnilega gegn því að trúleysingjar sem eru eða voru góðir menn séu til dæmis sagðir kristnir í anda. Hann vill leyfa okkur að þessu leyti að eiga trúleysið í friði og þar er hann á hærra plani en til dæmis ótal íslenskir prestar og guðfræðingar. Um leið verður að segjast að ég tel að greining hans á trúarlífi þeirra sem trúa sé miklu nær sannleikanum heldur en það sem ég hef séð frá íslenskum guðfræðingum og prestum sem vilja mála allt í kristnum litum.

Árni vitnar í bókinni í orð sem hann eignar leikritaskáldinu Arthur Miller sem eru á þá leið að sá síðarnefndi hafi verið agnostíker sem grunaði að guð væri til. Ég reyndi að finna þá tilvitnun á netinu en fann ekkert. Mér þykir þessi tilvitnun líka mjög skrýtin enda hef ég séð dásamlegt viðtal sem Jonathan Miller tók við nafna sinn Arthur stuttu áður en þessi fyrrverandi eiginmaður Marilyn Monroe lést. Líklega væri mun gagnlegra ef Árni myndi kíkja á þetta viðtal og sjá hvað sá mikli snillingur hefur að segja um trúmál heldur en hann myndi dúlla sér við að lesa þennan dóm minn.

Viðtal við Arthur Miller, 1. hluti

Viðtal við Arthur Miller, 2. hluti


Greinin var skrifuð 2010 en vegna mistaka birtist hún ekki fyrr en nú.

Óli Gneisti Sóleyjarson 26.02.2016
Flokkað undir: ( Bókadómur )

Viðbrögð


Helgi I - 27/02/16 14:35 #

Ég held að það sé rangt hjá þér að (amk) Bush hafi farið inn í Írak trúar sinnar vegna. Hins vegar vísaði hann til hennar til að sannfæra samlanda sína um réttmæti innrásarinnar.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 27/02/16 15:12 #

Það má vera að Bush hafi notað trúarbrögð til að réttlæta gjörðir sínar.

Ef eitthvað er að marka orð hans virðist trúin þó hafa komið við sögu við ákvörðunina.

George Bush: 'God told me to end the tyranny in Iraq'
"President Bush said to all of us: 'I am driven with a mission from God'. God would tell me, 'George go and fight these terrorists in Afghanistan'. And I did. And then God would tell me 'George, go and end the tyranny in Iraq'. And I did."


Magnús S. Magnússon - 28/02/16 12:42 #

Hef ekki lesið bókina, en var nýlega viðstaddur fyrirlestur hr Bergman við Guðfræðideild H.Í. og nánast eins og ritdómurinn fjalli um hann. Þó mig grunaði Árna um þann þjóðlega (rithöfunda) vísindalausa sið að vera beggja vegna borðs og á hlaupum allt um kring, varð ég á endanum fyrir vonbrigðum með fyrirlesturinn. Til hefur síðan orðið hjá mér hugtakið "vísindaleysingi". Eiginlega vantar einnig orðin sannleikaflótti eða sannleikafælni. Undir og yfir og allt um kring og þó hvergi má víst segja um þá Árna og Guð.


Magnús S. Magnússon - 28/02/16 12:48 #

Setti þetta á FB eftir lestur ritdómsins: "Ég fór á fyrirlestur Árna við Guðfræðideild H.í. alveg nýlega. Hann reyndist eins og svo margir af hans kynslóð prescientific, þ.e. "vísindaleysingi" (ég er ánægður með það nýyrði). Jafnvel einnig nýfræðalaus. Endalaust það sams án tillits til þeirrar nýju vísindalegu þekkingar sem aflast hefur ekki síst á síðustu áratugum á tímum lang hröðustu myndunar nýrrar þekkingar í sögu mannkyns um nánast allt, m.a. um fáránlegan uppruna og innihald hindurvitnarita fornaldar s.s. Biblíu og Kórans. Bók Árna ætti að seljast vel verandi á íslensku, tungumáli þess meirihluta Íslendinga sem einungis veldur að gagni þeirri ótrúlega smáu og bókarlausu örtungu, fólks sem hefur því ekkert bitastætt að lesa um yfirleitt neitt og ekki síst trúmál, alltaf sama vísindalausa "rithöfunda" bullið kynslóð eftir kynslóð, hverfandi ný þekking og hugsun nær til þessa fólks. Bókin fær eflaust m.a. ríkulega umfjöllun í Kiljunni þar sem einungis bækur aðgengilegar á örtungunni komast að. Örtungu þjóð svikin um tilsvarandi tungumálanám er sannarlega í vondum málum, óskaplega."

Sýnið viðbrögð, en vinsamlegast sleppið öllum ærumeiðingum. Einnig krefjumst við þess að fólk noti gild tölvupóstföng, líka þegar notast er við dulnefni. Ef það sem þið ætlið að segja tengist ekki þessari grein beint þá bendum við á spjallborðið. Þeir sem ekki fylgja þessum reglum eiga á hættu að athugasemdir þeirra verði færðar á spjallborðið.

Hægt er að nota HTML kóða í ummælum. Tög sem virka eru: a href, b, i, u, br, p, strong, em, ul, li og blockquote. Einnig er hægt að notast við Markdown rithátt í athugasemdum. Notið skoða takkann til að fara yfir athugasemdina áður en þið sendið hana inn.










Muna þig?