Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Prestar á leið í verkfall?

Mynd af prestum í gögnu

Nei, ólíkt því sem halda mætti við fyrstu sýn kemur sem betur fer ekki til verkfalls presta hjá ríkiskirkjunni nú á vormánuðum. Prestar eru undir kjararáði og hafa því ekki verkfallsrétt. Byrjunarlaun þeirra eftir 5 ára menntun eru í kringum 600 þúsund krónur á mánuði. Launin eru talsvert hærri í fjölmennum sóknum en þar fá prestar ýmsar aukagreiðslur fyrir prestverk. Sama gildir um presta sem njóta hlunninda af jörðum, svo sem laxveiði eða æðarvarpi. Yfirmaður kirkjunnar er með um eina milljón króna í mánaðarlaun.

Enginn vafi leikur á því að verkfall presta myndi hafa lamandi áhrif á þjóðlífið. Messufall yrði um allt land og útvarpsmessa félli sjálfkrafa niður á sunnudagsmorgnum. Ljósið í myrkrinu er hins vegar morgunbænin í útvarpinu, en eftir því sem við best vitum er hún tekin upp fyrirfram í verktöku og myndi blessunarlega fá að halda sér.

Fyrirsjáanlegt væri að allar fermingar myndu falla niður ef til verkfalls kæmi, sem og skírnir. Reyndar verður að teljast líklegt að til verkfalls yrði boðað á vormánuðum í þeim tilgangi að setja sem mestan þrýsting á ríkisvaldið þegar fermingar væru í nánd. Það gæti einnig verið snjall leikur hjá prestum að boða til verkfalls að hausti með það að markmiði að torvelda og koma jafnvel í veg fyrir kirkjuferðir skólabarna í kringum jólin.

Augljóslega yrði að gera undantekningar á verkfallsaðgerðum vegna jarðarfara, en ef marka má sterka stéttar- og siðferðisvitund presta yrði eflaust tekið harkalega á verkfallsbrotum. Sjá má fyrir sér að prestar myndu mæta á jeppum sínum og leggja fyrir innkeyrslur á bifreiðastæði við kirkjur landsins. Ef í hart færi gæti farið svo að prestar yrðu að setja keðjur og jafnvel bjálka fyrir kirkjudyr til þess að stöðva þann stríða straum fólks sem flykkist í messur á sunnudögum. Flóknara yrði að taka á bænahaldi annars staðar í samfélaginu en prestastéttin hefði án efa einhver ráð til þess að torvelda trúarlíf landsmanna, enda með sterkan bandamann á þessu sviði.

Verkfall af þessu tagi myndi eflaust valda miklum usla í ferðaþjónustu, en hún er sú atvinnugrein í landinu sem vex hvað hraðast. Forsvarsmenn í helstu kirkjum í landinu yrðu undir gríðarlegum þrýstingi frá prestastéttinni. Prestar myndu ekki hika við að standa vaktina með kaffibrúsa og mótmælaskilti til þess að hindra aðgang ferðamanna að Skáholtskirkju og turni Hallgrímskirkju á meðan verkfall stæði yfir. Varla þarf að hafa mörg orð um þau áhrif sem verkfallsaðgerðir af þessu tagi hefðu á afbókanir á ferðum til landsins.

Verkfall presta gæti einnig orðið til þess að beina kastljósi erlendra fjölmiðla að bágum kjörum og aðbúnaði presta í samanburði við aðrar stéttir á Íslandi og þótt víðar væri leitað! Slík fréttaumfjöllun gæti valdið varanlegum skaða á stöðu Íslands á alþjóðlegum vettvangi og neytt ráðamenn til þess að gera sérstaka grein fyrir ómannúðlegum vinnuaðstæðum og álagi í kirkjum landsins.

Eins og ástandið er núna í þjóðfélaginu mega siðurinn í landinu og grunnstoðir þjóðfélagsins alls ekki við því að hópur sem þessi fari í verkfall. Það var mikið heillaspor að koma prestum undir kjararáð á sínum tíma og að menntun þeirra sé metin til launa eins og vera ber. Að undanförnu hefur hins vegar orðið óbætanlegur skaði í þjóðlífinu vegna atgervisflótta úr prestastétt til Noregs og því er brýnt að setja enn frekari þrýsting á kjararáð til þess að laun presta nái að halda í við laun samanburðarstétta hjá hinu opinbera, hvort sem er á Íslandi eða annars staðar á Norðurlöndum.

Ritstjórn 04.05.2015
Flokkað undir: ( Stjórnmál og trú )

Viðbrögð


Gunnar - 04/05/15 22:48 #

Jafnvel þó að mér finnist prestar hafa það heldur gott í samanburði við allt of margar stéttir þjóðfélagsins, skil ég ekki alveg tilgang þessarar greinar. Er einhver umræða um það að prestar hafi léleg kjör, því þá hefur hún alveg farið framhjá mér. Ég er algjörlega fylgjandi háðsádeilu á trúarbrögð og klerkastéttina, en ádeilan verður að hafa eitthvað tilefni annars er innihaldið merkingarlaust.

Sýnið viðbrögð, en vinsamlegast sleppið öllum ærumeiðingum. Einnig krefjumst við þess að fólk noti gild tölvupóstföng, líka þegar notast er við dulnefni. Ef það sem þið ætlið að segja tengist ekki þessari grein beint þá bendum við á spjallborðið. Þeir sem ekki fylgja þessum reglum eiga á hættu að athugasemdir þeirra verði færðar á spjallborðið.

Hægt er að nota HTML kóða í ummælum. Tög sem virka eru: a href, b, i, u, br, p, strong, em, ul, li og blockquote. Einnig er hægt að notast við Markdown rithátt í athugasemdum. Notið skoða takkann til að fara yfir athugasemdina áður en þið sendið hana inn.










Muna þig?