Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Pýramídinn mikli í Gísa

týnd í paradís

Nýlega kom út bókin Týnd í paradís eftir Mikael Torfason. Foreldrar Mikaels gerðust Vottar Jehóva og því er heilmikil umfjöllun um það trúfélag í þessari sjálfsævisögu. Hérna er kafli úr bókinni þar sem Mikael segir frá ansi undarlegri hlið trúar votta:

13. kafli
PÝRAMÍDINN MIKLI Í GÍSA

Áður en lengra er haldið verður ekki hjá því komist að útskýra í stórum dráttum hverjir þessir Vottar Jehóva eru og af hverju þeir eru eins og þeir eru.

Fyrsti íslenski Votturinn sem vitað er um hét Georg Fjölnir Líndal. Hann var sendur til Íslands frá Kanada til að boða fagnaðarerindið og koma Íslendingum í skilning um Sannleikann. Það tók Georg Fjölni þó heil tuttugu og sjö ár að finna einn einasta Íslending sem vildi játast Jehóva og skírast. Líkast til eru fá dæmi þess að nokkur Íslendingur hafi sýnt aðra eins þrautseigju og Georg Fjölnir sem vildi bjarga löndum sínum frá dauða og útskúfun. Hann gafst aldrei upp.

Þegar Georg Fjölnir var sendur hingað til lands árið 1929 kölluðu Vottar Jehóva sig enn Biblíunemendur og var stjórnað af Charles Taze Russell sem var löngu dauður. En hann hafði búið svo um hnúta að hann gat stjórnað samtökunum af himnum. Þar bjó hann í nýstofnuðu konungsríki Jesú Krists sem var samkvæmt útreikningum sennilega staðsett í Pleiades-stjörnuþyrpingunni sem er reyndar kölluð Sjöstirnið upp á íslensku, stjörnuþyrpingu í stjörnumerkinu Nautinu. Jesús og skaparinn bjuggu á Alcyone, skærustu stjörnu þyrpingarinnar. Kenningar Vottanna um Sjöstirnið urðu reyndar ekki langlífar.

Tveimur árum eftir að Georg Fjölnir sigldi til Íslands fékk hann tilkynningu frá höfuðstöðvunum í Brooklyn þess efnis að söfnuður hans, Biblíunemendur, hefði skipt um nafn. Hér eftir skyldi hann kalla sig Vott Jehóva. Georg hlýddi þessu og las í Varðturninum að andi Russells væri hættur að stjórna söfnuðinum. Eftirmenn hans væru nú fulltrúar Guðs á jörðinni og orð þeirra væru orð Drottins. Georg virðist hafa tekið þessum tíðindum af miklu æðruleysi og haldið áfram að leita að íslenskum sálum sem vildu öðlast eilíft líf.

Fyrrnefndur Charles Taze Russell fæddist árið 1852 og var um margt merkilegur maður. Hann klauf sig ungur út úr sértrúarhreyfingu aðventista og stofnaði Varðturn síonista árið 1879. Það er enn höfuðrit Votta og gefið út í fimmtíu milljónum eintaka á nær öllum tungumálum heims. Í fyrstu voru greinar tímaritsins merktar höfundum sem túlkuðu ritninguna fyrir lesendur en í dag eru öll skrif Varðturnsins ómerkt, komin beina leið frá Guði sjálfum.

Russell sleit barnsskónum í Pittsburgh í Pennsylvaníuríki í Bandaríkjunum. Hann missti móður sína þegar hann var níu ára. Hvort sem því má kenna um eða einhverju öðru er raunin alla vega sú að Russell taldi konur greinilega óæðri karlmönnum og flestir forystumenn Vottanna hafa tekið það upp eftir honum. Höfundar Varðturnsins undirstrika það rækilega með því að halda vel utan um allt það neikvæðasta sem skrifað er um konur í Biblíunni.

Aðventistahreyfingin, sem Vottar Jehóva klofnuðu út frá, á ættir að rekja til hins sérlundaða Williams Millers sem spáði á sínum tíma að Kristur myndi snúa aftur til jarðarinnar árið 1843 eða 1844. Þeir spádómar voru nátengdir mikilli trúarlegri vakningu sem átti sér stað í Bandaríkjunum um miðja nítjándu öld. Mikil gerjun var í gangi og þegar Miller lést árið 1849 höfðu ýmsar sértrúarhreyfingar orðið til bæði út frá aðventistahópi hans og öðrum álíka. Úr þessum jarðvegi sprettur Varðturninn. Hræringarnar í trúarlífi Ameríkana héldu áfram og gátu af sér ýmislegt miður geðfellt og dugar þá að nefna söfnuð Davids Koresh í Waco í Texas. Umsátur lögreglunnar um höfuðstöðvar þess leiða flokks kostuðu áttatíu og sex mannslíf árið 1993. Það er margt líkt með söfnuði Koresh og Vottum Jehóva en þeir hafa reyndar miklu fleiri mannslíf á samviskunni. Blátt bann þeirra við að fólk þiggi blóð og líffæri hefur kostað mjög marga lífið. Reyndar var Vottum veitt heimild í Varðturninum árið 1980 til að þiggja líffæri úr meðbræðrum sínum og -systrum. Þegar ég var í söfnuðinum með foreldrum mínum þótti það vera guðlast.

Charles Russell var í eðli sínu, rétt eins og William Miller upphafsmaður aðventista, heimsendaspámaður. Hann bjóst við sínum fyrsta heimsendi hundrað árum áður en ég fæddist. Árið 1874 átti heimurinn að farast en á þeim tíma var Russell enn sjöunda dags aðventisti, eins og fyrrnefndur David Koresh. Hann varð fyrir miklum vonbrigðum þegar heimurinn fórst ekki árið 1874. Hann fór því að reikna dæmið sjálfur, dældi út nýjum heimsendaspám og öðru góðgæti sem byggðist á þeim útreikningum þar til hann dó árið 1916.

Nær allt sem Russell birti í tímaritum sínum eða bókum er með því heimskulegra sem komið hefur á prent í þessum heimi og er þá auðvitað mikið sagt. Til dæmis hélt hann því fram að hann hefði mælt út pýramídann mikla í Gísa og komist að því að á tilteknum stað væri að finna fjarlægðina fimmtán hundruð fjörutíu og tvær tommur. Nokkuð sem Russell kvað augljóst að stæði fyrir árið 1542 fyrir Krist. Á öðrum stað mældi hann svo þrjú þúsund fjögur hundruð og sextán tommur og sá að þrjú þúsund fjögur hundruð og sextán árum eftir árið 1542 fyrir Krist hefði runnið upp árið 1874. Því lægi í augum uppi að þá ætti að hefja niðurtalninguna að Harmagedón. Þetta kemur allt fram í fróðlegri bók Russells, Studies in the Scripture, sem kom út árið 1903.

Reyndar verður að setja þann fyrirvara að 1908 kom út endurskoðuð útgáfa af Studies in the Scripture þar sem fyrri mælingar þóttu ekki nógu nákvæmar. Mælingum á pýramídanum mikla í Gísa skeikaði um einhverjar tommur og því var rétta ártalið ekki 1874 heldur 1914. Einmitt þá átti Jesús að hafa stofnað sitt konungsríki á himnum, líklega á Alcyone í Sjöstjörnunni. Þá byrjaði hann að bjóða þeim hundrað fjörutíu og fjórum þúsundum sem nefnd eru í Opinberunarbókinni og eru aðalliðið samkvæmt Vottunum. Það eru þeir sem munu búa á himnum með Kristi en aðrir verða að láta sér nægja Paradís á jörð eða ósköp hversdagslegan dauða.

Ritstjórn 04.11.2015
Flokkað undir: ( Aðsend grein )

Viðbrögð


caramba - 11/11/15 01:24 #

Vottar og mormónar eru áhugaverð fyrirbæri í trúarsögunni. Mér skilst að ættrækni þeirra og umhyggja fyrir fjölskyldum sínum sé almennt til fyrirmyndar. Vottar trúa því að 144.000 sanntrúaðir vottar verði hrifnir til himins á dómsdegi en utansafnaðarfólk verði látið hverfa sporlaust, ekki einu sinni svo gott að það sé sent í neðra. Amerískur mormón sagði mér eitt sinn að Guð byggi á annarri plánetu með fjölskyldu sinni, eiginkonu og börnum. Þegar hann deyr verður elsti sonurinn Guð. Mér finnst upplýsingar af þessu tagi áhugaverðari en þessi þurrlega sagnfræði Mikaels. Hef reyndar ekki lesið bókina. Sneri Kristur ekki annars til jarðar árið 1844?


Benni - 18/11/15 02:48 #

Hvernig á maður að skilja þessi skrif þîn. Prófaðu að lesa þau yfir aftur. Hverjir höfðu mannslíf á samviskunni, lögreglan eða trúarhópurinn? Af hverju leita trúleysingjar alltaf að heimskustu dæmunum af trúarbrögðum sem þeir geta fundið? Er það ekki ávísun á að festast î vef heimskunnar? Eins og kommúnistarnir, sem kölluðu trúarbrögð, "ópíum fólksins", og myrtu tugi, ef ekki hundruðir miljóna manna, þá réttlætir þú morðin á Koresh og hans fylgjendum, af þvî að þau höfðu aðra skoðun en aðrir. Fyrrgefðu mér fyrir að spyrja. Ertu svo heimskur að TRÚA því að Koresh hafi orðið fyrir vonbrigðum að heimurinn hafi ekki farist, á meðan hann lifði. Eg held að það sé sama hverju ég ljúgi að þér, svo lengi sem það sannfæri þig um að Guð sé ekki til.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 23/11/15 14:42 #

Af hverju leita trúleysingjar alltaf að heimskustu dæmunum af trúarbrögðum sem þeir geta fundið?

Það gera trúleysingjar alls ekki - en það er samt mikilvægt að rifja reglulega upp "heimskustu dæmin".

þá réttlætir þú morðin á Koresh og hans fylgjendum

Hvar er sú réttlæting?

Sýnið viðbrögð, en vinsamlegast sleppið öllum ærumeiðingum. Einnig krefjumst við þess að fólk noti gild tölvupóstföng, líka þegar notast er við dulnefni. Ef það sem þið ætlið að segja tengist ekki þessari grein beint þá bendum við á spjallborðið. Þeir sem ekki fylgja þessum reglum eiga á hættu að athugasemdir þeirra verði færðar á spjallborðið.

Hægt er að nota HTML kóða í ummælum. Tög sem virka eru: a href, b, i, u, br, p, strong, em, ul, li og blockquote. Einnig er hægt að notast við Markdown rithátt í athugasemdum. Notið skoða takkann til að fara yfir athugasemdina áður en þið sendið hana inn.










Muna þig?