Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Díalektísk efnishyggja: DíaMat

Mynd Karl Marx

Á heimasíðu Vantrúar er mjög mikið krítískt, skeptískt efni, efni um það sem við trúum ekki og af hverju við trúum því ekki. Það hefur minna farið fyrir því sem við aðhyllumst sjálf. Það er eðlilegt, vegna þess að við aðhyllumst alls konar hugmyndir, það eina sem sameinar er að við afneitum öllu sem heitir yfirnáttúra. Trúleysi er nefnilega sem slíkt ekki sjálfstæð lífsskoðun, heldur afneitun á ákveðinni tegund lífsskoðana.

Siðrænn húmanismi er lífsskoðun sem margir íslenskir trúleysingjar aðhyllast. Eins og kunnugt er, er það lífsskoðunin sem Siðmennt kennir sig við. Fyrir utan alla þá sem þegar eru í Siðmennt, er ég viss um að mjög margir eru sama sinnis án þess að vita að lífsskoðun þeirra sé kölluð þetta. En ég aðhyllist ekki siðrænan húmanisma. Ég aðhyllist díalektíska efnishyggju. Og hvað er nú það?

Í díalektískri efnishyggju er gengið út frá því að hið efnislega er upphaf alls. Allt sem við köllum andlegt er bein afleiðing efnislegra ferla í líkamanum. Þetta er efnishyggjan. Díalektíkin þýðir að allt er breytilegt og allt er undir áhrifum frá einhverju öðru. Áhrifin og breytingarnar fara eftir eðli og aðstæðum: samspili ytri áhrifa og innri skilyrða. Breytingar eru megindlegar (kvantítatífar) og/eða eigindlegar (kvalítatífar): Þegar megindlegar breytingar eru orðnar visst miklar, þá verður eigindarbreyting.

Öll viðhorf, allar hugmyndir, bæði trúarlegar, pólitískar, siðferðislegar og aðrar, eiga einnig orsakir í efnislegum og díalektískum aðstæðum, í því félagslega umhverfi sem við ölumst upp í, sem aftur mótast, þegar öllu er á botninn hvolft, af eðli efnahagskerfisins. Látum hér staðar numið að sinni í efnislegri útlistun á díalektískri efnishyggju -- það er til fullt af efni um hana í bókum og á internetinu ef þið viljið lesa ykkur meira til (sem ég mæli auðvitað með).

Díalektísk efnishyggja er heildstæð lífsskoðun, sjálfri sér samkvæm, rökrétt og vísindaleg og kemst að mínu mati næst því að útskýra raunveruleikann, af þeim lífsskoðunum sem ég þekki. Ég veit ekki hversu stór hluti landsmanna aðhyllist hana í reynd, en ég hef á tilfinningunni að það séu ekki fáir, vegna þess að mörg atriði díalektískrar efnishyggju þykja orðið svo sjálfsögð að þau teljast til almennrar skynsemi, þótt orðin sem ég nota hér að ofan til að lýsa þeim hljómi kannski framandi fyrir mörgum.

En nú hefur hópur fólks, sem meðvitað aðhyllist díalektíska efnishyggju, tekið sig saman og stofnað félag: Það heitir Díamat - félag um díalektíska efnishyggju. Ég er forstöðumaður. DíaMat mun sækjast eftir skráningu sem lífsskoðunarfélag hjá innanríkisráðuneytinu strax og það er talið tímabært. Það er best að taka fram að DíaMat hefur engin tengsl við Vantrú önnur en að 4-5 einstaklingar eru skráðir í bæði félögin. DíaMat mun því ekki nota vefsíðu Vantrúar til að koma sér á framfæri og t.d. verða viðburðir á vegum félagsins ekki auglýstir hér.

Þegar DíaMat verður skráð sem lífsskoðunarfélag mun hver félagi þurfa að skrá sig sjálfur hjá Þjóðskrá. Núna starfar það hins vegar sem áhugamannafélag -- þannig að ef þið viljið vera félagar eða bara fylgjast með, hafið þá samband: vangaveltur@yahoo.com

Vésteinn Valgarðsson 10.12.2015
Flokkað undir: ( Samherjar )

Viðbrögð

Sýnið viðbrögð, en vinsamlegast sleppið öllum ærumeiðingum. Einnig krefjumst við þess að fólk noti gild tölvupóstföng, líka þegar notast er við dulnefni. Ef það sem þið ætlið að segja tengist ekki þessari grein beint þá bendum við á spjallborðið. Þeir sem ekki fylgja þessum reglum eiga á hættu að athugasemdir þeirra verði færðar á spjallborðið.

Hægt er að nota HTML kóða í ummælum. Tög sem virka eru: a href, b, i, u, br, p, strong, em, ul, li og blockquote. Einnig er hægt að notast við Markdown rithátt í athugasemdum. Notið skoða takkann til að fara yfir athugasemdina áður en þið sendið hana inn.










Muna þig?