Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Biblían eða Kóraninn?

Mynd af Kórani og Biblíu

Þekkir þú muninn á Biblíunni og Kóraninum? Nú geturðu komist að því með þessu lauflétta vefprófi. Í prófinu eru tíu fullyrðingar og þú þarft einfaldlega að segja hvaðan hver þeirra kemur: Úr Biblíunni eða Kóraninum?

Umburðarlyndi

1. Maður á að gjöreyða helgistöðum annarra trúarbragða.

2. Ef stúlka er ekki hrein mey þegar hún giftist á að grýta hana til bana fyrir framan hús föður hennar.

3. Ef fjölskyldumeðlimur reynir að fá þig til að trúa á annan guð, þá áttu að drepa hann.

4. Ef þú guðlastar er dauðadómur hæfileg refsing.

5. Ef einhver borg tekur upp á því að dýrka annan guð, þá skal drepa alla íbúa þess og öll húsdýrin, brenna svo borgina og hún á að verða ævarandi rúst.

Helvíti

6. Í helvíti mun guð brenna holdið af fólki og láta það svo vaxa aftur svo að fólkið muni kveljast áfram.

7. Fólk sem trúir ekki er versta sköpun guðs og mun brenna í helvíti að eilífu.

8. Í helvíti mun fólk drekka sjóðandi vatn sem rífur í sundur innyfli þeirra.

9. Í helvíti gæta nákvæmlega 19 englar eldsins sem brennir hold fólks.

10. Á dómsdegi mun fólk segja “Ég vildi óska þess að dauðinn hefði verið mín endalok” áður en það er leitt áfram í hálsól inn í logandi eldinn.

Þú fékkst 0 rétt svör!

Þú hefur greinilega hvorki lesið Biblíuna né Kóraninn. Eins og þú sérð af svörunum hér fyrir neðan þá eru þetta bæði frekar ógeðsleg rit. Ef þig langar að lesa fallega bók þá ættirðu að leita eitthvað annað.

Ef þú ert skráður í trúfélag sem dásamar bók með svona boðskap, þá ættirðu virkilega að velta því fyrir þér hvort þú ættir ekki að skrá þig úr því félagi.

Þú fékkst rétt svör!

Þú hefur greinilega lesið lítið í Biblíunni og Kóraninum. Ef þú vissir það ekki það þegar, þá getur þú sérð sérð af svörunum hér fyrir neðan að bæði ritin innihalda mjög ógeðslega texta.

Ef þú ert skráður í trúfélag sem dásamar bók með svona boðskap, þá ættirðu virkilega að velta því fyrir þér hvort þú ættir ekki að skrá þig úr því félagi.

Þú fékkst rétt svör!

Þú þekkir greinilega vel til Biblíunnar og Kóransins. Þú vissir líklega þegar að innihald þessara rita er ekki beint fallegt.

Ef þú ert skráður í trúfélag sem dásamar bók með svona boðskap, þá ættirðu virkilega að velta því fyrir þér hvort þú ættir ekki að skrá þig úr því félagi.

Þú fékkst 10 rétt svör!

Þú hefur væntanlega lesið Biblíuna og Kóraninn spjaldanna á milli. Ef ekki, þá hefurðu að minnsta kosti kynnt þér ljótu hliðar þessara rita vel.

Ef þú ert skráður í trúfélag sem dásamar bók með svona boðskap, þá ættirðu virkilega að velta því fyrir þér hvort þú ættir ekki að skrá þig úr því félagi.

Hér fyrir neðan eru geturðu séð hvaða spurningum þú svaraðir rangt, ásamt beinum tilvitnunum í textana.

Svör

1. Maður á að gjöreyða helgistöðum annarra trúarbragða.

Rétt svar var Biblían. Þú svaraðir þessu .

Þér skuluð gjöreyða alla þá staði, þar sem þjóðirnar, er þér leggið undir yður, hafa dýrkað guði sína, á háum fjöllum, á hæðum og undir hverju grænu tré. Þér skuluð rífa niður ölturu þeirra, brjóta í sundur merkissteina þeirra, brenna asérur þeirra í eldi, höggva sundur skurðlíkneski guða þeirra og afmá nafn þeirra úr þeim stað. (5 Mós 12:2-3)

2. Ef stúlka er ekki hrein mey þegar hún giftist á að grýta hana til bana fyrir framan hús föður hennar.

Rétt svar var Biblían. Þú svaraðir þessu .

Nú gengur maður að eiga konu, en fær óbeit á henni, er hann hefir samrekkt henni, og ber á hana svívirðilegar sakir og ófrægir hana og segir: "Ég gekk að eiga þessa konu, en er ég kom nærri henni, fann ég ekki meydómsmerki hjá henni," ….En ef það reynist satt, og sönnur verða eigi á það færðar að stúlkan hafi hrein mey verið, þá skal fara með stúlkuna að húsdyrum föður hennar, og borgarmenn skulu lemja hana grjóti til bana, því að hún hefir framið óhæfuverk í Ísrael, með því að hórast í föðurgarði. Þannig skalt þú útrýma hinu illa burt frá þér. (5. Mós 22:20-21)

3. Ef fjölskyldumeðlimur reynir að fá þig til að trúa á annan guð, þá áttu að drepa hann.

Rétt svar var Biblían. Þú svaraðir þessu .

Ef bróðir þinn, sonur móður þinnar, eða sonur þinn eða dóttir þín eða konan í faðmi þínum eða vinur þinn, sem þú elskar eins og lífið í brjósti þínu, ginnir þig einslega og segir: "Vér skulum fara og dýrka aðra guði," þá er hvorki þú né feður þínir hafa þekkt, af guðum þeirra þjóða, sem kringum yður eru, hvort heldur þær eru nálægar þér eða fjarlægar þér, frá einu heimsskauti til annars, þá skalt þú eigi gjöra að vilja hans og eigi hlýða á hann, og þú skalt ekki líta hann vægðarauga og þú skalt ekki þyrma honum né hylma yfir með honum, heldur skalt þú drepa hann, þín hönd skal fyrst á lofti vera gegn honum til þess að deyða hann, og því næst hönd alls lýðsins. Þú skalt lemja hann grjóti til bana, af því að hann leitaðist við að tæla þig frá Drottni Guði þínum, sem leiddi þig út af Egyptalandi, út úr þrælahúsinu. Og allur Ísrael skal heyra það og skelfast, svo að enginn hafist framar að slíkt ódæði þín á meðal.(5. Mós 13:6-11)

4. Ef þú guðlastar er dauðadómur hæfileg refsing.

Rétt svar var Biblían. Þú svaraðir þessu .

Og þú skalt tala við Ísraelsmenn og segja: ,Hver sá, er formælir Guði sínum, bakar sér synd. Og sá er lastmælir nafni Drottins, skal líflátinn verða. Allur söfnuðurinn skal vægðarlaust grýta hann. Hvort heldur er útlendur maður eða innborinn, lastmæli hann nafninu, skal hann líflátinn. (3. Mós 24:15-16)

5. Ef einhver borg tekur upp á því að dýrka annan guð, þá skal drepa alla íbúa þess og öll húsdýrin, brenna svo borgina og hún á að verða ævarandi rúst.

Rétt svar var Biblían. Þú svaraðir þessu .

Ef þú heyrir sagt um einhverja af borgum þínum, þeim er Drottinn Guð þinn gefur þér til þess að búa í: "Varmenni nokkur eru upp komin þín á meðal, og hafa þau tælt samborgara sína og sagt: ,Vér skulum fara og dýrka aðra guði, þá er þér þekkið ekki,"` þá skalt þú rækilega rannsaka það, grennslast eftir og spyrjast fyrir, og ef það reynist satt vera, að slík svívirðing hafi framin verið þín á meðal, þá skalt þú fella íbúa þeirrar borgar með sverðseggjum, bannfæra borgina og allt, sem í henni er, og fénaðinn í henni með sverðseggjum. Allt herfangið úr henni skalt þú bera saman á torgið og brenna síðan borgina og allt herfangið í eldi sem eldfórn Drottni Guði þínum til handa, og hún skal verða ævarandi rúst og aldrei framar endurreist verða. Og ekkert af hinu bannfærða skal loða við hendur þínar, til þess að Drottinn megi láta af hinni brennandi reiði sinni og auðsýni þér miskunnsemi, og til þess að hann miskunni þér og margfaldi þig, eins og hann sór feðrum þínum, er þú hlýðir raustu Drottins Guðs þíns með því að varðveita allar skipanir hans, þær er ég legg fyrir þig í dag, og gjörir það sem rétt er í augum Drottins Guðs þíns. (5 Mós 13:12-18)

6. Í helvíti mun guð brenna holdið af fólki og láta það svo vaxa aftur svo að fólkið muni kveljast áfram.

Rétt svar var Kóraninn. Þú svaraðir þessu .

Vér munum senda þá sem höfnuðu Vorum opinberunum í eldinn. Þegar hold þeirra er allt brunnið upp munum Vér gefa þeim nýtt hold svo þeir munu halda áfram að finna fyrir sársauka, Guð er almáttugur og vitur. (Kóraninn 4:56)

7. Fólk sem trúir ekki er versta sköpun guðs og mun brenna í helvíti að eilífu.

Rétt svar var Kóraninn. Þú svaraðir þessu .

Þeir sem eru vantrúaðir meðal Fólks bókarinnar og skurðgoðadýrkenda munu fá elda helvítis og þar munu þeir dvelja að eilífu. Þeir eru versta sköpunarverkið.(Kóraninn 98:6)

8. Í helvíti mun fólk drekka sjóðandi vatn sem rífur í sundur innyfli þeirra.

Rétt svar var Kóraninn. Þú svaraðir þessu .

Hvernig getur þetta verið borið saman við örlög þeirra sem eru fastir í eldinum, sem fá bara sjóðandi vatna að drekka sem rífur í sundur iður þeirra og maga? (Kóraninn 47:15)

9. Í helvíti gæta nákvæmlega 19 englar eldsins sem brennir hold fólks.

Rétt svar var Kóraninn. Þú svaraðir þessu .

[Brennheitur eldurinn], hann svíður og brennir hold fólksins, það eru nítján verðir sem sjá um hann, Vér höfum aðeins valið engla til að gæta eldsins og gert fjölda þeirra að deiluefni hinna vantrúuðu…. (Kóraninn 74:29-31)

10. Á dómsdegi mun fólk segja “Ég vildi óska þess að dauðinn hefði verið mín endalok” áður en það er leitt áfram í hálsól inn í logandi eldinn.

Rétt svar var Kóraninn. Þú svaraðir þessu .

En hver sá sem fær skrá sína á vinstri hönd mun segja: … En hvað ég vildi að dauðinn hefði verið mín endalok. … “Grípið hann og setið hálsól á hann, leiði hann áfram svo hann geti brunnið í logandi eldinum og [bindið] hann í keðju sem er sjötíu metra löng, hann vildi ekki trúa á almáttugan Guð….(Kóraninn 69:25-33)
Ritstjórn 01.02.2016
Flokkað undir: ( Vefpróf )

Viðbrögð


Matti (meðlimur í Vantrú) - 01/02/16 09:48 #

Átta rétt af tíu. Ég er nokkuð sáttur.


Sindri G - 01/02/16 22:31 #

10/10


Ragnar Thorisson - 07/06/16 18:09 #

Mikið skelfing eruð þið sorgleg þarna á Vantrú! Engum getur dulist hvað hangir á spýtunni hér. Ó já Islam og kristnin er sko jafn slæm döhhh.. Kanski rétt að benda ykkur þarna wannabe múslimunum í trúarbrögðunum Vantrú, að hér í vestrinu mannréttindana þá er það akkúrat ekki mælanleg stærð sem myndi taka spurningarnar alvarlega eitt sekúndubrot. Hinsvegar er það þannig með pólitíkina/trúarbrögðin Islam að um það bil einn milljarður múslima vill sjá 1400 ára gamlan Shaira lagabókstafinn sem landslög með sínum handahöggvunum, grýtingum, og hey og hó. Hvað er eiginlega að ykkur ???????????


Matti (meðlimur í Vantrú) - 08/06/16 17:51 #

Var niðurstaðan úr prófinu ekki sú sem þú áttir von á Ragnar?

Sýnið viðbrögð, en vinsamlegast sleppið öllum ærumeiðingum. Einnig krefjumst við þess að fólk noti gild tölvupóstföng, líka þegar notast er við dulnefni. Ef það sem þið ætlið að segja tengist ekki þessari grein beint þá bendum við á spjallborðið. Þeir sem ekki fylgja þessum reglum eiga á hættu að athugasemdir þeirra verði færðar á spjallborðið.

Hægt er að nota HTML kóða í ummælum. Tög sem virka eru: a href, b, i, u, br, p, strong, em, ul, li og blockquote. Einnig er hægt að notast við Markdown rithátt í athugasemdum. Notið skoða takkann til að fara yfir athugasemdina áður en þið sendið hana inn.










Muna þig?